Hoppa yfir valmynd
22. júní 2009 Forsætisráðuneytið

A 303/2009 Úrskurður frá 26. maí 2009

 

ÚRSKURÐUR

 

Hinn 26. maí 2009 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. A-303/2009.


Kæruefni

Með bréfi, dags. 15. febrúar 2009, kærði Veturliði Þór Stefánsson, afgreiðslu Fjármálaeftirlitsins á beiðni hans um afhendingu afrits af ráðningarsamningi Jónasar Fr. Jónssonar, forstjóra stofnunarinnar, auk skjalfestra breytinga sem gerðar hefðu verið á samningnum, bréfi viðskiptaráðherra til stjórnar Fjármálaeftirlitsins um að hún gengi frá starfslokum við forstjórann og segði af sér í kjölfarið, og starfslokasamningi sem stjórn Fjármálaeftirlitsins hefði gert við forstjórann.

Í kærunni kom fram að kærandi hefði beðið um aðgang að ofangreindum gögnum með bréfi til Fjármálaeftirlitsins 25. janúar en við framlagningu kæru hefði sú beiðni enn ekki verið afgreidd. Í gögnum sem fylgdu kærunni kom fram að Fjármálaeftirlitið hefði með tölvubréfum þann 3. og 15. febrúar lýst því yfir að verið væri að meta beiðni kæranda og að stefnt væri að því að honum bærist svar fyrir lok mánaðarins. Í báðum tölvubréfunum var kæranda jafnframt leiðbeint um að beina beiðni sinni vegna liðar númer tvö í kæru sinni, þ.e. beiðni um aðgang að bréfi viðskiptaráðherra til stjórnar Fjármálaeftirlitsins, til viðskiptaráðherra.

Með bréfi, dags. 16. mars, var þess óskað að Fjármálaeftirlitið upplýsti úrskurðarnefnd um upplýsingamál um stöðu málsins. Hefði beiðni kæranda ekki þegar verið afgreidd var því jafnframt beint til stofnunarinnar, með vísan til 11. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, að taka ákvörðun um afgreiðslu hennar svo fljótt sem við yrði komið og eigi síðar en 23. mars. Kysi Fjármálaeftirlitið að synja beiðninni var því gefinn kostur á að koma að athugasemdum við kæruna og frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni innan sömu tímamarka auk þess að láta nefndinni í té afrit af þeim gögnum sem kæran beindist að.

Með bréfi, dags. 30. mars, barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál svar Fjármálaeftirlitsins. Þar kom fram að beiðni kæranda væri synjað, en jafnframt að beiðni um aðgang að bréfi viðskiptaráðherra til stjórnar Fjármálaeftirlitsins um að hún gengi frá starfslokum við forstjóra stofnunarinnar bæri að beina til viðskiptaráðherra sjálfs.

 

Málsmeðferð

Svari Fjármálaeftirlitsins til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 30. mars 2009, fylgdu afrit af ráðningarsamningi Fjármálaeftirlitsins og forstjóra þess, Jónasar Fr. Jónssonar, frá 19. júlí 2005 auk afrits af fjórum viðaukum við hann. Í fyrsta lagi er þar um að ræða tvo viðauka sem gerðir voru 12. febrúar 2007. Annar þeirra lýtur að fjárhæð fastra mánaðarlauna forstjórans en hinn að réttarstöðu forstjóra vegna krafna sem aðilar kunni að beina að honum persónulega í tengslum við störf hans hjá Fjármálaeftirlitinu. Viðaukar voru einnig gerðir við samninginn 13. desember 2007 og 27. maí 2008. Lúta báðir að launakjörum forstjórans. Þá fylgdi afrit af tillögu formanns stjórnar Fjármálaeftirlitsins sem lögð mun hafa verið fyrir á fundi stjórnarinnar í janúar 2009. Skjalið ber yfirskriftina „DRÖG JS 5. janúar 2008“. Efni þess ber hins vegar með sér að það sé skrifað í janúar 2009. Í tillögunni er lögð til lækkun á launum framkvæmdastjóra um 15%. Af skýringum Fjármálaeftirlitsins í máli þessu verður ráðið að þessi tillaga hafi verið samþykkt.

Með bréfi, dags. 2. apríl 2009, fór úrskurðarnefndin þess sérstaklega á leit við Fjármálaeftirlitið að upplýst yrði hvort stofnunin hefði afrit af bréfi viðskiptaráðherra til stjórnar Fjármálaeftirlitsins, dags. 25. janúar 2009, í vörslum sínum og þá að afrit þess yrði afhent nefndinni. Jafnframt óskaði nefndin eftir afriti af samkomulagi Fjármálaeftirlitsins við forstjóra um starfslok. Er það samkomulag einnig dagsett 25. janúar 2009. Þessi gögn bárust með bréfi, dags. 17. apríl.

Í rökstuðningi Fjármálaeftirlitsins, sbr. bréf þess dags. 30. mars 2009, kemur fram að stofnunin telji rétt að synja beiðni kæranda um aðgang að gögnum með vísan til 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Er í því sambandi vísað til einkahagsmuna fyrrverandi framkvæmdastjóra stofnunarinnar. Er þar einnig bent á að Fjármálaeftirlitið hafi ávallt verið í mikilli samkeppni við einkaaðila á markaði við að ráða til sín hæft starfsfólk og að í sjálfu sér myndi það jafna samkeppnisstöðu fyrirtækisins gagnvart einkaaðilum að geta tryggt starfsfólki trúnað um launagreiðslur eða takmarkað framlagningu upplýsinga sem varða stöðu þess að öðru leyti. Telur Fjármálaeftirlitið að slík sjónarmið sæki stoð í 3. tölul. 1. mgr. 6. gr. upplýsingalaga.

Hvað varðar þann þátt í beiðni kæranda sem beinist að bréfi viðskiptaráðherra til stjórnar Fjármálaeftirlitsins og ritað var í janúar 2009 kemur sérstaklega fram í bréfi stofnunarinnar, dags. 17. apríl, að kæranda hafi verið leiðbeint um að leita til viðskiptaráðuneytisins. Hafi sú afstaða grundvallast á því að umrætt bréf hvorki stafaði hvorki frá Fjármálaeftirlitinu né hefði það að geyma ákvörðun eða ráðstöfun stofnunarinnar, heldur tiltekna ákvörðun eða afstöðu viðskiptaráðherra sem beint hafi verið til stjórnarmanna Fjármálaeftirlitsins persónulega. Í bréfi Fjármálaeftirlitsins segir síðan m.a. svo um þetta atriði málsins:

„Á það ber að líta að einungis hluti erindis kæranda átti undir annað stjórnvald og því álitaefni hvort bæri að áframsenda einungis þann hluta eða leiðbeina aðila í þessum efnum. Aðrir þættir kærenda voru að auki þess eðlis að efni þeirra var viðskiptaráðuneytinu óviðkomandi. Leiðbeiningar, sem fram komu í svari Fjármálaeftirlitsins voru því bæði réttar og viðbrögð eðlileg í ljósi aðstæðna.

Umræddu bréfi viðskiptaráðherra var beint persónulega til einstakra stjórnarmanna og stílað á heimilisfang hvers og eins þeirra. Erindinu var því ekki beint til Fjármálaeftirlitsins og er því ekki að finna í skjalakerfi þess. Hins vegar óskaði aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins eftir að einn stjórnarmaður leyfði honum að halda eftir afriti af erindinu fyrir sig. Aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins vistaði erindið með gögnum stjórnarfundar. Álitamál er hvort erindi til einstakra stjórnarmanna hefði átt að vista hjá Fjármálaeftirlitinu, en þar sem það var vistað hjá aðstoðarforstjóra fylgir það erindi þessu.“

Með bréfi, dags. 3. apríl 2009, var framkomin kæra kynnt Jónasi Fr. Jónssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra Fjármálaeftirlitsins, og honum veittur kostur á að lýsa afstöðu sinni til efnis kærunnar. Svar Jónasar barst með bréfi, dags. 17. apríl. Þar kemur fram að hann lýsi sig mótfallinn því að kæranda verði veittur aðgangur að gögnum sem varða ráðningu hans og starfslok hjá stofnuninni en jafnframt að hann telji að Fjármálaeftirlitinu beri af lagalegum ástæðum að hafna afhendingu gagnanna. Í nánari rökstuðningi kemur í fyrsta lagi fram sú afstaða að ráðningarsamningur, ásamt viðaukum og svo starfslokasamningur milli Jónasar og Fjármálaeftirlitsins varði einkamálefni sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari samkvæmt 5. gr. upplýsingalaga. Í öðru lagi segir Jónas í bréfinu að starfslokasamningar séu að sínu mati ávallt einkaréttareðlis og teljist þegar af þeirri ástæðu til einkamálefna sem sanngjarnt og eðlilegt sé að fari leynt. Þá leiði óvægin og ósanngjörn umræða á opinberum vettvangi um starfsemi Fjármálaeftirlitsins, sem m.a. hafi beinst að Jónasi persónulega og haft særandi áhrif á fjölskyldu hans, til þess að hagsmunir hans af því að framlagningu umbeðinna gagna verði synjað séu meiri en hagsmunir þess sem krefjist afhendingar þeirra. Þá tekur Jónas fram að hann hafi látið af störfum hjá Fjármálaeftirlitinu og teljist ekki lengur til starfsmanna stofnunarinnar. Af þeirri ástæðu einni megi færa rök fyrir því að umbeðin gögn, sem hann varði, beri eftirleiðis að meðhöndla sem gögn sem varði einkamálefni sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari.

 

Niðurstaða

1.
Hin kærða ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um synjun á aðgangi að gögnum er þríþætt. Í fyrsta lagi beinist hún að synjun á beiðni um aðgang að ráðningarsamningi Jónasar Fr. Jónssonar, fyrrverandi forstjóra stofnunarinnar, auk skjalfestra breytinga á samningnum. Í öðru lagi beinist hún að synjun á beiðni um aðgang að bréfi viðskiptaráðherra til stjórnar Fjármálaeftirlitsins um að stjórnin gangi frá starfslokum við forstjórann og segi af sér í kjölfarið. Eins og fram er komið telur Fjármálaeftirlitið að umrædd  beiðni eigi ekki að koma til afgreiðslu stofnunarinnar heldur viðskiptaráðuneytisins. Hefur erindi kæranda að þessu leyti þó ekki verið framsent ráðuneytinu til afgreiðslu skv. 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í þriðja lagi beinist kæran að synjun Fjármálaeftirlitsins á beiðni um aðgang að samningi stjórnar stofnunarinnar við forstjóra Fjármálaeftirlitsins um starfslok hans.

2.
Synjun Fjármálaeftirlitsins á beiðni kæranda um aðgang að ráðningarsamningi Jónasar Fr. Jónssonar, fyrrverandi forstjóra stofnunarinnar, auk skjalfestra breytinga á samningnum, byggist annars vegar á því að í umræddum gögnum komi fram upplýsingar um einka- og fjárhagsmálefni þess einstaklings sem samningarnir voru gerðir við sem eðlilegt og sanngjarnt sé að leynt fari, sbr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 og hins vegar á samkeppnishagsmunum Fjármálaeftirlitsins. Hefur stofnunin í því sambandi vísað til 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. 

Eins og fram er komið felur ákvörðun Fjármálaeftirlitsins að þessu leyti í sér synjun á aðgangi að ráðningarsamningi stofnunarinnar við fyrrverandi forstjóra frá 19. júlí 2005 auk neðangreindra skjala sem geyma upplýsingar um breytingar á samningnum:

1) Viðauki frá 12. febrúar 2007, um breytingu á föstum launakjörum forstjóra.
2) Viðauki frá 12. febrúar 2007, um að réttarstöðu forstjóra vegna krafna sem aðilar kunna að beina að honum persónulega í tengslum við störf hans hjá Fjármálaeftirlitinu.
3) Viðauki frá 13. desember 2007, um breytingu á föstum launakjörum forstjóra. 
4) Viðauki frá 27. maí 2008, um breytingu á föstum launakjörum forstjóra.
5) Tillaga lögð fyrir stjórn Fjármálaeftirlitsins í janúar 2009, um breytingu á föstum launakjörum forstjóra.

Öll framangreind gögn, að undanskildum viðauka frá 12. febrúar 2007, sbr. lið 2) í upptalningunni hér að ofan, geyma beinar skjalfestar upplýsingar um föst laun forstjórans og önnur föst ráðningarkjör hans.

Eðli máls samkvæmt teljast upplýsingar um launakjör fyrrverandi forstjóra Fjármálaeftirlitsins til upplýsinga um fjárhagsmálefni hans. Í því felst þó ekki sjálfkrafa að rétt sé á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga að halda þeim leyndum. Samkvæmt skýrri og fastmótaðri framkvæmd á upplýsingalögum, sem jafnframt á sér stoð í athugasemdum sem fylgdu umræddri grein í frumvarpi til upplýsingalaga, hafa 3. og 5. gr. laganna verið skýrðar svo að sé óskað aðgangs að gögnum um laun opinberra starfsmanna skuli veita aðgang að fyrirliggjandi gögnum þar sem fram koma föst launakjör viðkomandi starfsmanna, þ. á m. að einstaklingsbundnum ráðningarsamningum eða öðrum ákvörðunum eða samningum um föst launakjör þeirra. Við meðferð frumvarps þess sem síðan varð að upplýsingalögum var þetta sjónarmið áréttað af hálfu allsherjarnefndar Alþingis, en í áliti nefndarinnar kemur fram að skýra beri ákvæði 5. gr. svo að með lögunum væri ekki aðeins tryggður aðgangur að upplýsingum um föst laun opinberra starfsmanna heldur einnig að þeim einstaklingsbundnu samningum sem gerðir hefðu verið við starfsmenn um önnur föst kjör þeirra, svo sem fasta (ómælda) yfirvinnu, akstursgjald o.fl. Á hinn bóginn er, vegna ákvæðis 1. málsl. 5. gr. upplýsingalaga, óheimilt að veita aðgang að upplýsingum um heildarlaun opinbers starfsmanns, hvort sem laun hans eru hærri en föst laun og kjör, sem stöðu hans fylgja, t.d. vegna unninnar yfirvinnu eða þá lægri  vegna frádráttar sökum fjarvista eða annarra atvika. Vísast hér meðal annars til úrskurða úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. A-277/2008, A-214/2005, A-183/2004, A-68/1997, A-27/1997 og A-10/1997. Jafnframt vísast til álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 5103/2007.

Með vísan til framangreinds verður synjun á aðgangi að ráðningarsamningi Fjármálaeftirlitsins og forstjóra þess frá 19. júlí 2005 og viðaukum við samninginn frá 12. febrúar 2007, 13. desember 2007 og 27. maí 2008, auk tillögu sem lögð var fram á fundi stjórnar Fjármálaeftirlitsins í janúar 2009 um breytingu á launum forstjórans, ekki byggð á því að þar komi fram upplýsingar um einka- og fjárhagsmálefni fyrrverandi forstjóra Fjármálaeftirlitsins sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, sbr. 1. málslið 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Hefur það hér ekki áhrif þó að umræddur forstjóri Fjármálaeftirlitsins hafi nú látið af störfum, enda geyma nefnd gögn einvörðungu upplýsingar um launagreiðslur til hans frá Fjármálaeftirlitinu.

Hvað varðar viðauka frá 12. febrúar 2007, um réttarstöðu forstjóra vegna krafna sem aðilar kunna að beina að honum persónulega í tengslum við störf hans hjá Fjármálaeftirlitinu, ber til þess að líta að þar koma ekki fram beinar upplýsingar um föst launakjör forstjórans. Á hinn bóginn verður að telja efni hans nátengt starfskjörum hans að öðru leyti, auk þess sem þar koma fram upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna af hálfu Fjármálaeftirlitsins. Með vísan til þess verður að telja að hagsmunir almennings af því að fá aðgang að umræddum samningsviðauka séu, með vísan til meginreglu 3. gr. upplýsingalaga um aðgang almennings að gögnum, ríkari en einstaklingsbundnir hagsmunir forstjóra Fjármálaeftirlitsins af því að þeim upplýsingum sem þar koma fram sé haldið leyndum.

Í upphafi 6. gr. upplýsingalaga segir að heimilt sé að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjist, enda geymi þau upplýsingar um eitthvert þeirra atriða sem upp eru talin í 1.-5. tölul. greinarinnar. Af ákvæði 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga leiðir að heimilt er að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast enda hafi þau að geyma upplýsingar um: „viðskipti stofnana og fyrirtækja í eigu ríkis eða sveitarfélaga að því leyti sem þau eru í samkeppni við aðra.“

Í athugasemdum sem fylgdu tilvitnaðri grein í frumvarpi til upplýsingalaga segir að með orðalaginu „þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast“ sé vísað til þess að beiðni um upplýsingar verði ekki synjað, hvorki í heild né að hluta, nema aðgangur almennings að upplýsingum muni skaða einhverja af þeim almannahagsmunum sem tilgreindir eru í ákvæðinu. Hver töluliður sæti sjálfstæðri skýringu með tilliti til eðlis þeirra upplýsinga sem um ræðir. Um skýringu á 3. tölul. sérstaklega segir að markmið frumvarpsins sé meðal annars að gefa almenningi og fjölmiðlum færi á að fá vitneskju um það hvernig opinberum fjármunum sé varið. Óheftur réttur til upplýsinga geti á hinn bóginn skaðað samkeppnis- og rekstrarstöðu opinberra stofnana og fyrirtækja í þeim tilvikum þegar hið opinbera þarf að keppa á markaði við einkaaðila sem ekki eru skyldugir til að gefa upplýsingar um stöðu sína. Af þessum sökum sé lagt til að takmarkaður verði aðgangur að upplýsingum um viðskipti hins opinbera þegar svona hátti til. Síðan segir orðrétt: „Ákvæðið er sem fyrr segir einskorðað við þá stöðu þegar opinberir aðilar eru í samkeppni við aðra aðila. Ákvæðinu verður því ekki beitt þegar hið opinbera starfar í skjóli einkaréttar né heldur ef opinber aðili er einn um rekstur þótt einkaréttar njóti ekki við.“

Með vísan til þess lögbundna hlutverks sem Fjármálaeftirlitinu er falið, m.a. með lögum nr. 88/1997, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum, verður ekki séð að starfsemi Fjármálaeftirlitsins geti talist í samkeppni við aðra í skilningi 3. tl. 1. mgr. 6. gr. upplýsingalaga. Er því skilyrðum til að hafna beiðni um aðgang umræddra gagna á grundvelli 3. tölul. 1. mgr. 6. gr. upplýsingalaga ekki fullnægt.

Af framangreindu leiðir að Fjármálaeftirlitinu ber að afhenda kæranda afrit af ráðningarsamningi Jónasar Fr. Jónssonar, fyrrverandi forstjóra stofnunarinnar, við stofnunina auk skjalfestra breytinga á samningnum.

 

3.
Synjun Fjármálaeftirlitsins á beiðni um aðgang að bréfi viðskiptaráðherra til stjórnar Fjármálaeftirlitsins um að stjórnin gengi frá starfslokum við forstjórann og segði af sér í kjölfarið byggir, eins og fram er komið, á því að umrædd beiðni eigi ekki að koma til afgreiðslu stofnunarinnar heldur viðskiptaráðuneytisins. Jafnframt hefur Fjármálaeftirlitið vísað til þess í bréfi til úrskurðarnefndarinnar að umræddu bréfi hafi verið beint persónulega til einstakra stjórnarmanna og stílað á heimilisfang hvers og eins þeirra. Erindinu hafi ekki verið beint til Fjármálaeftirlitsins og sé því ekki að finna í skjalakerfi þess. Hins vegar hafi aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins óskað eftir því að einn stjórnarmaður leyfði honum að halda eftir afriti af erindinu fyrir sig. Aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins vistaði síðan erindið með gögnum stjórnarfundar.

Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér efni bréfs viðskiptaráðherra til stjórnarmanna Fjármálaeftirlitsins. Er því eintaki sem afrit er geymt af hjá Fjármálaeftirlitinu beint til tiltekins stjórnarmanns Fjármálaeftirlitsins persónulega. Af skýringum Fjármálaeftirlitsins, sem og efni bréfsins, má ráða að aðrir stjórnarmenn hafi fengið samhljóða bréf. Í bréfinu koma ekki fram upplýsingar sem lúta að störfum Fjármálaeftirlitsins með beinum hætti eða tengjast forstjóra þess. 

Í 3. mgr. 10. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 segir að þegar farið er fram á aðgang að gögnum um mál þar sem taka á eða tekin hefur verið ákvörðun um rétt eða skyldu manna skal beiðni beint til þess stjórnvalds sem tekið hefur eða taka mun ákvörðun í málinu. Annars skuli beiðni beint til þess stjórnvalds sem hefur gögnin í sínum vörslum.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki önnur gögn í höndum sem lúta að því að stjórn Fjármálaeftirlitsins lét af störfum í janúar 2009 en umrætt bréf viðskiptaráðherra. Efni þess gefur til kynna að ráðherra hafi einhliða tekið ákvörðun um starfslok stjórnarinnar. Kröfu um aðgang að umræddu bréfi var því ranglega beint að Fjármálaeftirlitinu. Bar stofnuninni að framsenda erindið til viðskiptaráðuneytisins skv. 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og er sú skylda ennþá virk. Þar sem ekki liggur fyrir ákvörðun bærs stjórnvalds um synjun aðgangs að umræddu bréfi, sbr. 3. mgr. 10. gr. upplýsingalaga, ber að vísa þessum þætti kærunnar frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál í þessu máli. 

 

 4.
Synjun Fjármálaeftirlitsins á beiðni um aðgang að samningi stofnunarinnar við fyrrverandi forstjóra Fjármálaeftirlitsins um starfslok hans byggist á því að í honum komi fram upplýsingar um einka- og fjárhagsmálefni fyrrverandi forstjóra sem eðlilegt og sanngjarnt sé að leynt fari, sbr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Þá hefur fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins sjálfur andmælt því að umrætt gagn verði látið af hendi.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur kynnt sér efni umrædds samnings. Lýtur efni hans fyrst og fremst að uppgjöri launagreiðslna í samræmi við ákvæði ráðningarsamnings frá 19. júlí 2005. Þar kemur einnig fram tilvísun til viðauka við ráðningarsamninginn frá 12. febrúar 2007, um  réttarstöðu forstjóra vegna krafna sem aðilar kunna að beina að honum persónulega í tengslum við störf hans hjá Fjármálaeftirlitinu. Ekki verður talið að í umræddum samningi sé að finna upplýsingar um einkamálefni fyrrverandi forstjóra Fjármálaeftirlitsins sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari skv. 5. gr. upplýsingalaga.

Með hliðsjón af framangreindu ber Fjármálaeftirlitinu að afhenda kæranda afrit af samningi Fjármálaeftirlitsins og Jónasar Fr. Jónssonar, fyrrverandi forstjóra stofnunarinnar, um starfslok þess síðarnefnda, dags. 25. janúar 2009.

 

Úrskurðarorð

Fjármálaeftirlitinu ber að afhenda kæranda, Veturliða Þór Stefánssyni, afrit af ráðningarsamningi stofnunarinnar við Jónas Fr. Jónsson, fyrrverandi forstjóra stofnunarinnar, frá 19. júlí 2005 auk eftirtalinna viðauka við hann:

1) Viðauka frá 12. febrúar 2007, um breytingu á föstum launakjörum forstjóra.
2) Viðauka frá 12. febrúar 2007, um að réttarstöðu forstjóra vegna krafna sem aðilar kunna að beina að honum persónulega í tengslum við störf hans hjá Fjármálaeftirlitinu.
3) Viðauka frá 13. desember 2007, um breytingu á föstum launakjörum forstjóra. 
4) Viðauka frá 27. maí 2008, um breytingu á föstum launakjörum forstjóra.
5) Tillögu sem lögð var fyrir stjórn Fjármálaeftirlitsins í janúar 2009, um breytingu á föstum launakjörum forstjóra.

Fjármálaeftirlitinu ber jafnframt að afhenda kæranda afrit af samningi stofnunarinnar við fyrrverandi forstjóra um starfslok hans, dags. 25. janúar 2009.

Kæru vegna synjunar Fjármálaeftirlitsins á að afhenda afrit af bréfi viðskiptaráðherra til stjórnar stofnunarinnar, dags. 25. janúar 2009, er vísað frá.

 

Friðgeir Björnsson
formaður

 

 Sigurveig Jónsdóttir                                                        Trausti Fannar Valsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum