681/2017. Úrskurður frá 26. apríl 2017

Deilt var um aðgang fjölmiðils að starfslokasamningi sem Kirkjuráð gerði við fyrrverandi framkvæmdastjóra ráðsins. Úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að samningurinn hefði að geyma upplýsingar um föst launakjör starfsmannsins og tilhögun starfsloka, sem almenningur ætti rétt á aðgangi að samkvæmt 2. mgr. 7. gr. upplýsingalaga. Því bæri Kirkjuráði að veita kæranda aðgang að samningnum.

Úrskurður

Hinn 26. apríl 2017 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 681/2017 í máli ÚNU 16110005.  

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 10. nóvember 2016, kærði A, blaðamaður, synjun Kirkjuráðs, dags. 23. september 2016, á beiðni um aðgang að starfslokasamningi Kirkjuráðs við fyrrverandi framkvæmdastjóra þess. Í kæru krefst kærandi þess að fá aðgang að starfslokasamningnum. 

Málsmeðferð

Með bréfi dags. 14. nóvember 2016 var Kirkjuráði kynnt kæran og veittur frestur til að koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði látið í té afrit af þeim gögnum sem kæran lyti að.  

Í umsögn Kirkjuráðs, dags. 29. nóvember 2016, er tekið fram að gögn þau sem kærandi krefjist aðgangs varði starfssamband fyrrum framkvæmdastjóra í skilningi 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og séu því undanþegin upplýsingarétti skv. 5. tölulið 6. gr. laganna. Jafnframt vísaði Kirkjuráð til 9. gr. upplýsingalaga. Kirkjuráð taldi að þær upplýsingar sem fram koma í gögnunum varði mikilvæg einkamálefni þess starfsmanns sem í hlut á, sem sanngjarnt sé að fari leynt.  

Niðurstaða

1.

Mál þetta varðar rétt fjölmiðils til aðgangs að starfslokasamningi sem Kirkjuráð gerði við fráfarandi framkvæmdastjóra þann 23. september 2016. Samningurinn, sem er í átta liðum auk formála, kveður á um réttindi og skyldur aðila tímabilið 20. september 2016 til 30. september 2017.  

2.

Í hinni kærðu ákvörðun er byggt á því að þar sem umbeðin gögn varði starfslok framkvæmdastjóra Kirkjuráðs falli þau undir 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga og séu því undanþegin upplýsingarétti skv. 5. tl. 6. gr. laganna. Þá er vísað til þess að upplýsingarnar sem fram koma í umbeðnum gögnum varði mikilvæg einkamálefni þess starfsmanns sem í hlut á, sem sanngjarnt er að leynt fari.  

Í 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga kemur fram að sé þess óskað sé skylt að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varði tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.-10. gr. laganna. Þá kveður 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga á um að réttur almennings til aðgangs að gögnum taki almennt ekki til upplýsinga um þau málefni starfsmanna þeirra aðila sem falla undir ákvæði laganna, sem lúta að umsóknum um störf, framgangi í starfi eða starfssambandið að öðru leyti. Í annarri málsgrein sama ákvæðis eru síðan ákveðnar og skýrt afmarkaðar undanþágur frá þessari reglu vegna starfsmanna stjórnvalda. Þar er m.a. kveðið á um að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 7. gr. sé skylt að veita upplýsingar um föst launakjör annarra starfsmanna en æðstu stjórnenda, sbr. 3. tl. annarrar málsgreinar. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að 7. gr. upplýsingalaga kemur fram að með föstum launakjörum sé „m.a. átt við ráðningarsamninga og aðrar ákvarðanir eða samninga sem kunna að liggja fyrir um föst laun starfsmanns. Rétturinn til aðgangs nær þannig til gagna sem geyma upplýsingar um allar fastar greiðslur sem starfsmaðurinn á rétt til.“

3.

Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér efni starfslokasamnings Kirkjuráðs við fyrrverandi framkvæmdastjóra þess. Lýtur efni hans að því hvernig starfslokum skuli háttað ásamt upplýsingum um fyrirkomulag fastra launagreiðslna. Því er um að ræða upplýsingar sem almenningur á rétt til aðgangs að samkvæmt því sem rakið var hér að framan, sbr. einnig úrskurði úrskurðarnefndarinnar nr. 632/2016 og A-303/2009. 

Í ljósi framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að Kirkjuráði beri að afhenda kæranda starfslokasamning Kirkjuráðs við fyrrverandi framkvæmdastjóra ráðsins.  

Úrskurðarorð:

Kirkjuráði ber að veita kæranda, A, aðgang að starfslokasamningi sem gerður var við fráfarandi framkvæmdastjóra þann 20. september 2016.

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson

Til baka Senda grein