Hoppa yfir valmynd
3. desember 1998 Forsætisráðuneytið

67/1998 Úrskurður frá 3. desember 1998 í málinu nr. A-67/1998

Hinn 3. desember 1998 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-67/1998:


Kæruefni
Með bréfi, dagsettu 12. nóvember sl., kærðu [...] synjun landbúnaðarráðuneytisins, dagsetta 3. nóvember sl., um að veita samtökunum aðgang að samningi ráðuneytisins við [A] ehf. um malartökuleyfi í landi jarðarinnar [K] á [R] og öðrum gögnum er tengjast gerð samningsins.

Með bréfi, dagsettu 20. nóvember sl., var kæran kynnt landbúnaðarráðuneytinu og því veittur frestur til að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni til kl. 16.00 hinn 30. nóvember sl. Jafnframt var þess óskað að nefndinni yrðu látin í té sem trúnaðarmál afrit þeirra gagna, er kæran laut að, innan sama frests.

Umsögn landbúnaðarráðuneytisins, dagsett 30. nóvember sl., barst innan tilskilins frests ásamt hinum umbeðna samningi, dagsettum 1. október 1995, og samkomulagi við [B] hf. um lok á samningi við það félag um efnisvinnslu í [V] í [U] í landi [K], dagsettu sama dag. Umsögn ráðuneytisins fylgdi jafnframt ljósrit af erindi þess til kæranda, dagsettu sama dag, þar sem fram kemur að það hafi afturkallað ákvörðun sína frá 3. nóvember sl. með vísun til 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og veitt kæranda aðgang að fyrrgreindum skjölum, þó aðeins að hluta, sbr. 5. og 7. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.

Í fjarveru Valtýs Sigurðssonar tók Sif Konráðsdóttur varamaður sæti hans við meðferð og úrskurð í máli þessu.

Málsatvik
Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess þau að með bréfi til landbúnaðarráðuneytisins, dagsettu 16. júlí sl., lagði kærandi fram fyrirspurnir í sex liðum um samning ráðuneytisins við [A] ehf. um malartökuleyfi í landi jarðarinnar [K] á [R]. Erindi sitt ítrekaði kærandi síðan með bréfi, dagsettu 21. október sl.

Landbúnaðarráðuneytið svaraði fyrirspurnum kæranda með bréfi, dagsettu 3. nóvember sl. Í bréfi þessu var honum m.a. synjað um aðgang að samningi ráðuneytisins við [A] ehf. með vísun til 5. gr. upplýsingalaga enda taldi það að samningurinn varðaði mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni einkahlutafélagsins.

Í kæru sinni, dagsettri 12. nóvember sl., skírskotar kærandi til þess að umbeðin gögn varði ráðstöfun á opinberum eigum og fjármunum og snerti að auki samkeppnisstöðu fyrirtækja sem eiga í samkeppni við fyrrgreint einkahlutafélag.

Í umsögn landbúnaðarráðuneytisins til úrskurðarnefndar, dagsettri 30. nóvember sl., kemur fram að það hafi endurskoðað fyrri afstöðu sína til beiðni kæranda, svo sem að framan getur. Vegna synjunar á aðgangi að hluta hinna umbeðnu skjala er sérstaklega vísað til þess að þau ákvæði varði uppgjör á vanskilum [B] hf. vegna efnisvinnslu í landi [K]. Talið er eðlilegt og sanngjarnt að slíkar upplýsingar fari leynt enda sé almennur aðgangur að þeim til þess fallinn að valda einkahlutafélaginu tjóni. Í umsögninni er jafnframt tekið fram að sömu aðilar standi að rekstri einkahlutafélagsins og stóðu að rekstri [B] hf.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga verður ekki gerð grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða
Vegna breyttrar afstöðu landbúnaðarráðuneytisins til beiðni kæranda er það til úrlausnar í þessu máli hvort ráðuneytinu sé skylt að veita honum aðgang að 4. gr. í samningi þess við [A] ehf. um malartöku í landi jarðarinnar [K]. Ennfremur hvort ráðuneytinu sé skylt að veita kæranda aðgang að 3. gr., svo og hluta af 2., 4. og 5. gr. í samkomulagi þess við [B] hf. um lok á samningi um efnisvinnslu í landi sömu jarðar.

Í 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: "Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr." Í 5. gr. laganna er að finna svofellt ákvæði: "Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila." Ákvæði þetta felur í sér undantekningu frá fyrrgreindri meginreglu upplýsingalaga og ber því að skýra það þröngt.

Að baki meginreglu upplýsingalaga í 1. mgr. 3. gr. þeirra býr það sjónarmið að almenningur skuli eiga þess kost að fylgjast með því, sem stjórnvöld hafast að, þ. á m. hvernig þau fara með og nýta eignir hins opinbera. Þótt ríkið komi vissulega fram sem leigusali eða landsdrottinn gagnvart þeim, sem nýta hlunnindi jarða í eigu þess, á sama hátt og einkaaðilar, er það eitt og sér ekki nægilegt til þess að undantekningarákvæðið í 5. gr. upplýsingalaga eigi við. Í ákvæðinu er gengið út frá því að það sé metið í hverju tilviki hvort upplýsingar, sem óskað er eftir aðgangi að, séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings. "Við það mat verður að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu, samkvæmt almennum sjónarmiðum, svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna", svo að vitnað sé til athugasemda við 5. gr. er fylgdu frumvarpi til upplýsingalaga.

Þau ákvæði í skjölunum tveimur, sem landbúnaðarráðuneytið telur að því sé hvorki skylt né heimilt að veita kæranda aðgang að, varða vanskil [B] hf. á greiðslu efnisgjalda fyrir efnisvinnslu í landi jarðarinnar [K] sem er í eigu ríkisins. Með fyrrgreindu samkomulagi milli þess félags og ráðuneytisins, sem gert var 1. október 1995, var samið um uppgjör á þeirri vanskilaskuld. Að teknu tilliti til þessa er það álit úrskurðarnefndar, með vísun til meginreglunnar í 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga, að upplýsingar um þessi vanskil, sem nú hafa verið gerð upp, séu ekki þess eðlis að sanngjarnt sé og eðlilegt að þær fari leynt. Upplýsingar um fjárhæð vanskilaskuldarinnar og það, hvernig hún var gerð upp, eru hins vegar þess eðlis, að mati nefndarinnar, að þær eigi að fara leynt, sbr. 5. gr. upplýsingalaga.

Samkvæmt þessu ber að veita kæranda aðgang að 4. gr. í samningi landbúnaðarráðuneytisins við [A] ehf. um malartöku í landi jarðarinnar [K]. Ennfremur ber að veita honum aðgang að 2. gr. í heild í samkomulagi ráðuneytisins við [B] hf. um lok á samningi um efnisvinnslu í landi sömu jarðar, svo og hluta af 3. gr. og aukinn hluta af 5. gr. í því samkomulagi. Ljósrit af samkomulaginu fylgir því eintaki af úrskurði þessum, sem sent verður ráðuneytinu, þar sem merkt hefur verið við þá hluta sem úrskurðarnefnd telur rétt að undanþiggja aðgangi almennings skv. 5., sbr. 7. gr. upplýsingalaga.

Úrskurðarorð:
Landbúnaðarráðuneytinu er skylt að veita kæranda, [...], aðgang að samningi ráðuneytisins við [A] ehf. um malartöku í landi jarðarinnar [K], dagsettum 1. október 1995, í heild sinni.
Ráðuneytinu ber ennfremur að veita kæranda aðgang að samkomulagi þess við [B] hf. um lok á samningi um efnisvinnslu í landi sömu jarðar, dagsettu sama dag, að undanskildum hlutum af 3., 4. og 5. gr. samkomulagsins.

Eiríkur Tómasson, formaður
Elín Hirst
Sif Konráðsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum