Hoppa yfir valmynd
6. júní 2013 Forsætisráðuneytið

A-483/2013. Úrskurður frá 6. júní 2013

 

ÚRSKURÐUR

 

Hinn 6. júní 2013 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. A-483/2013 í máli ÚNU13020011.

 

Kæruefni og málsatvik

Þann 21. febrúar 2013, kærði [A], f.h. [B], til úrskurðarnefndar um upplýsingamál afgreiðslu mennta- og menningarmálaráðuneytis á beiðnum kæranda, dags. 15. mars 2012, 19. júlí 2012, 1. febrúar 2013 og 7. febrúar 2013, um afrit af þjónustusamningi við Verzlunarskóla Íslands og Menntaskóla Borgarfjarðar ehf. Erindunum hafði ekki verið svarað.

 

Málsmeðferð

Kæran var send mennta- og menningarmálaráðuneytinu með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 26. febrúar 2013, þar sem því var beint til kærða að svara erindi kæranda eigi síðar en 8. mars, sbr. 1. mgr. 17. gr. og 1. mgr. 19. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

 

Með bréfi mennta- og menningarmálaráðuneytisins, dags. 7. mars, barst nefndinni afrit af bréfi ráðuneytisins til kæranda, dags. 26. febrúar, þar sem beiðni hans var svarað. Í bréfinu var kæranda bent á hvar hægt væri að nálgast umbeðin gögn á heimasíðu ráðuneytisins. Með bréfinu fylgdi áður gildandi þjónustusamningur við Verzlunarskóla Íslands. Tekið var fram í bréfinu til úrskurðarnefndarinnar að umbeðin gögn sem til hafi verið hjá ráðuneytinu hafi verið afhent.

 

Með bréfi úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 14. mars 2013, var framangreint bréf ráðuneytisins sent til kæranda og þess óskað að nefndin yrði upplýst um það eigi síðar en 25. mars hvort kærandi teldi afgreiðslu kærða á beiðni hans um aðgang að gögnum fullnægjandi.

 

Í bréfi kæranda til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 20. mars 2013, kom fram að kærandi teldi svar mennta- og menningarmálaráðuneytisins vera ófullnægjandi þar sem á vef ráðuneytisins væru aðeins núgildandi samningar við Verzlunarskóla Íslands og Menntaskóla Borgarfjarðar ehf., sem tóku gildi 1. janúar 2013. Auk núgildandi samninga hafi verið óskað eftir afriti af þjónustusamningum sem mennta- og menningarmálaráðuneytið gerði áður en núgildandi samningar tóku gildi. Alls hafi verið óskað eftir tveimur samningum í tilviki hvors aðila. Kærandi telur ráðuneytið ekki hafa brugðist við þeim hluta beiðninnar er lyti að áður gildandi samningum, þ.e. þeim sem í gildi voru næst áður en núgildandi samningar tóku gildi. Í tilviki Verzlunarskóla Íslands hafi ráðuneytið afhent samning sem í gildi var frá 1. janúar 1999 til 31. desember 2005 en engin staðfesting sé á því að sá samningur hafi gilt þar til núgildandi samningur tók gildi. Þá sé óhugsandi að samningurinn hafi gilt í sjö ár eftir lok gildistíma án sérstakrar staðfestingar. Í tilviki Menntaskóla Borgarfjarðar ehf. hafi eldri samningur ekki verið afhentur.

 

Með bréfi úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 17. apríl, var óskað eftir afstöðu mennta- og menningarmálaráðuneytisins til framangreindra athugasemda kæranda.

 

Athugasemdir ráðuneytisins bárust úrskurðarnefnd um upplýsingamál með bréfi mennta– og menningarmálaráðuneytisins, dags. 8. maí. Þar kemur fram að ráðuneytið telji sig hafa vísað með fullnægjandi hætti á gildandi þjónustusamninga við nefnda skóla. Frá stofnun Menntaskóla Borgarfjarðar og fram að gerð gildandi þjónustusamnings hafi skólinn starfað skv. fjárveitingu á fjárlögum hverju sinni og viðurkenningu ráðuneytisins í samræmi við reglugerðir um viðurkenningu á einkaskóla á framhaldsskólastigi nr. 426/2010 og 108/1999. Frá því að þjónustusamningur við Verzlunarskóla Íslands rann út í árslok 2005, og fram að gerð gildandi þjónustusamnings, hafi skólinn starfað skv. sömu forsendum og Menntaskóli Borgarfjarðar. Með vísan til framangreinds telur ráðuneytið sig hafa svarað beiðni kæranda með fullnægjandi hætti.

 

Með tölvupósti, dags. 14. maí, var kæranda gefið færi á að gera athugasemdir við afstöðu mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Kærandi svaraði með tölvupósti, dags. 20. maí. Kærandi mótmælir því að beiðnum hans hafi verið svarað með fullnægjandi hætti og vísar enn fremur í athugasemdir sínar í bréfi, dags. 26. apríl, sem tengjast einnig öðru máli hans, sem til meðferðar er hjá úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Í því bréfi kemur m.a. fram að kærandi telji algjörlega óhugsandi að ráðuneytið hafi greitt einkaaðila mánaðarlegar greiðslur í sex ár samkvæmt fjárlögum án þess að fyrir hafi legið gildur þjónustusamningur.

Þann 27. maí 2013 barst úrskurðarnefndinni tölvupóstur frá kæranda með hjálögðum tölvupóstssamskiptum kæranda og ríkisendurskoðanda, en þar kemur eftirfarandi fram: „Í skjalakerfi okkar eru drög að þjónustusamningi vegna Menntaskóla Borgarfjarðar sem ekki hefur verið undirritaður sbr. athugsemd í skýrslu RE um Skuldbindandi samninga – 6 Mennta- og menningarmálaráðuneytið [...] en þar kemur fram á bls. 11 að samingurinn sé óundirritaður og ennfremur segir á bls. 13: Hins vegar er um að ræða framlög til Menntaskóla Borgarfjarðar. Gerð voru drög að samningi sem taka átti gildi í ársbyrjun 2010 en hann hefur aldrei verið undirritaður. Nauðsynlegt er að um framkvæmd verkefna sem ríkið greiðir framlög til séu gerðir formlegir samningar“.

 

Kærandi telur að þar semstuðst hafi verið viðdrög að samningi við Menntaskóla Borgarfjarðar árin 2006-2012 megi væntanlega túlka þau sem ígildi samnings þar sem ekkert frekar hafi verið gert í málinu. Þar með hljóti drögin að teljast opinber gögn.

 

Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til þess að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila en gert hefur verið. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

 
Niðurstaða

Í 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er meðal annars kveðið á um að stjórnvöldum sé skylt að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum „sem varða tiltekið mál“ með þeim takmörkunum sem greinir í 6.-10. gr. laganna. Í 15. gr. upplýsingalaga segir að sá sem fari fram á aðgang að gögnum skuli „tilgreina þau eða efni þess máls sem þau tilheyra með nægjanlega skýrum hætti til að hægt sé, án verulegrar fyrirhafnar, að afmarka beiðni við tiltekin gögn eða tiltekið mál.

 

Upphafleg kæra til úrskurðarnefndarinnar, dags. 21. febrúar 2013, laut að því að beiðni kæranda til mennta- og menningarmálaráðuneytisins hefði ekki verið svarað. Síðan hefur ráðuneytið svarað beiðninni með bréfi, dags. 26. febrúar. Með því fylgdi útrunninn þjónustusamningur við Verzlunarskóla Íslands, sem kærandi hafði óskað eftir. Einnig var bent á hvar kærandi gæti, á vef ráðuneytisins, nálgast gildandi samninga við báða skólana og gerir kærandi ekki athugasemd við afgreiðslu ráðuneytisins að þessu leyti. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur fram að samkvæmt beiðni kæranda verður að líta svo á að mál þetta varði synjun um aðgang að gerðum samningum. Enda þótt undir meðferð málsins hafi komið í ljós að í ráðuneytinu eru til drög að þjónustusamningi við Menntaskóla Borgarfjarðar sem ekki var gengið frá er ekki hægt að líta svo á að beiðni kæranda nái til aðgangs að þeim. Verður í því sambandi að hafa í huga að af því leiðir að ráðuneytið hefur ekki tekið formlega rökstudda afstöðu til þess hvort kærandi kann að eiga rétt á aðgangi að þessum drögum eða ekki. Þykja ekki vera efni til frekari umfjöllunar í úrskurði þessum um framangreind samningsdrög en vikið er að þeim í tölvupósti kærandi, dags. 27. maí sl.

 

Samkvæmt mennta- og menningarmálaráðuneytinu eru þeir þjónustusamningar við Menntaskóla Borgarfjarðar og Verzlunarskóla Íslands, sem kærandi hefur ekki fengið afhenta þrátt fyrir ósk þar um, ekki til. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki ástæðu til þess að draga þá staðhæfingu ráðuneytisins í efa.

 

Réttur til aðgangs að gögnum tekur til fyrirliggjandi gagna tiltekins máls, sbr. 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Samkvæmt 20. gr. þeirra laga er heimilt að kæra til úrskurðarnefndar um upplýsingamál synjun stjórnvalds um að veita aðgang að slíkum gögnum. Sama gildir um synjun stjórnvalds á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Þau gögn sem kærandi óskaði eftir liggja að hluta til ekki fyrir hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu og þau sem liggja fyrir hafa þegar verið afhent eða verið vísað til þess að þau séu kæranda aðgengileg, sbr. 2. mgr. 19. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

 

Það er því niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að mennta- og menningarmálaráðuneytið hafi þegar afhent kæranda þau gögn sem falla undir beiðni hans og fyrirliggjandi eru hjá ráðuneytinu. Með vísan til þess liggur ekki fyrir synjun þess stjórnvalds á afhendingu gagna í skilningi 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Kærunni er því vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

 
Úrskurðarorð

Vísað er frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæru [A], f.h. [B], dags. 21. febrúar 2013 á hendur mennta- og menningarmálaráðuneytinu.


Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

 


 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                                                            Friðgeir Björnsson


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum