Hoppa yfir valmynd
18. júní 2008 Forsætisráðuneytið

A 280/2008 Úrskurður frá 4. júní 2008

 

 

 

ÚRSKURÐUR

 

Hinn 4. júní 2008 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu A-280/2008.

 

Kæruefni og málsatvik

Með bréfi, dags. 7. apríl 2008, kærði [A] synjun Byggðastofnunar á beiðni hans um aðgang að fundargerð og fleiri gögnum vegna lánveitingar Byggðastofnunar til sjávarútvegsfyrirtækisins [B] ehf.

Atvik málsins eru í stuttu máli þau að 25. mars 2008 ritaði kærandi tölvupóst til Byggðastofnunar. Þar óskaði hann eftir afriti af fundargerð stjórnar Byggðastofnunar frá fundi þar sem stjórnin ákvað að veita sjávarútvegsfyrirtæki á [Sveitarfélaginu X], [B] ehf., lán. Í erindinu vísaði kærandi til þess að umrædd  lánveiting hefði verið veitt þá um veturinn. Einnig óskaði kærandi eftir aðgangi að umsögn lánanefndar Byggðastofnunar um lánaumsókn fyrirtækisins. Svar barst kæranda með tölvupósti forstöðumanns lögfræðisviðs Byggðastofnunar, dags. 1. apríl 2008. Þar segir m.a. svo: „Starfsmenn Byggðastofnunar eru í störfum sínum bundnir þagnarskyldu sbr. 18. gr. laga nr. 106/1999 um Byggðastofnun og 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

Í umsögn lánanefndar er að finna margvíslegar fjárhagslegar upplýsingar um umsækjanda sem eðlilegt hlýtur að telja að leynt fari og er í því sambandi vísað til ofangreindra ákvæða um þagnarskyldu sem og ákvæða 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Umsögn lánanefndar er ennfremur vinnuskjal sem fellur undir 3. tl. 4. gr. upplýsingalaga og er þannig undanþegið upplýsingarétti.

Á fundi stjórnar Byggðastofnunar, 6. febrúar 2008, þegar lánveitingin til [B] ehf. var samþykkt, var einungis eitt mál á dagskrá fundarins, lánveitingin til [B] ehf. Í fundargerðinni koma fram viðkvæmar viðskipta- og fjárhagsupplýsingar um umsækjanda sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, sbr. ákvæði 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 og áðurnefnd ákvæði um þagnarskyldu.“

Með vísan til framangreindra raka var beiðni kæranda  synjað.

 

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 14. apríl 2008, var kæran kynnt Byggðastofnun og henni gefinn frestur til 22. sama mánaðar til að koma á framfæri frekari rökum fyrir ákvörðun sinni og til að láta nefndinni í té afrit af öllum gögnum málsins. Svar Byggðastofnunar barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál með bréfi, dags. 28. apríl. Í því svari eru þær röksemdir sem kæranda höfðu áður verið látnar  í té áréttaðar. Úrskurðarnefndin veitti kæranda kost á að tjá sig um svar stofnunarinnar með bréfi, dags. 5. maí 2008. Frestur var veittur til 21. maí. Athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða

1.

Kærandi hefur afmarkað beiðni sína um aðgang að gögnum við afrit af fundargerð stjórnar Byggðastofnunar þegar stjórnin ákvað að veita sjávarútvegsfyrirtæki á [Sveitarfélaginu X], [B] ehf., lán annars vegar og umsögn lánanefndar um lánsumsókn fyrirtækisins hins vegar. Þessi tvö skjöl hefur Byggðstofnun afhent úrskurðarnefndinni. 

Til stuðnings synjunar á beiðni kæranda hefur Byggðastofnun í fyrsta lagi vísað til þagnarskylduákvæða í lögum nr. 106/1999, um Byggðastofnun, og lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Í öðru lagi vísar hún til þess að um sé að ræða upplýsingar sem falli undir 5. gr. upplýsingalaga og í þriðja lagi til þess að umsögn lánanefndar í málinu sé vinnuskjal í skilningi 3. tölul. 4. gr. upplýsingalaga. Er í máli þessu ekki þörf á sérstakri umfjöllun um inntak þeirra þagnarskylduákvæða sem Byggðastofnun hefur vísað til í málinu nema synjun hennar á aðgangi að gögnum teljist ekki hafa verið réttilega byggð á ákvæðum 5. gr. upplýsingalaga eða á 3. tölul. 4. gr. sömu laga. Kæmi í því tilviki til skoðunar hvort þagnarskylduákvæði laga nr. 106/1999 og 161/2002 gangi lengra í takmörkun upplýsingaréttar en ákvæði upplýsingalaganna.

 

2.

Í 5. gr. upplýsingalaga segir orðrétt svo: „Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða  viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.“ Í athugasemdum er fylgdu frumvarpi til upplýsingalaga er m.a.  tekið fram til skýringar á niðurlagsákvæði greinarinnar að óheimilt sé að veita almenningi viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu fyrirtækja.

Úrskurðarnefndin  hefur kynnt sér efni þeirra tveggja skjala sem um ræðir, þ.e. fundargerð stjórnar Byggðastofnunar frá 6. febrúar 2008 og umsögn lánanefndar stofnunarinnar um lánveitingu til [B] ehf., dags. sama dag. Fellst nefndin á það sjónarmið Byggðastofnunar að bæði þessi skjöl innihaldi upplýsingar um svo mikilvæga fjárhagshagsmuni einkafyrirtækis að sanngjarnt sé og eðlilegt að þær fari leynt, sbr. 5. gr. upplýsingalaga. Er hér um að ræða ítarlegar upplýsingar um rekstur og fjárhagsstöðu, stöðu lána og rekstrarlegar ákvarðanir fyrirtækisins. Umræddar upplýsingar er að finna svo víða í báðum skjölunum að ekki er fært að veita aðgang að hluta þeirra skv. 7. gr. upplýsingalaga.

Með vísan til framangreinds er hvorki þörf á að úrskurðarnefndin taki afstöðu til þess hvort umsögn lánanefndar í málinu sé vinnuskjal í skilningi 3. tölul. 4. gr. upplýsingalaga né hvort synjun Byggðastofnunar eigi sér stoð í þagnarskylduákvæðum laga nr. 106/1999 og nr. 161/2002.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Byggðastofnunar frá 1. apríl 2008 um synjun á beiðni kæranda um  aðgang að gögnum  er staðfest.

 

 

Friðgeir Björnsson,

formaður

 

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                      Trausti Fannar Valsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum