Hoppa yfir valmynd
11. nóvember 2013 Forsætisráðuneytið

A-505/2013. Úrskurður frá 7. nóvember 2013

Úrskurður

Hinn 7. nóvember 2013 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. A-505/2013 í máli ÚNU 13040003.

Kæra og málsatvik

Með bréfi, dags. 22. apríl 2013, sendi A kæru til úrskurðarnefndar um upplýsingamál þar sem hann kvartaði yfir því að Vestmannaeyjabær hefði ekki afgreitt beiðni hans um upplýsingar. Í kvörtuninni kom fram að upplýsingabeiðnin hefði lotið að samskiptum Vestmannaeyjabæjar og B lögmanns.

Í tilefni af erindi A sendi úrskurðarnefnd um upplýsingamál bréf til Vestmannaeyjabæjar, dags. 29. apríl., þar sem nefndin gerði bænum grein fyrir efni kærunnar og gaf honum kost á að koma að sínum sjónarmiðum. Umsögn bæjarins barst nefndinni hinn 8. maí 2013. Í umsögninni kom fram að erindi A hefði borist bænum 7. janúar 2013 og því hefði verið svarað 10. sama mánaðar. Í umsögninni sagði jafnframt orðrétt:

„Í þessu tilfelli sem óskað er eftir gögnum er um viðkvæmt starfsmannamál að ræða  og hefur það hvergi verið gert opinbert. Bókanir ráðsins hafa allar verið ritaðar í trúnaðarmálafundargerð.  Í kjölfarið á þessari fyrirspurn A höfum við farið í gegnum alla vinnuferla hjá okkur og sett betri varnir á tölvukerfi stjórnsýslunnar. Hvorki hann né nokkur annar á rétt á þessum upplýsingum og okkur er það hulin ráðgáta hvernig hann fékk einhvern smjörþef af þessu máli. Því miður liggja nefndarmenn undir grun um að hafa einhversstaðar lekið málinu. Hann hefur marg ítrekað þessa beiðni sína og alltaf verið svarað á sömu nótum, hann á ekki rétt á þessum upplýsingum.“ 

Í svari bæjarins til kæranda, sem fylgdi umsögninni í viðhengi, er vitnað til 3. gr. áðurgildandi upplýsingalaga nr. 50/1996 og sagt að erindi kæranda falli ekki undir upplýsingalög.

Í kjölfarið áttu sér stað nokkur bréfaskipti milli málsaðila og úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem ekki er þörf á að rekja nánar hér. Þó er rétt að taka fram að í þeim bréfaskiptum kom skýrt fram að kærandi væri ósáttur við afstöðu bæjarins til upplýsingabeiðninnar. Í tilefni af þessu óskaði úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir afstöðu Vestmannaeyjabæjar til þess hvernig ný upplýsingalög nr. 140/2012, sem gildi höfðu tekið þegar beiðni kæranda um upplýsingar barst bæjarfélaginu, horfðu við upplýsingabeiðninni. 

Hinn 28. júní barst svar frá Vestmannaeyjabæ, dags. 26. s.m., þar sem segir m.a.:

„Um er að ræða trúnaðarmál sem tekið var fyrir í bæjarráði Vestmannaeyja þann 13. desember s.l. og bókað í sérstaka samninga og trúnaðarmálafundargerð sem ekki er opinber. Samskiptin sem um ræðir við B eru vegna lögfræðilegs álits sem tengist starfsmanni hjá Vestmannaeyjabæ og ágreinings sem upp kom vegna túlkunar á kjarasamningi og ráðningarsamningi viðkomandi starfsmanns sem virtist óleysanlegur. Okkar mat var að umrætt álit og bréfaskriftir vegna þess féllu undir 6. gr. 3. tl. upplýsingalaga nr. 140 frá 28. desember 2012 sem tekur á gögnum undanþegnum upplýsingarétti. […] A var því svarað að erindið félli ekki undir gildandi upplýsingalög.“
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál sendi bréf til Vestmannaeyjabæjar, dags. 16. júlí 2013, og óskaði þess, með vísan til 2. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, að bærinn afhenti nefndinni í trúnaði afrit af fyrrnefndum gögnum. Þau bárust með bréfi til nefndarinnar, dags. 19. júlí 2013. Um er að ræða einn tölvupóst, en önnur samskipti munu hafa farið fram símleiðis.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál sendi á ný bréf til Vestmannaeyjabæjar, dags. 23. september 2013. Þar kom fram að á fundi úrskurðarnefndarinnar sama dag hefði nefndin ákveðið að óska eftir frekari gögnum eða upplýsingum frá bænum sem kynnu að veita upplýsingar um tengsl umrædds tölvubréfs við tiltekið dómsmál í skilningi 3. tölul. 1. mgr. 6. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Væri slíkum gögnum ekki til að dreifa væri þess óskað að upplýst væri hvort bærinn hefði leitað eftir afstöðu þess einstaklings sem í hlut ætti til upplýsingabeiðni kæranda, sbr. 9. gr. laga nr. 140/2012.“

Svar Vestmannaeyjabæjar til nefndarinnar barst með bréfi, dags. 8. október 2013. Þar kemur fram að málinu sé lokið í fullri sátt málsaðila og því muni ekki koma til dómsmáls vegna þess. Í bréfinu segir svo m.a.:

„Vestmannaeyjabær hefur leitað til þess starfsmanns sem í hlut á […] sbr. 9. gr. laga nr. 140/2012 og veitir ... ekki samþykki sitt fyrir því  að umræddur tölvupóstur sé afhentur. Tekið er fram að málinu er lokið í fullri sátt beggja aðila.“

Niðurstaða

1.

Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 skal mál skv. 20. gr. sömu laga, þ.e. synjun stjórnvalds á beiðni um aðgang að gögnum eða afhendingu þeirra á því formi sem óskað er, borið skriflega undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál innan 30 daga frá því að þeim sem fór fram á aðgang að gögnunum var tilkynnt um ákvörðun stjórnvaldsins. Efni kærunnar í máli þessu er það að Vestmannaeyjabær hafi ekki afgreitt beiðni kæranda um aðgang að gögnum. Í umsögn Vestmannaeyjabæjar segir að beiðni kæranda hafi borist 8. janúar 2013 og verið svarað 10. sama mánaðar. Vestmannaeyjabær hefur ekki sýnt fram á að kæranda hafi verið leiðbeint um kæruheimild og kærufrest til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Eins og málið liggur fyrir úrskurðarnefndinni samkvæmt framansögðu telur nefndin þann vafa sem uppi er um afgreiðslu Vestmannaeyjabæjar á beiðni kæranda verði að meta honum í hag og beri nefndinni því að taka málið til efnislegrar meðferðar.

Eins og rakið er hér að framan lýtur mál þetta að aðgangi að tölvupósti sem lögmaður Vestmannaeyjabæjar sendi bænum í tengslum við starfsmannamál sem bærinn hafði til meðferðar, n.t.t. vegna ágreiningsmáls milli bæjarins og tilgreinds starfsmanns um túlkun á ákvæðum kjara- og ráðningarsamnings. Í þessum tölvupósti kemur fram hvaða fyrirkomulag lögmaðurinn telji geta verið ásættanlegt fyrir báða aðila.

Í bréfi bæjarins, dags. 26. júní 2013, var vísað til þess að sú ákvörðun, að veita ekki aðgang að umræddu skjali, byggðist á 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Í þeim tölulið kemur fram að undanþegin upplýsingarétti séu bréfaskipti við sérfróða aðila til afnota í dómsmáli eða við athugun á því hvort slíkt mál skuli höfðað. Síðar kom fram, sbr. bréf bæjarins, dags. 8. október 2013, að málinu hefði lokið með fullri sátt beggja aðila. Þá telur bærinn að um viðkvæmt starfsmannamál sé að ræða, sem sé trúnaðarmál, og vísar bærinn í því sambandi til 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Þar segir að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Fyrir liggur að slíkt samþykki hefur ekki verið veitt.

2.

Í 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 kemur fram að lögin taki til allrar starfsemi stjórnvalda.

Í 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: „Sé þess óskað er skylt að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr. Sama gildir þegar óskað er aðgangs að tilteknum fyrirliggjandi gögnum. Ekki er þó skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkari mæli en leiðir af 3. mgr.“

Í 1. mgr. 7. gr. laganna segir að réttur almennings til aðgangs að gögnum um málefni starfsmanna sem starfa hjá aðilum sem lögin taki til skv. 2. gr. taki ekki til „gagna í málum sem varða umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti“.

Í athugasemdum við þessa grein, í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 140/2012, segir: 

„Upplýsingar um hvaða starfsmenn starfa við opinbera þjónustu, hvernig slík störf eru launuð og hvernig þeim er sinnt eru almennt ekki talin að öllu leyti til einkamálefna viðkomandi starfsmanns eða vinnuveitanda hans. Að hluta til kann hér að vera um að ræða mikilvægar upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna. Því gilda hér að nokkru marki önnur sjónarmið en almennt eiga við í vinnuréttarsambandi á almennum vinnumarkaði. […] Með gögnum í málum sem varða starfssambandið að öðru leyti, sbr. niðurlag 1. mgr. 7. gr., er átt við gögn í málum þar sem teknar eru ákvarðanir um réttindi og skyldur starfsmanna. Þau rök búa hér að baki að rétt sé veita starfsmanni ákveðið öryggi í starfi og varðveita trúnað í vinnusambandinu sem ella væri hætta á að brysti ef veittur yrði aðgangur að gögnum í slíkum málum. Af þessu leiðir enn fremur að opinberir aðilar ættu síður möguleika á því að laða til sín og halda hjá sér hæfu starfsfólki. Til mála er varða starfssambandið teljast t.d. mál þar sem starfsmaður hefur þurft að sæta frádrætti frá launum, ákvarðanir stjórnenda um sveigjanlegan vinnutíma og um aukastörf, sbr. IV. kafla laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og enn fremur mál er lúta að aðfinnslum og áminningu eða eftir atvikum starfslokum.“

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur kynnt sér tölvupóstinn sem mál þetta varðar. Efni hans tengist máli um svigrúm nafngreinds starfsmanns Vestmannaeyjabæjar til sveigjanlegs vinnutíma, og telst til gagna máls varðandi starfssamband í skilningi framangreinds ákvæðis 1. málsgr. 7. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Það er því niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að réttur kæranda skv. 5. gr. upplýsingalaga taki ekki til tölvupóstsins. 

Úrskurðarorð

Staðfest er ákvörðun Vestmannaeyjabæjar um að synja A um aðgang að tölvupósti, sem lögmaður Vestmannaeyjabæjar sendi bænum, dags. 8. nóvember 2012, og varðar starfssamband milli bæjarins og eins af starfsmönnum hans.


Hafsteinn Þór Hauksson, formaður

Sigurveig Jónsdóttir                                        

Friðgeir Björnsson


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum