Hoppa yfir valmynd
26. janúar 2015 Forsætisráðuneytið

569/2015. Úrskurður frá 21. janúar 2015

Úrskurður

Hinn 21. janúar 2015 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 569/2015 í máli nr. ÚNU 14060002.

Kæra

Hinn 10. júní 2014, barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæra, dagsett sama dag, frá Félagi atvinnurekenda vegna meints brots atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins á upplýsingalögum. Þar segir m.a.: 

„Kærandi er einn þeirra aðila sem tilgreindur er í 4. mgr. 87. gr. laga nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum (hér eftir „búvörulög“) sem ráðgjafarnefnd ráðherra um inn- og útflutning landbúnaðarvara ber að leita til þegar nefndin gerir tillögu m.a. um úthlutun tollkvóta samkvæmt 65. gr. og 65. gr. A búvörulaga. Kærandi hefur þannig þá sérstöku stöðu að vera umsagnaraðili nefndarinnar enda hafa félagsmenn kæranda umtalsverða hagsmuni af því að rétt sé staðið að málum við úthlutun slíkra tollkvóta. […] Í tilefni af nýlegri útgáfu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á reglugerð nr. 381/2014 um úthlutun á opnum tollkvótum á ógerilsneyddri lífrænni mjólk (sjá fylgiskjal nr. 2) og því skyni að gæta þeirra mikilvægu hagsmuna, sem koma hér til skoðunar, óskaði kærandi eftir öllum gögnum og upplýsingum sem lágu til grundvallar umræddri úthlutun og þá tillögu ráðgjafanefndarinnar (sjá fylgiskjal nr. 1).  
[…]
Samkvæmt 5. gr. reglugerðarinnar þá sótti hún stoð sína í 65. gr. A búvörulaga.  Í tilefni af útgáfu framangreindrar reglugerðar, og þess að miklir hagsmunir eru fólgnir í því að ákvarðanir ráðgjafanefndarinnar séu byggðar á málefnalegum sjónarmiðum þannig að jafnræðis sé gætt, þá óskaði kærandi eftir öllum gögnum og upplýsingum sem lágu til grundvallar umræddri úthlutun og þá framangreindri tillögu ráðgjafanefndarinnar (sjá fylgiskjal nr. 3). Kærandi vísaði í því skyni til 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga, sbr. 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 (hér eftir „stjórnsýslulög“). Með bréfi dagsettu 8. maí 2014 veitti kærði kæranda aðgang að hluta þeirra gagna sem lágu til grundvallar úthlutun almenns tollkvóta á ógerilsneyddri lífrænni mjólk (sjá fylgiskjal nr. 4). Með vísan til 9. gr. upplýsingalaga hafnaði kærði þó aðgangi að upplýsingum „um stöðu og horfur á markaði að því er varðar lífræna mjólk í tengslum við undirbúning úthlutunar tollkvóta“ enda innihalda þau gögn upplýsingar um viðskiptakjör og því talin varða viðskiptahagsmuni aðila.“

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 12. júní 2014, gaf úrskurðarnefndin atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu kost á að gera athugasemdir við kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Frestur til þess var veittur til 5. júlí. Jafnframt var óskað afhendingar á afritum af þeim gögnum sem kæran lýtur að. Svarbréf atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins er dags. 25. júní. Með því fylgdi ákvörðun ráðuneytisins, dags. 8. maí 2014. Með henni var fallist á beiðni félagsins um aðgang að öðrum gögnum en þeim er ráðuneytið taldi falla undir ákvæði 9. gr. upplýsingalaga. Í bréfinu segir m.a.: 

„Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 skal mál borið skriflega undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál innan 30 daga frá því að þeim sem fór fram á aðgang að gögnum var tilkynnt um ákvörðun. Í bréfi ráðuneytisins til kæranda, dags. 8. maí 2014, var kæranda leiðbeint um nefndan kærufrest. […] Ráðuneytið telur, með hliðsjón af 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að kæra hefði þurft að berast nefndinni í allra síðasta lagi þann 10. júní 2014. Ákvörðun ráðuneytisins var því ekki borin undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál innan 30 daga. Í ljósi þess að kæra vegna ákvörðunarinnar barst að kærufresti liðnum telur ráðuneytið að vísa eigi kæru Félags atvinnurekenda frá. 
[…]
[Ekki var] óskað eftir afstöðu kæranda til umræddrar úthlutunar né heldur er kærandi nefndinni til ráðgjafar að öðru leyti því að kærandi hefur tækifæri, líkt og aðrir umsagnaraðilar, til að koma á framfæri upplýsingum svo auknar líkur verði á því að nefndin byggi tillögur sínar á réttum upplýsingum. Ráðuneytið telur stöðu kæranda sem lögbundins umsagnaraðila ekki jafna stöðu aðila máls, líkt og kærandi heldur fram. […] Við rannsókn á stöðu á markaði að því er varðar lífræna mjólk aflaði nefndin upplýsinga frá þeim aðilum sem starfa á innanlandsmarkaði. Gögnin hafa ekki að geyma neinar upplýsingar um kæranda né heldur upplýsingar sem varða hann sérstaklega og verulega umfram aðra. Því er ljóst að kærandi getur ekki byggt beiðni sína um upplýsingar á 14. gr. upplýsingalaga.[…]
[Tollkvótum] er ávallt úthlutað með reglugerðum og ekki til tiltekinna aðila, sé ekki um stjórnvaldsákvörðun að ræða í skilningi stjórnsýslulaga heldur stjórnvaldsfyrirmæli. Við úthlutun slíkra tollkvóta er stjórnsýslufyrirmælum beint til ótiltekins fjölda aðila og er öllum frjálst að flytja inn vörur innan tollkvóta í þeim tilfellum. Í ljósi þess telur ráðuneytið kæranda ekki geta byggt upplýsingabeiðni á 15. gr. stjórnsýslulaga. 
[…]
Þær viðskiptaupplýsingar sem viðkomandi aðilar afhenda nefndinni eru afhentar í trausti þess að þær upplýsingar verði ekki opinberar, enda hættan þá sú að samkeppnisaðilar eða aðrir aðilar hagnýti þær. Upplýsingarnar sem kæranda var synjað um aðgang að geyma upplýsingar er varða viðskiptakjör þeirra aðila sem í hlut eiga. Ráðuneytið telur að umræddar upplýsingar séu viðskiptaupplýsingar í skilningi 9. gr. upplýsingalaga sem óheimilt er að veita almenningi aðgang að.“

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál gaf kæranda kost á að tjá sig um svar kærða og í bréfi hans, dags. 14. ágúst 2014, segir m.a.: 

„Í umsögn kærða kemur fram að hann telji kæruna of seint fram komna, þ.e. eftir þann kærufrest sem tilgreindur er í 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 (hér eftir upplýsingalög) og því eigi að vísa kærunni frá. Kærandi hafnar umræddri röksemd og telur að kæran hafi borist innan lögmælts frest. 
[…]
Gagnabeiðni kæranda byggir á 14. gr. upplýsingalaga. […] Það er lögbundið hlutverk kæranda að tryggja að ákvarðanir ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara séu byggðar á réttum forsendum, sbr. 4. mgr. 87. gr. laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum nr. 99/1993. […] Kærandi getur ekki gegnt framangreindu hlutverki sínu nema hafa undir höndum þær forsendur sem liggja til grundvallar ákvörðun nefndarinnar.[…]
Í umsögn kærða kemur fram að hann telji að úthlutun á þeim tollkvóta sem um ræðir, þ.e. frystri ógerilsneyddri lífrænni mjólk, feli ekki í sér úthlutun takmarkaðra gæða. Öllum sé frjálst að flytja inn umrædda vöru á þeim kjörum sem um ræðir í reglugerð nr. 381/2014 um úthlutun á opnum tollkvótum á ógerilsneyddri lífrænni mjólk. […] Í þeim tilvikum þegar almennum tollkvótum er úthlutað á grundvelli umsóknar eins tiltekins fyrirtækis og varðar einungis hagsmuni þess, eða mjög afmarkaðs hóps fyrirtækja, þá felur sú úthlutun í sér úthlutun takmarkaðra gæða. Því eru hagsmunir kæranda af því að fá umræddar upplýsingar þeim mun ríkari.
[…]
Að endingu telur kærandi að skoða þurfi röksemdir kærða í tengslum við eðli þeirra upplýsinga sem um ræðir og á hvaða grunni þær hafa verið afhentar. Vísar kærði í því skyni til þess að um sé að ræða viðskiptaupplýsingar sem afhentar séu í trausti þess að þær upplýsingar verði ekki gerðar opinberar, enda sé hætta á að bæði samkeppnisaðilar og aðrir geti hagnýtt sér þær. Enn fremur telur kærði að upplýsingarnar varði viðskiptakjör þeirra aðila sem í hlut eiga og því eigi að synja kæranda um aðgang að þeim. Kærandi vísar til þeirra sjónarmiða sem fram koma í kæru og áréttar að hagsmunir þeirra aðila sem upplýsingarnar varða gangi ekki framar þeim hagsmunum kæranda að fá aðgang að fyrrgreindum gögnum. Í tengslum við þá röksemd kærða að upplýsingarnar séu afhentar í trausti þess að þær verði ekki afhentar öðrum er ljóst að synjun á aðgangi að umræddum gögnum getur ekki byggst á þeim grunni.“ 

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál sendi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu bréf, dags. 1. október 2014, og fór þess á leit að ráðuneytið myndi lista upp þau gögn, sem höfðu fylgt með bréfi þess, dags. 25. júní 2014, og  greina á milli þeirra skjala sem Félagi atvinnurekenda hefðu verið afhent og þeirra sem annað hvort hefðu ekki verið afhent, eða þá verið afhent með útstrikunum.

Í svarbréfi ráðuneytisins, dags. 7. október 2014, segir m.a.:

„Í þeim gögnum sem afhent hafa verið kæranda er að finna fundargerðir Ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara. Fundargerðirnar voru afhentar þannig að yfirstrikað var yfir tilteknar upplýsingar sem ráðuneytið telur að séu undanþegnar upplýsingarétti skv. 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Með bréfi ráðuneytisins dags. 26. júní 2014 láðist að afhenda yður fundargerðirnar óyfirstrikaðar. Beðist er velvirðingar á því en meðfylgjandi bréfi þessu eru fundargerðir Ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara, óyfirstrikaðar og merktar sem trúnaðarmál.Ráðuneytið bendir á að þau gögn sem að mati ráðuneytisins eru undanþegin upplýsingarétti séu ávallt stimpluð "Trúnaðarmál" í hægra horni hvers skjals, áður en þau eru send til yðar. Var þess tryggilega gætt þegar gengið var frá gögnum til yðar í júní sl. Meðfylgjandi eru gögnin að nýju listuð upp og flokkuð með skýrum hætti:

Gögn undanþegin upplýsingarétti skv. 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012:
1. T-póstur KÚ ehf. dags. 19.02.2014.
2. T-póstur KÚ ehf. dags. 19.02.2014.
3. T-póstur KÚ ehf. dags. 03.04.2014.
4. Tilboð/Offer Eimskips dags. 03.04.2014.
5. T-póstur Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði (SAM) dags. 19.03.2014.
6. Fundargerð 540. fundar ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara 06.12.2013.
7. Fundargerð 541. fundar ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara 17.12.2013.
8. Fundargerð 543. fundar ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara 13.01.2014.
9. Fundargerð 545. fundar ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara 23.01.2014.
10. Fundargerð 547. fundar ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara 03.02.2014.
11. Fundargerð 548. fundar ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara 07.02.2014.
12. Fundargerð 554. fundar ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara 24.03.2014.
13. Fundargerð 555. fundar ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara 04.04.2014.
14. Fundargerð 557. fundar ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara 15.04.2014.

Gögn sem veittur hefur verið aðgangur að skv. ákvæðum upplýsingalaga nr. 140/2012:
1. Bréf ANR dags. 08.05.2014.
2. T-póstur ANR dags. 09.05.2014.
3. Fundargerð 540. fundar ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara 06.12.2013.
4. Fundargerð 541. fundar ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara 17.12.2013.
5. Fundargerð 543. fundar ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara 13.01.2014.
6. Fundargerð 545. fundar ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara 23.01.2014.
7. Fundargerð 547. fundar ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara 03.02.2014.
8. Fundargerð 548. fundar ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara 07.02.2014.
9. Fundargerð 554. fundar ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara 24.03.2014.
10. Fundargerð 555. fundar ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara 04.04.2014.
11. Fundargerð 557. fundar ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara 15.04.2014.
12. T-póstur KÚ ehf. dags. 22.02.2013.
13. Bréf ANR dags. 02.01.2014.
14. T-póstur KÚ ehf. dags. 04.12.2013.
15. T-póstur ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara dags. 16.01.2014.
16. T-póstur ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara dags. 23.01.2014.
17. Bréf Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði (SAM) dags. 06.02.2014.
18. T-póstur ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara dags. 17.02.2014.
19. T-póstur ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara dags. 19.03.2014.
20. T-póstur ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara dags. 25.03.2014.
21. T-póstur KÚ ehf. dags. 25.03.2014.
22. T-póstur ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara dags. 07.04.2014.
23. T-póstur Neytendasamtakanna dags. 07.04.2014.
24. T-póstur Samtaka verslunar og þjónustu dags. 09.04.2014.
25. T-póstur Bændasamtaka Íslands dags. 11.04.2014.
26. Könnun á notkun búfjáráburðar af hefðbundnum búum við vottaða lífræna ræktun dags. 20.12.2013.
27. T-póstur Landssambands kúabænda dags. 13.04.2014 með umsögn v/tillögu um almenna heimild til innflutnings með opnum tollkvótum á frystri og ógerilsneyddri, lífrænni mjólk, dags. 10.04.2014.
28. T-póstur ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarafurða dags. 15.04.2014.
29. T-póstur ANR dags. 05.05.2014.
30. T-póstur Félags atvinnurekenda dags. 28.04.2014.

Með bréfum dags. 28. október 2014 gaf úrskurðarnefnd um upplýsingamál KÚ ehf., Eimskipum hf. og Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði kost á að tjá um það hvort veita ætti kæranda aðgang að tilgreindum tölvupóstum. Með bréfi, dags. 31. október 2014, lýstu Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði þeirri afstöðu sinni að ekkert væri því til fyrirstöðu að veita aðganginn.  Með tölvupósti, dags. 3. desember 2014 lýsti Kú ehf. einnig þeirri afstöðu sinni að ekkert væri því til fyrirstöðu að veita aðganginn. Með bréfi, dags. 26. nóvember 2014, lýstu Eimskip hf. afstöðu sinni. Þar segir m.a.:

„Gagnið sem hér um ræðir er tilboð sem Eimskip gerði ákveðnum viðskiptavini í tiltekinn flutning. Tilboðið er vandlega merkt trúnaðarmál. Milli aðila er því gildandi sérstök trúnaðarskylda sem kemur í veg fyrir að veita megi aðgang að upplýsingunum, nema báðir aðilar samþykki. Upplýsingarnar varða mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni Eimskips, en varða á sama tíma ekki ráðstöfun opinberra hagsmuna að því er séð verður. Því eiga þessar upplýsingar ekki erindi við allan þorra manna og verður að teljast bæði eðlilegt og sanngjarnt að um upplýsingar sem þessar gildi trúnaður. Í þessu máli á undanþágan ekki við. Eimskip getur því ekki samþykkt að aðgangur sé veittur að tilboðinu.“

Niðurstaða

1.

Mál þetta varðar ákvörðun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, dags. 8. maí 2014. Kæra vegna hennar barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál hinn 10. júní 2014. Samkvæmt 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er heimilt að bera synjun beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem úrskurðar um ágreininginn. Í 1. mgr. 22. gr. segir að slíkt mál skuli borið undir nefndina innan 30 daga frá því að þeim, sem fór fram á aðgang að gögnum, var tilkynnt um ákvörðun. Í 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Þar sem kveðið er á um frest í lögum telst sá dagur, sem fresturinn er talinn frá, ekki með í frestinum. Ef lokadagur frests er almennur frídagur lengist fresturinn til næsta opnunardags þar á eftir. Að öðru leyti ber að telja frídaga með sem eru innan frestsins þegar fresturinn er reiknaður.“

Af framangreindu leiðir að sá  30 daga frestur, sem veittur er í 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga, rann út þann 8. júní 2014. Þann dag bar upp á hvítasunnudegi. Dagurinn þar á eftir var annar í hvítasunnu. Því var lokadagur kærufrestsins næsti opnunardagur þar á eftir, þ.e. 10. júní 2014. Kæran sem um ræðir barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál þann dag og telst þar með hafa borist innan lögmælts kærufrests. Eru af þeim sökum ekki skilyrði til að verða við kröfu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um að vísa kröfu kæranda frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál á grundvelli 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga. 

2.

Kærandi hefur m.a. vísað til 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Sú grein varðar rétt aðila máls til aðgangs að skjölum og öðrum gögnum er mál varða. Þótt vera kunni ágreiningur um hvort þau gögn, sem beðið er um aðgang að, tengist máli þar sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið tekur stjórnvaldsákvarðanir, og sé skylt að veita aðgang að gögnum samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga, heyrir það ekki undir valdsvið úrskurðarnefndar um upplýsingamál að skera úr slíkum ágreiningi. Verður því ekki tekið afstaða til þess hvort kærandi eigi hugsanlega rétt til aðgangs að einhverjum gögnum á grundvelli þeirra laga.

3.

Á hinn bóginn heyrir það undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál að skera úr því hvort kærandi eigi rétt til aðgangs að umræddum gögnum á grundvelli upplýsingalaga nr. 140/2012. Hann byggir kröfu sína aðallega á 14. gr. þeirra laga. Samkvæmt henni er skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að fyrirliggjandi gögnum, hafi þau að geyma upplýsingar um hann sjálfan. Þetta ákvæði hefur verið skýrt svo að undir það falli ekki eingöngu þau tilvik þegar einstaklingur eða lögaðili óskar eftir upplýsingum sem beinlínis fjallar um hann sjálfan, heldur einnig þau tilvik þegar upplýsingarnar varða viðkomandi með þeim hætti að hann hafi sérstaka hagsmuni umfram aðra af því að fá aðgang að gögnum. 

Kemur þá til skoðunar hvort hann hafi slíka stöðu og teljist vera aðili í skilningi 14. gr. upplýsingalaga. Kærandi hefur vísað til þess að hann hafi það lögbundna hlutverk að tryggja að ákvarðanir ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara séu byggðar á réttum forsendum, sbr. 4. mgr. 87. gr. laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum nr. 99/1993. Hefur hann m.a. bent á að í ummælum atvinnuveganefndar, í nefndaráliti við frumvarp til laga nr. 160/2012, sem breyttu lögum nr. 99/1993 (úthlutun tollkvóta og fóðursjóður), sé vikið að því að vinna ráðgjafarnefndarinnar verði liður í undirbúningi fyrir töku stjórnvaldsákvörðunar og því fari vel á því að helstu hagsmunaaðilar fái möguleika á að koma nauðsynlegum upplýsingum til ráðgjafarnefndarinnar svo auknar líkur verði á að hún byggi tillögur sínar á réttum forsendum. Kærandi kveðst ekki geta gegnt framangreindu hlutverki sínu nema hafa undir höndum þær forsendur sem hafi legið til grundvallar ákvörðun nefndarinnar.

Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál verður hvorki talið að umrædd ráðgjafarnefnd hafi stöðu stjórnsýslunefndar, í skilningi 1. gr. stjórnsýslulaga, né að kærandi hafi, í tengslum við umrætt umsagnarverkefni, með höndum lögboðið hlutverk í þeim skilningi að honum sé þörf á umræddum upplýsingum í þeim tilgangi að geta rækt það með lögmætum hætti, tekið réttar ákvarðanir eða að öðru leyti uppfyllt skyldur er lög leggi á hann. Er því ekki fallist á að líta beri á hann sem aðila í skilningi 14. gr. upplýsingalaga. 

4.

Kærandi hefur til vara vísað til 5. gr. upplýsingalaga. Þar segir að sé þess óskað sé skylt að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum, sem varði tiltekið mál – en með þeim takmörkunum er greini í 6.–10. gr. 

Af hálfu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins hefur verið vísað til þeirra takmarkana er fram koma í 9. gr. laganna. Þar segir að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga, sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gildi um aðgang að gögnum er varði mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.

4.1.

Mál þetta varðar  í fyrsta lagi fundargerðir nefndar skv. 87. gr. laga nr. 99/1993, dags. 6. desember 2013, 17. desember 2013, 13. janúar 2014, 23. janúar 2014, 3. febrúar 2014, 7. febrúar 2014, 24.mars 2014, 4. apríl 2014 og 15. apríl 2014, þ.e. skjöl sem merkt eru nr. 6-14 hér að framan og kærði hefur neitað kæranda aðgangi að. 

Í framangreindum fundargerðum koma fram upplýsingar sem hugsanlega geta varðað einhverja viðskiptahagsmuni þeirra er hlut eiga að máli en um lögaðila er að ræða. Upplýsingalögin gera ráð fyrir því að metið sé í hverju og einu tilviki hvort um sé að ræða upplýsingar um svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækis, að ætla megi að þær séu til þess fallnar að valda því tjóni verði aðgangur veittur að þeim. Við matið verður einnig að líta til þess hversu mikið tjónið geti orðið og hversu líklegt sé að það muni verða, verði upplýsingarnar veittar. Við það mat verður enn fremur að líta til eðlis upplýsinganna, framsetningar þeirra og aldurs, svo og hvaða þýðingu þær hafi fyrir rekstur fyrirtækisins á þeim tíma er matið fer fram, þ. á m. hvort um sé að ræða nýjar eða óþekktar upplýsingar sem skert geti samkeppnishæfni þess á annan hátt. Þegar allt þetta hefur verið virt verður að meta hvort vegi þyngra, þ.e. hagsmunir viðkomandi fyrirtækis eða þeir hagsmunir sem meginreglu 5. gr. upplýsingalaga, um aðgang almennings að gögnum, er ætlað að tryggja. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál verður ekki með góðu móti ráðið að hagsmunum þeirra sem fjallað er um sé hætta búin þótt kæranda verði veittur aðgangur að þeim og þess vegna fellst nefndin ekki á að synja beri kæranda um aðgang að þeim.

4.2.

Í öðru lagi varðar mál þetta tölvupósta frá Kú ehf. til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, dags. 19. febrúar 2014 og 3. apríl 2014; tölvupóst Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði, dags. 19. mars 2014 og tilboð/Offer Eimskips, dags. 3. apríl 2014. Umsagna hlutaðeigandi aðila hefur verið aflað. Að því er varðar umrædda tölvupósta hefur því ekki verið andmælt að kærandi fái þá og í því ljósi telur úrskurðarnefnd um upplýsingamál ekki vera efni til að synja um aðgang að þeim enda ekkert í tölvupóstunum að finna sem annars gæti leitt til þess að synja bæri um aðgang að þeim.
Hins vegar hefur því verið andmælt af hálfu Eimskipa hf. að kæranda verði afhent afrit af tilboði, dags. 3. apríl 2014, en tilboðið nær til flutnings á  ákveðnu magni af lífrænni, frosinni mjólk og nemur tilboðið í flutninginn tæpum ISK 100.000. Eimskip hafa í fyrsta lagi vísað til þess að gagnið sé merkt sem trúnaðarmál. Af því tilefni þykir úrskurðarnefnd um upplýsingamál rétt að taka fram að slíkar merkingar á skjölum, eða loforð um trúnað, ganga  ekki framar ákvæðum upplýsingalaga sem eftir atvikum leiða til þess að aðgangur að þeim skuli heimilaður.  Í öðru lagi hafa Eimskip talið upplýsingarnar varða mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni sína. Samkvæmt 9. gr. upplýsingalaganna er óheimilt að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga, sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Í hverju tilviki þarf að skoða hvort skilyrði þessa ákvæðis séu uppfyllt. Við það mat skiptir meginmáli hvort ætla megi að afhending til kæranda sé til þess fallin að valda Eimskipum tjóni og hvort umrædd viðskipti séu um garð gengin og hafi verið efnd. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál er ekkert sem bendir til að líkur séu á að eitthvert tjón myndi hljótast þótt kærandi fengi afrit af tilboðinu og verður því ekki fallist á að synja beri um aðgang að því.

Samkvæmt því sem að framan segir ber kærða, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, að veita kæranda, Félagi atvinnurekenda, aðgang að þeim skjölum sem upp eru talin í úrskurðarorði.

Úrskurðarorð

Kærða, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, ber að veita kæranda, Félagi atvinnurekenda, aðgang að eftirtöldum skjölum:

1. T-póstur KÚ ehf. dags. 19.02.2014.
2. T-póstur KÚ ehf. dags. 19.02.2014.
3. T-póstur KÚ ehf. dags. 03.04.2014.
4. Tilboð/Offer Eimskips dags. 03.04.2014.
5. T-póstur Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði (SAM) dags. 19.03.2014.
6. Fundargerð 540. fundar ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara 06.12.2013.
7. Fundargerð 541. fundar ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara 17.12.2013.
8. Fundargerð 543. fundar ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara 13.01.2014.
9. Fundargerð 545. fundar ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara 23.01.2014.
10. Fundargerð 547. fundar ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara 03.02.2014.
11. Fundargerð 548. fundar ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara 07.02.2014.
12. Fundargerð 554. fundar ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara 24.03.2014.
13. Fundargerð 555. fundar ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara 04.04.2014.
14. Fundargerð 557. fundar ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara 15.04.2014.


Hafsteinn Þór Hauksson, formaður

Friðgeir Björnsson                                                                                            

Sigurveig Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum