Hoppa yfir valmynd
3. mars 1998 Forsætisráðuneytið

43/1998 Úrskurður frá 3. mars 1998 í málinu nr. A-43/1998

Hinn 3. mars 1998 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-43/1998:

Kæruefni
Með bréfi, dagsettu 10. febrúar sl., kærði [...] hrl., f.h. Félags flugmálastarfsmanna ríkisins, synjun Flugmálastjórnar, dagsetta 29. janúar sl., um að veita félaginu upplýsingar um greidda, fasta/óunna yfirvinnutíma, bifreiðahlunnindi og aðrar fastar greiðslur til 119 nafngreindra starfsmanna stofnunarinnar, umfram það sem kveðið er á um í kjarasamningi.

Með bréfi, dagsettu 16. febrúar sl., var kæran kynnt Flugmálastjórn og stofnuninni gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun til kl. 16.00 hinn 24. febrúar sl. Jafnframt var óskað upplýst á hvaða formi umbeðnar upplýsingar væru varðveittar. Að beiðni Flugmálastjórnar var fresturinn framlengdur til 26. febrúar sl., en umsögn hennar barst degi fyrr.

Í fjarveru Elínar Hirst tók Ólafur E. Friðriksson varamaður sæti hennar við meðferð og úrskurð í kærumáli þessu.

Málsatvik
Atvik máls þessa eru þau að kærandi fór í bréfi til Flugmálastjórnar, dagsettu 19. janúar sl., fram á að fá upplýsingar um ráðningarkjör 122 nafngreindra starfsmanna stofnunarinnar. Var beiðni hans byggð á 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, lögskýringargögnum við 5. gr. sömu laga og úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál í málinu nr. A-36/1997. Nánar tiltekið tók beiðni hans til upplýsinga um:

1) Röðun í launaflokka og launaþrep.
2) Föst mánaðarlaun.
3) Greidda, fasta/óunna yfirvinnutíma.
4) Bifreiðahlunnindi.
5) Aðrar fastar greiðslur, umfram það sem kveðið er á um í kjarasamningi.
6) Einstaka ráðningarsamninga.

Flugmálastjórn svaraði beiðni kæranda með bréfi, dagsettu 29. janúar sl. Í bréfinu kemur fram að kærandi hafi þegar fengið aðgang að umbeðnum gögnum samkvæmt töluliðum 1 og 2. Jafnframt var fallist á að veita aðgang að ráðningarsamningum 119 starfsmanna, þó þannig að upplýsingar um launareikninga í viðskiptabönkum þeirra væru felldar á brott. Ráðningarsamningar tveggja af hinum 122 nafngreindu starfsmönnum fundust ekki hjá stofnuninni og einn af þeim var hættur störfum hjá henni. Í bréfi Flugmálastjórnar var synjað um að veita umbeðnar upplýsingar samkvæmt töluliðum 3-5 að framan vegna þess að sérstök yfirlit um þær væru ekki til hjá stofnuninni.

Í kæru til úrskurðarnefndar er sérstaklega tekið fram að einungis sé kærð synjun um að láta í té upplýsingar varðandi 119 nafngreinda starfsmenn. Upplýsingar um greiðslur til þeirra samkvæmt töluliðum 3-5 hljóti að vera tiltækar og er bent á launaseðla í því sambandi. Þessar upplýsingar beri að veita, en til að tryggja að kærandi fái ekki upplýsingar um greidd heildarlaun, sem undanþegnar séu upplýsingarétti almennings, geti Flugmálastjórn undanþegið slíkar upplýsingar aðgangi með því að þurrka þær út, sbr. 7. gr. upplýsingalaga.

Í umsögn til úrskurðarnefndar, dagsettri 25. febrúar sl., taldi Flugmálastjórn að beiðni kæranda hefði ekki fullnægt skilyrðum 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga, jafnvel þótt starfsmenn þeir, er óskað hefði verið upplýsinga um, hefðu verið nafngreindir. Í umsögninni var jafnframt upplýst að umbeðnar upplýsingar væru bæði varðveittar á svonefndum launalistum, er stofnunin fær senda frá fjármálaráðuneytinu eftir hverja reglulega launavinnslu, og í launavinnslukerfi ráðuneytisins þar sem þær eru skráðar með kerfisbundnum hætti. Telur stofnunin að launalistarnir séu undanþegnir upplýsingarétti almennings á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga. Upplýsingar í launavinnslukerfi fjármálaráðuneytisins falli hins vegar undir 5. gr. laga nr. 121/1989 um skráningu og meðferð persónuupplýsinga og þar með utan gildissviðs upplýsingalaga, sbr. 2. mgr. 2. gr. þeirra. Í tilefni af ummælum í kæru hefur Flugmálastjórn upplýst að stofnunin fái ekki afrit af launaseðlum einstakra starfsmanna, heldur einungis fyrrgreinda launalista frá fjármálaráðuneytinu.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða

1.
Í beiðni, dagsettri 23. október sl., óskaði kærandi eftir upplýsingum hjá Flugmálastjórn sem telja verður sambærilegar þeim er farið er fram á að þessu sinni. Stofnunin synjaði beiðninni og bar kærandi þá synjun undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Með úrskurði nefndarinnar, sem kveðinn var upp 13. janúar sl. í málinu nr. A-36/1997, var synjunin staðfest með rökstuddum hætti.

Beiðni kæranda, sem hér er til umfjöllunar, er svo að segja eins úr garði gerð og fyrri beiðnin, að öðru leyti en því að nú er óskað eftir upplýsingum um 119 nafngreinda starfsmenn Flugmálastjórnar. Af þeim sökum er ekki næg ástæða til að vísa máli þessu frá úrskurðarnefnd þótt nefndin hafi áður leyst úr áþekku kæruefni milli sömu aðila.

2.
Samkvæmt 3. gr. upplýsingalaga er stjórnvöldum skylt, með þeim undantekningum sem fram koma í 4.-6. gr. laganna, að veita almenningi aðgang að skjölum og öðrum gögnum í vörslum sínum. Stjórnvöldum ber hins vegar ekki skylda til þess samkvæmt lögunum að láta í té upplýsingar með öðrum hætti, t.d. með því að útbúa ný gögn, sem ekki eru fyrirliggjandi, þegar óskað er eftir aðgangi að upplýsingum.

Sá, sem fer fram á aðgang að gögnum, verður að miða beiðni sína við tiltekin gögn, með því að tilgreina þau gögn eða það mál, sem hann óskar að kynna sér, sbr. 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefnd hefur skýrt þetta ákvæði laganna svo að ekki sé unnt í sömu beiðni að fara fram á aðgang að miklum fjölda skjala úr fleiri en einu stjórnsýslumáli, jafnvel þótt skjölin séu nægilega tilgreind.

Í 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga er tekið fram að lögin gildi ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt lögum um skráningu og meðferð persónuupplýsinga. Við skýringu á gildissviði þeirra laga verður að taka mið af því að þau eru sérlög í samanburði við upplýsingalög. Síðarnefndu lögin kveða sem fyrr segir á um rétt almennings til aðgangs að gögnum í vörslum stjórnvalda. Úrskurðarnefnd hefur litið svo á að að gildissvið laga nr. 121/1989 sé einskorðað við kerfisbundna skráningu á persónuupplýsingum, hvort sem hún er vélræn eða handunnin, svo og við meðferð á slíkum upplýsingum sem skráðar hafa verið með þessum hætti. Aðgangur að einstökum skjölum eða öðrum sambærilegum gögnum falli hins vegar undir upplýsingalög enda þótt þau hafi að geyma upplýsingar sem fengnar eru úr kerfisbundnum skrám.

3.
Fyrir liggur að einu gögnin í vörslum Flugmálastjórnar, sem hafa að geyma hinar umbeðnu upplýsingar, eru svonefndir launalistar sem stofnunin fær senda reglulega frá fjármálaráðuneytinu, en þar er að finna yfirlit um heildarlaunagreiðslur til starfsmanna hennar. Í fyrrgreindum úrskurði í málinu nr. A-36/1997 komst úrskurðarnefnd að þeirri niðurstöðu að launalistarnir séu gögn sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari í skilningi 5. gr. upplýsingalaga. Þar af leiðandi er óheimilt að veita kæranda aðgang að þeim.

Samkvæmt því og með vísun til þess, sem að framan segir, ber að staðfesta synjun Flugmálastjórnar um að veita kæranda hinar umbeðnu upplýsingar.

Úrskurðarorð:
Staðfest er synjun Flugmálastjórnar um að veita kæranda, Félagi flugmálastarfsmanna ríkisins, upplýsingar um greidda, fasta/óunna yfirvinnutíma, bifreiðahlunnindi og aðrar fastar greiðslur til 119 nafngreindra starfsmanna stofnunarinnar, umfram það sem kveðið er á um í kjarasamningi.

Eiríkur Tómasson, formaður
Ólafur E. Friðriksson
Valtýr Sigurðsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum