Hoppa yfir valmynd
8. ágúst 2002 Forsætisráðuneytið

A-152/2002 Úrskurður frá 8. ágúst 2002

ÚRSKURÐUR



Hinn 8. ágúst 2002 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-152/2002:

Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 9. júlí sl., kærði [A], fréttamaður, synjun dóms- og kirkju-málaráðuneytisins, dagsetta 1. júlí sl., um að veita honum aðgang að bréfi ráðu-neytisins til [flugfélagsins B] vegna tiltekinna öryggisráðstafana í tengslum við opinbera heimsókn forseta Kína hingað til lands í júnímánuði.

Með bréfi, dagsettu 15. júlí sl., var kæran kynnt dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og því veittur frestur til að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni til kl. 16.00 hinn 26. júlí sl. Frestur þessi var síðar framlengdur til 2. ágúst sl. Umsögn ráðuneytisins, dagsett 30. júlí sl., barst nefndinni þann dag, ásamt ljósriti af umbeðnu bréfi á íslensku og ensku. Ljósrit af lista, sem fylgdi bréfinu, barst nefndinni frá ráðuneytinu 1. ágúst sl., sbr. bréf þess dagsett þann dag.

Elín Hirst vék sæti í máli þessu og tók Ólafur E. Friðriksson, varamaður, þátt í meðferð og úrlausn málsins í hennar stað.

Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að með bréfi, sem barst dóms- og kirkjumálaráðuneytinu 24. júní sl., fór kærandi fram á að fá aðgang að bréfi ráðuneytisins til [B], dagsettu 11. júní sl., vegna tiltekinna öryggisráðstafana í tengslum við opinbera heimsókn forseta Kína hingað til lands.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið synjaði beiðni kæranda með bréfi, dagsettu 1. júlí sl., með vísun til 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Þar segir að ráðuneytið hafi þegar veitt upplýsingar um efni bréfsins á opinberum vettvangi að því marki sem það telji unnt. Fram hafi komið að efni bréfsins tengist þeim öryggisráðstöfunum sem nauðsynlegt hafi verið að grípa til vegna opinberrar heimsóknar forseta Kína hingað til lands. Í því skyni hafi verið lagt fyrir flugfélagið að flytja ekki félaga í hreyf-ingunni [C] hingað til lands meðan á heimsókninni stæði. Að öðru leyti taldi ráðuneytið að ekki væri unnt að upplýsa um efni bréfsins né heldur að veita að því aðgang, hvort sem er að hluta eða í heild.

Í umsögn dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til úrskurðarnefndar er þessi tilgangur bréfsins til [B] áréttaður. Þar segir m.a. orðrétt: "Með bréfinu fylgdu listar frá embætti ríkislögreglustjóra með nöfnum einstaklinga, sem vitað var að væru meðlimir í umræddri hreyfingu eða tengdust henni með öðrum hætti. Bréf þetta og umræddir listar eru hluti af gögnum sem án alls vafa falla undir 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Bréfið tengist þeim öryggisráðstöfunum sem lögreglu-yfirvöld töldu nauðsynlegt að grípa til vegna opinberrar heimsóknar forseta Kína til Íslands. Upplýsingar þessar varða öryggi ríkisins, þ.e. öryggisráðstafanir íslenskra lögreglu-yfirvalda í tengslum við opinbera heimsókn þjóðhöfðingja til Íslands."

Úrskurðarnefnd óskaði sérstaklega eftir því við dóms- og kirkjumálaráðuneytið að gerð yrði nánari grein fyrir því að hve miklu leyti upplýsingar um efni bréfsins hefðu þegar verið veittar opinberlega. Um þetta segir svo í umsögn ráðuneytisins: "Greint var frá því af hálfu ráðherra og embættismanna í samtölum við fjölmiðla að lagt hefði verið fyrir [B] að flytja ekki hingað til lands meðlimi í hreyfingunni [C]. Þessi aðgerð svo og aðrar aðgerðir íslenskra yfirvalda sem tengdust hinni opinberu heimsókn voru einnig rækilega rökstuddar af sömu aðilum með sama hætti. Með hliðsjón af öryggishagsmunum íslenska ríkisins var hins vegar ekki hægt að greina nánar frá atriðum sem tengdust skipulagi öryggismála í tengslum við hina opinberu heimsókn. Var þar m.a. um að ræða með hvaða hætti listar íslenskra lögregluyfirvalda um þekkta meðlimi í hreyfingunni [C] hefðu verið settir saman svo og áhættumat lögreglu vegna heimsóknarinnar. Bréf ráðuneytisins til [B] fellur undir þetta, en því fylgdu áðurnefndir listar."

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða
I.

Þótt kærandi segist í kæru óska eftir aðgangi að bréfi dóms- og kirkjumála-ráðu-neytis-ins til [B] "frá 11. júní sl." er ljóst að hann er að fara fram á að fá aðgang að bréfi ráðuneytisins til flugfélagsins vegna tiltekinna öryggisráðstafana í tengslum við opinbera heimsókn forseta Kína hingað til lands. Þau bréf eru raunar tvö. Fyrra bréfið er á íslensku og er dagsett 10. júní sl. Því fylgdi sá listi eða listar sem vitnað er til í umsögn ráðuneytisins frá 30. júlí sl. Það síðara er á ensku og er dagsett 11. júní sl. Með vísun til 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga er rétt að líta svo á að kærandi sé í raun að óska eftir aðgangi að báðum þessum bréfum.
II.

Í 3. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: "Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr." Í 1. tölul. 6. gr. laganna segir síðan að heimilt sé "að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almanna-hagsmunir krefjast, enda hafi þau að geyma upplýsingar um . . . öryggi ríkisins eða varnarmál".

Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi til upplýsingalaga, er fyrri hluti þessa töluliðar skýrður á svofelldan hátt: "Með upplýsingum um öryggi ríkisins er eingöngu vísað til hinna veigamestu hagsmuna sem tengjast því hlutverki ríkisvaldsins að tryggja öryggi ríkisins inn á við og út á við. Upplýsingar um skipulag löggæslu, landhelgisgæslu, almannavarna og útlendingaeftirlits geta fallið hér undir . . . Við túlkun á ákvæðinu verður að hafa í huga að því er ætlað að vernda mjög þýðingar-mikla hagsmuni. Ef upplýsingar, þeim tengdar, berast út getur það haft afdrifaríkar afleiðingar. Þess vegna verður að skýra ákvæðið tiltölulega rúmt."

Þótt rétt sé að skýra orðin "öryggi ríkisins" í 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga tiltölulega rúmt verður á hinn bóginn ekki framhjá því litið, við úrlausn þessa máls, að hér er um að ræða undantekningu frá meginreglunni í 1. mgr. 3. gr. laganna. Þar af leiðandi er ekki heimilt að synja almenningi, þ. á m. fjölmiðlum, um aðgang að gögnum á grundvelli ákvæðisins nema ótvírætt sé að upplýsingar, sem þau hafa að geyma, varði öryggi ríkisins og mikilvægir almanna-hagsmunir krefjist þess að þeim sé haldið leyndum, sbr. upphafsorð 6. gr.

Úrskurðarnefnd hefur kynnt sér efni bréfa dóms- og kirkjumála-ráðu-neytisins til [B]. Þótt bréfin hafi vissulega tengst öryggisráðstöfunum í tengslum við opinbera heimsókn erlends þjóðhöfðingja hingað til lands er þar, að mati nefndar-innar, ekki að finna neinar upplýsingar, sem varða öryggi ríkisins, þannig að mikil-vægir almanna-hagsmunir krefjist þess að þeim sé haldið leyndum. Við það mat hefur m.a. verið tekið tillit til þess að megininntak bréfanna hefur þegar verið kunngert opinberlega og að hinni opinberu heimsókn er lokið.

III.

Fyrri málsliður 5. gr. upplýsingalaga er svohljóðandi: "Óheimilt er að veita almenn-ingi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á."

Listi sá, sem fylgdi fyrra bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til [B], hefur að geyma nöfn einstaklinga sem pantað höfðu far með flugfélaginu hingað til lands dagana 3.-14. júní sl. Töldu íslensk lögregluyfirvöld að hér væri ýmist um að ræða einstaklinga sem væru félagar í hreyfingunni [C] eða að þeir tengdust henni með einhverjum hætti.

Trúfrelsi manna og skoðanafrelsi eru stjórnarskrárvarin réttindi, sbr. 63. gr. og 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar. Úrskurðarnefnd lítur svo á að upplýsingar um trúarbrögð manna, svo og um aðild þeirra og afstöðu til hreyfinga á borð við [C], teljist til upplýsinga um einkamálefni einstaklinga, sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á, sbr. 5. gr. upplýsingalaga. Þegar af þeirri ástæðu ber því að synja kæranda um aðgang að umræddum lista.

Efst á fyrstu síðu listans, á undan upptalningu nafna, er að finna leiðbeinandi upplýsingar, að því er virðist til starfsmanna [B], sem hvorki falla undir ákvæði 5. gr. né 1. mgr. 6. gr. upplýsingalaga, eins og þau eru skýrð hér að framan. Með skírskotun til 7. gr. laganna ber því að veita kæranda aðgang að þeim.


Úrskurðarorð:


Dóms- og kirkjumálaráðuneytið skal veita kæranda, [A], aðgang að bréfum ráðuneytisins til [B], dagsettum 10. og 11. júní sl., í tilefni af opinberri heim-sókn forseta Kína hingað til lands, svo og að leiðbeinandi upplýsingum efst á fyrstu síðu listans sem fylgdi fyrra bréfinu.




Eiríkur Tómasson, formaður
Ólafur E. Friðriksson
Valtýr Sigurðsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum