Síðustu úrskurðir

705/2017. Úrskurður frá 11. september 2017

Deilt var um aðgang kæranda að upplýsingum sem afmáðar höfðu verið úr sálfræðilegri greinargerð sem embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu lét útbúa í tilefni af kvörtun kæranda um meint einelti í sinn garð. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi, með vísan til 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga, að réttur kæranda til aðgangs að framburði meintra gerenda og vitna um atvik sem snertu framgöngu hennar á vinnustað og meint einelti í garð kæranda vægi þyngra en hagsmunir sömu aðila af því leynd ríkti um framburð þeirra um atvik málsins. Úrskurðarnefndin taldi þó ekki að aðgangur kæranda samkvæmt 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga tæki til upplýsinga um rannsókn sakamáls, sbr. 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga, og upplýsinga sem umræddir starfsmenn tjáðu sálfræðingi um persónuleg einkamálefni sín og annarra en kæranda og lytu ekki að henni sjálfri eða framgöngu á vinnustað. Var því embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu gert skylt að afmá slíkar upplýsingar áður en kæranda yrði veittur aðgangur að gögnunum. Lesa meira

704/2017. Úrskurður frá 11. september 2017

Deilt var um aðgang að umsóknargögnum umsækjanda um uppreist æru. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál féllst ekki á að umsókn viðkomandi umsækjanda félli í heild sinni undir undanþáguákvæði 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Yrði því að taka afstöðu til þess hvort einstök gögn málsins kynnu að geyma upplýsingar um einkahagi sem óheimilt væri að afhenda samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga. Var það mat nefndarinnar að upplýsingar um símanúmer og netföng umsækjanda og votta auk heilsufarsupplýsinga sem fram kæmu í vottorðum, væru upplýsingar sem sanngjarnt væri og eðlilegt að leynt færu á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. Að öðru leyti var fallist á rétt kæranda til aðgangs að þeim upplýsingum er fram komu í gögnunum. 

Lesa meira

Eldri úrskurðir