Hoppa yfir valmynd
27. maí 2009 Forsætisráðuneytið

A 301/2009 Úrskurður frá 4. maí 2009

ÚRSKURÐUR

Hinn 4. maí 2009 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. A-301/2009.

 

 

Kæruefni, málsatvik og málsmeðferð

 

Með bréfi, dags. 18. mars 2009, kærði [...], synjun Seðlabanka Íslands á beiðni hans frá 25. febrúar um að fá aðgang að minnisblaði [A] um símtal hans við forsætisráðherra Íslands. Kemur fram í kærunni að [A] upplýsti um tilvist minnisblaðsins í viðtali við [B].

 

Með bréfi, dags. 20. mars 2009, var Seðlabankanum kynnt kæran og honum gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Jafnframt var óskað eftir því að úrskurðarnefndin fengi afhent afrit af framangreindu skjali í trúnaði. Athugasemdir Seðlabankans bárust úrskurðarnefndinni með bréfi, dags. 27. mars. Þar segir m.a. eftirfarandi:

 

„Seðlabanki Íslands ítrekar, sbr. synjunarbréf til kæranda frá 16. mars sl. að minnisblað það sem fyrrverandi [A] upplýsti í [B] að hann hefði fundið við tiltekt, er persónulegt minnisblað [A] sem hann hefur í vörslum sínum og þar af leiðandi sé ekki unnt að verða við beiðni úrskurðarnefndar um afhendingu þess. Vilji úrskurðarnefnd fá umrætt minnisblað í hendur verði hún að leita til [A].“

 

Úrskurðarnefndin ritaði kæranda bréf, dags. 16. apríl sl., og gaf honum kost á að koma á framfæri frekari athugasemdum vegna kærunnar í ljósi umsagnar Seðlabankans. Svarbréf kæranda er ódagsett en barst úrskurðarnefndinni 20. apríl. Í bréfinu segir m.a. svo:

 

„Hafi [A] haft á brott með sér gögn sem ekki geta á nokkurn hátt talist persónuleg gögn, heldur varða grundvallarþátt í starfsemi bankans, hlýtur bankinn að beita sér fyrir því að slíkum gögnum verði skilað til bankans hið fyrsta, og aðgangur að gögnunum veittur. Vakin er athygli á því að í umsögn Seðlabanka Íslands eru engin rök færð fyrir því að ekki eigi að veita aðgengi að minnisblaðinu, aðeins vísað til þess að bankinn telji það persónuleg gögn fyrrum starfsmanns. Verður því að líta svo á að bankinn telji ekki ástæðu til að meina undirrituðum að fá afrit af minnisblaðinu.

 

Undirritaður telur það ganga þvert gegn ákvæðum upplýsingalaga nr. 50 frá árinu 1996 geti ríkisstofnun á borð við Seðlabanka Íslands lýst því yfir að gögn sem ættu með réttu að heyra undir upplýsingalög séu persónuleg gögn starfsmanns. Í þessu tilviki var vitnað í gögnin opinberlega og þeim lýst sem minnisblaði sem unnið var eftir samtal forsætisráðherra við [A].

 

Undirritaður ítrekar því [...] kröfu um að fá afrit af umbeðnu minnisblaði hið fyrsta.“

 

 Niðurstaða

Í 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. 1. gr. laga nr. 161/2006 segir orðrétt: „Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.–6. gr. Stjórnvöldum er þó ekki skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkari mæli en leiðir af 7. gr.“Af ákvæði þessu leiðir að stjórnvöldum er almennt skylt að veita almenningi aðgang að skjölum og öðrum gögnum í vörslum þeirra.

 

Eins og fram kemur í lýsingu málsatvika hér að framan hefur Seðlabankinn lýst því yfir að hann hafi ekki í vörslum sínum það gagn sem kærandi hefur óskað aðgangs að. Af skýringum Seðlabankans verður jafnframt að draga þá ályktun að umrætt skjal sé ekki heldur að finna í skjalasafni annarra stjórnvalda.

 

Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga er heimilt að bera synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Nefndin getur því aðeins lagt úrskurð á mál að þau gögn, eða að minnsta kosti þær upplýsingar, sem óskað er eftir aðgangi að, séu í vörslum stjórnvalda, eins og það hugtak er skilgreint í 1. gr. upplýsingalaga, sbr. 1. mgr. 3. gr. og 3. mgr. 10. gr. laganna. Vegna þess að hið umbeðna skjal er ekki í vörslum Seðlabankans, svo sem gerð er grein fyrir hér að framan, verður ekki hjá því komist að vísa máli þessu frá úrskurðarnefnd.

 

Tekið skal fram að með úrskurði þessum er ekki leyst úr því hvort Seðlabankanum hafi verið skylt, á grundvelli 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga, að varðveita það skjal sem mál þetta snýst um, t.d. með því að taka af því afrit, enda fellur það álitaefni ekki undir úrskurðarvald nefndarinnar samkvæmt gagnályktun frá 1. mgr. 14. gr. laganna. Í því felst einnig að í úrskurði þessum er ekki tekin til þess bein afstaða hvort kærandi á þess kost að bera álitaefni stjórnsýslu Seðlabankans að þessu leyti undir aðra aðila sem falið er að hafa eftirlit með starfsemi stjórnvalda.

 

 Úrskurðarorð

Kæru [...] frá 18. mars 2009 á hendur Seðlabanka Íslands er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

 

 

 

 

Friðgeir Björnsson

formaður

 

 

                         Sigurveig Jónsdóttir                                                                         Trausti Fannar Valsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum