Hoppa yfir valmynd
25. mars 2010 Forsætisráðuneytið

A 331/2010. Úrskurður frá 25. mars 2010

 

ÚRSKURÐUR


Hinn 25. mars 2010 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-331/2010.


Kæruefni og málsatvik

Hinn 21. janúar 2010 barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál svohljóðandi bréf frá [...], dags. 20. janúar:

 „Nefnd yðar finnst ekki í símaskrá. Daman sem svarar í 118 fann ekki númer yðar. Að fela sig þannig fyrir almenningi er bæði óheiðarlegt og vinnur gegn góðum rétti.

 Í byrjun desember 2009 barst mér seðill með rukkun vegna breytinga á fasteignagjöldum 2009, kr. 29.668. Seðillinn var óundirritaður, sem sýnir ábyrgðarleysi í stjórn borgarinnar. Mér hafði áður verið veittur afsláttur af fasteignagjöldum vegna aldurs, sem nam kr. 29.668. Eins og lærifaðir yðar hefur sjálfsagt brýnt fyrir yður ber stjórnvaldi þegar réttindi eða fjármunir eru teknir af fólki að útskýra það og rökstyðja. Hvorugt var gert í þessu tilviki. Ennfremur á gerðarþolandi rétt á því að andmæla. Borgin sinnti þessu í engu. Reyndar grunar mig að einhver hjá fjármálaskrifstofu borgarinnar hafi sett upp forrit sem plokkar greiðslur eins og þessa og kemur þeim fyrir á eigin reikningi. Þetta er mun auðveldar þegar haft er í huga að þessarar greiðslu (kr. 29.668) hefði ekki verið saknað í bókhaldi borgarinnar, þar sem hún hafði áður verið veitt sem afsláttur.

 Þann 8. desember ritaði ég skrifstofu borgarstjóra og bað um upplýsingar um þá þjónustu sem borgin veitir öldruðum í heimahúsum. Þessu hefur ekki verið svarað. Ennfremur bað ég um nafn og starfsheiti sérhvers starfsmanns á fjármálaskrifstofu borgarinnar. Þetta gerði ég í því skyni að komast að hver hefði staðið fyrir kröfugerðinni á hendur mér. Þessu hefur ekki verið svarað. Ennfremur þann 8.12. skrifaði ég endurskoðun borgarinnar og bað um upplýsingar varðandi margnefnda kröfu. Þessu hefur ekki verið svarað. Ennfremur, þann 7.12. skrifaði ég fjármálaskrifstofu borgarinnar og bað um útskýringu á kröfunni. Þessu hefur ekki verið svarað.

 7. desember skrifaði ég [A], fulltrúa á skrifstofu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og bað hann að kanna og eftir atvikum rannsaka þetta mál. Í bréfi til mín frá 14. janúar 2010 tjáir hann mér að ekkert af því sem ég hef hér rakið að framan sé „refsivert athæfi“, hins vegar bendir hann mér á nefnd yðar sem æðra stjórnvald sem ég geti kært til.

 Vinsamlega lítið svo á að bréf þetta í heild sé slík kæra.“

 

 

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 27. janúar 2010, tilkynnti úrskurðarnefnd um upplýsingamál Reykjavíkurborg að framangreind kæra hefði borist. Var þeim tilmælum beint til borgarinnar að afgreiða beiðni kæranda svo fljótt sem auðið væri hefði það ekki verið gert. Væri synjað um aðgang að umbeðnum gögnum var óskað eftir því að úrskurðarnefndinni yrðu látin í té afrit af þeim og í því tilviki væri borginni gefinn kostur á því að koma að athugsemdum við kæruna og frestur gefinn til þess til 5. febrúar.

 Í bréfi borgarlögmanns til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 5. febrúar sl., segir eftirfarandi:

 „Vísað er til erindis dags. 27. janúar sl. þar sem óskað er eftir að Reykjavíkurborg birti kæranda og nefndinni ákvörðun um afgreiðslu á beiðni kæranda um upplýsingar. Samkvæmt tilvitnuðu erindi voru tilteknar afgreiðslur Reykjavíkurborgar á beiðnum kæranda dags. 7. og 8. desember 2009 kærðar til úrskurðarnefndarinnar.

 Það er afstaða Reykjavíkurborgar að umrædd kæra eigi ekki undir gildissvið upplýsingalaga nr. 50/1996 og því beri að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni. Byggist sú afstaða á þeirri staðreynd að beiðnir kæranda í umræddum bréfum falla að öllu leyti undir stjórnsýslulög og eiga því ekki undir gildissvið upplýsingalaga, skv. 2. mgr. 2. gr. þeirra laga. Ljóst er af meðfylgjandi gögnum að kærandi er annars vegar að óska eftir almennum upplýsingum um þjónustustarfsemi Reykjavíkurborgar við aldraða og hins vegar að óska eftir rökstuðningi fyrir breytingu á fasteignagjöldum fyrir árið 2009. Er í þessu sambandi rétt að benda á að upplýsingalögin snerta, skv. 1. ml. 1. mgr. 3. gr. laganna, einungis rétt til þess að fá upplýsingar úr gögnum tiltekins máls sem stjórnvöld hafa í vörslum sínum eða m.ö.o. rétt til aðgangs að gögnum. Þannig eru skilyrði laganna um að beiðni um upplýsingar þurfi að varða tiltekið mál eða gögn máls ekki uppfyllt.

 Þrátt fyrir ofangreinda afstöðu Reykjavíkurborgar þykir rétt að upplýsa nefndina um meðferð umræddrar beiðni kæranda hjá Reykjavíkurborg og senda kærunefndinni jafnframt afrit af öllum gögnum málsins sem fyrir liggja. Kæranda hafa þegar verið send öll umbeðin svör og allar umbeðnar upplýsingar eins og fylgigögn bera með sér.

 Álagningarseðill fasteignagjalda 2009 var sendur kæranda í byrjun ársins 2009, sbr. fskj. 1. Á bakhlið hans, sbr. fskj. 2, var að finna nákvæmar útskýringar á fyrirkomulagi því sem viðhaft var við framkvæmd á útreikningi afsláttar elli- og örorkulífeyrisþega á fasteignagjöldum ársins 2009. Þar er sérstaklega tilgreint að endanleg ákvörðun um afslátt á fasteignagjöldum hjá elli- og örorkulífeyrisþegum muni eiga sér stað síðar á árinu þegar endanleg álagning vegna tekna ársins 2008 liggur fyrir og jafnframt að allar breytingar muni verða tilkynntar bréflega. Í samræmi við það verklag sendi fjármálaskrifstofa til kæranda tilkynningu um breytingu á fasteignagjöldum 2009 þann 3. desember 2009, sbr. fskj. 3. Á bakhlið þeirrar tilkynningar var að finna skilyrði til lækkunar fasteignaskatts og holræsagjalds elli- og örorkulífeyrisþega, sbr. fskj. 4. Með umræddri tilkynningu fylgdi greiðsluseðill vegna breytinga á fasteignagjöldum, sbr. fskj. 5.

 Með bréfi kæranda dags. 7. desember 2009 til fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar, sem móttekið var og skráð í skjalasafn 14. desember 2009, var óskað eftir útskýringum á hvernig stæði á tilgreindum bakfærslum á fasteignagjöldum ársins 2009. Í erindi kæranda dags. 8. desember 2009 til endurskoðanda Reykjavíkurborgar, sem móttekið var og skráð í skjalasafn 14. desember 2009, var óskað eftir upplýsingum um sömu bakfærslu fasteignagjalda ársins 2009 en nánar var óskað eftir upplýsingum um „hver gaf út þessa kröfu og af hverju“. Skjalasafn sendi erindi þetta beint til innheimtustjóra fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar.

 Bréf kæranda dags. 8. desember 2009 til skrifstofu borgarstjóra var móttekið og skráð í skjalasafni Ráðhúss 9. desember s.á. og sent viðkomandi starfsmönnum skrifstofu borgarstjóra samdægurs. Í erindi þessu óskaði kærandi m.a. eftir nafni og starfsheiti einhvers starfsmanns á fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar svo að hann gæti leitað réttar síns gagnvart því fólki en í umræddu bréfi kvartaði kærandi jafnframt yfir kröfu Reykjavíkurborgar á hendur honum um greiðslu fasteignagjalda. Með bréfi skrifstofu borgarstjóra dags. 9. desember 2009 til kæranda, sbr. fskj. 9, var honum tilkynnt um að kvörtun hans vegna niðurfellingar á afslætti af fasteignagjöldum hefði verið vísað til fjármálaskrifstofu til meðferðar og að nánari upplýsingar myndi fjármálaskrifstofa veita. Kærandi fékk svo sent svar fjármálaskrifstofu dags. 27. janúar sl., sbr. fskj. 11.

 Að lokum er rétt að geta þess að auk þess sem að framan er rakið óskaði kærandi eftir því í erindi dags. 8. desember 2009 til skrifstofu borgarstóra að hann fengi svör við því hvers vegna hann hafi aldrei fengið upplýsingar um þá þjónustu sem eldri borgurum stæði til boða hjá Reykjavíkurborg. Samkvæmt bréfi skrifstofustjóra á skrifstofu borgarstjóra dags. 1. febrúar sl. virðist sem það hafi farist fyrir að svara þeim þætti erindisins er varðar þjónustu Reykjavíkurborgar við eldri borgara. Þeirri beiðni hefur nú verið svarað sbr. fskj. 13.“

 Hinn 24. febrúar sl. ritaði úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæranda bréf og sendi með því framangreint bréf borgarlögmanns ásamt þeim gögnum sem bréfinu fylgdu. Segir m.a. eftirfarandi í bréfi nefndarinnar:

 „Þess er óskað að þér upplýsið nefndina um hvort þér teljið svar Reykjavíkurborgar fullnægjandi og innihalda þau gögn sem þér óskið aðgangs að. Ef þér teljið svo vera mun meðferð málsins fyrir úrskurðarnefnd um upplýsingamál vera felld niður að beiðni yðar, sbr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Að öðrum kosti verður kæra yðar tekin til úrskurðar.“

 Kærandi svaraði bréfi úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 26. febrúar sl. Í bréfinu segir m.a.:

 „Svar Reykjavíkurborgar (fylgisk 1 til 13) er bæði ófullnægjandi og auk þess sem hallað er réttu máli í veigamiklum atriðum. Til að mynda hef ég ekki fengið uppgefin nöfn og starfsheiti starfsmanna fjármálaskrifstofu andstætt því sem frú [B] segir í bréfi sínu til yðar „kæranda hefur þegar verið send öll umbeðin svör.“ Þessi fullyrðing stenst einfaldlega ekki. Hvað sem varðar stjórnsýslulög er alveg greinilegt af beiðni minni um að fá að vita nöfn og starfsheiti manna að kæra mín til yðar snýst um það atriði hvort ég eigi rétt á að fá þetta upplýst eða ekki. Alveg er skýlaust að borgin hefur þessar upplýsingar í vörslum sínum og þær eru gögn sem varða mitt fasteignagjaldamál beint. Skilyrðum upplýsingalaga um tiltekið mál og gögn þess er þannig fullnægt. Ef svo væri ekki, hefði almenningur engan rétt til að leita upplýsinga hjá hinu opinbera.

Skýringar fjármálaskrifstofu bárust mér með bréfi [C] 23. febrúar 2010. Sem dæmi um þær rangfærslur sem borgin gerir sig seka um nefni ég „var þér þá boðið upp á greiðsludreifingu“. Í desember 2009 fékk ég aðeins kröfu með eindaga 1. febrúar 2010 og blað með bókhaldsmerkingu „bakfært“. Ekkert tilboð um greiðsludreifingu, sjá fylgiskjal 5.

 Ég tel að öllu samanlögðu að ástæða mín til kæru til yðar og beiðni um afskipti lögreglu hafi aukist en ekki minnkað. Starfsemi og starfshættir fjármálaskrifstofu eru í fyllsta mæli tortryggileg.“

 

Niðurstaða

Af gögnum þessa máls sést að beiðni kæranda um aðgang að gögnum er fyrst og fremst sprottin af þeirri ákvörðun Reykjavíkurborgar að krefjast þess að kærandi endurgreiddi í byrjun árs 2010 þann afslátt sem honum hafði á árinu 2009 verið reiknaður af fasteignaskatti og holræsagjaldi, samtals kr. 29.668. Er hér um að ræða bréf kæranda til fjármálaskrifstofu borgarinnar, dags. 7. desember 2009 og bréf til endurskoðunar borgarinnar, þ.e. fjármálaskrifstofu, dags. 8. desember 2009, þar að lútandi. Kærandi er tvímælalaust aðili að þessari ákvörðun Reykjavíkurborgar í skilningi stjórnsýslulaga þar sem hún varðar réttindi og skyldur hans.

 Í bréfi til skrifstofu borgarstjóra, dags. 8. desember 2009, kvartaði kærandi og út af því að hann hafi ekki fengið upplýsingar um þá þjónustu sem öldruðum standi til boða hjá Reykjavíkurborg og eins óskar hann eftir því að fá gefin upp nöfn og starfsheiti starfsmanna á fjármálaskrifstofu borgarinnar.

 Bréf borgarlögmanns til úrskurðarnefndarinnar, dags. 5. febrúar 2010, verður ekki skilið öðru vísi en svo að hann telji að kærandi hafi fengið send öll gögn sem kæru hans varða. Kærandi hefur m.a. fengið sent ljósrit af bæklingi um þjónustu sem í boði er fyrir eldri borgara í Miðborg og Hlíðum í tilefni af því sem fram kemur áðurnefndu bréfi hans, dags. 8. desember 2009. Sá bæklingur fylgdi ekki bréfi borgarlögmanns til úrskurðarnefndarinnar. Úrskurðarnefndin hefur skoðað þau gögn sem bréfi borgarlögmanns fylgdu, þ.e. fylgiskjöl 1-13, og álítur að þau varði öll þá kæru sem er til meðferðar hjá nefndinni.

 Kærandi telur hins vegar að hann hafi ekki fengið öll gögn í hendur og nefnir sem dæmi að honum hafi ekki verið gefið upp nafn og starfsheiti sérhvers starfsmanns á fjármálaskrifstofu borgarinnar en erindi þar um hafi ekki verið svarað. Þessa beiðni telur hann tvímælalaust varða „fasteignagjaldamál“ sitt. Þá telur kærandi að bréfum sínum frá 7. og 8. desember, sem getið er hér að framan, hafi ekki verið svarað.

 Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 taka lögin til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Í 2. gr. upplýsingalaga er kveðið á um gildissvið þeirra gagnvart öðrum lögum og þjóðréttarsamningum. Í 1. málslið 2. mgr. 2. gr. laganna segir að þau gildi ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, en þau lög taka til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga eins og fyrr segir. Í 1. málslið 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga segir að lögin gildi þegar stjórnvöld, þar á meðal stjórnsýslunefndir, taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Þegar aðili máls óskar aðgangs að gögnum sem varða ákvarðanir stjórnvalds um rétt eða skyldu í máli hans, en kæra kæranda í þessu máli varðar að hluta slíka ákvörðun, fer um aðgang að þeim samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaganna, en þar segir í upphafi 1. mgr. að aðili máls eigi rétt á því að kynna sér skjöl og önnur gögn er málið varði.

 Úrskurðarnefnd um upplýsingamál lítur svo á að beiðni kæranda um aðgang að gögnum tengist því kvörtunarefni hans að hafa ekki notið afsláttar af fasteignagjöldum og holræsagjöldum ársins 2009. Það á jafnframt við um kvörtun hans um að hafa ekki fengið upplýsingar um þjónustu borgarinnar við aldraða, beiðni um lista yfir nöfn og starfsheiti þeirra manna er starfa á fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar og kvörtun um að bréfum hans til Reykjavíkurborgar, dags. 7. og 8. desember 2009, hafi ekki verið svarað. Að þessum þremur atriðum verður vikið síðar. Þar sem ákvörðun borgarinnar um greiðslu kæranda á fasteigna- og holræsagjaldi varðar réttindi og skyldur hans leiðir af framansögðu að um upplýsingarétt kæranda um þá ákvörðun fer eftir stjórnsýslulögum nr. 37/1993, en ekki upplýsingalögum, nr. 50/1996. Er það því ekki á valdi úrskurðarnefndar um upplýsingamál að leysa úr þeirri synjun um aðgang að gögnum sem kærandi staðhæfir að fyrir liggi og hann hefur borið undir nefndina, sbr. 2. mgr. 2. gr. og 14. gr. upplýsingalaga. Gerði úrskurðarnefndin það færi hún inn á valdsvið annars stjórnvalds með óheimilum hætti. Ber úrskurðarnefndinni af framangreindum ástæðum að vísa þessum hluta kærunnar frá.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 byggist réttur til þess að fá aðgang að skjölum og öðrum gögnum hjá stjórnvöldum á því að þau varði tiltekið mál. Þá er kveðið á um það í 1. mgr. 3. gr. laganna að stjórnvöldum sé ekki skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkari mæli en leiði af 7. gr. laganna.

 Beiðni kæranda sem lýtur að lista yfir nöfn og starfsheiti starfsmanna fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar og upplýsingum um þá þjónustu sem borgin veitir öldruðum í heimahúsum lýtur ekki að fyrirliggjandi gögnum í tilgreindu máli, sbr. framangreind lagaákvæði og 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, heldur er um að ræða ósk um upplýsingar og skýringar. Af þessum ástæðum verður ekki leyst úr þessum hluta beiðninnar á grundvelli upplýsingalaga. Sama máli gegnir um skort á svörum eða ófullnægjandi svör við slíkum erindum borgaranna.

 Samkvæmt öllu framansögðu er kærunni í heild vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

 

 

Úrskurðarorð:

Kæru [...] vegna afhendingar umbeðinna gagna frá Reykjavíkurborg er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

 

 

 

 

 

Friðgeir Björnsson

formaður

 

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                               Trausti Fannar Valsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum