Hoppa yfir valmynd
17. febrúar 2014 Forsætisráðuneytið

A-518/2014. Úrskurður frá 13. febrúar 2014

Úrskurður

Hinn 13. febrúar 2014 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. A-518/2014 í máli ÚNU 13100006.

Kæra

Þann 30. október 2013, kærði [A] til úrskurðarnefndar um upplýsingamál afgreiðslu Tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu á erindi hans. Í kæru sagði: 

„Þar sem ekki hafa fengist nein svör frá því óskað var eftir gögnum þann 3. okt. sl., varðandi [það] að fá afrit af reikningum yfir læknadaga 2012 og 2013 frá Tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu, er litið á það sem synjun og óskað eftir úrskurði með fá þessi gögn.“ Með kærunni fylgdi afrit af beiðni sem kærandi hafði sent Hörpu hinn 3. október. Í henni segir: „Óskað er eftir staðfestum afritum af reikningum yfir hina svonefndu læknadaga sem haldnir voru í Hörpu dagana frá 21. til 25. janúar 2013, þá er einnig óskað eftir staðfestum afritum af reikningum yfir læknadaga sem haldnir voru dagana frá 16. til 20. janúar 2012. Þar sem að greitt var fyrir fleiri en einn sal, veitingar o.s.frv., er óskað eftir staðfestum afritum af öllum þessum reikningum yfir þessa læknadaga svo að hægt sé að gera samanburð á styrktaraðilum læknadaga 2012 og 2013.“

Málsmeðferð

Kæran var send Tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu til umsagnar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 4. nóvember 2013.

Umsögn [B] hdl., fyrir hönd Hörpu – tónlistar- og ráðstefnuhúss, er dags. 19. nóvember 2013. Í henni segir m.a.:

„Vísað er til erindis úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 4. október 2013, þar sem Hörpu – tónlistar- og ráðstefnuhúsi ohf. (Hörpu) er tilkynnt um kæru frá [A] á afgreiðslu Hörpu á beiðni hans um aðgang að „reikningum fyrir læknadaga sem haldnir voru í Hörpu dagana 21. til 25. janúar 2013 og 16. – 20. janúar 2012. Er því beint til Hörpu að taka ákvörðun um afgreiðslu erindisins. Þá er einnig óskað eftir því að verði [A] synjað um aðgang að gögnunum verði nefndinni látið í té afrit reikninganna sem trúnaðarmál auk þess sem Hörpu er þá gefinn kostur á að koma að athugasemdum við kæruna og frekari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni. 

Undirritaður lögmaður, [B] hdl., Landslögum, Borgartúni 26, 105 Reykjavík ([...]) fer með mál þetta fyrir hönd Hörpu.

Meðfylgjandi er afrit af svari undirritaðrar, fyrir hönd Hörpu, til [A] þar sem honum er synjað um aðgang að umbeðnum gögnum. Er vísað til þeirra röksemda sem fram koma í bréfinu.“

Með umsögninni fylgdi afrit af bréfi [B] hdl., fyrir hönd Hörpu – tónlistar- og ráðstefnuhúss, til kæranda, dags. 19. nóvember sl. Þar segir m.a.:

„Vísað er til erindis yðar, dags. 3. október 2013, þar sem óskað er eftir staðfestum afritum af reikningum vegna læknadaga sem haldnir voru í Hörpu – tónlistar- og ráðstefnuhúsi ohf. (Hörpu) dagana 21. til 25. janúar 2013. Einnig er óskað eftir staðfestum afritum af reikningum vegna læknadaga sem að haldnir voru dagana 16. – 20. janúar 2012. Óskað er eftir staðfestum afritum af öllum reikningum vegna leigu á sölum, veitingum o.fl. Þá er vísað til erindis úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 4. október 2013, þar sem Hörpu er tilkynnt um kæru frá yður vegna afgreiðslu Hörpu á beiðninni. Er því beint til Hörpu að taka ákvörðun um afgreiðslu erindisins.

Undirritaður lögmaður, [B] hdl., […] fer með mál þetta fyrir hönd Hörpu.

Gildissvið upplýsingalaga nr. 140/2012 og lagaskil
Ný upplýsingalög, nr. 140/2012 tóku gildi 1. janúar 2013, en áður giltu lög nr. 50/1996. Lögaðilar eins og Harpa féllu ekki undir gildissvið eldri upplýsingalaga. Hins vegar er ljóst að Harpa fellur undir gildissvið nýju upplýsingalaganna, enda er hún í eigu hins opinbera að meira en 51% hluta, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna. Í 3. mgr. 35. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 kemur fram að ákvæði laganna gilda aðeins um þau gögn og upplýsingar í vörslu lögaðila skv. 2. mgr. 2. gr. sem urðu til eftir gildistöku laganna. 

Í erindi yðar er annars vegar óskað aðgangs að gögnum og upplýsingum sem urðu til dagana 16. – 20. janúar 2012 í gildistíð eldri laga. Samkvæmt því sem að framan segir ber Hörpu ekki skylda til að veita aðgang að þeim gögnum á grundvelli upplýsingalaga og er beiðni um afhendingu þeirra gagna því hafnað. Hins vegar er óskað aðgangs að gögnum og upplýsingum sem urðu til dagana 21. til 25. janúar 2013 og eiga nýrri upplýsingalög við um þau gögn. 

Ákvæði 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 
Í upphafi er rétt að geta þess að það er stefna Hörpu að upplýsa almenning um þann hluta rekstrarins sem snýr að Hörpu. Þannig birtir Harpa ársreikninga og aðalfundargerðir á heimasíðu sinni, veitir upplýsingar um launagreiðslur til stjórnar o.s.frv. Einnig eru upplýsingar um gjaldskrá fyrir leigu á sölum í Hörpu aðgengilegar á heimasíðu Hörpu.
 
Harpa er hins vegar í samkeppni við aðila á hinum almenna markaði um útleigu á húsnæði og getur ekki veitt upplýsingar um viðskiptamenn sína og einstök viðskipti þeirra. Er beiðni yðar um afhendingu gagna frá 2013 því hafnað á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, en samkvæmt ákvæðinu er stjórnvöldum óheimilt að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari.

Í athugasemdum við 9. gr. í frumvarpi því er varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 kemur fram að leggja þurfi mat á tilvik hverju sinni með hliðsjón af hagsmunum þess lögaðila sem upplýsingar varða. Þá segir í athugasemdunum að við matið þurfi almennt að vega saman hagsmuni viðkomandi lögaðila af því að upplýsingum sé haldið leyndum gagnvart þeim hagsmunum að upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna séu aðgengilegar almenningi. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur í úrskurði sínum, A-497/2013, tekið fram að við framangreint mat verði að líta til þess hversu mikið tjónið geti orðið og hversu líklegt sé að það muni verða, verði upplýsingarnar veittar. Enn fremur þurfi að líta til eðlis upplýsinganna, framsetningar þeirra og aldurs, svo og hvaða þýðingu þær hafi fyrir rekstur fyrirtækisins á þeim tíma er matið fer fram, þ.á m. hvort um sé að ræða nýjar eða óþekktar framleiðsluaðferðir eða upplýsingar sem skert geti samkeppnishæfni þess á annan hátt. Þegar allt þetta hefur verið virt verði að meta hvort vegi þyngra, þ.e. hagsmunir fyrirtækisins eða þeir hagsmunir sem meginreglu 5. gr. upplýsingalaga er ætlað að tryggja.

Ljóst er að Harpa er í samkeppni við aðila á hinum almenna markaði hvað varðar leigu á sölum. Ef Hörpu yrði gert að afhenda upplýsingar um þá reikninga sem sendir eru viðskiptavinum, er líklegt að margir mundu hugsa sig tvisvar um áður en þeir keyptu þjónustu af Hörpu. Þar sem að mikið framboð er af umræddri þjónustu er ljóst að auðvelt er fyrir viðskiptavin að snúa sér annað þar sem ekki er hætta á að upplýsingar um viðskipti vegna funda og samkvæma verði gerðar opinberar. Mundi  samkeppnishæfni Hörpu því skerðast verulega verði henni gert að afhenda reikninga einstakra viðskiptavina sinna og mundi Harpa líklega missa af viðskiptum þar sem hún væri síðri kostur í samanburði við aðila á almennum markaði sem veita sambærilega þjónustu.

Harpa lítur því svo á að í þessu tilviki séu hagsmunir félagsins af því að gögnunum sé haldið leyndum meiri en hagsmunir almennings af því að fá upplýsingarnar. 

Rétt er að benda á að Harpa selur ekki veitingar. Veisluþjónusta í húsinu var boðin út og sinna KH veitingar ehf. henni. Reikningar vegna veitinga eru frá einkaaðila sem veitir þjónustu sína í Hörpu. Sá þjónustuaðili fellur ekki undir gildissvið upplýsingalaga og reikningar hans til viðskiptavinar síns varða ekki Hörpu, heldur hefur Harpa einungis milligöngu um að koma þeim til viðskiptavina. Reikningar vegna veitinga eru þegar af þeirri ástæðu undanþegnir upplýsingarétti.

Með vísan til framangreinds er beiðni yðar um afrit af reikningum vegna læknadaga sem haldnir voru í Hörpu – tónlistar- og ráðstefnuhúsi ohf. í janúar 2012 og 2013 synjað.“

Með framangreindu bréfi fylgdu þrír reikningar frá Hörpu, tónlistar- og ráðstefnuhúsi. Sá fyrsti er dags. 31. janúar 2012, gerður Læknafélagi Íslands og er vegna Læknadaga/ráðstefnu í Hörpu 16. – 20. janúar 2012. Annar er gerður Fræðslustofnun lækna og bókunardagsetning er 31. janúar 2013. Í lýsingu segir að hann sé vegna Silfurbergs, Norðurljósa, Kaldalóns, Rimu-Stemmu, sýningarsvæðis, tækni, fjarfundar, flygils, vinnu, öryggisgæslu, aukaþrifa og gáms f. förgun. Hann er að fjárhæð kr. 8.007.226,-. Sá þriðji er einnig gerður Fræðslustofnun lækna og bókunardagsetning er 25. janúar 2013. Í lýsingu segir: „útl.k. og egr. v. veitinga úts.“ Hann er að fjárhæð kr. 3.133.100,-.

Umsögnin var send kæranda til athugasemda með bréfi úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 20. nóvember 2013. Svar hans barst með bréfi, dags. 3. desember 2013. Þar segir:

„Undirritaður fylgist mjög vel með þróun mála hjá læknum á vegum Embættis landlæknis og lyfja- og bóluefnafyrirtækjum svo og umboðsmönnum þeirra hér á landi, eða hvernig alls konar áróður, og einnig hræðsluáróður í fjölmiðlum hefur skilað methagnaði hjá lyfja- og bóluefnafyrirtækjum og umboðsmönnum þeirra. Þar sem GlaxoSmithKline ehf. hefur verið einn aðalstyrktaraðili „læknadaga“, þá er það spurning hversu háar upphæðir þetta hafa verið, og menn mega ekki vanmeta og gera lítið úr þessum stuðningi lyfja- og bóluefnafyrirtækja, er liggur við segja hafa verið að verðlauna þennan stuðning við lækna með því að borga þessa „læknadaga“ og annað fyrir þá alla.

Undirritaður vill því fá að vita hversu háar upphæðir þetta hafa verið og hvort þetta allt saman sé að færast í aukana, svo og hvort læknar séu orðnir algjörlega háðir þessum stuðningi lyfja- og bóluefnafyrirtækja og umboðsmönnum þeirra hér á landi? Undirritaður vill því fá staðfest afrit af öllum reikningum yfir hina svonefndu „læknadaga“ 16. til 20 janúar 2012 og „læknadaga“ 21. til 25. janúar 2013.

Í bréfi frá lögfræðiskrifstofunni „Landslög“ dags. þann 19. nóv. sl. kemur fram að Tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpa sé í samkeppni á hinum almenna markaði um útleigu á húsnæði“, en skv. því ætti Harpa auðveldlega að geta veitt staðfest afrit af öllum reikningum, þar sem um er að ræða samkeppni á verð yfir útleigu á húsnæði, svo og þar sem gjaldskrá fyrir leigu á sölum í Hörpu eru aðgengileg á heimasíðu Hörpu. Undirritaður er hrifinn af allri samkeppni, Samkeppnisstofnun, samkeppnislögum og eftirliti, og vonar að hér sé ekki að verða til einhvers konar leynilegt samráð eða leynileg samþjöppun hjá Hörpu eða öðrum.

Þar sem Harpa er í 46% eigu Reykjavíkurborgar en ríkið fer með 54% eignarhlut, þá vonar undirritaður að Harpa standi í heiðarlegum viðskiptum, og að þetta sé allt saman opið og gegnsætt (e. transparent) hjá Hörpu til að byggja upp og viðhalda trausti við alla viðskiptavini. Undirritaður er á því að upplýsingalögin frá 1. janúar 2013 eigi að gilda og að gömlu lögin gildi ekki nema fólk eigi góða tímavél og fari aftur í tímann. Fyrir utan það þá er núna 2013 og næsta ár verður örugglega 2014 en ekki 2012 og alls ekki 1984. Undirritaður mótmælir, þar sem lögfræðistofan „Landslög“ er að beita fyrir sig þessum gömlu lögum og telur að gömlu lögin gildi alls ekki núna í dag.

Þá mótmælir undirritaður þar sem að menn eru að beita fyrir sér lögum vegna mikilvægra fjárhags og viðskiptahagsmuna, þegar Harpa er í opinberri eigu, svo og þar sem Harpa er í samkeppni á hinum almenna markaði um útleigu á húsnæði, en undirritaður óskar eftir að nefndin úrskurði með að undirritaður fái afrit af öllum þessum reikningum yfir hina svonefndu „læknadaga“ 16. til 20. janúar 2012 og „læknadaga“ 21. til 25. janúar 2013“.

Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til þess að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila en gert hefur verið. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess. 

Niðurstaða

Kæru máls þessa er beint að Tónlistar- og ráðstefnuhússinu Hörpu og lýtur að synjun félagsins, dags. 19. nóvember 2013, á beiðni kæranda um að hann fái afrit af reikningum sem gefnir voru út vegna Læknadaga, sem haldnir voru annars vegar frá 16. - 20. janúar 2012 og hins vegar 21. - 25. janúar 2013. Verður að miða við að beiðni aðila um aðgang að gögnum nái einungis til þeirra reikninga sem Harpa gaf út á eigin vegum til þeirra sem stóðu að „læknadögum“ 2012 og 2013 en ekki annarra þeirra sem kunna að hafa veitt aðstandendum „læknadaga“ endurgjaldsskylda þjónustu í húsinu. Skýringar lögmanns Hörpu hníga og í þá átt að um hafi verið að ræða einkaaðila sem undanskildir séu ákvæðum upplýsingalaga.

Samkvæmt 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er heimilt að bera undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál synjun á beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt þeim lögum. Samkvæmt 2. gr. taka lögin til allrar starfsemi lögaðila sem eru að 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera. Það á við um Tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpu, sem er að hluta til í eigu ríkisins (54%) og að hluta til í eigu Reykjavíkurborgar (46%). Í 2. mgr. 3. gr. laganna segir:

Ef starfsemi lögaðila sem fellur undir 2. mgr. er að nær öllu leyti í samkeppni á markaði getur ráðherra, að fenginni tillögu hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórnar og umsögn Samkeppniseftirlitsins, ákveðið að hann skuli ekki falla undir gildissvið laga þessara eða dregið slíka ákvörðun til baka. Ráðuneytið skal halda opinbera skrá yfir þá lögaðila sem hafa fengið undanþágu samkvæmt málsgreininni, og skal undanþága einstakra aðila endurskoðuð á þriggja ára fresti. Ákvörðun samkvæmt þessari málsgrein tekur gildi við birtingu hennar í B-deild Stjórnartíðinda.

Á grundvelli þessarar heimildar hefur ráðherra birt tvær auglýsingar um undanþágur lögaðila frá upplýsingalögum, sbr. auglýsingar  nr. 600/2013 og nr. 1211/2013. Er Harpa ekki á meðal þeirra lögaðila sem þar eru nefndir. Upplýsingalög nr. 140/2012 taka því til félagsins.

Lögin tóku gildi hinn 1. janúar 2013. Í 35. gr. þeirra segir að ákvæði 2. og 3. mgr. 2. gr. komi til framkvæmda sex mánuðum eftir gildistöku laganna. Þá gildi þau um öll gögn og upplýsingar sem falli undir þau, án tillits til þess hvenær þau hafi orðið til eða hvenær þau hafi borist viðkomandi aðila. Að því er varðar gögn og upplýsingar í vörslu lögaðila gilda þau þó aðeins um gögn sem hafa orðið til eftir gildistöku laganna. Það á ekki við um reikninga vegna Læknadaga 16. - 20. janúar 2012. Ber því að staðfesta synjun Tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu á afhendingu reikninganna frá árinu 2012.  

Að því er varðar reikninga vegna Læknadaga 21. - 25. janúar 2013 ber að líta til þess að samkvæmt 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum, sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr. Sama gildir ef óskað er aðgangs að tilteknum fyrirliggjandi gögnum.

Af hálfu Tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu hefur verið vísað til 9. gr. laga nr. 140/2012, sem takmarkar þann almenna aðgangsrétt, sem mælt er fyrir um í 5. gr. laganna. Þar segir: „Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.“ Í athugasemdum við þessa grein, í því frumvarpi sem varð að lögum nr. 140/2012, segir m.a.: 

„Ákvæði 9. gr. frumvarpsins er samhljóða 5. gr. gildandi upplýsingalaga. Hér er kveðið á um takmarkanir á upplýsingarétti almennings vegna einkahagsmuna einstaklinga, fyrirtækja og annarra lögaðila. Eins og fram kom í athugasemdum við 6. gr. frumvarpsins er á grundvelli þessarar reglu heimilt að undanþiggja tiltekin gögn upplýsingarétti ef í þeim er að finna upplýsingar sem eru þess eðlis að rétt þykir að þær fari leynt. Af því leiðir einnig að eftir atvikum kann að vera rétt að veita aðgang að hluta gagns sé slíkar upplýsingar aðeins að finna í hluta þess.

Eins og fram kemur í frumvarpi því sem síðan varð að gildandi upplýsingalögum er augljóst að óheftur aðgangur almennings að öllum gögnum sem falla undir upplýsingalög kynni að rjúfa friðhelgi manna og/eða ganga gegn mikilvægum fjárhagslegum hagsmunum tiltekinna lögaðila. Á hinn bóginn mundi það einnig takmarka upplýsingaréttinn mjög ef allar upplýsingar sem snerta einkahagsmuni einstaklinga eða lögaðila væru undanþegnar. Ekki er ástæða til að víkja frá þeirri stefnu sem mótuð var að þessu leyti með þeim lögum sem nú eru í gildi, enda kynni annað að ganga gegn stjórnarskrárvörðum rétti manna til einkalífs annars vegar og hins vegar eðlilegum og réttmætum hagsmunum fyrirtækja og annarra lögaðila af því að geta lagt grundvöll að viðskiptalegum ákvörðunum og gerningum. 

Ákvæði 9. gr. frumvarpsins felur í sér nokkurs konar vísireglu um það hvenær rétt sé að halda leyndum upplýsingum um einkahagsmuni. Stjórnvaldi, eða öðrum aðila sem ákvörðun tekur á grundvelli laganna, er með öðrum orðum ætlað að vega og meta umbeðin gögn með tilliti til þess hvort upplýsingar sem þau hafa að geyma séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings. Við það mat verður að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna. […]Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni. Hér skiptir miklu að lagt sé mat á tilvik hverju sinni með hliðsjón af hagsmunum þess lögaðila sem upplýsingar varða. Við matið þarf almennt að vega saman hagsmuni viðkomandi lögaðila af því að upplýsingum sé haldið leyndum gagnvart þeim mikilvægu hagsmunum að upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna séu aðgengilegar almenningi. Þegar lögaðilar gera samninga við opinbera aðila, þar sem ráðstafað er opinberum hagsmunum, getur þetta sjónarmið haft mikið vægi við ákvörðun um aðgang að upplýsingum. “

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur yfirfarið þá reikninga sem mál þetta lýtur að. Það er hennar mat að í þeim komi engar þær upplýsingar fram er séu þess eðlis að geta varðað efnahagslega mikilvæga hagsmuni Tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu svo miklu að það komi í veg fyrir að þeir verði afhentir kæranda. Fæst ekki séð að upplýsingar sem fram koma í umræddum reikningum séu þess eðlis að það geti varðað fjárhags- og viðskiptahagsmuni félagsins sem fella megi undir 9. gr. upplýsingalaga og valdið því tjóni verði þær gerðar opinberar. Þá verður ekki séð að umræddar upplýsingar séu heldur til þess fallnar að valda samningsaðila Hörpu óréttmætu tjóni þótt þær verði gerðar opinberar, einkum þegar litið er til þess að Harpa hefur birt verðskrá sína á vef sínum.

Það er niðurstaða úrskurðarnefndarinnar, þegar vegnir eru saman annars vegar hagsmunir hlutaðeigandi aðila af því að synjað verði um aðgang að framangreindum gögnum, og hins vegar þeir mikilvægu almannahagsmunir sem felast í aðgangi almennings að upplýsingum um ráðstöfun opinberra hagsmuna, þá standi lagarök ekki til þess að synja um aðgang að gögnunum á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. 

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að Tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu beri að afhenda kæranda, [A], afrit af þeim reikningum sem það gaf út vegna læknadaga sem haldnir voru 21. - 25. janúar 2013. 

Úrskurðarorð

Staðfest er synjun Tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu um aðgang að reikningum vegna Læknadaga 16. - 20. janúar 2012.

Tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpa skal í fyrsta lagi afhenda kæranda, [A], afrit af reikningi gerðum Fræðslustofnun lækna, með bókunardagsetningu 31. janúar 2013, vegna Silfurbergs, Norðurljósa, Kaldalóns, Rimu-Stemmu, sýningarsvæðis, tækni, fjarfundar, flygils, vinnu, öryggisgæslu, aukaþrifa og gáms f. förgun. Í öðru lagi skal afhenda reikning sem gerður er Fræðslustofnun lækna, með bókunardagsetningu 25. janúar 2013, er vegna: „útl.k. og egr. v. veitinga úts.“ 


Hafsteinn Þór Hauksson, formaður

Sigurveig Jónsdóttir          

Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum