Hoppa yfir valmynd
9. maí 2014 Forsætisráðuneytið

A-526/2014. Úrskurður frá 5. maí 2014

Úrskurður

Hinn 5. maí 2014 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. A-526/2014 í máli ÚNU 13120006.

Kæra

Þann 2. desember 2013 barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæra frá A vegna synjunar Tryggingastofnunar ríkisins (TR) á að verða við beiðni hans um gögn „..um þjónustuhlutverk Tryggingastofnunar ríkisins í tilflutningi peningasendinga frá launþegum yfir til atvinnurekenda, frá bankareikningum og úr bókhaldi þeirra, og yfir til bankareikninga Innheimtustofnunar sveitarfélaga á Ísafirði og í Reykjavík og frá þeim bankareikningum yfir til bankareiknings Tryggingastofnunar í Reykjavík“. 

Í kærunni segir m.a.: 

„Hér á Tryggingastofnun í raun aðeins að staðfesta ætlaðar útreiknaðar upphæðir áranna 2007 til 2012 á peningaflutningum sem meðlagsgreiðendur ætla að sé 63.738.492,- þúsund milljónir fyrir tímabilið sem fara hér í mikið ferðalag um stjórnsýslukerfið til að börn meðlagsgreiðenda fái mjólk að drekka og brauð að borða. Farið er fram á upplýsingar um skilaskýrslur frá Innheimtustofnun og fjárhæð sendra peningaupphæða og dagsetningu peningatilfærslunnar frá Innheimtustofnun til Tryggingastofnunar til að geta metið vaxtatekjur Innheimtustofnunar á Ísafirði og í Reykjavík. Það eru meðlagsgreiðendur sem eiga þessa peninga ekki starfsmenn Innheimtustofnunar eða stjórn Innheimtustofnunar, og til að meta vaxtatekjur þessar, sem komnar frá hagnaði af rekstri Innheimtustofnunar, á innheimtu þjónustugjaldi frá meðlagsgreiðendum.“

Með kærunni fylgdi afrit af ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 29. nóvember 2013. Þar er vísað til þess að umræddar upplýsingar séu ekki til hjá TR, en þær séu til hjá Innheimtustofnun sveitarfélaga. 

Í ákvörðun Tryggingastofnunar segir m.a.: „…þær upplýsingar sem Tryggingastofnun sendir Innheimtustofnun eru um upphafstíma greiðslna, hver sé viðtakandi meðlagsgreiðslna, hver sé meðlagsgreiðandi og með [hvaða] börnum sé greitt. Einnig fær Innheimtustofnun afrit af þeirri meðlagsákvörðun sem Tryggingastofnun greiðir samkvæmt og getur þá verið um að ræða úrskurð sýslumanns, samning staðfestan af honum, dóm eða dómsátt.“

Málsmeðferð

Kæran var send Tryggingastofnun ríkisins (TR) til athugasemda með bréfi, dags. 9. desember 2013. Umsögn TR barst með bréfi, dags. 16. janúar 2014. Í því segir m.a.:

„Málavextir eru þeir að Tryggingastofnun barst tölvupóstur frá kæranda þann 24. nóvember 2013 þar sem kærandi óskaði eftir upplýsingum úr skilaskýrslum Innheimtustofnunar sveitarfélaga á innsendum meðlagsgreiðslum til Tryggingastofnunar fyrir árin 2007 til 2012. Einnig óskaði kærandi eftir að fá upplýst hvaða upplýsingar Tryggingastofnun sendir til Innheimtustofnunar um meðlagsgreiðendur og umboð Tryggingastofnunar til Innheimtustofnunar til að taka að sér innheimtu meðlagsskuldar einstaklings og hver sé uppruni þessara skjala. Tryggingastofnun svaraði kæranda með tölvupósti 29. nóvember 2013 …[…] Þá skal það tekið fram að þar sem Innheimtustofnun endurgreiðir Tryggingastofnun þegar greidd meðlög að fullu óháð greiðslum meðlagsgreiðenda, sbr. 3. gr. laga um Innheimtustofnun sem vísað er í hér að framan, þá hefur Tryggingastofnun ekki umbeðnar upplýsingar.“

Umsögn TR var send kæranda til athugasemda með bréfi úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 22. janúar 2014. Svar hans barst með bréfi, dags. 14. febrúar 2014. Þar segir:

„…Hjálagt sendist úrskurðarnefnd um upplýsingamál í myndriti eintak af því gagni sem farið er fram á að Tryggingastofnun útfylli og sendi undirrituðum og úrskurðarnefnd um upplýsingamál fyrir árin 2007 til 2012. Þetta eru opinber gögn í umferð milli Tryggingastofnunar ríkisins og Innheimtustofnunar sveitarfélaga um heildargreiðslur meðlagsgreiðenda á mánuði út almanaksárið. Þetta er uppgjör ársins.“

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál sendi tölvubréf til TR, dags. 18. febrúar 2014, vísaði til bréfs Tryggingastofnunar, dags. 16. janúar sl., og spurði hvort sá skilningur hennar á málinu væri að erindi kæranda væri tvíþætt. Annars vegar væri beðið um gögn með upplýsingum úr skilaskýrslum Innheimtustofnunar sveitarfélaga til Tryggingastofnunar fyrir árin 2007 til 2012. Hins vegar væri spurt hvaða gögn Tryggingastofnun sendi til Innheimtustofnunar um meðlagsgreiðendur og hvaða umboð Tryggingastofnun veitti Innheimtustofnun til að annast innheimtu meðlagsskulda. Tryggingastofnun hefði þegar svarað fyrirspurninni en gæti ekki orðið við gagnabeiðninni þar sem hún hefði gögnin ekki undir höndum.

Í svari sem nefndinni barst hinn 19. febrúar 2014 segir: „Ég staðfesti að skilningur þinn á þessu er réttur.  Tryggingastofnun svaraði seinni fyrirspurn kæranda í tölvupósti dags. 29. nóvember 2013 og hvað varðar fyrri fyrirspurn kæranda þá hefur Tryggingastofnun ekki umbeðnar upplýsingar þar sem Innheimtustofnun endurgreiðir Tryggingastofnun að fullu það meðlag sem stofnunin greiðir meðlagsmóttakendum óháð því hvað innheimtist hjá meðlagsgreiðendum.“

Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til þess að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila en gert hefur verið. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess. 

Niðurstaða

Mál þetta er tvíþætt. Það varðar í fyrsta lagi beiðni A um svar við spurningu um „hvaða upplýsingar Tryggingastofnun sendir til Innheimtustofnunar um meðlagsgreiðendur og umboð Tryggingastofnunar til Innheimtustofnunar til að taka að sér innheimtu meðlagsskuldar einstaklings og hver sé uppruni þessara skjala“. Tryggingastofnun ríkisins kveðst hafa svarað þessari spurningu og því hefur ekki verið mótmælt af kæranda. Er þannig ekki fyrir hendi ágreiningur um þennan þátt málsins og verður ekki fjallað frekar um hann.

Í öðru lagi varðar málið beiðni A um gögn með upplýsingum úr skilaskýrslum Innheimtustofnunar sveitarfélaga til Tryggingastofnunar um meðlagsgreiðslur árin 2007-2012. Kærandi hefur, í bréfi sínu dags. 14. janúar 2014, útskýrt að hann vilji að Tryggingastofnun fylli út tiltekið eyðublað. Samkvæmt bréfi Tryggingastofnunar ríksins, dags. 16. janúar 2014, býr hún hins vegar ekki að þeim upplýsingum sem þarf til þess, þar sem Innheimtustofnun sundurgreini ekki þær greiðslur komi frá meðlagsgreiðendum sjálfum annars vegar og þær greiðslur sem komi frá hinu opinbera hins vegar. 

Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er stjórnvaldi skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum um tiltekið mál. Ekki er skylt að útbúa ný skjöl eða gögn í ríkari mæli en leiðir af 3. mgr. Í athugasemdum við 5. gr. í því frumvarpi er varð að lögum nr. 140/2012 segir að gagn teljist ekki hafa verið fyrirliggjandi nema það hafi verið til þegar beiðni um aðgang að því kom fram. 

Á því verður að byggja að hjá Tryggingastofnun sé ekki til skjal með þeim upplýsingum sem kærandi fer fram á. Kæruheimild 20. gr. upplýsingalaga nr.140/2012 nær til skjala sem synjað hefur verið um aðgang að og eðli máls samkvæmt þurfa þau að hafa verið til þegar beiðni um aðgang að þeim kom fram. Þar sem þetta kæruskilyrði er ekki uppfyllt verður ekki fjallað frekar um þennan þátt málsins fremur en þann þátt kærunnar sem lýst er í upphafi niðurstöðu þessarar.

Með vísan til framangreinds eru ekki skilyrði fyrir kæru til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Hún hefur af því tilefni ákveðið að vísa málinu frá.

Úrskurðarorð

Kæru A, dags. 2. desember 2013, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.


Hafsteinn Þór Hauksson, formaður

Erna Indriðadóttir          

Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum