Hoppa yfir valmynd
29. júní 2012 Forsætisráðuneytið

A-422/2012. Úrskurður frá 18. júní 2012

ÚRSKURÐUR

Hinn 18. júní 2012 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. A-422/2012.

Kæruefni og málsatvik

Þann 30. mars 2012, kærði [A] lögfræðingur, f.h. [B] ehf., til úrskurðarnefndar um upplýsingamál synjun velferðarráðuneytisins, dags. 9. mars 2012, á beiðni kæranda, dags. 8. desember 2011, um aðgang annars vegar að samningi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins við [D] ehf. um kaup á hugbúnaði fyrir heilsugæslustöðvar, dags. 10. júní 1993, og hins vegar að samningi heilbrigðisráðuneytisins við [C] ehf. um kaup á rafrænum læknabréfum ásamt uppsetningu, dags. 3. febrúar 2011. 

Í kærunni eru málavextir raktir á þá leið að með erindi, dags. 8. desember 2011, hafi þess verið óskað að velferðarráðuneytið veitti [B] aðgang að nánar tilgreindum gögnum tengdum útboðum, samningum og verkkaupum ráðuneytisins og undirstofnana þess vegna sjúkraskrárkerfisins Sögu og Heklugáttarinnar. Hafi [B] áður, eða 24. nóvember 2010, óskað eftir aðgangi að tilteknum gögnum um sama málefni, og þá verið veittur aðgangur að einstaka gögnum í samræmi við þá beiðni. Það hafi hins vegar verið mat [B] að ýmis gögn og skjöl sem þá var óskað eftir hafi ekki borist fyrirtækinu og var erindið í kjölfarið ítrekað. Með bréfi, dags. 27. desember 2011, hafi ráðuneytið staðfest móttöku erindis kæranda, en jafnframt bent á að ekki yrði unnt að svara erindinu fyrir janúarlok 2012. Þann 13. mars 2012 hafi svo borist erindi frá velferðarráðuneytinu, dags. 9. mars, þar sem [B] hafi verið veittur aðgangur að hluta þeirra gagna sem óskað var eftir, en beiðni um aðgang að tveimur nánar tilgreindum samningum hins vegar verið hafnað á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga vegna mikilvægra fjárhags- og viðskiptahagsmuna samningsaðila ráðuneytisins, þ.e. þeim samningum sem kæra máls þessa varðar.

Í kærunni er lýst tilurð beiðni kæranda og sagt að rekja megi hana til þess að fyrirtækið telji að með samningum velferðarráðuneytisins við samkeppnisaðila [B] hafi verið brotið gegn samkeppnislegri stöðu fyrirtækisins á markaði með rafrænar sjúkraskrár. [B] hafi áður kvartað undan fyrirkomulagi þessu til Samkeppniseftirlitsins og hafi Samkeppniseftirlitið þegar gefið álit sitt á þeirri kvörtun. Þótt ekki hafi verið fallist á fyrri kröfu [B] hafi Samkeppniseftirlitið talið að framkvæmd velferðarráðuneytisins á þessum málafloki orkaði tvímælis og því verið beint til þess að hraða þeim umbótum sem ráðuneytið hafi tjáð eftirlitinu að væru framundan. Hafi [B] nú beint því til Samkeppniseftirlitsins að taka á ný til skoðunar fyrri ábendingar fyrirtækisins.

Þá segir að umræddir samningar og þróun sjúkrakerfa á grundvelli þeirra hafi verið fjármagnaðir af almannafé og því sé mikilvægt að það sé engum vafa undirorpið að slík fjárframlög og/eða ráðstöfun almannafjár verði hvorki til þess að hindra samkeppni né heldur til þess gert að veita einum aðila markaðsráðandi stöðu umfram aðra. Í framangreindri synjun hafi ráðuneytið heldur ekki tekið afstöðu til þess hvort unnt sé að veita aðgang að hluta umræddra gagna í samræmi við 7. gr. upplýsingalaga og vísar kærandi í því sambandi til úrskurðar úrskurðarnefndar í upplýsingamálum nr. A-377/2011. Þá er einnig vísað til úrskurða nefndarinnar í málum nr. A-74/1999, A-133/2001 og A-229/2006.

Með vísan til framangreinds gerir kærandi þá kröfu í kærunni að veittur verði aðgangur að umræddum gögnum að svo miklu leyti sem þau kunni, að mati úrskurðarnefndarinnar, að heyra undir upplýsingarétt á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga.

Málsmeðferð

Kæran var send velferðarráðuneytinu með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 3. apríl 2012. Ráðuneytinu var veittur frestur til að gera athugasemdir við kæruna og til þess að koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni til 20. apríl. Var þess jafnframt óskað að úrskurðarnefndinni yrðu innan sama frests látin í té í trúnaði afrit af þeim gögnum, sem kæran lyti að.

Velferðarráðuneytið svaraði bréfi úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 20. apríl. Í svarinu kemur fram að beiðni kæranda um aðgang að umræddum samningum hafi verið synjað með vísan til 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 þar sem hluti samninganna innihaldi upplýsingar um mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni samningsaðila ráðuneytisins. Þar sem töluverð samkeppni ríki á markaði um rafræn sjúkraskrárkerfi sé að mati ráðuneytisins ekki hægt að útiloka að viðsemjendur ráðuneytisins verði fyrir tjóni verði aðgangur veittur að samningunum.

Þá kemur fram að óskað hafi verið eftir áliti [C] ehf. á því hvort veita bæri aðgang að samningunum með bréfi, dags. 21. febrúar. Ráðuneytinu hafi borist svar þar sem lagst hafi verið gegn því að veittur yrði aðgangur að umræddum samningum þar sem þeir varði einkahagsmuni [C] ehf., en þar megi m.a. finna upplýsingar um vöruþróun, tölvuforrit, kerfislýsingar, kröfugreiningar, verkferla, hönnun, þjónustulýsingar, verðlagningu, afslætti og önnur atvinnuleyndarmál félagsins sem njóti verndar að lögum, sbr. 16. gr. c., laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Með hliðsjón af þessu telji ráðuneytið sér ekki heimilt að veita aðgang að samningunum, sbr. 1. málsl. 5. gr. upplýsingalaga.

Með bréfi, dags. 23. apríl, var kæranda sent afrit umsagnar velferðarráðuneytisins og gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina frekari athugasemdum vegna kærunnar, í ljósi umsagnarinnar, til 4. maí.

Með bréfi, dags. 3. maí, bárust úrskurðarnefndinni athugasemdir kæranda, en í bréfinu segir orðrétt:

„Í umsögn velferðarráðuneytis kemur fram að mati ráðuneytisins að töluverð samkeppni ríki á markaði um rafræn sjúkraskrárkerfi og því sé ekki hægt að útiloka að viðsemjendur ráðuneytisins verði fyrir tjóni ef aðgangur er veittur að umbeðnum samningum. Hvað þessa fullyrðingu varðar er athygli úrskurðarnefndarinnar vakin á því sem fram kemur í erindi [A], f.h. [B] ehf., dags. 30. mars sl., þar sem fjallað er um tilurð þessa máls sem hér um ræðir. Að mati [B] ehf. hefur þannig ekki komist á sú samkeppni sem ráðuneytið vísar til, m.a. vegna athafna hins opinbera sem og framkvæmda á samningum hins opinbera við einkaaðila á umræddum markaði. Því telur [B] ehf. að aðgangur á umbeðnum gögnum geti varla talist raska meintri samkeppni enda sé slík samkeppni ekki til staðar. Þá er mat [B] ehf. að með gerð umræddra samninga hafi velferðarráðuneyti, og forverar þess, þegar komið á markaðshindrunum á umræddum markaði með tilheyrandi röskun á samkeppni sem sé hugsanlega skaðlegri samkeppni en það tjón sem ráðuneytið telur að aðgangur að umbeðnum gögnum kunni að fela í sér. Hins vegar er ekki ástæða til að rekja það mál frekar hér enda er það nú þegar til skoðunar hjá Samkeppniseftirlitinu.

Eftir sem áður er það mat [B] ehf. að hér á landi ríki ekki sú samkeppni sem ráðuneytið vísar til og þess þá heldur að slík samkeppni sé töluverð. Þvert á móti er að mati [B] ehf. eitt markaðsráðandi fyrirtæki hér á landi og hefur þeirri stöðu þegar verið komið á, og viðhaldið, með samningum velferðarráðuneytisins og forvera þess, við einkaaðila og fjármagnað af opinberu fé. Framangreindri fullyrðingu velferðarráðuneytisins um að aðgengi að tilteknum samningum kunni að fela í sér hugsanlega röskun á samkeppni er því með öllu hafnað.

Þá segir í umsögn ráðuneytisins að leitað hafi verið álits [C] um hvort veita bæri aðgang að umræddum samningum. Í svari lögmanns [C] er lagst gegn því að veittur verði aðgangur að umræddum samningum þar sem þeir varði einkahagsmuni [C] og þar sé að finna tilgreindar upplýsingar, sem nánar eru taldar upp í umsögninni. Þá vísar lögmaður [C] máli sínu til stuðnings til 16. gr. c laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, nr. 57/2005.

Hvað varðar framangreint ákvæði laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu þá er rétt að ítreka að umræddu ákvæði er ætlað að tryggja að ekki verði með ótilhlýðilegum hætti aflað upplýsinga um eða umráða yfir atvinnuleyndarmálum tiltekinnar atvinnustarfsemi. Er því hér með hafnað að með umræddri beiðni um aðgang að samningum hins opinbera um tiltekna þjónustu sé með ótilhlýðilegum hætti verið að afla upplýsinga um atvinnuleyndarmál.

Þess þá heldur að með málskoti til úrskurðarnefndar sé einnig verið að reyna að afla umræddra upplýsinga með ótilhlýðilegum hætti. Þvert á móti er verið að nýta þau lögmætu úrræði sem standa til boða á grundvelli upplýsingalaga, nr. 50/1996, til að fá aðgang að umræddum gögnum og varða ráðstöfun á opinberu fé.

Þá dregur kærandi í efa að líkur séu á að meintar lýsingar umræddra samninga er lúta að vöruþróun, tölvuforritum, kerfislýsingum, verkferlum og hönnun geti talist nægilega ítarlegar og sérstæðar að það geti skaðað [C]. Önnur atriði sem [C] telur upp, s.s. kröfulýsingar og verð, skipta sköpum í þessu máli enda lykilatriði þegar ráðstöfun opinbers fjár er annars vegar að almenningur sé upplýstur um hvað var keypt og hvað það kostaði.“

Þá ítrekar kærandi tilvísun til fyrrgreindra úrskurða nefndarinnar. Segir að lokum að ekki sé að sjá af svari kærða að ítarleg greining hafi farið fram á því hvort um sé að ræða upplýsingar um svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækis, að ætla megi að þær séu til þess fallnar að valda því tjóni verði aðgangur veittur að þeim, umfram almenna tilvísun til samkeppni á umræddum markaði. Jafnframt er ítrekað að samningarnir varði ráðstöfun opinberra fjármuna.

Með tölvupósti dags. 14. maí 2012 beindi úrskurðarnefnd um upplýsingamál því til velferðarráðuneytisins að við nánari skoðun á þeim fylgiskjölum sem komu með umsögn ráðuneytisins, dags. 20. apríl 2012, hafi vantað fylgiskjöl með samningi um kaup á rafrænum læknabréfum ásamt uppsetningu, en samkvæmt 2. gr. samningsins hafi verið tvö fylgiskjöl við samninginn. Þá hafi vantað efni tiltekinnar blaðsíðu í fylgiskjölum við samning um kaup heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins á hugbúnaði fyrir heilsugæslustöðvar, þ.e. blaðsíðan sjálf fylgdi, en aðeins var fyrirsögnin „Lýsing og ástand útgáfu 1.0“  á henni.

Með tölvupósti, dags. 16. maí, bárust framangreind fylgigögn við samning um kaup á rafrænum læknabréfum ásamt uppsetningu en jafnframt þær skýringar velferðarráðuneytisins að samningur um kaup heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins á hugbúnaði fyrir heilsugæslustöðvar virtist hafa verið undirritaður, þó að texta vantaði í fylgiskjal 1 og að starfsmaður í skjaladeild ráðuneytisins hafi fundið samrit samningsins og þau litið eins út.

Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til þess að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila en gert hefur verið. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins og skýringum málsaðila við úrlausn þess.

Niðurstaða

1.
Mál þetta varðar synjun velferðarráðuneytisins á beiðni kæranda um aðgang að tveimur samningum ráðuneytisins við einkaaðila er varða sjúkraskrárkerfi Sögu og Heklugáttarinnar. Synjunin byggir á 1. málsl. 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 en jafnframt er vísað til 16. gr. c., laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu synjuninni til grundvallar.

2.
Í 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 segir m.a.: „Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr.“ Í reglunni birtist meginregla laganna um upplýsingarétt almennings. Sætir hún undantekningum samkvæmt 4.-6. gr. sömu laga. Samkvæmt hefðbundnum viðhorfum um túlkun laga verða þær undantekningar ekki skýrðar rúmt.

Í 5. gr. upplýsingalaga er m.a. kveðið á um að óheimilt sé að veita almenningi „aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á.“ Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laganna er þetta ákvæði skýrt svo: „Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni.“ Í 7. gr. er kveðið á um það að eigi ákvæði 4.-6. gr. „aðeins við um hluta skjals skal veita almenningi aðgang að öðru efni skjalsins.“
Af ákvæðum upplýsingalaga leiðir að jafnvel þótt upplýsingar sem fram koma í gögnum málsins geti varðað mikilvæga viðskiptahagsmuni þeirra er hlut eiga að máli, gera lögin ráð fyrir því að það sé metið í hverju og einu tilviki hvort um sé að ræða upplýsingar um svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækis, að ætla megi að þær séu til þess fallnar að valda því tjóni verði aðgangur veittur að þeim. Við matið verður einnig að líta til þess hversu mikið tjónið geti orðið og hversu líklegt sé að það muni verða, verði upplýsingarnar veittar. Við það mat verður enn fremur að líta til eðlis upplýsinganna, framsetningar þeirra og aldurs, svo og hvaða þýðingu þær hafi fyrir rekstur fyrirtækisins á þeim tíma er matið fer fram, þ.á m. hvort um sé að ræða nýjar eða óþekktar framleiðsluaðferðir eða upplýsingar sem skert geti samkeppnishæfni þess á annan hátt. Þegar allt þetta hefur verið virt verður að meta hvort vegi þyngra: hagsmunir fyrirtækisins eða þeir hagsmunir sem meginreglu 3. gr. upplýsingalaga um aðgang almennings að gögnum er ætlað að tryggja, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 23. mars 2000 í máli nr. 455/1999 (H 2000:1344). Þá hefur  úrskurðarnefnd um upplýsingamál litið svo á að upplýsingaréttur almennings og fjölmiðla, skv. 3. gr. upplýsingalaga, sé ríkur þegar hann varðar það endurgjald, ásamt afsláttum, sem stjórnvöld greiða með ráðstöfun opinberra fjármuna. Um þetta má m.a. vísa til úrskurða nefndarinnar í málum nr. A-344/2010, A-378/2011 og A-379/2011.
Af 7. gr. upplýsingalaga leiðir að eigi undantekningar 4.-6. gr. upplýsingalaga aðeins við um hluta gagna málsins, ber að veita aðgang að öðrum hlutum.
Í 1. mgr. 16. gr. c. laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu segir að óheimilt sé í atvinnustarfsemi er lögin taki til að afla sér eða reyna að afla sér með ótilhlýðilegum hætti upplýsinga um eða umráða yfir atvinnuleyndarmálum starfseminnar.

 
3.
Nefndin hefur kynnt sér efni umræddra samninga. Annars vegar er um að ræða samning með heitinu samningur um kaup á rafrænum læknabréfum ásamt uppsetningu, dags. 3. febrúar 2011. Með samningum fylgja 2 fylgiskjöl, þ.e. fylgiskjal 1 sem ber nafnið „Tilboð: Rafræn lækna- og hjúkrunarbréf“ og fylgiskjal 2 sem ber nafnið „Verkefniságrip - Rafræn læknabréf“. Efni samningsins er skipt í 12 greinar. Fjallað er um aðila samningsins (1. gr.), fylgiskjöl við samninginn (2. gr.), efni samningsins (3. gr.), greiðslur (4. gr.), höfundarrétt, notkunar og eignarrétt (5. gr.), ábyrgð á hugbúnaði og viðhald (6. gr.), framsal réttinda, starfsfólk og undirverktaka (7. gr.), eftirlit með framkvæmd samningsins (8. gr.), vanefndir (9. gr.), force majeure - tilvik (10. gr.), meðferð ágreiningsmála (11. gr.) og undirritun (12. gr.).

Í fylgiskjali 1 við samninginn er ber yfirskriftina „Tilboð: Rafræn lækna- og hjúkrunarbréf“ er nánari útlistun á því hvað felst í tilboði [C], greiðslutilhögun, einingaverð og staðgreiðsluverð.

Í ákvæðum samningsins, sem og fylgiskjals 1 við samninginn, er að mati úrskurðarnefndar ekkert sem talið verður geta fallið undir undantekningarreglu 1. málsl. 5. gr. upplýsingalaga. Þar er ekki fjallað um rekstrar- eða samkeppnisstöðu [C] hugbúnaðar ehf., eða aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni, s.s. atvinnu-, framleiðslu- eða viðskiptaleyndarmál, sem telja verði heimilt að leynt fari á grundvelli undantekningarreglna 4.-6. gr. upplýsingalaga. Ber velferðarráðuneytinu því að afhenda kæranda tilgreind gögn.

Fylgiskjal 2 við samninginn ber yfirskriftina „Verkefniságrip – rafræn læknabréf með Heklu“ og er skjalið merkt sem trúnaðarmál. Í skjalinu er fjallað um tæknilega eiginleika og uppsetningu þess hugbúnaðar sem framangreindur samningur nær til, þ.e. rafræn læknabréf í sjúkraskrárkerfi Sögu. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur að í þessu fylgiskjali við samninginn sé að finna tæknilegar lausnir [C] ehf. sem teljast vera mikilvægar og sanngjarnt að leynt fari vegna viðskiptahagsmuna fyrirtækisins, en í því sambandi ber einnig að líta til þess tiltölulega stutta tíma sem liðinn er frá því að samningurinn var gerður, sem var í febrúar 2011. Með vísan til þessa telur úrskurðarnefnd um upplýsingamál að aðgangur kæranda og almennings að upplýsingunum kunni að geta verið til þess fallinn að valda fyrirtækinu tjóni. Er það mat nefndarinnar, hvað varðar aðgang að þessu gagni, að hagsmunir fyrirtækisins vegi þyngra en hagsmunir almennings af því að fá aðgang að upplýsingunum. Ber því að staðfesta synjun velferðarráðuneytisins um aðgang að fylgiskjali 2 við samninginn, en að öðru leyti ber ráðuneytinu að afhenda kæranda samninginn og fylgiskjal 1 við hann.

 
4.
Í öðru lagi hefur kærandi óskað eftir aðgangi að samningi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins við [D] hf. um kaup á hugbúnaði fyrir heilsugæslustöðvar, dags. 10. júní 1993, ásamt fylgiskjölum 1-3 og bókun, dags. 10. júní 1993.

Í samningnum sjálfum er fjallað um hið keypta (1. gr.), afhendingu á hugbúnaði og greiðslur (2. gr.), vottun, staðla og nýjar útgáfur (3. gr.), uppsetningu, þjónustu og kennslu (4. gr.), eignarrétt kerfisins (5. gr.), eftirlit og efndir (6. gr.) og gildistíma (7. gr.). Fylgiskjal 1 við samninginn ber yfirskriftina „Lýsing og ástand útgáfu 1.0“ en á blaðsíðunni er aðeins fyrirsögn en ekkert efni. Fylgiskjal 2 ber yfirskriftina „Afhending og greiðsluáætlun“. Þar koma fram fjárhæðir sem greiða skal fyrir notkun á þeim hugbúnaði sem samningurinn varðar. Fylgiskjal 3 ber yfirskriftina „Tímaáætlun“ og er þar að finna grófa tímaáætlun fyrir verkferil samningsins. Í bókun við samninginn er samstarfið skilgreint. Þar er fjallað um heildarlausnir (1. gr.), nýjar útgáfur (2. gr.) þar sem líka er fjallað um verð á útgáfum, endurskoðun fjárhagsáætlunar (3. gr.), skiptingu á ágóða (4. gr.), breytingar á kröfulýsingu (5. gr.), arðgreiðslur (6. gr.), samvinnu og eftirlit (7. gr.), afhendingar (8. gr.), útgáfu 1.0 (9. gr.), þekkingu (10. gr.), önnur kerfi (11. gr.), Egilsstaðakerfið (12. gr.) og samskipti (13. gr.).
Í samningnum sem og fylgiskjali 2 og 3 við samninginn er að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál ekkert sem talið verður geta fallið undir undantekningu 1. málsl. 5. gr. upplýsingalaga á upplýsingarétti almennings. Þar er að mati úrskurðarnefndarinnar ekki fjallað um rekstrar- eða samkeppnisstöðu [D]ar ehf., eða aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni, s.s. atvinnu-, framleiðslu- eða viðskiptaleyndarmál, með þeim hætti að talið verði að það geti komið í veg fyrir aðgang kæranda að gögnunum. Við matið er jafnframt óhjákvæmilegt að líta til þess að samningurinn er undirritaður fyrir tæpum 19 árum og eins þess að hann varðar hugbúnað. Á því sviði hafa miklar tæknilegar framfarir orðið frá undirritun samningsins.
Eins og lýst hefur verið hér að framan er fylgiskjal 1 við umræddan samning aðeins skjal með fyrirsögninni „Lýsing og ástand útgáfu 1.0.“ Fram hefur komið af hálfu velferðarráðuneytisins að önnur útgáfa þessa skjals sé ekki fyrirliggjandi í skjalasafni ráðuneytisins. Ekkert í umræddu skjali, eins og því er hér lýst, er til þess fallið að valda [D] ehf. tjóni verði aðgangur að því veittur. Ber því jafnframt að veita kæranda aðgang að því.


5.
Úrskurðarnefndin telur rétt, vegna tilvísunar til 16. gr. c., laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, að taka fram að það ákvæði skerðir ekki almennan upplýsingarétt almennings á grundvelli upplýsingalaga nr. 50/1996 og í því sambandi er einnig rétt að líta til þess að fyrirtæki og aðrir lögaðilar verða hverju sinni að vera undir það búnir að mæta samkeppni frá öðrum aðilum, sbr. meginreglu þá sem fram kemur í 1. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. A-414/2012.

Með vísan til framangreinds er fallist á beiðni kæranda um aðgang að gögnum, að því undanskildu að ekki ber að afhenda fylgiskjal 2 við samning um kaup á rafrænum læknabréfum ásamt uppsetningu, dags. 3. febrúar 2011, sem ber yfirskriftina „Verkefniságrip – rafræn læknabréf með Heklu“.

 

Úrskurðarorð

Velferðarráðuneytinu ber að veita kæranda, [B] ehf., aðgang að samningi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins við [D] ehf. um kaup á hugbúnaði fyrir heilsugæslustöðvar, dags. 10. júní 1993, ásamt fylgiskjölum, og að samningi heilbrigðisráðuneytisins við [C] ehf. um kaup á rafrænum læknabréfum ásamt uppsetningu, dags. 3. febrúar 2011, og fylgiskjölum, að því undanskildu að ekki ber að afhenda fylgiskjal 2 við samning um kaup á rafrænum læknabréfum ásamt uppsetningu, dags. 3. febrúar 2011, sem ber yfirskriftina „Verkefniságrip – rafræn læknabréf með Heklu“.

 

 

Trausti Fannar Valsson
formaður

 

 

                Sigurveig Jónsdóttir                                                   Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum