Hoppa yfir valmynd
23. desember 2014 Forsætisráðuneytið

564/2014. Úrskurður frá 17. desember 2014

Úrskurður

Hinn 17. desember kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. A-564/2014 í máli ÚNU 14080003.
 

Kæra og málsatvik

Með erindi 8. ágúst 2014 kærði A afgreiðslu forsætisráðuneytisins sama dag á beiðni hennar um aðgang að minnisblaði ráðherranefndar um ríkisfjármál, sem mun hafa verið lagt fram á ráðherrafundi 21. febrúar 2012 og fjallað um mögulega sölu á ríkisfyrirtækjum.  

Í gögnum málsins kemur fram að kærandi óskaði 27. júlí 2014 eftir aðgangi að umræddu minnisblaði og að beiðninni var synjað 8. ágúst 2014. Í kæru kemur fram að kærandi sé blaðamaður og að tilefni beiðninnar hafi verið að fjalla um tiltekið málefni á opinberum vettvangi. Skipti það almannahag máli að fá upplýsingar um það efni sem kærandi hygðist fjalla um. Í synjun forsætisráðuneytisins kemur fram að hún sé reist á 1. tölulið 6. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, enda séu gögn ráðherranefnda undanþegin upplýsingarétti almennings. 

Málsmeðferð

Með bréfi 13. ágúst 2014 var forsætisráðuneytinu gefinn kostur á að veita úrskurðarnefndinni umsögn um kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun. Ráðuneytið brást við erindinu með bréfi 29. sama mánaðar. Ítrekað var að synjun ráðuneytisins styddist við 1. tölulið 6. gr. upplýsingalaga. Að auki var bent á að stjórnvöld væru ekki skyldug til að taka afstöðu til aukins aðgangs sbr. 11. gr. upplýsingalaga þegar um slík gögn væri að ræða. Upplýsingabeiðni kæranda lyti skýrlega að skjali í vörslum stjórnvalda sem undanþegið væri upplýsingarétti almennings samkvæmt upplýsingalögum óháð efni þess. 

Með bréfi 8. september 2014 var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við umsögn forsætisráðuneytisins. Slíkar athugasemdir bárust ekki.  

Niðurstaða

Í beiðni kæranda frá 27. júlí 2014 var óskað aðgangs að minnisblaði ráðherranefndar um ríkisfjármál sem mun hafa verið lagt fram á ráðherrafundi 21. febrúar 2012 og fjallaði um mögulega sölu á ríkisfyrirtækjum. Beiðni kæranda er reist á 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 um upplýsingarétt almennings. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til upplýsingalaga kemur fram að ekki skipti máli hvert sé tilefni þess að óskað er aðgangs að gögnum á grundvelli þess. Hefur það því ekki sérstaka þýðingu við úrlausn málsins að kærandi sé blaðamaður og hyggist fjalla um málefni sem varði almannahag.   

Aðgangur samkvæmt 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga lýtur takmörkunum sem meðal annars er kveðið á um í 1. tölulið 6. gr. laganna, en ráðuneytið synjaði beiðni kæranda á þeim grundvelli. Samkvæmt því ákvæði tekur réttur almennings til aðgangs að gögnum ekki til fundargerða ríkisráðs og ríkisstjórnar, minnisgreina á ráðherrafundum og gagna sem tekin hafa verið saman fyrir slíka fundi. Í skýringum forsætisráðuneytisins kemur fram að hið umbeðna gagn hafi verið tekið saman fyrir nefnd ráðherra eða ráðherrafund í skilningi 1. töluliðar 6. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki forsendur til þess að draga þær skýringar í efa. Með vísan til þessa verður staðfest ákvörðun ráðuneytisins um að synja beiðni kæranda um aðgang að minnisblaðinu. 

Úrskurðarorð

Staðfest er synjun forsætisráðuneytisins um aðgang kæranda að minnisblaði ráðherranefndar um ríkisfjármál sem lagt var fram á ráðherrafundi 21. febrúar 2012 um mögulega sölu á ríkisfyrirtækjum. 


Hafsteinn Þór Hauksson, formaður

Sigurveig Jónsdóttir          

Friðgeir Björnsson






Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum