Hoppa yfir valmynd
29. júní 2012 Forsætisráðuneytið

A-436/2012. Úrskurður frá 29. júní 2012

ÚRSKURÐUR

Hinn 29 júní 2012 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu A-436/2012.

Kæruefni og málsatvik

Með bréfi, dags. 13. september 2011, kærði [A] til úrskurðarnefndar um upplýsingamál þá ákvörðun fjármálaráðuneytisins, dags. 26. ágúst, að synja beiðni hans, dags. 11. júlí, um aðgang að samningi um vörslu og skilyrtan virðisrétt og að hluthafasamkomulagi Fjármálaráðuneytisins og Skilanefndar Kaupþings um Arionbanka.

Eins og fyrr greinir er hin kærða ákvörðun fjármálaráðuneytisins, dags. 26. ágúst 2011, en einnig liggja fyrir í gögnum málsins svör fjármálaráðuneytisins við erindum kæranda dags. 18. maí og 1. júlí 2011.

Málsmeðferð

Kæran var send fjármálaráðuneytinu með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 19. september 2011, þar sem vísað er til 2. mgr. 16. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. 3. gr. laga nr. 83/2000, og kærða veittur frestur til að gera athugasemdir við kæruna og til þess að koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni til 28. september 2011. Var þess jafnframt óskað að úrskurðarnefndinni yrði innan sama frests látið í té í trúnaði afrit af þeim gögnum, sem kæran lyti að. Erindið var ítrekað með bréfi 8. nóvember.

Svör fjármálaráðuneytisins bárust úrskurðarnefndinni með bréfi, dags. 21. nóvember 2011. Þar er í upphafi lýst aðdraganda málsins:

„Rétt er að geta þess í upphafi að ekki er fullkomlega skýrt að hvaða gögnum umrædd kæra beinist. Málið kom þannig til að kærandi sendi tölvupóst til upplýsingafulltrúa ráðuneytisins í apríl 2011 og óskaði eftir upplýsingum um „samning þann sem ríkið gerði við erlenda kröfuhafa í Arionbanka í nóvember 2009“ og hvar hann gæti nálgast þann samning.

Í tölvupósti ráðuneytisstjóra, dags. 5. maí 2011, var kæranda tilkynnt að erindi hans yrði skoðað frekar en að það kynni að taka tíma. Í bréfi ráðuneytisins þann 18. maí 2011 var kærandi upplýstur um að ráðuneytið eða ráðherra hefði enga samninga gert við erlenda kröfuhafa sérstaklega. Leiðbeint var um að ráðuneytið hefði komið að samningagerð vegna fjármögnunar á Nýja Kaupþingi hf. (nú Arionbanka hf.) og gert í því sambandi þrjá samninga, þ.e. tvo fjármögnunarsamninga og einn hluthafasamning.

Í áðurnefndu bréfi ráðuneytisins var kæranda bent á að hvorki íslenska ríkið né ráðuneytið væri aðili að uppgjörssamningi milli nýja og gamla Kaupþings, en helst mátti ætla að beiðni kæranda sneri að upplýsingum sem þar væri að finna. Var óskað eftir því að kærandi útskýrði beiðni sína frekar og þá hvort hann væri að óska eftir aðgangi að fjármögnunarsamningunum fyrrnefndu og hluthafasamningum.

Í svarbréfi kæranda frá 24. maí 2011 var óskað formlega eftir afritum „af þeim upphaflegu samningum sem þér teljið ríkið aðila að, um fjármögnun Arionbanka og hluthafasamningi ríkisins og skilanefndar Kaupþings/Kaupskils ehf...“

Í sama bréfi kæranda óskaði hann eftir upplýsingum um frumkvæði eða aðild ríkisins að uppgjörssamningnum og jafnframt var beint ýmsum fyrirspurnum til ráðuneytisins varðandi eignamat Fjármálaeftirlitsins sem sagt var gert „í þágu erlendra kröfuhafa bankanna“.

Kæranda var svarað hinn 1. júlí 2011 og var þar ítrekað að ekki væri unnt að veita aðgang að uppgjörssamningnum, sem ríkið ætti ekki aðild að. Þá var fallist á beiðni áfrýjanda um afhendingu á samningi um fjármögnun íslenska ríkisins á Nýja Kaupþingi banka hf. og honum sendur samningurinn. Greint var frá því að ekki væri unnt að veita aðgang að hluthafasamningi ríkissjóðs og Kaupþings banka hf. þar sem í honum væri um að ræða viðkvæmar viðskiptaupplýsingar og einnig að hann væri háður trúnaði.

Í síðastnefndu bréfi ráðuneytisins frá 1. júlí 2011 var einnig leitast við að útskýra hvernig stofnað var til uppgjörssamninga á milli nýja og gamla Kaupþings, og ennfremur var kærandi upplýstur um það hvernig staðið var að mati á eignum þeim sem Fjármálaeftirlitið flutti frá gamla Kaupþingi til hins nýja.

Kærandi sendi ráðuneytinu bréf hinn 11. júlí 2011 og rakti þar ýmsar spurningar sínar varðandi lögmæti þeirra samninga auk þess sem nýjar fyrirspurnir voru settar fram varðandi lista um fyrirtæki í minnisblöðum eða vinnuskjölum vegna samningagerðarinnar. Þá lýsti kærandi þeim skoðunum sínum að hugsanlega hefðu verið brotin ákvæði laga um fjármálafyrirtæki svo og almennra hegningarlaga. Þá var bent á lög um ráðherraábyrgð og þess að lokum krafist að veitt yrðu „skýr svör við spurningum ... hvort þar [í samningunum] hafi verið fjallað með beinum eða óbeinum hætti um fyrirtæki eða hóp fyrirtækja sem skilanefndin hafi fengið leyfi til að hefja endurmat/aðgerðir gegn.“

Þegar hér var komið sögu taldi ráðuneytið að í raun væru hafin skoðanaskipti um þá afstöðu sem áður hafði verið kynnt kæranda, auk þess sem kærandi lýsti andstöðu við þá afstöðu og embættisfærslu ráðherra í tengslum við samninga um skiptingu og uppgjör milli gömlu og nýju bankanna. Taldi ráðuneytið í sjálfu sér ekki skylt að standa í mikið frekari skriflegum skoðanaskiptum um þau mál en allt að einu var ritað nýtt bréf til kæranda hinn 26. ágúst 2011 þar sem bent var á þær lagaheimildir sem aðkoma ráðherra byggði og auk þess nokkrar staðreyndir sem ekki virtist hafa verið farið rétt með í fyrra bréfi kæranda.“

Í bréfi ráðuneytisins kemur jafnframt fram að ráðuneytinu sé ekki fyllilega ljóst að hverju gagnabeiðni og kæra snúi. Í kæru sé vísað til höfnunar á upplýsingabeiðni, sbr. bréf kæranda dags. 11. júlí 2011. Í því bréfi hafi verið beðið um ýmis gögn, að því er virtist bæði samning um „vörslu og skilyrtan virðisrétt“ svo og þann hluthafasamning sem gerður var á milli fármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins og Kaupskila. Jafnframt hafi verið óskað eftir listum um fyrirtæki (viðskiptavini Kaupþings) sem kynni að vera að finna á minnisblöðum og vinnuskjölum við samningsgerðina.

Eftirfarandi afstaða var svo tekin í bréfi fjármálaráðuneytisins til kæruefnanna eins og ráðuneytinu sýndust þau liggja fyrir:

„1. Listar um fyrirtæki (m.a. [B]) á minnisblöðum og vinnuskjölum við samningagerðina.
Eins og fram hefur komið í málinu var hvorki íslenska ríkið né fjármálaráðherra fyrir þess hönd aðili að samningum á milli nýja og gamla Kaupþings sem gerðir voru vegna uppgjörs á eignum og skuldum í kjölfar falls gamla bankans. Þessi gögn falla væntanlega jafnframt utan við gildissvið upplýsingalaga, sbr. 1. gr. þeirra. Þau eru gerð af einkaréttarlegum aðilum í einkaréttarlegum tilgangi. Ráðuneytið býr þess utan ekki yfir neinum listum varðandi einstök fyrirtæki eða lán til þeirra sem kunna að hafa verið notuð við þá samningsgerð. Ráðuneytið verður ekki skyldað til að útvega slík gögn.

2. Samningur um vörslu og skilyrtan virðisrétt.
Umræddur samningur er til í afriti hjá ráðuneytinu og er sendur meðfylgjandi sem trúnaðarskjal til nefndarinnar. Afstaða ráðuneytisins til afhendingar hans til kæranda kemur fram í bréfum til hans. Hún er sú að ráðuneytið á ekki aðild að gerð hans og hann varðar ekki með neinum hætti stjórnsýslu í hinum hefðbundna skilningi þess hugtaks og í skilningi upplýsingalaganna. Samningurinn er ekki þáttur í meðferð framkvæmdavalds og fellur því ekki undir gildissvið upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. 1. gr. laganna.

Að öðru leyti virðist samningurinn hafa að geyma nokkuð ítarlegar upplýsingar er varða samskipti og uppgjör gamla og nýja Kaupþings og í þeim skilningi er um að ræða mikilvæga viðskipta- og fjárhagsmuni þessara aðila sem þeir eigi rétt á að fari leynt.

Í öllu falli verður samningurinn ekki afhentur nema þeim aðilum gefist færi á að tjá sig um slíka kröfu. Telji úrskurðarnefndin að samningurinn falli undir gildissvið upplýsingalaga óskar ráðuneytið eftir því að tilkynnt verði um þá afstöðu áður en kæranda verður veittur aðgangur að samningnum. Þá áskilur ráðuneytið sér rétt til að fjalla nánar um samninginn með hliðsjón af 5. gr. upplýsingalaga og eftir atvikum óska eftir því að samningurinn í heild eða að hluta verði undanskilinn upplýsingarétti.

3. Hluthafasamningur.
Samningur hluthafa í Arion banka (áður Nýi Kaupþing banki hf.) er meðfylgjandi þessu bréfi í samræmi við beiðni nefndarinnar.

Ráðuneytið hefur á ný yfirfarið efni hans í ljósi þeirra upplýsinga sem komið hafa fram opinberlega um efni hans. Er til athugunar að endurskoða afstöðu til afhendingar samningsins. Þáttur í því mati ráðuneytisins er að leita eftir afstöðu annarra aðila samningsins til þess máls. Er þess því óskað að meðferð málsins, að því er varðar þennan samning, verði frestað þar til ráðuneytið hefur lokið skoðun sinni að nýju en gert er ráð fyrir því að henni ljúki nú í lok nóvember.“

Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. nóvember 2011 var kæranda kynnt umsögn fjármálaráðuneytisins vegna kærunnar. Var kæranda gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum vegna kærunnar í ljósi umsagnarinnar til 30. nóvember.

Með bréfi dags. 30. nóvember 2011 bárust athugasemdir kæranda vegna umsagnar fjármálaráðuneytisins. Í bréfinu segir m.a. svo:

„Fyrst af öllu vil ég vekja athygli úrskurðarnefndarinnar á skýrslu fjármálaráðherra til Alþingis um endurreisn viðskiptabankanna frá því í marsmánuði sl. [...] Efst á síðu 23 í skýrslunni má lesa eftirfarandi: „Fyrir hönd ríkisins fékk fjármálaráðuneytið það verkefni að leiða og samræma þessar viðræður en það fer með eignarhald ríkisins í nýju bönkunum. Sett var á laggirnar sérstök þriggja manna stýrinefnd með fulltrúum frá fjármála-, forsætis- og viðskiptaráðuneytinu undir forsæti þess fyrstnefnda“.

Hér fer ekkert á milli mála. Ríkisstjórnin skipaði stjórnsýslunefnd í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga til þess verks að reyna samninga við „erlenda lánardrottna“ föllnu og gjaldþrota gömlu íslensku bankanna.“

Síðar í bréfinu segir svo:

„Niðurstaða þess verks ríkisstjórnarinnar var að í öllum bönkunum voru samdir sérstakir listar um ákveðinn hóp skuldara í nýju bönkunum sem skilanefndirnar fengu „veiðileyfi“ á með samkomulagi við ríkisstjórnina í gegnum ríkisbankana. [...] Þær kröfur um upplýsingar sem ég hef sett fram beinast allar að aðkomu ríkisins að Arionbanka sem ríkisbanka þá og samkomulaginu við skilanefnd Kaupþings. Um það ferli er fjallað á bls. 50 til 58 í skýrslunni.

Á grundvelli þeirrar lýsingar hef ég sett fram kröfu um að fá afhent eftirfarandi:

1. Hluthafasamning ríkisins og skilanefndarinnar um Arionbanka.

2. Samning um vörslu og skilyrt virðisréttindi (SVSV) sem ráðuneytið hefur nú afhent nefndinni.

3. Vinnugögn og minnisblöð nefndarinnar og bankans sem snúa að fyrrum fyrirtæki mínu [B] hf. sem hrint var í þrot í maí 2010 að kröfu Arionbanka.“

Hvað varðar 5. gr. upplýsingalaga segir í bréfi kæranda:

„Ráðagerðir fjármálaráðuneytisins í svari þess að hér komi til að 5. gr. upplýsingalaga hindri þennan aðgang eiga því aðeins rétt á sér að um væri að ræða upplýsingar í gögnum þessum um aðra skuldara bankans en [B] hf. Í því sambandi vil ég vekja athygli nefndarinnar á dómum Hæstaréttar nr. 758/2009 og 64/2011. En þar er niðurstaðan sú að bankaleyndin er til varnar viðskiptavininum en ekki bankanum. Það sama á við hér um túlkun 5. gr. upplýsingalaganna, hún er til varnar þolandanum en ekki gerandanum.

Einnig eru til hliðsjónar hér úrskurðir nefndarinnar sjálfrar svo sem A-233/2006.

Því er eindregin ósk mín að úrskurðarnefnd um upplýsingamál feli ráðuneytinu að afhenda mér öll viðeigandi gögn skv. töluliðum 1- 3 hér að ofan án frekari undanbragða.“

Í bréfinu segir kærandi síðan m.a. svo: 

„Af skýrslunni má ráða að samningur um vörslu og skilyrt virðisréttindi sé samkomulag um það m.a. hvernig skuli endurmeta afskriftir á útlánum í Arionbanka hvort heldur upp eru talin fyrirtæki sem vinna skal á eða lýst er aðferðafræði um það hvernig skuli vélað. Sýnist mér ljóst að sá samningur hafi verið örlagavaldur um mín mál.

Um 3. tl. vil ég sérstaklega árétta að ofangreind stjórnsýslunefnd hlýtur að hafa fundað margsinnis og haldið fundargerðir um fundi sína.

Á þeim fundum hafa væntanlega verið lögð fram ýmis gögn og skjöl. Hugmyndir settar fram og aðferðafræði rædd. Hafi þar verið fjallað um [B] hf. í einhverjum gögnum er það skýlaus réttur minn að fá þau gögn í hendur. Sama á við ef þar var fjallað um þá aðferðafræði um endurmat sem á endanum varð ofan á fyrir frumkvæði og atbeina ríkisstjórnarinnar.“

Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. mars 2012, var óskað svara fjármálaráðuneytisins við eftirfarandi spurningum nefndarinnar:

„1. Í umfjöllun um samning um vörslu og skilyrtan virðisrétt kemur fram að ráðuneytið áskilji sér rétt til að fjalla nánar um samninginn með hliðsjón af 5. gr. upplýsingalaga og eftir atvikum óska eftir því að samningurinn í heild eða að hluta verði undanskilinn upplýsingarétti. Í ljósi þessa óskar nefndin eftir afstöðu ráðuneytisins til þess hvað standi því í vegi að samningurinn verði afhentur í heild eða að hluta.

2.  Í umfjöllun um hluthafasamning kemur fram að ráðuneytið hafi á ný yfirfarið efni hans í ljósi þeirra upplýsinga sem fram hafi komið um efni hans og að til athugunar sé að endurskoða afstöðu til afhendingar samningsins. Þá segir að þáttur í því mati ráðuneytisins sé að leita eftir afstöðu annarra aðila samningsins til málsins. Að lokum er óskað eftir því að meðferð málsins, að því er varði þennan samning, verði frestað þar til í lok nóvember. Í ljósi þessa kallar nefndin eftir afstöðu ráðuneytisins til afhendingar samningsins.“

Með bréfi fjármálaráðuneytisins dags. 29. mars svaraði ráðuneytið framangreindum spurningum nefndarinnar með eftirfarandi hætti:

„1. Samningur um vörslu og skilyrtan virðisrétt.
Eins og fram kemur í bréfi ráðuneytisins til nefndarinnar frá 21. nóvember 2011 á íslenska ríkið ekki aðild að samningi um vörslu og skilyrtan virðisrétt. Sá samningur fjallar um uppgjör á milli Nýja Kaupþings banka og Kaupþings á grundvelli ákvarðana Fjármálaeftirlitsins frá 22. október 2008 þar sem eignir og skuldir voru fluttar til hins nýja banka, þ.e. hvernig gera átti upp mismun á virði lána og yfirtekinna skuldbindinga. Var því lýst í bréfinu að afstaða ráðuneytisins til afhendingar kæmi fram í bréfum til kæranda.

Auk þess var getið sérstaklega um að samningurinn væri ekki þáttur í meðferð framkvæmdavalds og félli því ekki undir gildissvið upplýsingalaga, sbr. 1. gr. laganna, enda ríkið ekki aðili samningsins á neinn hátt, né fjallaði efni hans um ráðstöfun fjármuna eða hagsmuna ríkisins. Eins og fram kemur í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 366/2007 (Austurhöfn) þarf varsla á samningi að tengjast stjórnsýslu ríkisins, t.d. með aðild eða formlegum skuldbindingum í tengslum við hann, svo gildissvið upplýsingalaga verði talið taka til löggerninga á borð við þann sem hér um ræðir. Í dómi Hæstaréttar var sérstaklega rökstutt að samningurinn hefði verið til umfjöllunar hjá ríki og Reykjavíkurborg vegna skuldbindinga sem af honum leiddu fyrir þau stjórnvöld. Varð meðferð samningsins þannig þáttur í opinberri stjórnsýslu. Hér á það ekki við.

Þá skal ítrekað að ráðuneytinu virðist að samningurinn geymi nokkuð ítarlegar upplýsingar er varða samskipti og uppgjör gamla og nýja Kaupþings í þeim skilningi að um er að ræða mikilvæga viðskipta- og fjárhagsmuni þessara aðila sem þeir eiga rétt á að fari leynt.

Ráðuneytið ítrekar að öðru leyti þörf á því að hagsmunaaðilum, þ.e. Kaupþingi og Arionbanka hf. verði gefinn kostur á að tjá sig um málið áður en kæranda yrði hugsanlega veittur aðgangur að samningnum. Ráðuneytið er ekki í aðstöðu til að meta að hvaða marki sé unnt að afhenda einstaka hluta samningsins, að teknu tilliti til þeirra hagsmuna sem þar er fjallað um. Verður að telja nauðsynlegt að samningsaðilarnir sjálfir fjalli um það, ef nefndin telur á annað borð að samningurinn heyri undir gildissvið upplýsingalaga.

Þá skal á það bent að í fylgiskjölum með samningnum er að finna viðkvæmar upplýsingar um fjárhagsmálefni einstakra einstaklinga.

2. Hluthafasamningur.
Eins og tekið var fram í áðurnefndu bréfi ráðuneytisins frá í nóvember 2011 var þá í undirbúningi að taka afstöðu til birtingar hluthafasamninga. Var í því sambandi m.a. óskað eftir afstöðu hagsmunaaðila. Að henni fenginni var ákveðið að birta samningana opinberlega. Það var gert hinn 11. janúar 2012 og má nálgast eintök samninganna á heimasíðu ráðuneytisins auk skýringa. Sjá hér:
http://www.fjarmalaraduneyti.is/almennar_frettir/nr/14973Eins

Eins og þar kemur fram var nauðsynlegt að undanþegnar yrðu upplýsingar í samningum hluthafasamnings ríkisins og Kaupþings sem varða tiltekin viðskipta- og fjárhagsmálefni hluthafa í greinum 1.1., 5.1, 9.4 og 9.6. Og var það gert í samræmi við ákvæði 5. gr. upplýsingalaga. Um er að ræða ákvæði er varða hluthafavernd annars vegar og verð kaupréttar hins vegar.

Af ráðuneytisins hálfu er ekkert því til fyrirstöðu að afhenda hluthafasamning í því horfi sem hann hefur nú þegar verið birtur. Sjá hér:
http://www.fjarmalaraduneyti.is/media/forsaetisraduneyti-media/media/adrarskyrslur/Shareholders%27-Agreement-Arion--Signed-03-09-2009_non-confid.pdfEða

Eða bent kæranda á að hann er nú þegar aðgengilegur.

Beðist er velvirðingar á því að nefndinni var ekki tilkynnt sérstaklega um þessa niðurstöðu þegar hún lá fyrir fyrr á þessu ári.“

Með bréfi dags. 3. apríl, var kæranda kynnt framangreint svar ráðuneytisins, dags. 29. mars, við erindi nefndarinnar. Bréfið var sent kæranda samhliða með tölvupósti og í almennum pósti. Kærandi svaraði nefndinni sama dag. Í bréfi kæranda segir orðrétt:

1. Það var að frumkvæði ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur að vikið var frá hinum svokölluðu neyðarlögum og hafnar sérstakar samningaviðræður við erlenda kröfuhafa föllnu bankanna. Þegar til kastanna kom voru þeir kröfuhafar fyrst og fremst Bretar og Hollendingar, væntanlega vegna deilna um Icesave og tafir mála í febrúar 2009 um vinnslu á umsókn Íslands hjá ESB og tafir á úrlausn há AGS.
2. Fjármálaráðuneytið veitti þessum viðræðum forstöðu með formennsku í sérstakri 3ja ráðuneyta stjórnsýslunefnd.
3. Allir þrír bankarnir sem viðræðurnar tóku til voru á þessum tíma ríkisbankar á forræði ríkisstjórnarinnar, það ástand breyttist ekki fyrr en með lagabreytingum 23. des 2009.
4. Af svari ráðuneytisins frá 29.03. sl. má ráða að í fylgiskjölum með samningnum milli ríkisbankans nýja Kaupþings (Arionbanka síðar) og skilanefndar Kaupþings sé að finna „viðkvæmar upplýsingar um fjárhagsmálefni einstakra fyrirtækja“.

Það eina sem ég krefst er að fá svar við því hvort þar var að finna félag mitt [B] hf. og skyld félög. [...]

Það er því krafa mín nú þegar liggur fyrir viðurkenning fjármálaráðuneytisins um að samdir hafi verið listar um íslensk fyrirtæki sem mætti fara í sérstakar aðgerðir gegn að ég fái svar við því hvort þar er að finna nafn [B] hf. og skyldra félaga.“

Undir meðferð málsins hefur fjármálaráðuneytið afhent úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftirtalin gögn, sem beiðni kæranda lýtur að: Annars vegar hlutafjársamkomulag vegna Nýja Kaupþings (nú Arion banka), dags. 3. september 2009 og hins vegar samning um vörslu og skilyrt virðisréttindi í tengslum við eignir Nýja Kaupþings banka hf. og Kaupþings banka hf., dags. 3. september sama ár. Báðir samningarnir eru á ensku. Sá fyrrnefndi ber heitið „NEW KAUPTHING BANK HF. and KAUPSKIL EHF. and THE MINISTRY OF FINANCE ON BEHALF OF THE GOVERNMENT OF ICELAND. SHAREHOLDERS‘ AGREEMENT relating to NEW KAUPTHING BANK HF.“ Sá síðarnefndi ber heitið „ESCROW AND CONTINGENT VALUE RIGHTS AGREEMENT IN RELATION TO ASSETS OF NEW KAUPTHING BANK HF. AND KAUPTHING BANK HF.“ 

Með tölvupósti til fjármálaráðuneytisins, dags. 27. júní 2012, benti úrskurðarnefnd um upplýsingamál ráðuneytinu á að í samningi um vörslu og skilyrt virðisréttindi í tengslum við eignir Nýja Kaupþings Banka hf. og Kaupþings Banka hf., dags. 3. september 2008, væri í grein 8 vikið að svonefndri „Confidential Schedule“. Ekki yrði séð að umræddur viðauki hefði fylgt því afriti af samningnum sem úrskurðarnefndinni hefði verið afhentur. Með vísan til þess óskaði úrskurðarnefndin þess að fá þennan viðauka afhentan.

Með tölvupósti frá starfsmanni fjármálaráðuneytisins, dags. 28. júní 2012, var það upplýst að umræddur viðauki væri ekki fyrirliggjandi í ráðuneytinu. Í tölvupóstinum segir m.a. svo:

„Sá viðauki sem minnst er á í 8. gr. samningsins snéri einungis að gamla og nýja bankanum en ekki að ríkinu sem slíku. Þessi viðauki fylgdi ekki með því eintaki af samningnum sem er til hér í ráðuneytinu.“

Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til þess að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila en gert hefur verið. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

Með vísan til 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hefur Sigurveig Jónsdóttir vikið sæti við meðferð og afgreiðslu þessa máls.

Niðurstaða

1.
Mál þetta lýtur að synjun fjármálaráðuneytisins á beiðni kæranda um aðgang að gögnum í vörslu ráðuneytisins, þ.e. eins og fram kemur í kæru annars vegar að hlutafjársamkomulagi vegna Nýja Kaupþings (nú Arion banka), dags. 3. september 2009 og hins vegar samningi um vörslu og skilyrt virðisréttindi í tengslum við eignir Nýja Kaupþings banka hf. og Kaupþings banka hf., dags. 3. september sama ár.

Í bréfi kæranda, dags. 30. nóvember 2011, til úrskurðarnefndarinnar kemur fram að kærandi geri jafnframt kröfu um það honum verði afhent vinnugögn og minnisblöð nefndar fjármálaráðherra sem gerði skýrslu um endurreisn viðskiptabankanna, sem snúi að fyrrum fyrirtæki hans [B] hf.

2.
Eins og fram er komið hér að framan, sbr. bréf fjármálaráðuneytisins frá 29. mars 2011, hefur framangreint hlutafjársamkomulag vegna Nýja Kaupþings, dags. 3. september 2009, verið birt opinberlega. Ráðuneytið hefur hins vegar ákveðið að halda eftir upplýsingum úr samningnum sem varða tiltekin viðskipta- og fjárhagsmálefni hluthafa, þ.e. greinar 1.1, 5.1, 9.4 og 9.6. Í skýringum fjármálaráðuneytisins hefur komið fram að þessi takmörkun sé í samræmi við ákvæði 5. gr. upplýsingalaga. Hafi verið um að ræða ákvæði er varða hluthafavernd annars vegar og verð kaupréttar hins vegar. Af skýringum ráðuneytisins verður jafnframt ráðið að kæranda hefur ekki verið afhentur samningurinn, hvorki með nefndum úrfellingum eða í heild sinni. Með vísan til kæru málsins ber í úrskurði þessum að taka til þess afstöðu hvort kærandi eigi rétt til samningsins í heild.

Samkvæmt 3. gr. upplýsingalaga er stjórnvöldum skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.–6. gr. Stjórnvöldum er þó ekki skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkari mæli en leiðir af 7. gr. en í þeirri grein segir að eigi ákvæði 4.–6. gr. aðeins við um hluta skjals skuli veita almenningi aðgang að öðru efni skjalsins. Sama regla eigi við um önnur gögn.

Í kæru málsins hefur kærandi vísað til þess að hann eigi sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta af því að fá aðgang að hinum umbeðnu gögnum.

Í 9. gr. upplýsingalaga segir að stjórnvöldum sé skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að skjölum og öðrum gögnum sem varði tiltekið mál ef þau hafi að geyma upplýsingar um hann sjálfan. Þetta gildi þó ekki um þau gögn sem talin eru í 4. gr. og þau gögn sem hafa að geyma upplýsingar um mikilvæga almannahagsmuni, er leynt eiga að fara skv. 6. gr. Niðurstaða um það hvort réttur aðila til aðgangs að gögnum fari að ákvæði 3. eða 9. gr. upplýsingalaga skiptir veigamiklu máli við beitingu laganna enda fer um aðgang aðila máls að gögnum um hann sjálfan eftir 9. gr. upplýsingalaga sem veitir rýmri aðgang en ákvæði 3. gr. sömu laga um aðgang almennings, sbr. m.a. úrskurð nefndarinnar í máli nr. A-388/2011, 409/2012 og 410/2012, enda getur t.d. ákvæði 5. gr. upplýsingalaga ekki komið í veg fyrir aðgang aðila að upplýsingum um hann sjálfan.

Ekkert í umræddu hlutafjársamkomulagi varðar með beinum hætti kæranda sjálfan eða fyrirtæki sem hann tengist eða hefur tengst. Um rétt hans til aðgangs að því fer því eftir 3. gr. upplýsingalaga, með þeim takmörkunum sem þar greinir.

Eins og að framan greinir hefur fjármálaráðuneytið fallist á að afhenda umrætt samkomulag, að undanskildum 4. nánar tilgreindum ákvæðum. Úr ákvæði 1.1. í samningnum hefur verið undanskilin skilgreining eða túlkun á orðinu kaupverð í samningnum, í ákvæði 5.1. er fjallað um vernd hluthafa og veðsetningu hlutar, í ákvæði 9.4. er fjallað um kauprétt og verð hlutabréfa komi til þess að kauprétturinn verði nýttur og í ákvæði 9.6. er fjallað um útgáfu nýrra hlutabréfa í Nýja Kaupþingi.

Eins og áður hefur verið rakið birtist meginregla upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings í 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga. Hún sætir m.a. takmörkunum á grundvelli ákvæðis 5. gr. sömu laga, en fjármálaráðuneytið hefur m.a. byggt synjun á aðgangi að framangreindum hlutum umbeðins gagns á því ákvæði. Í 2. málsl. 5. gr. upplýsingalaga segir að óheimilt sé að veita aðgang að gögnum er varði mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila, nema sá samþykki sem í hlut á. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laganna er þetta ákvæði skýrt svo: „Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni.

Í upplýsingalögum er gert ráð fyrir að metið sé í hverju tilviki hvort um sé að ræða upplýsingar um svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækis að ætla megi að þær séu til þess fallnar að valda viðkomandi fyrirtæki tjóni, verði aðgangur veittur að þeim. Við þetta mat verður einnig að líta til þess hversu mikið tjónið geti orðið og hversu líklegt er að það muni verða, verði upplýsingarnar veittar. Við það mat verður enn fremur að líta til eðlis upplýsinganna, framsetningar þeirra og aldurs, svo og hvaða þýðingu þær hafa fyrir rekstur fyrirtækisins á þeim tíma er matið fer fram. Þegar allt þetta er virt verður að því búnu að meta hvort vegi þyngra á metum; hagsmunir fyrirtækisins eða þeir hagsmunir sem meginreglu 3. gr. upplýsingalaga um aðgang almennings að gögnum er ætlað að tryggja, sbr. m.a. úrskurð nefndarinnar í málinu nr. A-388/2011 og A-407/2012 og til hliðsjónar dóm Hæstaréttar Íslands frá 23. mars 2000 í máli nr. 455/1999.

Eins og áður segir verður aðgangur almennings að gögnum aðeins takmarkaður á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga í heild eða að hluta að þar komi fram upplýsingar sem varði svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækis að ætla megi að þær séu til þess fallnar að valda viðkomandi fyrirtæki tjóni, verði aðgangur veittur að þeim. Við mat á þessu ber að líta til eðlis upplýsinganna, framsetningar þeirra og aldurs, svo og hvaða þýðingu þær hafa fyrir rekstur fyrirtækisins á þeim tíma er matið fer fram. Samkvæmt efni ákvæðisins snýr matið aðeins að hagsmunum viðkomandi fyrirtækja, þ.e. Nýja Kaupþings hf. og Kaupþings hf. en ekki að hagsmunum fjármálaráðuneytisins. Umræddur samningur er gerður í september 2009. Þær upplýsingar sem þarna koma fram lúta að ákvörðun og framkvæmd tiltekinna viðskipta og skuldbindingum þeirra fyrirtækja sem um ræðir í  því sambandi. Umræddar upplýsingar lúta ekki með beinum hætti að ráðstöfun tiltekinna opinberra hagsmuna. Í þessu ljósi fellst úrskurðarnefndin á að þær upplýsingar sem fjármálaráðuneytið hefur fellt út úr hlutafjársamkomulaginu séu þess eðlis að sanngjarnt sé að þær fari leynt með vísan til síðari málsliðar 5. gr. upplýsingalaga.

Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. upplýsingalaga skal stjórnvald taka ákvörðun um hvort gögn, sem heimilt er að veita aðgang að, skuli sýnd eða hvort afhent verði ljósrit eða afrit þeirra. Í þessu sambandi ber að taka sérstaklega fram að til þess að stjórnvald fullnægi þeirri ákvörðun sinni að veita aðgang að gögnum nægir ekki að úrskurðarnefndinni einni séu afhent afrit gagnanna eða þau birt opinberlega, heldur ber stjórnvaldi að afhenda gögnin þeim sem um þau biður, eins fljótt og verða má, sbr. einnig 1. mgr. 11. gr. upplýsingalaga. Fjármálaráðuneytið tók ákvörðun þann 11. janúar 2012 að birta umræddan samning á vefsíðu ráðuneytisins og lá þá þegar fyrir beiðni kæranda um hann. Ráðuneytinu bar því að taka ákvörðun um afhendingu gagnanna til kæranda þegar í stað eftir að tekin hafði verið ákvörðun um að veita almenningi aðgang að þeim, þrátt fyrir að ráðuneytið teldi nauðsynlegt að undanskilja tiltekin ákvæði úr samningnum eins og áður er rakið, sbr. 7. gr. upplýsingalaga. Það gerði ráðuneytið ekki.

Með vísan til þessa er það niðurstaða úrskurðarnefndar í því tilviki sem hér um ræðir að fella verði úrskurð um það að leggja fyrir fjármálaráðuneytið að afhenda kæranda umræddan samning, með þeim undantekningum þó að afmáðar verði þær upplýsingar sem vísað er til hér að framan og fram kom í ákvæðum 1.1., 5.1. 9.4. og 9.6. í samningnum.

3.
Kærandi hefur einnig krafist aðgangs að samningi um vörslu og skilyrt virðisréttindi í tengslum við eignir Nýja Kaupþings banka hf. og Kaupþings banka hf., dags. 3. september 2009 („ESCROW AND CONTINGENT VALUE RIGHTS AGREEMENT IN RELATION TO ASSETS OF NEW KAUPTHING BANK HF. AND KAUPTHING BANK HF.“). Fjármálaráðuneytið hefur hafnað því að afhenda kæranda afrit þessa samnings á grundvelli upplýsingalaga með vísan til þess annars vegar að samningurinn falli ekki undir stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga í skilningi 1. mgr. 1. gr. upplýsingalaga og hins vegar með vísan til þess að í honum komi fram viðkvæmar upplýsingar um viðskiptamálefni samningsaðilanna, sem leynt eigi að fara sbr. síðari málslið 5. gr. upplýsingalaga. Einnig hefur fjármálaráðuneytið bent á að í samningnum komi fram upplýsingar um fjárhagsmálefni annarra sem leynt eigi að fara á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga.

Í skýringum fjármálaráðuneytisins til úrskurðarnefndarinnar, dags. 28. júní 2012, kemur fram, í tilefni af fyrirspurnum nefndarinnar, að tiltekinn viðauki við samninginn sem vitnað er til í 8. gr. hans hafi ekki fylgt því eintaki af samningnum sem sé til í ráðuneytinu. Viðaukinn sé því ekki fyrirliggjandi hjá ráðuneytinu. Nánar tiltekið er um að ræða viðauka sem vísað er til í 8. gr. samningsins og mun innihalda upplýsingar um mat á verðmæti þeirra eigna eða réttinda sem m.a. skal byggt á við uppgjör milli bankanna, þ.e. verðmæti á svonefndum „Ring-fenced Assets“, en það hugtak er notað um umræddar eignir í samningnum.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur ekki tilefni til að rengja þá fullyrðingu fjármálaráðuneytisins að þessi viðauki sé ekki fyrirliggjandi hjá því.

Það er meginregla að upplýsingaréttur samkvæmt upplýsingalögum, sbr. 1. mgr. 3. gr., 1. mgr. 9. gr. og 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga, sbr. 2. gr. laga nr. 161/2006, tekur til fyrirliggjandi gagna hjá því stjórnvaldi sem hefur viðkomandi upplýsingabeiðni til umfjöllunar. Með vísan til þess að umræddur viðauki er ekki fyrirliggjandi í skjalasafni fjármálaráðuneytisins verður ekki, á grundvelli upplýsingalaga, lagt fyrir ráðuneytið af afla hans í því skyni að afhenda kæranda.

Eftir stendur hins vegar að taka afstöðu til réttar kæranda til aðgangs að öðrum þáttum samningsins.

Umræddur samningur felur fyrst og fremst í sér lýsingu á þeim aðferðum sem Kaupþing banki hf. og Nýi Kaupþing banki hf. komu sér saman um að fylgt yrði við uppgjör þeirra á milli vegna yfirfærslu eigna og annarra réttinda yfir í Nýja Kaupþing hf. í kjölfar hins svonefnda bankahruns hér á landi haustið 2008. Í viðauka 2 við samninginn er að finna lista yfir svonefnd „Ring-fenced assets“. Hér er um að ræða lista yfir þau fyrirtæki og kennitölur þeirra sem samningsaðilar hafa ákveðið að skuli „tekin frá“ og liggja a.m.k. að einhverju marki til grundvallar við uppgjör milli bankanna eftir þeim aðferðum sem fyrir er mælt um í samningnum. Í umræddum viðauka 2 við samninginn koma ekki fram upplýsingar um verðmæti eða mat á verðmæti viðkomandi fyrirtækja, kröfuréttinda eða annars er þeim tengjast.

Helstu efnisatriðum samningsins er lýst í skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna bls. 53-55, sem lögð var fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi, 2010-2011, sjá þingskjal nr. 1213. Í þeirri skýrslu koma ennfremur fram greinarbetri upplýsingar um fjárhæðir og hlutföll af verðmæti af lánum eða skuldbindingum og eignum þessara lögaðila en með beinum hætti koma fram í þeim þáttum samningsins sjálfs sem hér er um fjallað.

Á þeim tíma er samningurinn er gerður var íslenska ríkið eigandi að Nýja Kaupþingi hf. Íslenska ríkið er enn eigandi hluta í bankanum, nú Arionbanka hf. Í samræmi við lög nr. 88/2009 fer Bankasýsla ríkisins með þann eignarhlut. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur að á því verði að byggja að fjármálaráðuneytið hafi umræddan samning um vörslu og skilyrt virðisréttindi í tengslum við eignir Nýja Kaupþings banka hf. og Kaupþings banka hf., dags. 3. september 2009, undir höndum vegna eignarhalds ríkisins á hlutum í Nýja Kaupþingi, nú Arionbanka hf. Ákvarðanir um og hagsmunagæsla fyrir hönd ríkisins vegna slíks eignarhluta telst án vafa til þeirra verkefna sem ráðuneytið hefur með höndum, sbr. m.a. B- og C- lið 3. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands nr. 125/2011, sbr. áður 2. tölul. 5. gr. reglugerðar nr. 177/2007, um Stjórnarráð Íslands. Í þessu ljósi verður ekki talinn vafi á því að fjármálaráðuneytið hafi umræddan samning undir höndum vegna þeirrar stjórnsýslu sem því er falin að lögum. Aðgangi að honum verður því ekki hafnað á grundvelli upplýsingalaga með vísan til þess að hann falli utan gildissviðs upplýsingalaga, sbr. 1. gr. þeirra laga.

Eins og áður greinir hefur kærandi vísað til þess að hann eigi sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta af því að fá aðgang að hinum umbeðnu gögnum. Hefur hann þar fyrst og fremst bent á að hann telji að upplýsingar um fyrirtæki sem hann var í fyrirsvari fyrir sem stjórnarformaður og átti hlut í sé á þeim lista sem fylgir sem viðauki við umræddan samning.

Í 9. gr. upplýsingalaga segir að stjórnvöldum sé skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að skjölum og öðrum gögnum sem varði tiltekið mál ef þau hafi að geyma upplýsingar um hann sjálfan. Í 2. mgr. 9. gr. laganna segir að 1. mgr. gildi hvorki um þau gögn sem talin eru í 4. gr. laganna né þau gögn sem hafa að geyma upplýsingar um mikilvæga almannahagsmuni sem leynt eiga að fara skv. 6. gr. Þá segir í 3. mgr. 9. gr. að heimilt sé að takmarka aðgang aðila að gögnum ef þau hafa jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæla með því að upplýsingunum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnum.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur yfirfarið þann samning ítarlega sem kærandi hefur óskað aðgangs að. Í viðauka 2 við samninginn er listi yfir tiltekin fyrirtæki. Þeirra á meðal er það fyrirtækið sem kærandi hefur vísað til að hann hafi verið hluthafi í og fyrrum stjórnarformaður og kennitala þess. Ekki koma fram aðrar upplýsingar um fyrirtækið í þessum viðauka við samninginn en heiti þess og kennitala. Í öðrum hlutum samningsins og viðaukum hans, þ.e. þeim sem úrskurðarnefndin hefur undir höndum og upplýst er að fyrir liggi hjá fjármálaráðuneytinu, er hvergi minnst á fyrirtækið.

Í umræddum samningi, eða viðaukum hans, er ekki að finna upplýsingar um kæranda sjálfan sem persónu. Ákvæði 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga hefur á hinn bóginn verið skýrt svo að undir greinina falli ekki einvörðungu þau tilvik þegar maður óskar eftir aðgangi að gögnum með upplýsingum um hann sjálfan, heldur taki hún einnig til þess þegar upplýsingarnar varða hann með þeim hætti að hann hafi sérstaka hagsmuni af því, umfram aðra, að fá aðgang að gögnunum, sbr. úrskurði nefndarinnar í málum A-21/1997, A-56/1998, A-106/2000, A-182/2004, A-283/2008, A-294/2009 og A-299/2009. Ber því að leysa úr því hvort slíkir hagsmunir af hálfu kæranda séu til staðar varðandi aðgang að hinu umbeðna gagni.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur, með vísan til atvika málsins og þeirra röksemda sem kærandi hefur fram fært í  málinu, að hann telji það geta skipt sig máli að lögum að þekkja til þess hvernig Kaupþing banki og Nýi Kaupþing Banki hafi í umræddum viðskiptum metið verðmæti skuldbindinga eða réttinda þess fyrirtækis sem hann áður átti hlut í gagnvart bönkunum tveimur eða tengjast uppgjöri þeirra. Einnig að það skipti hann máli að lögum að fá upplýsingar um það hvernig umræddu fyrirtæki hafi verið ráðstafað í framangreindum viðskiptum bankanna, en það virðist, að mati kæranda, geta hafa haft áhrif um þá fyrirgreiðslu sem fyrirtækið fékk af hálfu lánardrottna þess.

Eins og að framan er rakið er einvörðungu í gögnum málsins að finna upplýsingar um heiti þess hlutafélags sem kærandi átti áður hlut í og var í fyrirsvari fyrir sem stjórnarformaður. Kærandi hefur ekki lögvarða hagsmuni af því að fá aðrar upplýsingar úr umræddum gögnum, enda lúta þær ekki að honum eða því fyrirtæki er hann átti hlut í sérstaklega. Um rétt hans til aðgangs að hinum umbeðnu gögnum því fer því ekki eftir 9. gr. upplýsingalaga heldur ákvæði 3. gr. sömu laga.

Úrskurðarnefndin hefur, eins og áður er rakið, yfirfarið ítarlega ákvæði umrædds samnings. Hann lýtur að viðskiptum milli tveggja einkaréttarlegra aðila og mælir m.a. fyrir um viðkvæma þætti sem lúta að þeirri aðferð sem viðhafa skal við uppgjör fjárhagslegra skuldbindinga þeirra á milli. Í samningnum er ekki fjallað með beinum hætti um ráðstöfun opinberra hagsmuna. Þeirri aðferðafræði sem í samningnum birtist hefur einnig að hluta til verið lýst í skýrslu fjármálaráðherra til Alþingis, og áður var lýst.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur, með vísan til framangreinds, að fallast beri á þá afstöðu fjármálaráðuneytisins að samningurinn í heild sinni skuli fara leynt á grundvelli ákvæðis 5. gr. upplýsingalaga. Ekki er tilefni til að leggja fyrir ráðuneytið að afhenda kæranda hluta samningsins á grundvelli 7. gr. sömu laga.

4.
Kærandi gerði í bréfi til nefndarinnar, dags. 30. nóvember 2011, kröfu um það að honum yrðu afhent vinnugögn og minnisblöð nefndar fjármálaráðherra sem gerði skýrslu um endurreisn viðskiptabankanna, sem lögð var fram á Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010-2011, þ.e. vinnugögn og minnisblöð sem snúi að fyrrum fyrirtæki hans.

Þessi krafa um afhendingu gagna kom fyrst fram með þessu bréfi kæranda til nefndarinnar en svo virðist af gögnum málsins sem beiðninni hafi ekki verið beint að fjármálaráðuneytinu þrátt fyrir að í skrifum kæranda til ráðuneytisins sé fjallað um skýrsluna.

Samkvæmt 14. gr. upplýsingalaga er unnt að bera synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum samkvæmt lögum þessum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem úrskurðar um ágreininginn. Í málinu liggur ekki fyrir að beiðni um aðgang að umræddum gögnum hafi verið beint að fjármálaráðuneytinu og hafa svör ráðuneytisins ekki tekið mið af beiðni kæranda um aðgang að þessum gögnum. Liggur því ekki fyrir synjun á aðgangi að gögnunum. Því ber að vísa frá þeim lið kærunnar sem snýr að vinnugögnum og minnisblöðum sem snúa að [B] hf. og urðu til við vinnslu framangreindrar skýrslu fjármálaráðherra.

Tekið skal fram að í niðurstöðu þessari felst ekki takmörkun á því að kærandi geti eftir sem áður lagt formlega ósk um aðgang að þessum gögnum fyrir fjármálaráðuneytið eða önnur viðeigandi stjórnvöld.

Úrskurðarorð

Staðfest er synjun fjármálaráðuneytisins, dags. 26. ágúst 2011, á beiðni kæranda, [A], dags. 11. júlí, um aðgang að samningi um vörslu og skilyrtan virðisrétt í tengslum við eignir Nýja Kaupþings banka hf. og Kaupþings banka hf., dags. 3. september 2009 („ESCROW AND CONTINGENT VALUE RIGHTS AGREEMENT IN RELATION TO ASSETS OF NEW KAUPTHING BANK HF. AND KAUPTHING BANK HF.“).

Fjármálaráðuneytinu ber að afhenda kæranda afrit af hlutafjársamkomulagi vegna Nýja Kaupþings (nú Arion banka), dags. 3. september 2009, („NEW KAUPTHING BANK HF. and KAUPSKIL EHF. and THE MINISTRY OF FINANCE ON BEHALF OF THE GOVERNMENT OF ICELAND. SHAREHOLDERS‘ AGREEMENT relating to NEW KAUPTHING BANK HF.“) að undanskildum þeim upplýsingum sem fram koma í ákvæði 1.1., 5.1., 9.4. og 9.6. í samningnum í samræmi við þá útgáfu samningsins er ráðuneytið hefur þegar birt opinberlega.

Vísað er frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál kröfu kæranda, dags. 30. nóvember 2011, um afhendingu vinnugagna og minnisblaða nefndar fjármálaráðherra sem gerði skýrslu um endurreisn viðskiptabankanna, sem lögð var fram á Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010-2011, þ.e. vinnugögn og minnisblöð sem snúi að fyrrum fyrirtæki hans.

 

 

Trausti Fannar Valsson
formaður

 

 

Erna Indriðadóttir                                                                                                  Friðgeir Björnsson

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum