Hoppa yfir valmynd
16. ágúst 2013 Forsætisráðuneytið

A-491/2013. Úrskurður frá 16. ágúst 2013

Úrskurður 

Hinn 16. ágúst 2013 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. A-491/2013. 

Kæruefni

Með bréfi, dags. 3. ágúst 2012, kærði A f.h. […], þá ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, dags. 6. júlí, að vísa frá beiðni hans, dags. 22. júní, um aðgang að gögnum er tengjast Kaupþingi banka hf. Kærandi krefst aðgangs að gögnunum.

Málsatvik

Kærandi sendi Fjármálaeftirlitinu beiðni um afhendingu gagna með bréfi, dags. 22. júní, með vísan til ákvæðis 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Þar kemur eftirfarandi m.a. fram: 

„Undirritaður óskar hérmeð eftir aðgangi á grundvelli 3. gr. upplýsingalga nr. 50/1996, að eftirfarandi gögnum er tengjast Kaupþingi:

  • Skýrslu PricewaterhouseCoopers vegna rannsókna á atvikum sem gerðust í vikunni fyrir hrun bankanna, sem skilað var til Fjármálaeftirlitsins í desember 2008
  • Niðurstöður rannsóknar Fjármálaeftirlitsins á áhættustýringu sjóða, maí 2008
  • Skýrsla um ákveðna þætti innra eftirlits Kaupþings, unna af PricewaterhouseCoopers að beiðni Fjármálaeftirlitsins í árslok 2008
  • Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um lánaáhættur Kaupþings, janúar 2008
  • Skýrslur um stórar áhættur sem Kaupþing sendi til Fjármálaeftirlitsins 2007 og 2008
  • Skýrsla Kaupþings til Fjármálaeftirlitsins, dags. 30. júní 2007
  • Drög að fundargerð fundar Bankastjórnar og Fjármálaeftirlitsins með stjórnendum bankanna 25. apríl 2008, kl. 15:00-15:45. SI 47404
  • Gögn frá Fjármálaeftirlitinu sem afhent voru til Rannsóknaranefndar Alþingis: „Liquidity Risk – template – 18 months – SEPT all currencies SENT.xls“, 31. ágúst 2008
  • Önnur gögn [...] sem Fjármálaeftirlitið afhenti Rannsóknarnefnd Alþingis og varða Kaupþing banka.“

Í bréfi kæranda kemur fram að lúti gögnin sérstakri þagnarskyldu sé þess óskað að aðgangur verði veittur að gögnunum að hluta með hliðsjón af 7. gr. upplýsingalaga. 

Eins og fram hefur komið afgreiddi Fjármálaeftirlitið upplýsingabeiðni kæranda með bréfi, dags. 6. júlí 2012. Í bréfinu er fjallað um reglu 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 um upplýsingarétt almennings og þá reglu sem fram kemur í 1. mgr. 10. gr. laganna að þegar óskað er aðgangs að gögnum í fórum stjórnvalda þurfi sá sem óskar aðgangs að tilgreina það mál eða gögn í því máli sem óskað er eftir. Komi ákvæðið í veg fyrir að unnt sé að óska aðgangs að ótilteknum fjölda mála eða gögnum í ótilteknum málum af ákveðinni tegund eða frá ákveðnu tímabili. Þá vísar Fjármálaeftirlitið í bréfi sínu til 11. gr. laganna og vísar til þess að ákvæðið gefi það beinlínis til kynna að almennt eigi stjórnvaldi að vera mögulegt að afgreiða upplýsingabeiðni innan sjö daga frá móttöku hennar. Til þess að stjórnvaldi sé það mögulegt verði að gera ákveðnar kröfur um tilgreiningu máls eða gagna í upplýsingabeiðni. Var það afstaða Fjármálaeftirlitsins að upplýsingabeiðni kæranda varðaði ekki tiltekið mál í skilningi laganna heldur tiltekinn banka, Kaupþing banka hf. Fjármálaeftirlitið vísaði til þess að beiðnin væri of almenn til þess að hægt væri að taka hana til efnislegrar afgreiðslu án nánari afmörkunar. Með vísan til þessa vísaði Fjármálaeftirlitið upplýsingabeiðni kæranda frá.

Í kærunni til úrskurðarnefndar um upplýsingamál kemur fram að kærandi sé ósammála þeirri niðurstöðu Fjármálaeftirlitsins sem fram komi í áðurnefndu bréfi, dags. 6. júlí 2012. Kærandi vísar til þess að beiðnin hafi verið þess eðlis og þannig afmörkuð að unnt hafi verið að veita aðgang að upplýsingunum. Niðurstaðan sé ekki eingöngu bæði í andstöðu við ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og ákvæði upplýsingalaga nr. 50/1996 heldur einnig í innbyrðis ósamræmi. Þá kemur eftirfarandi m.a. fram í kærunni: 

„Tilgangur og markmið upplýsingalaganna er að veita almenningi aðgang að gögnum sem eru fyrirliggjandi hjá stórnvaldi og lúta ekki sérstökum takmörkunum. Í breytingum þeim sem gerðar voru með lögum nr. 161/2006 var hugtakinu „fyrirliggjandi“ bætt við 1. mgr. 3. gr. laganna sem og viðbótarsetningu um að ekki sé skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkara mæli en leiðir af 7. gr. upplýsingalaganna. 

[...] 

Í athugasemdum frumvarpsins segir jafnfram að „í beiðni verður að tilgreina gögn máls eða málið með það glöggum hætti að stjórnvöldum sé fært að hafa uppi á málinu og gögnum þess.“ Samkvæmt þessu er ljóst að upplýsingalögin gera eingöngu kröfu um tilgreiningu gagna máls eða máls og kröfur sem gerðar eru til tilgreiningar hverju sinni snúa ekki að „málsnúmeri“, „skjalanúmeri“ eða annarskonar sérgreindri flokkunaraðferð sjórnvalda hverju sinni, heldur er eingöngu gerð sú krafa að stjórnvald geti með glöggum hætti haft uppi á málinu og/eða þeim gögnum sem óskað er eftir.

Fær þessi afstaða stoð í röksemdum FME sem virðist á stöku stað vera í innbyrðis togstreytu. Með hiðsjón af framangreindu og markmiðum upplýsingalaganna er ljóst að nægilegt er að tilgreina gögn, enda séu gögnin fyrirliggjandi hjá stjórnvaldi.“ 

Málsmeðferð

Kæran var send Fjármálaeftirlitinu til athugasemda með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 8. ágúst 2012, og barst svar við því 3. september s.á. 

Í bréfi Fjármálaeftirlitsins segir að með ákvörðun stofnunarinnar hafi upplýsingabeiðni kæranda verið vísað frá þar sem ekki hafi verið unnt að taka hana til efnislegrar meðferðar þar sem hún hafi þótt of almenn. Í ljósi þessa geti stofnunin eðli málsins samkvæmt ekki orðið við ósk úrskurðarnefndarinnar um afhendingu þeirra. Með vísan til þess að Fjármálaeftirlitið hafi ekki tekið efnislega afstöðu til upplýsingabeiðninnar í formi synjunar sé það mat stofnunarinnar að úrskurðarnefndin geti ekki tekið málið til úrskurðar og að vísa beri því frá. Fallist nefndin ekki á frávísun málsins á framangreindum grundvelli sé það mat Fjármálaeftirlitsins að sá ágreiningur sem tekinn yrði til úrskurðar lúti einungis að því hvort frávísun stofnunarinnar hafi verið réttmæt.

Segir svo orðrétt: „Hin umdeilda og víðtæka upplýsingabeiðni kæranda sem deilt er um í máli þessu er í 9 liðum. Beiðnin lýtur að upplýsingum um málefni Kaupþings hf. (áður Kaupþing banki hf.) frá stofnun bankans til október 2008 og rannsóknir Fjármálaeftirlitsins í kjölfar bankahrunsins á starfsemi bankans.“ Vísað er til 3. gr., 1. mgr. 10. gr. og 1. mgr. 11. gr.  upplýsingalaga nr. 50/1996 sem og laga nr. 161/2000 um breytingu á upplýsingalögum. 
Segir svo orðrétt: „Að framangreindu virtu leiðir að þegar óskað er aðgangs að tilteknum gögnum verður upplýsingabeiðnin að tengjast tilteknu máli. Í beiðninni verður að tilgreina gögn máls eða málið með það glöggum hætti að stjórnvöldum sé fært að hafa uppi á viðkomandi máli og gögnum þess. Ekki er unnt að biðja um aðgang að gögnum í ótilgreindum málum eða aðgang að öllum málum af ákveðinni tegund eða frá tilteknu tímabili. Almennt er heldur ekki nóg að biðja um aðgang að öllum gögnum sem tengd eru einum aðila. Þessi skilningur fær einnig stoð í úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli A-398/2011 sem hefur fordæmisgildi í máli þessu. 

Fjármálaeftirlitið bendir á að meginreglan um tilgreiningu máls eða gagna endurspeglast einnig í 1. mgr. 11. gr. upplýsingalaga. Ákvæðið gefur það beinlínis til kynna að stjórnvald á að geta tekið afstöðu til upplýsingabeiðni inn sjö daga frá móttöku hennar. Til þess að stjórnvaldi sé það mögulegt verður að gera ákveðnar kröfur um tilgreiningu máls eða gagna í upplýsingabeiðni. 

Upplýsingabeiðni kæranda í máli þessu er ekki einungis mjög víðfeðm heldur er þar farið fram á gögn af ýmsum tegundum í ótilteknum málum á löngu tímabili sem varða tiltekinn aðila, Kaupþing hf. Hún er því í engu samræmi við þær kröfur um afmörkun sem upplýsingalög gera til slíkrar beiðni og lýst er nánar hér að framan.
[...]
Fallist úrskurðarnefndin ekki á frávísun málsins mun ágreiningur sem tekinn yrði til úrskurðar hjá nefndinni einungis lúta að því hvort frávísun Fjármálaeftirlitsins hafi verið réttmæt. Ekki mun því koma til þess að úrskurðað verði hvort aðgangur að umbeðnum gögnum verði heimilaður eða synjun staðfest líkt og gert er ráð fyrir í upplýsingalögum. Jafnvel þótt svo hátti í máli þessu telur Fjármálaeftirlitið fullt tilefni til að koma að sjónarmiðum sínum er lúta að lagagrundvelli beiðni um upplýsingar sem liggja fyrir í málinu. 

Í stjórnsýslukæru lögfræðings kæranda er vísað til 4. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Því er haldið fram að ákvæðið eigi við um upplýsingar um málefni Kaupþings hf. Ákvæðið er undantekning frá meginreglunni um hina sérstöku þagnarskyldu sem hvílir á starfsmönnum Fjármálaeftirlitsins samkvæmt 1. mgr. og ber því að skýra hana með þrengjandi hætti. Í ákvæðinu segir: 

„Þegar eftirlitsskyldur aðili er gjaldþrota eða þvinguð slit fara fram er heimilt við rekstur einkamála að upplýsa um atriði sem þagnarskylda gildir annars um skv. 1. mgr. Þagnarskyldan gildir þó um upplýsingar sem varða þriðja aðila sem á hlut að björgunaraðgerðum vegna eftirlitsskylds aðila.“ 

Fjármálaeftirlitið bendir í þessu samhengi á að Kaupþing hf. er hvorki gjaldþrota né hefur félaginu verið slitið. Kaupþing hf. er í slitameðferð á grundvelli XII. kafla laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins á meðan á henni stendur, sbr. 101. gr. a sömu laga og 2. mgr. 2. gr. laga nr. 87/1998. Þá er rétt að benda á að enda þótt fyrrnefnt ákvæði tæki til Kaupþings hf. myndi slík niðurstaða ekki ná til upplýsinga sem háðar væru bankaleynd samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002. Til hliðsjónar má benda á að gagnaöflun í einkamálum fyrir dómi fer samkvæmt ákvæðum laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og getur aðili að slíku máli skorað á gagnaðila, í þessu tilviki Kaupþing hf., til að leggja fram gögn. Þá fylgja ákveðin réttaráhrif því verði hann ekki við slíkri áskorun, sbr. einnig til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 27. janúar 2011 í máli nr. 699/2010. 

Þá vísar lögfræðingur kæranda til þess að upplýsingar um málefni Kaupþings hf. hafi meðal annars verið afhentar rannsóknarnefnd Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og hafi þar með trúnaði verið svipt af upplýsingunum og eigi því kærandi rétt til upplýsinganna. Í þessu samhengi þykir rétt að geta þess að fyrrnefnd rannsóknarnefnd var skipuð á grundvelli laga nr. 142/2008. Samkvæmt lögunum hafði nefndin mjög víðtækan rétt til upplýsinga frá einstaklingum, lögaðilum og stofnunum, þ. á m. Fjármálaeftirlitinu. Á nefndarmönnum og öðrum sem unnu að rannsókn fyrir nefndina hvíldi þagnarskylda um þær upplýsingar sem nefndinni bárust og leynt eiga að fara. Hlutverk nefndarinnar var ekki að afhenda eða svipta hulunni af einstökum upplýsingum eða gögnum sem henni voru afhentar við rannsókn sína heldur var henni ætlað að skrifa skýrslu þar sem niðurstöður rannsóknanna voru birtar á samandregnu formi. Með vísan til framangreinds og nýlegra úrskurða úrskurðarnefndarinnar í málum A-387/2011, A-398/2011 og A-419/2012 er ljóst að þær upplýsingar sem afhentar voru fyrrnefndri rannsóknarnefnd veita Fjármálaeftirlitinu ekki heimild til að láta þær af hendi til hvers sem þess óskar og víkja því ekki hinni sérstöku þagnarskyldu starfsmanna Fjármálaeftirlitsins, ákvæði um bankaleynd og takmörkunum sem upplýsingalög gera ráð fyrir úr vegi.“

Umsögn Fjármálaeftirlitsins var send kæranda til athugasemda með bréfi, dags. 4. september 2012. Með bréfi, dags. 21. september, bárust athugasemdir kæranda og kemur þar eftirfarandi m.a. fram:

„Með hiðsjón af og tilgangi og markmiðum íslensks stjórnsýsluréttar getur Fjármálaeftirlitið (FME) ekki haldið því fram að stofnunin hafi vísað frá upplýsingabeiðni dags. 22. júní 2012 án þess að hún hafi hlotið efnislega meðferð og að slík ákvörðun komi í veg fyrir að æðra stjórnvald endurskoði og snúi við ákvörðun stofnunarinnar. Hefðbundin „frávísun“ er ekki venjubundin í stjórnsýslumálum, enda ber stjórnvöldum að aðstoða borgara ef að formgallar eru á fyrirspurn, en slíkir formgallar eiga ekki að valda „frávísun“ máls frammi fyrir stjórnvöldum. Upplýsingalögin gera engan greinarmun á synjun stjórnvalds um aðgang að gögnum án þess að efnisleg afstaða hafi veri tekin af hálfu stjórnvaldsins og synjun þegar efnisleg afstaða liggur til grundvallar ákvörðun. Í báðum tilvikum er um að ræða að stjórnvald hefur synjað um aðgang að umbeðnum gögnum og er slík stjórnvaldsákvörðun kæranleg til úrskurðarnefndar um upplýsingamál sbr. 14. gr. upplýsingalga nr. 50/1996.

[...]

Á meðal þeirra rangfærslna sem finna má í athugasemdum FME er sú fullyrðing að upplýsingabeiðni sem mál þetta lítur að hafi verið of víðtæk. Upplýsingabeiðnin snéri að 9 liðum, 8 þessara liða sérgreindu tiltekið skjal eins nákvæmlega og upplýsingabeiðanda var unnt að gera. Níundi liðurinn var vissulega opinn, en þó var hann afmarkaður við tiltekið mál og gögn er vörðuðu tiltekin aðila þess máls. Því fer þó fjarri að stjónvaldi sé stætt að synja um að taka afstöðu til aðgangs að hinum sérgreindu skjölum á þeim forsendum að einn liður af níu var ósérgreindur. Slíkt myndi brjóta gegn meginreglum stjórnsýslulaga [og] færi jafnframt gegn 7. gr. og 12. gr. laga nr. 37/1993. FME hefði hæglega getað synjað um aðgang að níunda liðnum og tekið afstöðu til hinna sérgreindu skjala. Sú leið sem FME valdi, að synja beiðninni í heild sinni á hinum kærðu forsendum er gróft brot á meðalhófsreglu 12. gr. laga nr. 37/1993 og fær efnislega ekki staðist upplýsingalög.“

Einnig kemur fram í bréfinu að átelja beri vinnubrögð Fjármálaeftirlitsins þar sem í bréfi þess, dags. 3. september, eru fullyrðingar um inntak kærunnar sem ekki fáist staðist. Vísar kærandi til þess að ætla megi að Fjármálaeftirlitið hafi ekki lesið kæruna og ber það vott um hin lötu stjórnsýsluvinnubrög sem einkenna málið. Þá ítrekar kærandi beiðnina og að standi sérstakar þagnarskyldureglur í vegi fyrir afhendingu umbeðinna gagna beri að afhenda þau að hluta með vísan til 7. gr. upplýsingalaga.

Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til þess að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila en gert hefur verið. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

Niðurstaða

1.
Ný upplýsingalög nr. 140/2012 tóku gildi 28. desember 2012. Með þeim féllu úr gildi að stærstum hluta ákvæði eldri upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. 1. mgr. 35. gr. hinna nýju laga. Þegar Fjármáleftirlitið tók hina kærðu ákvörðun voru enn í gildi eldri upplýsingalög nr. 50/1996. Var hún því byggð á efnisákvæðum þeirra laga.
Hlutverk úrskurðarnefndar um upplýsingamál er að úrskurða um ágreining sem til hennar er beint vegna synjunar stjórnvalda um aðgang að gögnum, sbr. áður 14. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 og nú 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Af þessu leiðir að endurskoðun úrskurðarnefndarinnar lýtur að því hvort hin kærða ákvörðun hafi verið rétt að teknu tilliti til þeirra efnisreglna um upplýsingarétt sem í gildi voru þegar hún var tekin. Meðferð úrskurðarnefndarinnar á kærumálinu lýtur hins vegar, frá og með gildistöku hinna nýju laga, þeim reglum um form og hlutverk úrskurðarnefndarinnar sem þar koma fram.

2.
Eins og fram hefur komið barst kæra þessa máls úrskurðarnefnd um upplýsingamál með bréfi, dags. 3. ágúst 2012, en kæran laut að afgreiðslu Fjármálaeftirlitsins á gagnabeiðni kæranda sem sett var fram í níu liðum. Í skýringum Fjármálaeftirlitsins til úrskurðarnefndarinnar kemur fram að ekki hafi verið unnt að taka upplýsingabeiðni kæranda til efnislegrar meðferðar þar sem hún hafi þótt of almenn og af þeim sökum hafi heldur ekki verið unnt að verða við ósk úrskurðarnefndarinnar um afhendingu gagna.
Í 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er m.a. kveðið á um að stjórnvöldum sé skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum „sem varða tiltekið mál“ með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr. 
Í 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. 2. gr. laga nr. 161/2006, segir: „Sá sem fer fram á aðgang að gögnum skal tilgreina þau gögn máls sem hann óskar að kynna sér. Þá getur hann óskað eftir að fá að kynna sér öll gögn um tiltekið mál án þess að tilgreina einstök gögn sem málið varða.“ Réttur til upplýsinga á grundvelli upplýsingalaga er samkvæmt framangreindu bundinn við gögn sem varða tiltekin mál sem eru eða hafa verið til meðferðar í stjórnsýslu ríkis eða sveitarfélaga, sbr. og 1. mgr. 1. gr. upplýsingalaga.

3.
Eins og fram hefur komið var beiðni kæranda um aðgang að gögnum sett fram í níu liðum. Þegar beiðni er sett fram í mörgum liðum ber stjórnvaldi að afgreiða alla liði beiðninnar. Getur þá komið til þess að stjórnvald vísi einstökum liðum frá á grundvelli þess að þeir séu of almennt orðaðir en taki efnislega afstöðu til annarra sem uppfylla kröfur laga um skýrleika og fullnægjandi tilgreiningu. Í afgreiðslu Fjármálaeftirlitsins er hver töluliður ekki skoðaður efnislega heldur beiðninni vísað frá í heild sinni. 

Eins og áður segir getur almenningur óskað eftir því á grundvelli upplýsingalaga nr. 50/1996 að fá aðgang að öllum gögnum „er varða tiltekið mál“ með þeim takmörkunum sem rakin eru í lögunum. Varði gögnin „mál“ í skilningi laganna getur borgarinn hvort sem er tilgreint sérstaklega þau gögn sem hann óskar aðgangs að eða óskað eftir aðgangi að öllum gögnum viðkomandi máls án þess að tilgreina gögnin sérstaklega, sbr. 1. mgr. 10. gr. laganna. Í því tilfelli sem hér um ræðir var það afstaða Fjármálaeftirlitsins að beiðni kæranda um aðgang að gögnum lyti ekki að tilteknu máli í skilningi upplýsingalaga heldur að tilteknum banka og að beiðnin væri of almenn til að hægt væri að taka hana til efnislegrar afgreiðslu án nánari afmörkunar.

Í 9. lið upphaflegrar beiðni kæranda að gögnum, sbr. bréf hans til Fjármálaeftirlitsins dags. 22. júní 2012, var óskað eftir „[öðrum gögnum] sem fjármálaeftirlitið afhenti Rannsóknarnefnd Alþingis og varða Kaupþing banka“. Það er niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að beiðnin hafi að þessu leyti ekki lotið að tilteknu máli í skilningi upplýsingalaga nr. 50/1006, heldur almennt að samskiptum tiltekins banka og Fjármálaeftirlitsins. Í ljósi framangreinds fellst úrskurðarnefnd um upplýsingamál á það með Fjármálaeftirlitinu beiðni kæranda hafi að þessu leyti verið of almenn til þess að hægt hefði verið að taka hana til efnislegrar afgreiðslu án nánari afmörkunar.

Þegar svo háttar til að stjórnvöldum berst beiðni um aðgang að gögnum sem er svo almenn að ekki er hægt að ætlast til þess að stjórnvald geti haft uppi á gögnunum er stjórnvöldum rétt að vísa beiðninni frá í stað þess að taka efnislega afstöðu til hennar í formi synjunar. Fjármálaeftirlitinu var því rétt að frávísa umræddum lið beiðninnar.

Ákvæði 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hefur að geyma almenna reglu stjórnsýsluréttar um stjórnsýslukæru en þar segir í 1. mgr. að aðila máls sé „heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju“. Þá er í 14. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 sérregla um kærur vegna synjunar upplýsingabeiðna en þar kemur fram að heimilt sé að bera þær synjanir „undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem úrskurðar um ágreininginn“. Meginmarkmiðið með framangreindum kæruheimildum er að treysta réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Hafi mál ekki hlotið efnislega umfjöllun á lægra stjórnsýslustigi, eða það afgreitt á röngum lagagrundvelli, getur stjórnvaldi á kærustigi því verið nauðugur sá kostur að heimvísa málinu til lögmætrar málsmeðferðar í stað þess að leitast við að bæta sjálft úr annmörkunum. Enda fengi stjórnsýslumálið að öðrum kosti ekki umfjöllun á tveimur stjórnsýslustigum eins og stefnt er að með kæruheimild.

Hér að framan var komist að þeirri niðurstöðu að 9. liðurinn í upphaflegri upplýsingabeiðni kæranda hefði verið of almennur til þess að geta talist beiðni um gögn tiltekins máls í skilningi upplýsingalaga eða beiðni um nægilega tilgreind gögn í slíku máli. Í liðum 1 til 8 í upplýsingabeiðni kæranda eru hins vegar tilgreind með nokkuð nákvæmum hætti þau önnur gögn sem óskað er aðgangs að. Sem dæmi má nefna 6. lið beiðninnar þar sem óskað er eftir aðgangi að skýrslu sem send var Fjármálaeftirlitinu og er í beiðninni tilgreint bæði um dagsetningu skýrslunnar og frá hverjum skýrslan stafaði. Þrátt fyrir þessa nákvæmu tilvísun er í engu vikið að umræddum liðum beiðninnar í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, dags. 6. júlí 2012. Hið sama gildir um aðra liði beiðninnar. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur því óhjákvæmilegt að vísa málinu aftur til Fjármálaeftirlitsins til nýrrar og lögmætrar efnislegrar afgreiðslu að þessu leyti, svo sem  nánar er tilgreint í úrskurðarorði.

Í tilefni af framangreindri umfjöllun um kröfur upplýsingalaga nr. 50/1996 til framsetningar beiðni um aðgang að gögnum telur úrskurðarnefnd um upplýsingarétt tilefni til að árétta að nú hafa tekið gildi ný upplýsingalög nr. 140/2012. Í hinum nýju lögum eru gerðar nokkuð vægari kröfur til upplýsingabeiðanda heldur en gert var í lögum nr. 50/1996. Í almennum athugasemdum með frumvarpi því er varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 er að finna ítarlega umfjöllun um þýðingu þessarar breytingar. Þá er jafnframt vikið að umræddri breytingu í athugasemdum frumvarpsins við 15. gr. laganna. Ástæða þess að úrskurðarnefnd um upplýsingamál vekur athygli á umræddum lagabreytingum er sú að þær kunna að skipta máli við málsmeðferð Fjármálaeftirlitsins á máli kæranda í kjölfar heimvísunar þeirrar sem kveðið er á um í úrskurðarorðum.

Úrskurðarorð

Beiðni [A], dags. 22. júní 2012, um aðgang að öðrum gögnum sem Fjármálaeftirlitið afhenti Rannsóknaranefnd Alþings og varða Kaupþing banka, þ.e. níunda og síðasta lið beiðni, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Beiðni [A], dags. 22. júní 2012, er að öðru leyti vísað til Fjármálaeftirlitsins til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.

Hafsteinn Þór Hauksson
formaður

Sigurveig Jónsdótti 

Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum