Hoppa yfir valmynd
21. febrúar 2024 Forsætisráðuneytið

1173/2024. Úrskurður frá 21. febrúar 2024

Hinn 21. febrúar 2024 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1173/2024 í máli ÚNU 24010023.
 

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Hinn 24. janúar 2024 barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæra frá A. Í kærunni, dags. 21. janúar sama ár, er því lýst að kærandi hafi beðið Sýslumanninn í Vestmannaeyjum um aðgang að nánar tilgreindum þinglýstum lóðarleigusamningi. Embættið hafi kveðið að samningurinn lægi ekki fyrir en bent kæranda á að beina erindi sínu til landeiganda, sem væri Vestmannaeyjabær. Af þessu til­efni hafi kærandi sett sig í samband við dómsmálaráðuneyti og beðið um athugun á því hvers vegna þing­lýsingar finnist ekki hjá Sýslumanninum í Vestmannaeyjum og hvort það væru eðlileg vinnu­brögð að beina skyldi beiðni um þinglýst gögn til Vestmannaeyjabæjar. Ráðuneytið hefði hins vegar ekki svar­að erindi kæranda.
 
Kæru fylgdi ekki afrit af erindi til dómsmálaráðuneytis og fór úrskurðarnefndin því þess á leit við kær­anda að hann léti það nefndinni í té. Kærandi brást ekki við þeirri beiðni kæranda. Úrskurðar­nefnd­in kynnti þá kæruna fyrir ráðuneytinu, dags. 29. janúar 2024. Í erindi nefndarinnar var óskað eftir upplýsingum um hvort erindið hefði borist ráðuneytinu og ef svo er, hvort það hefði verið afgreitt.
 
Í svari ráðuneytisins, dags. 12. febrúar 2024, kom fram að erindi þess efnis sem kærandi tilgreindi væri ekki að finna í málaskrá ráðuneytisins og virtist því sem það hefði ekki borist ráðuneytinu. Ráðuneytið hefði gert kæranda viðvart um þetta.
 

Niðurstaða

Af 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, leiðir að heimilt er að kæra til úrskurðarnefndar um upp­lýsingamál óhæfilegan drátt á afgreiðslu beiðni samkvæmt upplýs­inga­lögum. Þá er samkvæmt 3. mgr. 17. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, heim­ilt að vísa máli til úrskurðarnefndarinnar ef beiðni um aðgang að gögnum hefur ekki verið af­greidd innan 30 virkra daga frá móttöku hennar. Af kæru er ljóst að kærandi telur óhæfilegan drátt hafa orðið á afgreiðslu erindis síns til dómsmálaráðuneytis. Ráðu­neytið vísar til þess að erindið finnist ekki í málaskrá þess og að það virðist ekki hafa borist ráðu­neytinu. Ráðuneytið hefur gert kæranda viðvart um þetta. Úrskurðarnefndin hefur ekki forsendur til að draga þá staðhæfingu í efa.
 
Í gögnum máls­ins liggur ekki fyrir hvenær erindi kæranda á að hafa verið sent ráðuneytinu, þannig að óljóst er hvort kæruheimild til nefndarinnar byggist á 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga eða 3. mgr. 17. gr. upp­lýsingalaga. Þar sem byggja verður á því að erindi kæranda hafi ekki borist ráðuneytinu er ekki hægt að líta svo á að óhæfilegur dráttur hafi orðið á af­greiðslu á erindis hans. Samkvæmt framangreindu verður kærunni vís­að frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
 

Úrskurðarorð

Kæru A, dags. 21. janúar 2024, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
 
 
Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum