692/2017. Úrskurður frá 6. júlí 2017

Kæru vegna synjunar á aðgangi að gögnum í vörslum Langanesbyggðar var vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál þar sem sveitarfélagið afhenti kæranda gögnin eftir að kæra barst.

Úrskurður

Hinn 6. júlí 2017 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 692/2017 í máli ÚNU 17020007.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 21. febrúar 2017, kærði A, blaðamaður, synjun Langanesbyggðar á afhendingu gagna sem úrskurðarnefnd um upplýsingamál úrskurðaði að sveitarfélaginu bæri að afhenda í úrskurði sínum nr. 662/2016 frá 30. nóvember 2016. Kærandi lagði fram beiðni um afhendingu gagnanna þann 28. desember 2016 og ítrekaði beiðnina þann 2. febrúar 2017. Sama dag barst bréf frá lögmanni Langanesbyggðar þar sem kæranda var tilkynnt að þar sem gögnin hafi ekki enn verið afhent aðila málsins væri ekki unnt að afgreiða beiðnina að svo stöddu. Í kæru er þess krafist að úrskurðarnefnd um upplýsingamál leggi fyrir Langanesbyggð að afhenda strax umbeðin gögn.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 1. mars 2017, var kæran kynnt Langanesbyggð og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana og frekari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni. Með bréfi dags. 3. maí bárust þær skýringar frá Langanesbyggð að kærandi hafi fengið öll gögn afhent þann 22. febrúar 2017 og því væri ekki grundvöllur fyrir kærunni. Með bréfi dags. 8. maí 2017 var kæranda tilkynnt að þar sem aðgangur að umbeðnum gögnum hafi verið veittur yrði málið fellt niður hjá nefndinni nema rökstudd beiðni bærist frá kæranda um að meðferð þess yrði fram haldið. Kærandi mótmælti því að málið yrði fellt niður með bréfi, dags. 24. maí. Kærandi segir Langanesbyggð ítrekað hafa synjað ósk um afhendingu gagna sem úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafi þó úrskurðað um að skyldu afhendast. Þar með hafi sveitarfélagið brotið gegn ákvæðum upplýsingalaga um aðgang almennings að upplýsingum.

Kærandi byggir jafnframt á því að Langanesbyggð hafi brotið gróflega ákvæði upplýsingalaga um málshraða. Langanesbyggð hafi allt fram til 21. febrúar 2017 ekki haft í hyggju að fara að upplýsingalögum. Rök Langanesbyggðar hafi verið algerlega ómálefnaleg. Kærandi hafi sent ítrekaðar beiðnir og áskoranir um afhendingu gagnanna og því hafi ekki verið önnur leið fær en að leita ásjár úrskurðarnefndarinnar. Kærandi telur það sérstaklega ámælisvert af hálfu lögmanns sveitarfélagsins að draga upp þá röngu mynd af atburðarásinni að kæra hafi borist eftir að sveitarfélagið afhenti gögnin. Því fari fjarri að kæran hafi verið lögð fram af tilefnislausu. Kærandi telur ótækt að aðilar í stjórnsýslunni temji sér þau vinnubrögð að tefja afhendingu gagna að eigin geðþótta með því að láta þau ekki af hendi fyrr en kæra kemur fram. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál ætti að leggja sitt lóð á vogarskálarnar til að koma í veg fyrir að þetta verði viðteknir starfshættir. Í ljósi þessa telur kærandi mikilvægt að úrskurðarnefnd um upplýsingamál staðfesti með formlegum hætti að Langanesbyggð hafi í reynd gerst brotleg við upplýsingalög með framgöngu sinni í þessu máli.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að afgreiðslu Langanesbyggðar á beiðni kæranda um aðgang að gögnum sem sveitarfélaginu var gert skylt að veita aðgang að með fyrri úrskurði nefndarinnar með vísan til 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Fyrir liggur að sveitarfélagið afhenti kæranda umbeðin gögn eftir að kærandi lagði fram kæru til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er heimilt að kæra til úrskurðarnefndar um upplýsingamál synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum samkvæmt lögunum. Sama gildir um synjun stjórnvalds á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Þá leiðir af 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að til nefndarinnar er einnig heimilt að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu beiðni um upplýsingar samkvæmt lögum um upplýsingarétt almennings. Eins og staða málsins er nú verður ekki séð að fyrir liggi ágreiningur um framangreind atriði og af þeim sökum verður ekki hjá því komist að vísa kærunni frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kæru A, blaðamanns, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson

Til baka Senda grein