Hoppa yfir valmynd
5. júlí 2012 Forsætisráðuneytið

B-418/2012. Úrskurður frá 5. júlí 2012

ÚRSKURÐUR


Hinn 5. júlí 2012 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. B-418/2012: 

I.
Þann 20. apríl 2012 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp úrskurð nr. A-418/2012 í tilefni af kæru [A] ehf. á þeirri ákvörðun Landspítala Háskólasjúkrahúss, dags. 19. janúar 2012, að synja beiðni kæranda, dags. 12. janúar 2012, um aðgang að tilgreindum gögnum.

Í úrskurðarorði úrskurðar nr. A-418/2012 segir svo: „Landspítala ber að veita kæranda, [A] ehf. afrit af öllum þeim gögnum sem tilgreind eru í töluliðum 1 til og með 3, í undirkafla 4 í niðurstöðum úrskurðar þessa“.

Umræddum gögnum er lýst svo í úrskurðinum, sbr. undirkafla 4 í niðurstöðukafla hans:

„1. Í fyrsta lagi er um að ræða gögn um samskipti innanhúss hjá Landspítala-Háskólasjúkrahúsi, en samskiptin eru skilgreind með þeim hætti af kæranda í fylgibréfi  með umsögn, dags. 21. febrúar 2012; þ.e. tölvupóstsamskipti starfsmanna Landspítala, dags. 17. október 2011 og 20. október 2011. Í þessum hluta gagnanna er einnig tölvupóstur frá starfsmanni [B] til tveggja starfsmanna Landspítala, dags. 14. október 2011, sem jafnframt fylgir með gögnum er varða tölvupóstsamskipti Landspítala og [B]. Verður tekin afstaða til afhendingar hans í umfjöllun um rétt til þeirra gagna. Í þessum samskiptum, sem hefjast með tölvupósti dags. 17. október 2011 milli starfsmanna Landsspítala og hafa efnislínuna „Krep bindi“ eru borin saman verð á krepbindum frá [B] og kæranda, um þau fjallað og í kjölfarið tekin ákvörðum um frá hvaða aðila varan verði keypt.

2. Í öðru lagi er um að ræða tölvupóstsamskipti Landspítala og [B], dags. 14. október 2011, 17. október 2011, 18. október 2011 og 20. október 2011, ásamt fylgigögnum. Í upphafi samskiptanna er fjallað um verð á krepbindum en í tölvupósti starfsmanns Landspítala til starfsmanns [B], dags. 20. október 2011, kemur fram að Landspítali samþykki verð sem send voru með tölvupósti sama dag. Í tölvupóstsamskiptunum er jafnframt vísað til þess verðs sem spítalinn hafi haft áður. Þá fylgja með upplýsingar um vöruna sem og útreikningur á sparnaði á ársgrundvelli miðað við núverandi verð á krepbindum.

3. Í þriðja lagi er um að ræða tölvupóstsamskipti Landspítala og [C], dags. 5. maí 2010, 6. maí 2010, 6. júlí 2010, 7. júlí 2010, 8. júlí 2010, 6. ágúst 2010, 9. ágúst 2010, 13. október 2010, 14. október 2010, 15. október 2010, 19. október 2010 og 26. október 2010, ásamt fylgigögnum. Í samskiptunum er fjallað um kaup og afhendingu á gifsvörum og bindum, eiginleika tiltekinna vörutegunda og verð. Í tölvupósti dags. 8. júlí 2010 frá starfsmanni Landspítala til starfsmanns [C] og starfsmanns Landspítala er staðfest að Landspítali muni hefja kaup á umræddum vörum frá [C]. Í gögnunum kemur fram að stefnt sé á að bjóða út kaup á gifsi, sbr. tölvupóst frá starfsmanni Landspítala, dags. 14. október 2010. Með gögnunum fylgdi listi yfir vöruflokka gips, ásamt upplýsingum.“

II.
Með bréfi til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 27. júní 2012, krafðist [D] héraðsdómslögmaður, þess fyrir hönd [C] hf., að nefndin frestaði réttaráhrifum úrskurðar nr. A-418/2012 í þeim tilgangi að unnt væri að höfða mál til ógildingar á úrskurðinum. Til vara var þess krafist að nefndin afturkallaði að eigin frumkvæði ákvörðun sína á grundvelli 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda væri umrædd ákvörðun ógildanleg og afturköllun ekki til tjóns fyrir aðila.

Ofangreindri kröfu fylgdi afrit af ákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík, dags. 22. júní, um synjun á beiðni [D] héraðsdómslögmanns, fyrir hönd [C] hf., um að lögbann yrði lagt við því að Landspítali háskólasjúkrahús afhenti gögn til [A] ehf. á grundvelli úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. A-418/2012. Í ákvörðuninni kemur fram að óskað hafi verið lögbanns á afhendingu tölvupóstsamskipta milli starfsmanna [C] hf. og Landspítalans dags. 6. júlí 2010, 7. júlí 2010, 6. ágúst 2010, 9. ágúst 2010, 13. október 2010, 14. október 2010, 15. október 2010, 19. október 2010 og 26. október 2010.

Af erindi [C] hf. til úrskurðarnefndarinnar má ráða að í þessum gögnum, þ.e. þeim sem tilgreind eru í ofangreindri ákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík, og Landspítala háskólasjúkrahúsi var gert að afhenda [A] ehf. með úrskurði nr. A-418/2012, sé að finna upplýsingar sem varði mikilvæga viðskiptahagsmuni [C] hf. og eigi að fara leynt samkvæmt ákvæði 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Verði umrædd gögn afhent muni það valda [C] hf. verulegu tjóni. Þar sem til þessa hafi ekki verið tekið tillit í úrskurði úrskurðarnefndarinnar sé hann haldinn annmarka og þar með ógildanlegur. Einnig hefur lögmaður [C] hf. bent á að undir meðferð málsins fyrir úrskurðarnefndinni hafi umbjóðandi hans ekki fengið færi á að lýsa afstöðu sinni til afhendingar umræddra gagna. Slíkt sé bersýnilega ósanngjarnt gagnvart honum, enda varði úrskurðurinn verulega og lögvarða hagsmuni hans. Lögmaður [C] hf. hefur einnig símleiðis lýst, a.m.k. að hluta, nánar þeim þáttum í umræddum gögnum sem teljast viðkvæmir fyrir viðskiptahagsmuni fyrirtækisins.

III.
Með bréfi til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 28. júní 2012, krafðist [E] lögfræðingur þess, fyrir hönd [B] ehf., að nefndin frestaði réttaráhrifum úrskurðar nr. A-418/2012 í þeim tilgangi að unnt væri að höfða mál til ógildingar á úrskurðinum. Til vara var þess krafist að nefndin afturkallaði að eigin frumkvæði ákvörðun sína.

Ofangreindri kröfu fylgdi afrit af lögbannsbeiðni [F] hæstaréttarlögmanns, fyrir hönd [B] ehf., dags. 8. júní 2012, til Sýslumannsins í Reykjavík, þar sem krafist er lögbanns við því að Landspítali háskólasjúkrahús afhendi gögn til [A] ehf. á grundvelli úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. A-418/2012. Í lögbannsbeiðninni kemur fram að óskað sé lögbanns á afhendingu tölvupóstsamskipta milli starfsmanna [B] og Landspítalans dags. 14. október 2011, 17. október 2011, 18. október 2011 og 20. október 2011. Fyrir liggur að þessari lögbannskröfu var hafnað.

Af erindi [B] ehf. til úrskurðarnefndarinnar ber að draga þá ályktun að í þessum gögnum, þ.e. þeim sem tilgreind eru í lögbannsbeiðninni, og Landspítala háskólasjúkrahúsi, var gert að afhenda [A] ehf. með úrskurði nr. A-418/2012, sé að finna upplýsingar sem varði mikilvæga viðskiptahagsmuni [B] ehf. og eigi að fara leynt samkvæmt ákvæði 5. gr. upplýsingalaga. Verði umrædd gögn afhent muni það valda [B] ehf. verulegu tjóni. Þar sem til þessa hafi ekki verið tekið tillit í úrskurði úrskurðarnefndarinnar sé hann haldinn annmarka og þar með ógildanlegur. Einnig hefur lögmaður [B] ehf. bent á að undir meðferð málsins fyrir úrskurðarnefndinni hafi umbjóðandi hans ekki fengið færi á að lýsa afstöðu sinni til afhendingar umræddra gagna. Slíkt sé bersýnilega ósanngjarnt gagnvart honum, enda varði úrskurðurinn verulega og lögvarða hagsmuni hans. Lögmaður [B] ehf. hefur einnig lagt fram í sérstöku bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 28. júní 2012, nánari lýsingu á þeim atriðum í umræddum tölvupóstsamskiptum sem eru viðkvæmir fyrir viðskiptahagsmuni fyrirtækisins.

IV.
Með bréfi, dags. 2. júlí 2012, voru [A] ehf., sem aðila að úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. A-418/2012, kynntar fram komnar kröfur frá [B] ehf. annars vegar og [C] hf. hins vegar. Jafnframt var [A] veitt færi á að tjá sig um framkomnar kröfur.

Andmæli [A] ehf. bárust úrskurðarnefnd um upplýsingamál með bréfi [G] héraðsdómslögmanns, dags. 4. júlí 2012. Í því er í fyrsta lagi hafnað kröfu um frestun réttaráhrifa. Kemur í bréfi hans fram sú afstaða að einungis stjórnvald geti sett fram slíka kröfu skv. 18. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Bendir hann á ríka hagsmuni sem umbjóðandi hans hafi af aðgangi að þeim gögnum sem fyrir Landspítalann var lagt að afhenda með úrskurði úrskurðarnefndarinnar nr. A-418/2012. Þá er hafnað kröfum um afturköllun. Er þess krafist að kröfum beggja fyrirtækjanna verði vísað frá eða þeim hafnað að öllu leyti.

V.
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur yfirfarið kröfur [B] ehf., [C] hf. og [A] ehf. í máli þessu. Einnig hefur nefndin yfirfarið rök málsaðila og þau gögn sem málið lýtur að. Nefndin telur að í málinu liggi fyrir nægar upplýsingar til þess að hún geti tekið afstöðu til þess hvort fyrri niðurstaða hennar í úrskurði nr. A-418/2012 hafi byggst á nægilegri rannsókn málsins og verið efnislega rétt, og þar með hvort lagaskilyrði séu  til afturköllunar hans og uppkvaðningar nýs úrskurðar í tilefni af kæru [A] ehf., dags. 24. janúar 2012 til úrskurðarnefndarinnar. Tekið skal fram í þessu sambandi að samkvæmt upplýsingum frá umboðsmanni [B] ehf. annars vegar og lögmanni [C] hf. hins vegar hefur enn ekki verið höfðað mál fyrir héraðsdómi til ógildingar á úrskurði nefndarinnar nr. A-418/2012. Nefndin er því bær til að taka sjálf, að eigin frumkvæði, afstöðu til gildis hans að þessu leyti. Þá liggja einnig fyrir upplýsingar um það að Landspítalinn hefur ekki afhent þau gögn sem fyrir hann var lagt að afhenda með umræddum úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Það er á hinn bóginn annað og sjálfstætt úrlausnarefni, sem á ekki undir úrskurðarnefndina, hverju það varði eða geti varðað að Landspítalinn hafi ekki framfylgt úrskurðarorði úrskurðar nr. A-418/2012, sbr. 2. mgr. 17. gr. upplýsingalaga.

VI.
Samkvæmt 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 getur stjórnvald afturkallað ákvörðun sína að eigin frumkvæði, sem tilkynnt hefur verið aðila máls, þegar: 1. það er ekki til tjóns fyrir aðila, eða, 2. ákvörðun er ógildanleg. Fyrir liggur að afturköllun úrskurðar nr. 418/2012 væri til tjóns fyrir aðila málsins, Logaland ehf., þar sem í úrskurðinum var fallist á að Landspítala háskólasjúkrahúsi bæri að afhenda öll þau gögn sem krafist hafði verið aðgangs að. Kemur þá til skoðunar hvort afturkalla beri umræddan úrskurð á þeim grundvelli að hann sé ógildanlegur, sbr. 2. tölul. 25. gr. stjórnsýslulaga. Tekið skal fram að slíka ákvörðun tekur úrskurðarnefndin að eigin frumkvæði, sé tilefni til. Hafa álitamál um aðild fyrirtækjanna [C] hf. og [B] ehf. að slíku máli að því leyti ekki þýðingu.

Málsaðila, [A] ehf., var tilkynnt að til greina kæmi að afturkalla umræddan úrskurð, sbr. bréf úrskurðarnefndarinnar frá 2. júlí. Í því bréfi kom nánar tiltekið fram að ein af mögulegum niðurstöðum í tilefni af skoðun nefndarinnar á málinu væri afturköllun úrskurðar nr. 418/2012 í heild eða að hluta, og uppkvaðning nýs úrskurðar í tilefni af kæru [A] ehf. til úrskurðarnefndarinnar. Andmæli aðila málsins af því tilefni bárust úrskurðarnefndinni með bréfi, dags. 4. júlí, eins og lýst var að framan.

Skilyrði þess að umræddur úrskurður verði felldur úr gildi af hálfu úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. tölul. 25. gr. stjórnsýslulaga, er að hann sé haldinn svo verulegum annmörkum að lögum að hann sé ógildanlegur. Um skilyrði þess að ákvörðun sé ógildanleg er ekki sérstaklega fjallað í stjórnsýslulögum. Úrskurðarnefndin telur þó að á því verði að byggja að hafi úrskurður hennar gengið gegn skýru ákvæði upplýsingalaga, þá sé á honum slíkur annmarki að hann sé af þeirri ástæðu ógildanlegur. Telur úrskurðarnefndin jafnframt að í slíku tilviki sé henni ekki aðeins heimilt að fella hann úr gildi heldur sé það og skylt.

Í þessu máli hafa þær upplýsingar borist nefndinni, með bréfum og athugasemdum frá fyrirtækjunum [C] hf. annars vegar [B] ehf. hins vegar, að upplýsingar í gögnum sem nefndin lagði fyrir Landspítala háskólasjúkrahús að afhenda með úrskurði nr. 418/2012 varði mikilvæga viðskipahagsmuni þeirra í skilningi síðari málsliðar 5. gr. upplýsingalaga. Í tilvitnuðu ákvæði 5. gr. upplýsingalaganna segir berum orðum að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum „er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila“.

Úrskurðarnefndin hefur ítarlega yfirfarið skýringar fyrirtækjanna að þessu leyti. Á grundvelli þeirrar skoðunar telur nefndin upplýst að í þeim tölvupóstsamskiptum sem þau hafa sérstaklega vísað til sé að finna upplýsingar sem telja beri að Landspítala háskólasjúkrahúsi sé óheimilt að afhenda á grundvelli 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, en á því lagaákvæði var úrskurður nr. A-418/2012 byggður, hvað varðar þau gögn sem fyrirtækin hafa sérstaklega vísað til og talið að yrðu þeim til tjóns ef gerð væru opinber. Landspítali háskólasjúkrahús lagði undir meðferð málsins  ekki fram nein gögn um afstöðu fyrirtækjanna, sem upplýsingarnar varða, að þessu leyti. Það gerði úrskurðarnefndin ekki heldur, enda taldi hún það óþarft á þeim tíma sem úrskurðurinn var kveðinn upp. Nánar tiltekið taldi nefndin að allar nauðsynlegar upplýsingar lægju fyrir til að hægt væri að kveða upp efnislega réttan úrskurð, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hinar nýju upplýsingar, sem nefndinni hafa borist eftir að fyrri úrskurður var upp kveðinn, leiða í ljós að þetta mat var ekki byggt á réttum forsendum. Þar með var í úrskurði nefndarinnar í máli nr. A-418/2012 gengið gegn ákvæði 5. gr. upplýsingalaga. Af þeirri ástæðu ber að fella hann úr gildi, sbr. 2. tölul. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur jafnframt rétt að fella umræddan úrskurð frá 20. apríl 2010 í máli nr. A-418/2012 úr gildi að öllu leyti en ekki aðeins að hluta. Byggist sú ákvörðun á þeirri meginreglu sem stjórnvöldum ber að fylgja, að ákvarðanir þeirra séu efnislega bæði ákveðnar og skýrar, m.a. í þeim tilgangi að borgararnir geti af þeim áttað sig á þeim réttindum og skyldum sem umræddar ákvarðanir leiða af sér. Með því að fyrri úrskurður nefndarinnar fellur úr gildi í heild sinni ber úrskurðarnefndinni jafnframt að kveða upp nýjan úrskurð þar sem í heild verður tekin afstaða til kæru [G] héraðsdómslögmanns frá 19. janúar 2012, fyrir hönd [A] ehf., vegna synjunar Landspítalans á að afhenda honum gögn.

Þar sem úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. A-418/2012 er felldur úr gildi eru ekki efni til þess að nefndin taki afstöðu til kröfu um að frestað verði réttaráhrifum hans.

VII.

Úrskurðarorð

Úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingamál frá 20. apríl 2012 nr. A-418/2012 er felldur úr gildi.

 

 

Trausti Fannar Valsson
formaður

 


Sigurveig Jónsdóttir                                                                                             Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum