Hoppa yfir valmynd
6. desember 2001 Forsætisráðuneytið

A-137/2001 Úrskurður frá 6. desember 2001

ÚRSKURÐUR



Hinn 6. desember 2001 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-137/2001:

Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 16. nóvember sl., kærði […], blaðamaður, f.h. […], synjun lögreglustjórans í Reykjavík og dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, frá því fyrr þann sama dag, um að veita honum aðgang að bréfi ríkislögreglustjóra til lögreglustjórans í Reykjavík um framkvæmd nánar tiltekinnar húsleitar.

Með bréfum, dagsettum 16. nóvember sl., var kæran kynnt dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og lögreglustjóranum í Reykjavík og þeim veittur frestur til að gera athugasemdir við kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðunum sínum til kl. 16.00 hinn 22. nóvember sl. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd yrði látið í té sem trúnaðarmál afrit af því bréfi, sem kæran lýtur að, innan sama frests. Umsögn lögreglustjórans í Reykjavík, dagsett 20. nóvember sl., og umsögn dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dagsett 22. nóvember sl., bárust innan tilskilins frests ásamt afriti af umbeðnu bréfi.

Málsatvik

Atvik málsins eru þau að með tölvubréfi til lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettu 15. nóvember sl., og símbréfi til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dagsettu sama dag, fór kærandi fram á að fá aðgang að bréfi ríkislögreglustjóra til lögreglustjórans í Reykjavík um framkvæmd húsleitar á heimili [A] að [B] í [C] hinn [dags.]. Samkvæmt gögnum málsins svipti [A] sig lífi meðan á leitinni stóð.

Lögreglustjórinn í Reykjavík synjaði beiðni kæranda með tölvubréfi, dagsettu 16. nóvember sl., án frekari rökstuðnings. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið synjaði einnig beiðni kæranda með bréfi, dagsettu sama dag, með vísun til þess að skv. 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 séu gögn um rannsókn eða saksókn í opinberu máli undanskilin gildissviði laganna

Í kæru til nefndarinnar er vísað til þess að í bréfi frá ríkissaksóknara, dagsettu 11. september sl., hafi komið fram að hann hafi látið kanna sérstaklega verklag lögreglu við framangreinda leit. Í ljósi þess dregur kærandi í efa að umbeðið bréf teljist til gagna máls er sæti opinberri rannsókn eða saksókn.

Í umsögnum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og lögreglustjórans í Reykjavík til úrskurðarnefndar er á því byggt, að umbeðið bréf varði rannsókn í opinberu máli og teljist sem slíkt undanskilið gildissviði upplýsingalaga, sbr. 1. mgr. 2. gr. þeirra. Enda þótt bréfið varði jafnframt verklag og vinnuaðferðir lögreglu, er af hálfu lögreglustjórans lögð á það áhersla, að efnisatriði þess tengist svo náið máli, sem til rannsóknar hafi verið samkvæmt lögum nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, að ákvæði 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga hljóti allt að einu að taka til þess í heild sinni.

Þessu til viðbótar er af hálfu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins bent á að málið varði m.a. sjálfsvíg einstaklings. Aðgangur að gögnum þess kunni því að takmarkast með tilliti til einkahagsmuna fjöldskyldu hans, sbr. 5. gr. upplýsingalaga. Af hálfu lögreglustjórans í Reykjavík er tekið undir sama sjónarmið. Jafnframt er þar bent á að í hinu umbeðna bréfi komi fram atriði, er varði starfsmann eða starfsmenn lögreglunnar, og séu enn til skoðunar. Þar af leiðandi geti bréfið einnig varðað einkahagsmuni þessara starfsmanna.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða

Í niðurlagi 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga segir að lögin gildi ekki um "rannsókn eða saksókn í opinberu máli." Það þýðir að ekki er unnt að krefjast aðgangs að gögnum varðandi slíka rannsókn eða saksókn á grundvelli laganna. Skiptir ekki máli í því sambandi hvort rannsókn stendur enn yfir eða henni er lokið, t.d. vegna þess að mál hefur verið fellt niður skv. 1. mgr. 76. gr. laga um meðferð opinberra mála. Hins vegar gilda upplýsingalög um aðgang að gögnum, sem lúta að almennum eftirlitsaðgerðum lögreglu, svo sem ráðið verður af skýringum á 4. tölul. 6. gr. í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laganna.

Ekki er tekið fram í upplýsingalögum eða lögskýringargögnum hvers konar gögn það eru sem varða rannsókn eða saksókn í opinberu máli í skilningi hins tilvitnaða lagaákvæðis. Þó er ljóst að til þeirra teljast skjöl og önnur gögn, sem eru eða munu að öllum líkindum koma til skoðunar við rannsókn lögreglu á ætluðum refsiverðum brotum, sbr. úrskurði úrskurðarnefndar 10. ágúst 2001 í málum nr. A-123/2001, A-124/2001 og A-125/2001. Ennfremur hljóta skýrslur lögreglu og bréfaskipti milli einstakra lögregluembætta vegna rannsóknar opinbers máls, svo að dæmi séu tekin, að flokkast undir slík gögn.

Bréf það, sem kærandi hefur óskað eftir aðgangi að, er bréf sem ríkislögreglustjóri sendi lögreglustjóranum í Reykjavík í tilefni af tiltekinni húsleit sem framkvæmd var af lögreglunni í Reykjavík vegna gruns um refsivert brot. Þótt í bréfinu sé vikið að verklagi lögreglu og vinnuaðferðum við húsleit, almennt séð, snýst það fyrst og fremst um framkvæmd umræddrar húsleitar sem gripið var til í þágu rannsóknar opinbers máls.

Samkvæmt því, sem að framan greinir, og með vísun til efnis bréfsins er það álit úrskurðarnefndar að um sé að ræða skjal sem lýtur fyrst og fremst að rannsókn tiltekins opinbers máls. Af þeim sökum verður synjun um aðgang að því ekki kærð til nefndarinnar skv. 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna. Ber því að vísa máli þessu frá henni.

Úrskurðarorð:

Kæru […], f.h. […], á hendur lögreglustjóranum í Reykjavík og dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, er vísað frá úrskurðarnefnd.
Eiríkur Tómasson, formaður
Valtýr Sigurðsson

Sérálit Elínar Hirst

Ég undirrituð er ósammála þeirri niðurstöðu meirihluta úrskurðarnefndar að vísa máli þessu frá nefndinni, þar sem ég tel að í hinu umbeðna bréfi sé m.a. að finna almennar leiðbeiningar um undirbúning og framkvæmd húsleitar. Því hefði átt að taka kæruna til efnislegrar meðferðar.

Elín Hirst


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum