Hoppa yfir valmynd
1. september 1999 Forsætisráðuneytið

81/1999 Úrskurður frá 1. september 1999 í málinu nr. A-81/1999

Hinn 1. september 1999 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-81/1999:

Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 23. júlí sl., kærði [...], lögfræðingur, f.h. [A], [...], synjun iðnaðarráðuneytisins, dagsetta 24. júní sl., um að veita honum aðgang að prófskírteinum tiltekinna arkitekta, húsgagna- og innanhússhönnuða og byggingarfræðinga sem lögð hafa verið til grundvallar löggildingu samkvæmt lögum nr. 8/1996 eða eldri lögum.

Með bréfi, dagsettu 28. júlí sl., var kæran kynnt iðnaðarráðuneytinu og því veittur frestur til að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni til kl. 12.00 á hádegi hinn 9. ágúst sl. Þá var þess óskað að ráðuneytið léti úrskurðarnefnd í té sem trúnaðarmál sýnishorn af hinum umbeðnu gögnum og jafnframt að upplýst yrði hvort upplýsingum, sem þar kæmu fram, t.d. einkunnum, hefði verið safnað saman þannig að þær væri að finna í einu eða fleiri skjölum eða sambærilegum gögnum, t.d. í gögnum vistuðum í tölvu. Frestur þessi var framlengdur til 17. ágúst sl. og barst umsögn ráðuneytisins þann dag ásamt umbeðnum sýnishornum.
Í fjarveru Elínar Hirst tók Ólafur E. Friðriksson, varamaður, sæti hennar við meðferð og úrskurð í kærumáli þessu.

Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að með bréfi til iðnaðarráðuneytisins, dagsettu 14. júní sl., fór kærandi fram á að fá afhent staðfest afrit af prófskírteinum á sjötta hundrað nafngreindra arkitekta (húsameistara), húsgagna- og innanhússhönnuða og byggingarfræðinga sem lögð hafa verið til grundvallar löggildingu starfsréttinda þeirra samkvæmt lögum nr. 8/1996, um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum, eða eldri lögum um sama efni. Kærandi undirritaði beiðnina sem formaður réttindanefndar Félags húsgagna- og innanhússhönnuða og tók fram að ætlunin væri að nota umbeðnar upplýsingar í "fyrirhuguðum málaferlum gegn ríkisvaldinu".

Iðnaðarráðuneytið synjaði beiðni kæranda með bréfi, dagsettu 24. júlí sl., með vísun til 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Jafnframt hafnaði ráðuneytið að veita aðgang að umbeðnum gögnum að hluta, sbr. 7. gr. laganna.
Í kæru til úrskurðarnefndar kemur fram að kærandi byggir beiðni sína um aðgang að fyrrgreindum gögnum á meginreglu 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga. Í kærunni er því hafnað að 5. gr. laganna geti átt við um hinar umbeðnu upplýsingar, en til vara er farið fram á að 7. gr. þeirra verði beitt til þess að veita aðgang að öðrum upplýsingum en þeim sem aðgangur kunni að verða takmarkaður að.

Í umsögn iðnaðarráðuneytisins til úrskurðarnefndar, dagsettri 16. ágúst sl., kemur fram að umsóknir um löggildingu á umræddum starfsheitum séu sendar hlutaðeigandi stéttarfélögum til umsagnar og meti þau hvort menntun umsækjanda teljist fullnægjandi í skilningi laga á hverjum tíma. Það hafi hins vegar ekki verið gert að skilyrði löggildingar að umsækjandi láti fylgja umsókn sinni prófskírteini, námi sínu til staðfestingar. Það hafi umsækjendur þó gert í mörgum tilvikum og því hafi ráðuneytið undir höndum nokkurn fjölda slíkra skilríkja.

Í umsögninni er greint frá því að ráðuneytið haldi skrár með nöfnum þeirra, sem fengið hafa leyfi til þess að bera umrædd starfsheiti, fæðingardag þeirra eða kennitölu og hvaða dag leyfið hafi verið veitt. Öðrum upplýsingum, þ. á m. prófseinkunnum, hafi ekki verið safnað saman úr hinum umbeðnu gögnum.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða

Samkvæmt 3. gr. upplýsingalaga er stjórnvöldum skylt, með þeim undantekningum sem fram koma í 4.-6. gr. laganna, að veita almenningi aðgang að skjölum og öðrum gögnum í vörslum sínum. Sá, sem fer fram á aðgang að gögnum, verður hins vegar að miða beiðni sína við tiltekin gögn, með því að tilgreina þau gögn eða það mál, sem hann óskar að kynna sér, sbr. 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefnd hefur skýrt þetta ákvæði laganna svo að ekki sé unnt í sömu beiðni að fara fram á aðgang að miklum fjölda skjala úr fleiri en einu stjórnsýslumáli, jafnvel þótt skjölin séu nægilega tilgreind.

Í beiðni sinni, dagsettri 14. júní sl., fór kærandi fram á að fá aðgang að nánar tilgreindum skjölum úr á sjötta hundrað stjórnsýslumálum. Með skírskotun til þess, sem að framan segir, var iðnaðarráðuneytinu ekki skylt að veita honum aðgang að þessum umbeðnu gögnum eins og beiðni hans var úr garði gerð. Ber því þegar af þeirri ástæðu að staðfesta synjun ráðuneytisins, sem fram kemur í svarbréfi þess til kæranda, dagsettu 24. júní sl.


Úrskurðarorð:

Sú ákvörðun iðnaðarráðuneytisins að synja kæranda, [A], um aðgang að prófskírteinum tiltekinna arkitekta, húsgagna- og innanhússhönnuða og byggingarfræðinga, sem lögð hafa verið til grundvallar löggildingu samkvæmt lögum nr. 8/1996 eða eldri lögum, er staðfest.

Eiríkur Tómasson, formaður
Ólafur E. Friðriksson
Valtýr Sigurðsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum