Hoppa yfir valmynd
15. desember 1997 Forsætisráðuneytið

34/1997 - Úrskurður frá 15. desember 1997 í málinu nr. A-34/1997

Hinn 15. desember 1997 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-34/1997:

Kæruefni
Með bréfi, dagsettu 18. nóvember sl., kærði [...], f.h. [...], meðferð Ríkiskaupa á beiðni hans, dagsettri 4. nóvember sl., um að fá afhenta útboðsskilmála vegna sölu jarðarinnar [A], svo og afrit allra kauptilboða, sem bárust, og afrit þess kaupsamnings sem gerður var.

Með bréfi, dagsettu 20. nóvember sl., var kæran kynnt Ríkiskaupum og óskað eftir að stofnunin gerði úrskurðarnefnd grein fyrir því, í síðasta lagi 27. nóvember sl., hvort hún hefði orðið við beiðni kæranda. Jafnframt var stofnuninni tilkynnt að nefndin myndi að öðrum kosti líta svo á að hún hefði synjað kæranda um aðgang að umbeðnum gögnum samkvæmt upplýsingalögum nr. 50/1996. Í því tilviki var þess óskað að nefndinni yrðu afhent sem trúnaðarmál gögn þau, er kæran lýtur að, og var Ríkiskaupum gefinn kostur á að gera athugasemdir við kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni innan sama frests.

Hinn 26. nóvember sl. barst úrskurðarnefnd afrit af bréfi Ríkiskaupa til kæranda, dagsettu 24. nóvember sl., þar sem beiðni hans frá 4. nóvember sl. var svarað. Í svarbréfinu er vísað til annars bréfs Ríkiskaupa, dagsetts 2. maí sl., en með því var svarað beiðni kæranda um sömu upplýsingar, dagsettri 18. mars sl. Í beiðni kæranda frá 4. nóvember sl., og kæru til nefndarinnar, dagsettri 18. nóvember sl., kemur fram að kærandi telur svör stofnunarinnar ekki fullnægjandi. Með bréfi til Ríkiskaupa, dagsettu 27. nóvember sl., var frestur stofnunarinnar til að gera athugasemdir við kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni framlengdur til miðvikudagsins 3. desember sl. Jafnframt var ítrekuð sú ósk úrskurðarnefndar að henni yrðu látin í té sem trúnaðarmál þau gögn, er kæran lýtur að, innan sama frests. Hinn 4. desember sl. barst nefndinni umsögn Ríkiskaupa, dagsett sama dag, ásamt eftirgreindum skjölum:

1. Tilboðseyðublaði auk fylgigagna vegna útboðs á jörðinni [A].
2.- 8. Afritum af sjö kauptilboðum í jörðina.
9. Afriti af kaupsamningi um jörðina, dagsettum 25. ágúst 1995.

Með bréfi, dagsettu 8. desember sl., fór úrskurðarnefnd þess á leit að Ríkiskaup veitti nefndinni upplýsingar fyrir 12. desember sl. um hvort umrætt útboð hefði verið bundið öðrum skilmálum en þeim, sem fram koma á tilboðseyðublaði, og jafnframt hvort kaupsamningi um jörðina hefði verið þinglýst. Þessu erindi svaraði Ríkiskaup með bréfi, dagsettu 10. desember sl., þar sem fram kemur að útboðið hafi ekki verið bundið öðrum skilmálum en fram koma á tilboðseyðublaði. Bréfinu fylgdu staðfest endurrit úr fasteignabók sýslumannsins á Selfossi um þinglýsingu eignarheimilda að jörðinni og veðbanda á henni.

Málsatvik
Atvik máls þessa eru þau að með bréfi til Ríkiskaupa, dagsettu 4. nóvember sl., fór umboðsmaður kæranda þess á leit að fá útboðsskilmála vegna sölu jarðarinnar [A], afrit allra kauptilboða, sem bárust, og afrit kaupsamnings sem gerður hefði verið um hana. Með bréfi til úrskurðarnefndar, dagsettu 18. nóvember sl., var meðferð beiðni þessarar kærð til nefndarinnar. Þá voru liðnar tvær vikur frá því að beiðnin var send stofnuninni án þess að henni hefði verið svarað.

Í framangreindri kæru til nefndarinnar kemur fram að kærandi hafi verið ábúandi á jörðinni [A] og átt þar eignir sem hann seldi ríkinu. Þegar óskað var eftir tilboðum í jörðina ásamt eignum þessum var hann meðal tilboðsgjafa, en tilboði hans var ekki tekið og þurfti hann "frá að hverfa". Umboðsmaður kæranda kveðst ítrekað hafa leitað eftir framangreindum upplýsingum og fengið þær að hluta í svarbréfi Ríkiskaupa frá 2. maí sl., en þær hafi þó ekki verið fullnægjandi. Í svarbréfinu segir að kærandi hafi átt "efsta boð í krónutölum" og jafnframt er greint frá ástæðum þess að því tilboði var hafnað. Ennfremur segir að "tilboði næsta aðila í krónutölum sem þá var hagstæðast fyrir seljanda" hafi verið tekið.

Í kæru til úrskurðarnefndar er sérstaklega áréttað að kærandi óski eingöngu eftir upplýsingum um "efnislegan bakgrunn útboðs, kauptilboða og kaupsamnings" og að átölulaust verði látið þótt strikað verði yfir nöfn þeirra aðila sem í hlut eigi. Jafnframt kemur þar fram að kærandi telji upplýsingarnar vera sér nauðsynlegar "til að hægt sé að fá úr því skorið fyrir dómstólum hvort beitt hafi verið ómálefnalegum sjónarmiðum við mat á kauptilboðum í áðurgreindar eignir m.t.t. meginreglna stjórnsýsluréttar, þ. á m. reglna um meðalhóf og jafnræði aðila".

Í umsögn Ríkiskaupa, dagsettri 4. desember sl., er þess óskað "að tilboðin verði ekki afhent, þar sem um gögn sé að ræða er varða einka- og fjárhagsmálefni bjóðenda" sem þeir verði að geta treyst að ekki verði látin í hendur öðrum. Sama eigi við um kaupsamning þann sem gerður var. Í bréfi stofnunarinnar, dagsettu 10. desember sl., kemur fram að kaupsamningnum hefur verið þinglýst hjá sýslumanninum á Selfossi.
Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða

1.
Í 1. mgr. 11. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: "Stjórnvald skal taka ákvörðun um hvort það verður við beiðni um aðgang að gögnum svo fljótt sem verða má. Hafi beiðni ekki verið afgreidd innan sjö daga frá móttöku hennar skal skýra aðila frá ástæðum tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta." Þegar umboðsmaður kæranda kærði meðferð Ríkiskaupa á beiðni hans, dagsettri 4. nóvember sl., voru sem fyrr segir liðnar tvær vikur frá því að beiðnin var send stofnuninni án þess að hún hefði svarað. Af svarbréfi stofnunarinnar, dagsettu 24. nóvember sl., er ljóst að hún hefur synjað beiðninni. Með vísun til 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga og 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga er mál þetta því réttilega kært til úrskurðarnefndar.

2.
Í 3. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: "Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr." Í 5. gr. laganna segir síðan: "Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila." Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi til upplýsingalaga, er m.a. tekið fram, til skýringar á því hvaða fjárhagsmálefni einstaklinga séu þess eðlis að sanngjarnt sé og eðlilegt að þau fari leynt, að óheimilt sé að veita upplýsingar um tekjur og fjárhagsstöðu einstaklinga nema það byggist á sérstakri lagaheimild.

Með hliðsjón af síðastgreindu orðalagi hefur úrskurðarnefnd litið svo á, að komi ríkið fram eins og hver annar einkaaðili við kaup og sölu fasteigna og lausafjár, séu upplýsingar um kaup- og söluverð, svo og upplýsingar um greiðsluskilmála, þess eðlis að sanngjarnt sé og eðlilegt að þær fari leynt skv. 5. gr. upplýsingalaga. Hafa ber í huga að ákvæðum greinarinnar er ætlað að koma í veg fyrir að veittar séu upplýsingar um einka- og fjárhagsmálefni nafngreindra einstaklinga eða lögaðila.

Í því máli, sem hér er til úrlausnar, fer kærandi m.a. fram á að fá aðgang að kauptilboðum sem bárust í tiltekna jörð við útboð á henni á vegum Ríkiskaupa. Í kæru er því lýst yfir af hálfu kæranda að hann sætti sig við það þótt nöfn tilboðsgjafa verði strikuð út.

Svo sem áður er lýst bárust sjö kauptilboð í jörðina. Í tilboðunum eru greind atriði, sem tengjast tilboðsgjöfum sérstaklega, svo sem nöfn þeirra, heimilisföng, kennitölur og símanúmer. Að öðru leyti er þar engar upplýsingar að finna sem sanngjarnt er og eðlilegt, að áliti úrskurðarnefndar, að undanþiggja upplýsingarétti almennings. Með skírskotun til alls þess, sem að framan greinir, telur nefndin að ákvæði 5. gr. upplýsingalaga standi því ekki í vegi að kæranda verði veittur aðgangur að kauptilboðum þeim, sem auðkennd eru nr. 2-8 hér að framan, að því tilskildu að þau atriði, sem tengjast tilboðsgjöfum sérstaklega, verði numin á brott. Ljósrit af tilboðunum fylgja því eintaki af úrskurði, sem sent verður Ríkiskaupum, þar sem merkt hefur verið við þau atriði sem hér um ræðir.

Eðli máls samkvæmt á hver sem er aðgang að tilboðseyðublaði, auðkennt nr. 1 hér að framan, ásamt fylgigögnum, en gögn þessi voru á sínum tíma afhent hverjum sem þess óskaði.
3.
Í 9. gr. reglugerðar nr. 284/1996 um þinglýsingar segir: "Almenningur skal hafa aðgang að þinglýsingabókum og skjalahylkjum þeim eða möppum, sem geyma eintök þinglýstra skjala í þeim tilgangi að kynna sér efni þeirra, eftir nánari ákvörðun viðkomandi þinglýsingarstjóra." Eins og fram hefur komið hefur kaupsamningi þeim, sem auðkenndur er nr. 9 hér að framan, verið þinglýst. Með því móti hefur samningurinn verið gerður opinber á grundvelli fyrrgreinds reglugerðarákvæðis, sbr. þinglýsingarlög nr. 39/1978.

Þótt úrskurðarnefnd telji samkvæmt framansögðu að þær upplýsingar, sem kaupsamningurinn hefur að geyma, séu almennt þess eðlis að sanngjarnt sé og eðlilegt að þær fari leynt, hefur réttarstaðan breyst að mati nefndarinnar við það að samningnum hefur verið þinglýst þar eð hver sem er getur nú kynnt sér efni hans. Í ljósi þess telur nefndin að veita beri kæranda aðgang að samningnum í heild sinni.

Úrskurðarorð:
Ríkiskaupum ber að veita kæranda, [...], aðgang að hinum umbeðnu gögnum með þeim undantekningum sem að framan greinir.

Eiríkur Tómasson, formaður
Elín Hirst
Valtýr Sigurðsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum