Hoppa yfir valmynd
19. mars 2009 Forsætisráðuneytið

A 295/2009 Úrskurður frá 19. mars 2009

ÚRSKURÐUR

Hinn 19. mars 2009 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-295/2009.

Kæruefni og málsatvik

Með bréfi, dags. 25. nóvember 2008, kærði [...], afgreiðslu Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík á beiðni hans um upplýsingar og afrit af reikningum vegna heimilissjóðs og fæðispeninga á áfangastaðnum [X]. Umrætt erindi lagði [...] fram fyrir hönd dóttur sinnar sem vistmanns á áfangastaðnum.

Í gögnum málsins kemur fram að með bréfi, dags. 2. október 2008, lét forstöðumaður áfangastaðarins [X], í tilefni af beiðni kæranda, honum skriflega í té tilteknar upplýsingar um ráðstöfun fjármuna úr heimilissjóði áfangastaðarins. Í kjölfarið mun kærandi hafa sent Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík erindi, dags. 14. október 2008, þar sem hann óskaði eftir nánari upplýsingum um þau atriði varðandi heimilissjóð áfangastaðarins sem forstöðumaður hafði greint frá í bréfinu, dags. 2. október 2008. Þá fór kærandi jafnframt fram á að honum yrði afhent afrit af reikningum vegna hvers liðar fyrir sig. 

Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra svaraði erindi kæranda með bréfi, dags. 20. nóvember. Þar er vísað til ákvæðis 4. gr. reglugerðar um búsetu fatlaðra, nr. 296/2002, um hlutverk heimilissjóðs og með vísan til þess ákvæðis bent á að allir þeir liðir sem forstöðumaður áfangastaðarins [X] hafi talið til í skýringum til kæranda falli undir skilgreiningu reglugerðarinnar á því sem heimilissjóði beri að greiða. Þá er vísað til þess í svarinu að framlag íbúa í heimilissjóð þurfi að standa undir kostnaði við rekstur, líkt og almennt gildi um hússjóði. Á hinn bóginn sé ekki gert ráð fyrir að fé safnist upp í sjóðunum og því sé sjálfsagt að endurskoða mánaðargjöld íbúa reglulega. Þá geti íbúar óskað eftir því að fá að skoða bókhaldsgögn heimilissjóðs.   

 

Málsmeðferð

Kærandi beindi máli þessu til úrskurðarnefndar um upplýsingamál með kæru, dags 25. nóvember 2008, eins og áður er fram komið.

Með bréfi, dags. 28. nóvember, var Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík kynnt kæran, gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni í máli kæranda. Jafnframt var óskað eftir að fá afhent í trúnaði afrit af þeim gögnum sem kæran lyti að. Athugasemdir stofnunarinnar, ásamt fylgiskjölum, bárust úrskurðarnefnd um upplýsingamál með bréfi, dags. 3. desember. 

Með bréfi, dags. 8. desember, var kæranda gefinn kostur á að tjá sig um athugasemdir Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra. Í kjölfar símtals kæranda við ritara úrskurðarnefndarinnar var frestur hans til að koma svörum á framfæri framlengdur til mánudagsins 5. janúar 2009. Athugasemdir hans bárust með bréfi sem móttekið var af hálfu úrskurðarnefndarinnar 2. þess mánaðar. Kemur þar fram að óskað sé „eftir skilgreiningu á því í hvað þessir peningar fara, ásamt afritum af kvittunum.“ Kærandi vísar til þess að ársgrundvelli séu útgjöld hvers vistmanns á áfangastaðnum í heimilissjóð 180.000 krónur. Fer hann fram á að fá útskrift með fylgiskjölum fyrir þessari upphæð sem tekin sé mánaðarlega af tekjum dóttur hans. Með bréfi, dags. 19. janúar, óskaði úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir nánari afmörkun á beiðni kæranda.  Í bréfi nefndarinnar segir svo: 

„Við nánari skoðun úrskurðarnefndar um upplýsingamál á kæru yðar og gögnum málsins hefur komið í ljós að ekki er fyllilega ljóst að hverju krafa yðar um beiðni um aðgang að gögnum beinist. Þess er því hér með farið á leit við yður að upplýst verði hvort skilja beri kröfu yðar svo að veitt verði afrit af öllum fylgiskjölum sem tilheyri greiðslum úr heimilissjóði Áfangaheimilisins [X] og ef svo er að þér tilgreinið þá jafnframt til hvaða tímabils sú beiðni taki.“  

Í svari kæranda, dags. 27. janúar, kemur fram að kærandi óskar eftir að fá sundurliðun ásamt kvittunum í hvað þær 15.000 krónur fara sem dregnar séu af dóttur hans mánaðarlega á því tímabili sem hún hefur dvalið á áfangastaðnum [X]. 

Með bréfi, dags. 5. febrúar, var Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík sent afrit af síðastgreindu bréfi kæranda. Óskaði nefndin jafnframt eftir upplýsingum um það hvort í bókhaldi áfangastaðarins [X] væri að finna þær upplýsingar sem kærandi óskaði eftir. Einnig var óskað eftir upplýsingum um það hvort ákveðin gögn lægju fyrir, s.s. rekstrarreikningar heimilissjóðs áfangastaðarins, sem varpað gætu ljósi á fyrirspurnir kæranda. Þá óskaði nefndin eftir upplýsingum þess efnis hvort kæranda stæði til boða að skoða bókhaldsgögn áfangaheimilisins. 

Í svarbréfi svæðisskrifstofunnar, dags. 13. febrúar, segir að í bókhaldi heimilissjóðs áfangastaðarins sé að finna kvittanir fyrir útlögðum kostnaði. Forstöðumaður haldi utan um bókhaldið og geymi möppur með fylgiskjölum. Íbúar geti skoðað bókhaldsgögnin og það gildi einnig um kæranda, hafi hann umboð frá dóttur sinni til þess. Síðan segir þar „... að framlagi íbúa í heimilissjóð sé ætlað að standa undir kostnaði við rekstur líkt og gildir um hússjóði almennt.  Kostnaður [sé] því ekki „eyrnamerktur“ á hvern íbúa og ekki nákvæmlega skilgreint hvaða hluti kostnaðarins tilheyri dóttur [kæranda] ...“ 

Með bréfi, dags. 24. febrúar, var kæranda gefinn kostur á því að gera athugasemdir við umsögn svæðisskrifstofunnar og barst nefndinni umsögn kæranda með bréfi, dags. 25. febrúar.

 

Niðurstaða

Í 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. 1. gr. laga nr. 161/2006, segir orðrétt: „Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.–6. gr. Stjórnvöldum er þó ekki skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkari mæli en leiðir af 7. gr.“ Í 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga kemur enn fremur fram að stjórnvöldum sé skylt að veita aðila sjálfum aðgang að skjölum og öðrum gögnum sem varði tiltekið mál, ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan.

Í 10. gr. upplýsingalaga, sbr. 2. gr. laga nr. 161/2006, kemur fram að sá sem fer fram á aðgang að gögnum skuli tilgreina þau gögn máls sem hann óski að kynna sér. Þá geti hann óskað eftir að fá að kynna sér öll gögn um tiltekið mál án þess að tilgreina einstök gögn sem málið varða. Af framangreindu leiðir að réttur til upplýsinga á grundvelli 3. og 9. gr. upplýsingalaga tekur einvörðungu til gagna sem fyrir liggja þegar um þau er beðið og tilheyra ákveðnu máli en leggur ekki á stjórnvöld skyldu til að útbúa ný gögn sem ekki eru fyrirliggjandi þegar eftir þeim er leitað.

Kærandi hefur afmarkað beiðni sína þannig að hann óski aðgangs að sundurliðun á útgjöldum heimilissjóðs áfangastaðar að [X] ásamt kvittunum sem sýni í hvað þær 15.000 krónur fara sem dregnar eru af dóttur hans mánaðarlega á því tímabili sem hún hefur dvalið á áfangaheimilinu [X]. Af skýringum kæranda í máli þessu leiðir að í beiðni hans felst ósk um aðgang að upplýsingum um ráðstöfun þeirrar fjárhæðar sem dóttir hans greiðir í heimilissjóð áfangaheimilisins sérstaklega. Í svörum svæðisskrifstofunnar, dags. 13. febrúar 2009, kemur á hinn bóginn fram að kostnaður sé ekki „eyrnamerktur“ hverjum íbúa og því liggi ekki fyrir nákvæmlega skilgreint hvaða hluti kostnaðarins tilheyri dóttur kæranda.

Þær upplýsingar sem kærandi hefur óskað aðgangs að í máli þessu eru því ekki fyrirliggjandi í tilteknum gögnum hjá viðkomandi stjórnvöldum. Getur kærandi því ekki átt rétt til þeirra á grundvelli upplýsingalaga nr. 50/1996, enda leggja þau lög ekki þá skyldu á herðar stjórnvöldum að taka saman upplýsingar sem ekki eru fyrirliggjandi þegar beiðni um aðgang berst. Af þessu leiðir að í máli þessu liggur ekki fyrir synjun stjórnvalds á að veita aðgang að gögnum samkvæmt upplýsingalögum, sbr. 14. gr. laganna. Ber því að vísa kærunni frá úrskurðarnefndinni.

Af gefnu tilefni skal tekið fram að í þessu felst ekki afstaða úrskurðarnefndarinnar til þess hvort kærandi eigi rétt á að skoða bókhaldsgögn vegna heimilissjóðs áfangastaðarins að [X]. Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra í Reykjavík hefur lýst þeirri afstöðu undir rekstri kærumálsins að slíkt standi kæranda til boða gegn framvísun umboðs frá dóttur hans. Þá leiðir af hlutverki úrskurðarnefndarinnar, eins og það er afmarkað í lögum, að henni er heldur ekki ætlað að taka til þess afstöðu hvort kærandi eigi rétt á að fá frá stjórnvöldum ítarlegri rökstuðning en hann hefur þegar fengið fyrir því hvernig þeirri fjárhæð sem dóttur hans er gert að greiða í umræddan heimilissjóð er varið.

 

Úrskurðarorð

Kæru [...] frá 25. nóvember 2008 á hendur Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

 


Friðgeir Björnsson
formaður

 


                                                 Sigurveig Jónsdóttir                                 Trausti Fannar Valsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum