Hoppa yfir valmynd
8. nóvember 2013 Forsætisráðuneytið

A-502/2013. Úrskurður frá 7. nóvember 2013

Úrskurður

Hinn 7. nóvember 2013 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. A-502/2013 í máli ÚNU 13020012. 

Kæruefni og málsatvik

Þann 19. mars 2013 kærði A fyrir hönd Flugvirkjafélags Íslands afgreiðslu Flugmálastjórnar Íslands 18. febrúar sama ár á beiðni félagsins um aðgang að upplýsingum um hvort nýstofnað fyrirtæki, sem ekki var nánar tilgreint í beiðninni, hefði sótt um um EASA part-145 starfsleyfi hjá Flugmálastjórn Íslands til að viðhalda hjólum, bremsum og öðrum íhlutum. Flugmálastjórn Íslands hafnaði beiðni kæranda með ákvörðun 18. febrúar 2013. Vísað var til 7. gr. laga nr. 100/2006 um Flugmálastjórn Íslands og 2. málsliðar 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. 

Með kæru sinni krefst kærandi þess að ákvörðun Flugmálastjórnar verði felld úr gildi og kærða verði gert að afhenda þær upplýsingar og gögn sem beiðni kæranda lýtur að. Í kærunni er vísað til þess að kærandi hafi óskað eftir eftirtöldum upplýsingum og gögnum frá Flugmálastjórn Íslands: Í fyrsta lagi hafi verið óskað eftir því hvort umsókn um starfsleyfi hefði borist Flugmálastjórn Íslands frá nýstofnuðu fyrirtæki sem hygðist afla sér EASA part-145 starfsleyfis hjá Flugmálastjórn Íslands til þess að viðhalda hjólum, bremsum og öðrum íhlutum sem hingað til hefði verið haldið við hjá hlutaverkstæði Icelandair (ITS). Í öðru lagi hefði verið óskað eftir upplýsingum um það hver umsóknaraðilinn væri ef svar við fyrstu spurningu kæranda væri jákvætt. Í þriðja lagi væri óskað nánari upplýsinga um hvers eðlis umsóknin væri ef svar við fyrstu spurningu kæranda væri jákvætt. 

Kærandi byggir á því að höfnun Flugmálastjórnar Íslands samræmist ekki þeim lagaákvæðum sem höfnunin sé reist á og gangi gegn meginreglunni um upplýsingarétt í 5. gr. upplýsingalaga. Kærandi telur að skilyrði 1. mgr. 7. gr. laga nr. 100/2006 séu ekki uppfyllt. Kærandi hafnar því að hann teljist „óviðkomandi“ í skilningi ákvæðisins og færir fyrir því rök að umsókn um starfsleyfi af þeirri gerð sem beiðni hans lýtur að varði hagsmuni hans og félagsmanna hans. Ákvæðið taki til þess sem eigi að fara leynt, en það skilyrði geti ekki átt við um hinar umbeðnu upplýsingar. Vísar kærandi til þess að félagið hafi þegar fengið þær upplýsingar frá nefndum þriðja aðila að starfsleyfisumsókn hafi verið lögð fram. Þá geti upplýsingarnar ekki talist varða „rekstur eða viðskipti aðila“ í skilningi ákvæðisins. Ekki sé óskað sérgreindra upplýsinga um umsækjanda eða rekstur hans heldur einungis almennra upplýsinga og upplýsinga um það hvers eðlis umsóknin sé. 

Kærandi telur einnig að skilyrði 9. gr. upplýsingalaga séu ekki uppfyllt og því sé ekki grundvöllur til að synja félaginu um hinar umbeðnu upplýsingar á þeim grundvelli. Ekki sé óskað eftir aðgangi að tilteknum fjárhags- eða viðskiptagögnum um umsækjanda og ekki hafi verið óskað upplýsinga sem varði mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni. Kærandi hafi ekki óskað upplýsinga sem geti talist viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- og samkeppnisstöðu eða varði viðskiptaleyndamál. Kærandi hafi þegar verið upplýstur um tilvist fyrirtækis sem ætli að sækja um starfsleyfi eins og það er beiðni kæranda lúti að. Þá hafi kærandi ríka hagsmuni af því að fá upplýsingar um það hvort umsókn hafi borist og hvers eðlis hún sé. Því fari fjarri að aflétt væri viðskipta- eða samkeppnisleyndarmálum með því að veita kæranda aðgang að hinum umbeðnu upplýsingum. Skýra beri undanþágu 9. gr. upplýsingalaga þröngt, enda sé um að ræða undantekningu frá meginreglunni um upplýsingarétt. 

Málsmeðferð

Eftir að kæran barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál ritaði nefndin Flugmálastjórn Íslands bréf, dags. 28. febrúar 2013, þar sem þess var óskað að stofnunin veitti umsögn um kæruna. Umsögn stofnunarinnar var veitt 5. mars 2013. Þar kemur fram að eitt af verkefnum stofnunarinnar sé að veita heimildir til hvers konar reksturs sem skilgreindur sé í loftferðalögum og reglugerðum settum á grundvelli þeirra, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 100/2006. Flugmálastjórn Íslands líti svo á að umsókn fyrirtækis um starfsleyfi hjá stofnuninni varði verulega viðskipta- og rekstrarlega hagsmuni fyrirtækisins enda séu flest ef ekki öll fyrirtæki sem sæki um starfsleyfi hjá stofnuninni í samkeppnisrekstri. Í ljósi þess fari stofnunin með upplýsingar um slíkar umsóknir sem trúnaðarmál með vísan til 7. gr. laga nr. 100/2006 þar til þær hafi verið afgreiddar. Flugmálastjórn líti svo á að utanaðkomandi aðilar sem tilheyri ekki því fyrirtæki sem sæki um starfsleyfi séu óviðkomandi aðilar sem eigi ekki rétt á upplýsingum um viðkomandi umsókn. Kærandi sé stéttarfélag flugvirkja á Íslandi. Kærandi sé hvorki aðili að umsókn um starfsleyfi né tilheyri fyrirtæki sem sé með slíka umsókn hjá stofnuninni. 

Þá kemur fram í umsögn Flugmálastjórnar Íslands að stofnunin telji að framangreind afstaða verði einnig studd með vísun til 2. málsliðar 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Umsókn fyrirtækis um starfsleyfi hafi að geyma upplýsingar um áætlanir þess, rekstur og starfsemi. Yrði utanaðkomandi aðilum veittur aðgangur að slíkum upplýsingum á þessu stigi máls væri hætta á að viðkomandi fyrirtæki yrði fyrir tjóni, t.a.m. vegna viðbragða væntanlegra samkeppnisaðila. Fyrirtæki á þessum markaði séu fá og því séu upplýsingarnar viðkvæmari en ella. 

Auk þessa vísar Flugmálastjórn Íslands til skýringarefnis sem innleitt hafi verið með ákvörðun Flugmálastjórnar Íslands nr. 1/2009, sbr. auglýsingu nr. 349/2009. Í skýringarefninu segi eftirfarandi: „All records containing sensitive data regarding applicants or organisations should be stored in a secure manner with controlled access to ensure confidentiality of this kind of data“. 

Með hliðsjón af öllu ofangreindu gerir Flugmálastjórn Íslands þá kröfu að úrskurðarnefndin staðfesti hina kærðu ákvörðun. 

Auk þessa lét Flugmálastjórn Íslands úrskurðarnefndinni í té aðra umsögn. Þar kemur fram að þegar stofnunni hafi borist beiðni kæranda, hinn 7. janúar 2013, hafi hún ekki verið búin að fá formlega umsókn frá nýstofnuðu fyrirtæki,  Rhino-Aviation. Umsóknin hafi hins vegar borist hinn 6. febrúar 2013. Af umsögninni verður ráðið að Flugmálastjórn hafi ekki talið sér vera skylt að upplýsa kæranda um að umsókn hafi ekki borist og að eftir að hún hafi borist hafi stofnuninni ekki heldur talið sér vera skylt að upplýsa kæranda um það. Stofnunin veiti eingöngu upplýsingar um umsóknir um starfsleyfi með almennum hætti, t.a.m. um fjölda umsókna í vinnslu o.þ.h. Beiðni kæranda hafi verið mjög afmörkuð og beinst að sérhæfðri starfsemi og því hafi ekki verið unnt að svara henni með almennum hætti. Með umsögninni fylgdi umsókn Rhino-Aviation til Flugmálastjórnar Íslands um Part 145 starfsleyfi. 

Með bréfum 8. mars og 21. maí 2013 veitti úrskurðarnefndin kæranda tækifæri til að taka afstöðu til þeirrar umsagnar Flugmálastjórnar Íslands sem ekki var veitt í trúnaði. Þann 23. maí lýsti kærandi því yfir að hann myndi ekki lýsa sérstaklega afstöðu sinni til umsagnar Flugmálastjórnar Íslands. 

Lög nr. 119/2012 um Farsýsluna, stjórnsýslustofnun samgöngumála, komu til framkvæmda 1. júlí 2013.  Með lögunum var komið á fót stofnun sem skal annast stjórnsýslu og eftirlit er lýtur meðal annars að flugmálum. Í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum nr. 119/2012 kemur fram að stofnunin skuli sjá um verkefni sem áður voru á hendi Umferðarstofu og Flugmálastjórnar auk stjórnsýsluverkefna Siglingastofnunar og Vegagerðarinnar. Þrátt fyrir að kveðið sé á um það í lögunum að stofnunin skuli bera heitið Farsýslan virðist stofnunin hafa hafið starfsemi 1. júlí 2013 undir heitinu Samgöngustofa. Þar sem umrædd stofnun hefur tekið við lögbundnum verkefnum Flugmálastjórnar Íslands lýtur kæra sú sem hér er til meðferðar að aðgangi kæranda að gögnum hennar.
 
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál ritaði Rhino-Aviation bréf 14. ágúst 2013 í samræmi við 2. mgr. 17. gr. upplýsingalaga. Þar var óskað eftir afstöðu fyrirtækisins til beiðni kæranda um aðgang að umsókn fyrirtækisins. Úrskurðarnefndin hafði samband við talsmann fyrirtækisins hinn 2. október. Hann kvaðst myndu senda athugasemdir samdægurs en þær bárust ekki. 

Samgöngustofa tilkynnti úrskurðarnefndinni 6. ágúst 2013 að Rhino-Aviation hefði afturkallað umsókn sína um starfsleyfi. 

Niðurstaða

1.

Beiðni kæranda til Flugmálastjórnar Íslands laut að upplýsingum um það hvort umsókn um EASA part 145 starfsleyfi hefði borist stofnuninni, hver umsækjandinn væri ef slík umsókn hefði borist og þá hvers eðlis hún væri. Beiðni kæranda laut því ekki beint að því að honum yrðu afhent tiltekin gögn eða gögn ákveðins máls. 

Í 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 kemur fram að sá sem fer fram á aðgang að gögnum skuli tilgreina þau eða efni þess máls sem þau tilheyra með nægjanlega skýrum hætti til að hægt sé, án verulegra fyrirhafnar, að afmarka beiðni við tiltekin gögn eða tiltekið mál. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum kemur fram að með ákvæðinu séu minni kröfur gerðar til þess hvernig beiðni um aðgang að gögnum sé afmörkuð en gert hafi verið í þágildandi upplýsingalögum nr. 50/1996. Í athugasemdunum sagði meðal annars: 

„Byggist ákvæðið á því að sá sem óskar aðgangs að gögnum þurfi eftir sem áður að tilgreina þau gögn, eða efni þess máls sem þau tilheyra, sem hann óskar að kynna sér. Hann mun hins vegar ekki þurfa að tilgreina með nákvæmum hætti það tiltekna mál sem beiðni hans lýtur að. Sú skylda verður að meginstefnu lögð á stjórnvöld, eða aðra sem beiðni um gögn beinist að, að finna þau gögn eða það mál sem efnislega fellur undir beiðni um aðgang að gögnum.“

Þá er bent á að ljóst sé að slík regla verði, vegna sjónarmiða um skilvirkni og kostnað af stjórnsýsluframkvæmd, ekki lögð á stjórnvöld án takmarkana. Þá segir: 

„Því er áfram gerð sú krafa að beiðni sé að lágmarki þannig fram sett að stjórnvaldi sé fært á þeim grundvelli að finna tiltekin mál eða málsgögn sem hægt er að afmarka upplýsingaréttinn við, með tiltölulega einföldum hætti.“ 

Umsókn Rhino-Aviation um EASA part-145 starfsleyfi hafði ekki borist Flugmálastjórn Íslands þegar henni barst beiðni kæranda. Flugmálastjórn hefur engu að síður tekið þá afstöðu að umsóknin falli undir beiðnina og ákveðið að verða ekki við henni. Eins og atvikum þessum er háttað er ekki ástæða til að úrskurðarnefndin taki sérstaka afstöðu til þess hvaða þýðingu það hefur að beiðni kæranda var sett fram á þann hátt sem gert var. 

Í bréfi Flugmálastjórnar Íslands til úrskurðarnefndarinnar 5. mars 2013 kemur fram að eftir að beiðni kæranda barst stofnuninni hafi hún fengið umrædda starfsleyfisumsókn frá Rhino-Aviation. Gerir úrskurðarnefndin ekki athugasemd við að Flugmálastjórn Íslands hafi tekið afstöðu til þess hvort veita bæri aðgang að umsókninni, enda þótt hún hafi ekki verið í vörslum stofnunarinnar þegar beiðni kæranda barst. Þá hefur það ekki sérstaka þýðingu við meðferð málsins þótt Rhino-Aviation hafi fallið frá umsókn sinni um starfsleyfi þar sem umsóknin sem gagn er nú í vörslum Samgöngustofu en það stjórnvald hefur tekið við lögbundnum verkefnum Flugmálstjórnar Íslands. 

2.

Réttur kæranda til aðgangs að umsókn Rhino-Aviation um starfsleyfi er reistur á 5. gr. upplýsingalaga þar sem fjallað er um rétt almennings til aðgangs að gögnum. Í 2. málslið 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga segir að almenn ákvæði laga um þagnarskyldu takmarki ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt lögunum. Synjun Flugmálastjórnar Íslands á beiðni kæranda var meðal annars reist á 1. mgr. 7. gr. laga nr. 100/2006 um Flugmálastjórn Íslands. Í því ákvæði segir eftirfarandi: 

„Starfsmenn Flugmálastjórnar eru bundnir þagnarskyldu. Þeir mega ekki, að viðlagðri ábyrgð, skýra óviðkomandi frá því sem þeir komast að í starfi sínu og leynt á að fara, þar á meðal um rekstur eða viðskipti aðila sem þeir hafa eftirlit með. Sama gildir um sjálfstæða sérfræðinga sem starfa á vegum Flugmálastjórnar. Þagnarskylda helst þótt látið sé af störfum eða verksamningi ljúki.“

Þegar kemur að samspili einstakra þagnarskylduákvæða í lögum, annars vegar, og ákvæða  upplýsingalaga nr. 140/2012 skiptir máli hvort þagnarskylduákvæðin teljist almenn eða sérstök. Í athugasemdum í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum segir meðal annars um þetta í umfjöllun um 4. gr. laganna: 

„Í lögum má enn fremur finna sérákvæði um þagnarskyldu þar sem upplýsingar þær sem þagnarskyldan tekur til eru sérgreindar. Það fer eftir efni og orðalagi þagnarskylduákvæðis hvernig slík ákvæði verða skýrð og samþýdd ákvæðum upplýsingalaga. Í nokkrum þessara ákvæða eru tilgreindar þær upplýsingar, sem þagnarskylda á að ríkja um, með mjög almennum hætti. Þar má t.d. nefna þegar þagnarskylda á að ríkja um einstaklingsbundnar upplýsingar, einkamálefni, persónuleg málefni eða upplýsingar um hagi einstaklinga eða fyrirtækja. Slík ákvæði valda almennt ekki vanda þar sem auðvelt er að skýra þau til samræmis við 9. gr. frumvarpsins. Þá eru ákvæði sem tilgreina skýrar þær upplýsingar sem þagnarskylda á að ríkja um. Að því leyti sem slíkum ákvæðum er ætlað að vernda sömu hagsmuni og ákvæði 6.–10. gr. frumvarpsins ber að skýra þau til samræmis við þau að svo miklu leyti sem hægt er. Þannig ber t.d. að skýra ákvæði sem mæla fyrir um þagnarskyldu um einkamál og heimilishagi eða þagnarskyldu um nöfn sjúklinga, vitneskju eða grun um sjúkdóma og heilsufar þeirra, til samræmis við 1. málsl. 9. gr. frumvarpsins, en þar kemur fram að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einkamálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari. Þá ber að skýra ákvæði, sem mæla fyrir um þagnarskyldu um efnahag, tekjur eða gjöld einstaklinga, til samræmis við 1. málsl. 9. gr. frumvarpsins, en þar kemur fram að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari. Í 2. málsl. 9. gr. frumvarpsins er mælt svo fyrir að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Til samræmis við þetta ákvæði ber að skýra ákvæði sem mæla fyrir um þagnarskyldu um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða rannsóknir í þágu atvinnulífs sem kostaðar eru af einkaaðilum.“ 

Þá segir: 

„Þau sérákvæði laga um þagnarskyldu þar sem upplýsingar þær sem þagnarskyldan tekur til ganga skýrlega lengra en ákvæði 6.–10. gr. frumvarpsins, eða taka til annarra upplýsinga en þar eru undanþegnar aðgangi almennings, ganga framar ákvæðum frumvarps þessa, ef að lögum verður, og hindra því aðgang að þeim upplýsingum sem þar er getið. Afar fá slík ákvæði eru í íslenskum lögum þannig að um óveruleg frávik er að ræða frá þeim rétti til aðgangs að gögnum sem mælt er fyrir um í frumvarpi þessu.“ 

Úrskurðarnefndin telur að umrædd 1. mgr. 7. gr. laga nr. 100/2006 sé sérákvæði um þagnarskyldu varðandi „rekstur eða viðskipti aðila“ sem stofnuninni var falið að hafa eftirlit með en í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 100/2006 sagði meðal annars að ákvæðið væri „til viðbótar við almennt þagnarskylduákvæði 18. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996.“ 

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur að meta verði hverju sinni hvort upplýsingar teljist varða „rekstur eða viðskipti aðila“. Ákvæðið verður ekki túlkað svo rúmt að upplýsingar um tilvist fyrirtækis eða að fyrirtæki starfi á því sviði sem lýtur eftirliti Flugmálastjórnar teljist einar og sér upplýsingar um „rekstur eða viðskipti“ viðkomandi aðila. Nefndin lítur svo á að markmið ákvæðisins sé að koma í veg fyrir að rekstrar- og viðskiptaupplýsingar sem eftirlitsskyldir aðilar veita Flugmálastjórn Íslands lögum samkvæmt verði gerðar opinberar með þeim afleiðingum að þeir hljóti skaða af. Þótt upplýsingar um tilvist fyrirtækis eða það eitt að fyrirtæki hyggist hasla sér völl á tilteknu starfssviði teljist einar og sér sjaldnast falla undir ákvæðið er ekki útilokað að upplýsingar í umsókn um starfsleyfi falli þar undir. Nefndin telur jafnframt að í ljósi þess að um sérstakt þagnarskylduákvæði sé að ræða kunni upplýsingar að falla undir ákvæðið sem annars teldust ekki undanþegnar upplýsingarétti samkvæmt almennum ákvæðum upplýsingalaga þar að lútandi.

Sú umsókn sem mál þetta lýtur að er afar fáorð. Hún er ein blaðsíða og þar koma einungis fram upplýsingar um hver umsækjandinn sé og bókstafir sem vísa til þeirrar gerðar af leyfi sem sótt er um. Hvorki í synjun Flugmálastjórnar Íslands, dags. 18. febrúar 2013, né í umsögnum hennar til nefndarinnar er útskýrt hvernig umsóknin veitir upplýsingar um rekstur eða viðskipti umsækjandans. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi því rétt að leita til umsækjandans sjálfs og óskaði bréflega eftir afstöðu hans til þessa álitaefnis og þeim sjónarmiðum sem kynnu að búa að baki þeirri afstöðu að rétt væri að synja um aðgang að upplýsingunum. Þrátt fyrir ítrekanir hefur þeirri ósk ekki verið sinnt.

Með vísan til framangreinds getur úrskurðarnefnd um upplýsingamál ekki fallist á að umsókn Rhino-Aviation frá 4. febrúar 2013 falli undir hið sérstaka þagnarskylduákvæði í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 100/2006.

Eftir stendur að taka afstöðu til þess hvort ákvæði 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, um takmarkanir á upplýsingarétti vegna einkahagsmuna, geti átt við í málinu. 

Í 9. gr. upplýsingalaga segir: 

„Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.“ 

Synjun kæranda um aðgang að umsókn Rhino-Aviaton á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga fær því aðeins staðist að fyrir liggi að upplýsingarnar sem þar komi fram varði mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni þess félags. Í athugasemdum um ákvæðið í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum segir meðal annars: 

„Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni. Hér skiptir miklu að lagt sé mat á tilvik hverju sinni með hliðsjón af hagsmunum þess lögaðila sem upplýsingar varða. Við matið þarf almennt að vega saman hagsmuni viðkomandi lögaðila af því að upplýsingum sé haldið leyndum gagnvart þeim mikilvægu hagsmunum að upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna séu aðgengilegar almenningi.“ 

Umrædd 9. gr. upplýsingalaga felur í sér undantekningu frá þeirri meginreglu sem fram kemur í 5. gr. laganna um aðgang almennings að gögnum og upplýsingum sem lögin taka til. Undantekningarheimild 2. málsliðar 9. gr. á einungis við þegar upplýsingar varða „mikilvæga“ fjárhags eða –viðskiptahagsmuni en sami áskilnaður um mikilvæga hagsmuni á ekki við í tilfelli einstaklinga, sbr. orðalag 1. málsliðar sömu lagagreinar. Þá er í lögskýringargögnum vikið að því varðandi beitingu 2. málsliðar 9. gr. að „miklu“ skipti að „lagt sé mat á tilvik hverju sinni með hliðsjón af hagsmunum þess lögaðila sem upplýsingar varða.“ Úrskurðarnefndin telur ekki útilokað að heimilt sé að synja um aðgang að gögnum með vísan til 2. málsliðar 9. gr. þótt ekki liggi fyrir afstaða fyrirtækis eða lögaðila um það hvaða hagsmuni réttlæti slíka synjun.

Þeirri umsókn sem mál þetta lýtur að var lýst hér að framan. Þar kom fram að umsóknin væri efnisrýr og innihéldi ekki upplýsingar um rekstur eða viðskipti umsækjandans í skilningi 1. mgr. 7. gr. laga nr. 100/2006. Á grundvelli sömu sjónarmiða og þar eru rakin er það niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að umsóknin innihaldi engar þær upplýsingar sem falla undir ákvæði 2. málsl. 9. gr. upplýsingalag nr. 140/2012.

Í tilefni af tilvísun Flugmálastjórnar Íslands til ákvörðunar hennar nr. 1/2009, sbr. auglýsingu nr. 349/2009, tekur úrskurðarnefnd um upplýsingamál fram að lögbundinn réttur almennings til aðgangs að gögnum verður ekki takmarkaður með stjórnvaldsfyrirmælum og verður því í þessum úrskurði ekki fjallað frekar um það skýringarefni sem birtist í ákvörðuninni.

Með vísan til alls framangreinds verður hin kærða ákvörðun Flugmálastjórnar Íslands felld úr gildi og lagt fyrir Samgöngustofu að afhenda kæranda hið umbeðna gagn eins og nánar greinir í úrskurðarorði. 

Úrskurðarorð

Samgöngustofu ber að afhenda Flugvirkjafélagi Íslands umsókn Rhino-Aviation um „Part-145“ starfsleyfi frá 4. febrúar 2013. 


Hafsteinn Þór Hauksson, formaður


Sigurveig Jónsdóttir                                 


Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum