Hoppa yfir valmynd
10. febrúar 2012 Forsætisráðuneytið

A-400/2012. Úrskurður frá 10. febrúar 2012

ÚRSKURÐUR

 

Hinn 10. febrúar 2012 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu A-400/2012.

 

Kæruefni og málsatvik

Með bréfi, dags. 10. febrúar 2011, kærði [...] framkvæmdastjóri, f.h. [...], til úrskurðarnefndar um upplýsingamál þá ákvörðun Þjóðskrár Íslands, dags. 24. janúar það sama ár, að synja beiðni [...] um aðgang að kaupskrá Fasteignaskrár Íslands og afhendingu tiltekinna kaupskrárupplýsinga til endurnota til að verðmeta fasteignir.

 

Í kæru málsins er aðdraganda þess lýst svo að í kjölfar samningsumleitana kæranda og Fasteignaskrár Íslands, nú Þjóðskrár Íslands, um aðgang kæranda að upplýsingum úr kaupskrá fasteignaskrár, hafi Þjóðskrá ákveðið að ekki yrði gerður samningur við kæranda um að afhenda honum tilgreind gögn heldur yrðu gögn sem lægju til grundvallar tölfræðilegu mati stofnunarinnar á fasteignaverði sett á netið til frjálsra afnota. Þetta hefði gengið eftir.

 

Kærandi kveðst ekki hafa talið þessi gögn nægilega ítarleg til þess að þau gætu nýst fyrirtækinu við það verkefni sem það ynni að, um bætt verðmat fasteigna og aukið gagnsæi á fasteignamarkaði og skilvirkni í stýringu eignasafna sem byggi á fasteignum sem veðandlagi. Með tölvupósti 7. desember 2010 hafi hann því formlega óskað eftir afhendingu gagna sem kæran lyti að.

 

Þjóðskrá Íslands afgreiddi beiðni kæranda með tölvupósti dags. 24. janúar 2011 og segir þar orðrétt:

 

„Við höfum farið yfir mál þitt og niðurstaða okkar er eftirfarandi:

-          Þjóðskrá Íslands telur að ekki hafi verið færð nægjanleg rök á grundvelli persónuverndar fyrir því að afhenda nákvæmari gögn heldur en eftir svæðum.

-          Auðkenning fyrir sölu á sömu eign í gagnasafni eru til staðar nú þegar.

-          Ekki hefur verið unnið úr eldri gögnum með þeim hætti sem þarf eins og þeim gögnum sem Þjóðskrá Íslands notar við mat á sínu tölfræðilíkani. Mikla vinnu þyrfti þá að leggja í þau gögn.

-          Gögn yrðu aldrei afhent fyrr en búið væri að vinna þau niður á svæði og því ekki hægt að tala um rauntímagögn.“

 

Eins og fyrr segir barst kæra máls þessa úrskurðarnefnd um upplýsingamál með bréfi, dags. 10. febrúar 2011. Þar er kæruefni málsins afmarkað og tilgreint að krafa kæranda um afhendingu upplýsinga lúti að eftirtöldu:

 

-          Nákvæmri staðsetningu seldra eigna, GPS hnit og götunúmer fasteigna og auðkenni.

-          Eldri gögn en þau sem Þjóðskrá notar við mat á sínu tölfræðilíkani og gefa upplýsingar um söluverð og eignir aftur til 1990 á því formi sem þau liggja fyrir í gagnagrunnum Þjóðskrár.

-          Upplýsingar um söluverð og eignir verði afhent jafnskjótt og þær verða til á því formi sem nauðsynlegt er til nýtingar þeirra þannig að afhent gögn séu eins nálægt því og unnt er að vera rauntímagögn.

 

Þá er í kærunni vísað til þess að hún byggist á 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 um rétt almennings til aðgangs að gögnum og 26. gr. sömu laga um heimild til endurnota opinberra upplýsinga.

 

Málsmeðferð

Kæran var send Þjóðskrá Íslands með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 14. febrúar 2011, þar sem vísað er til 2. mgr. 16. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. 3. gr. laga nr. 83/2000, og kærða veittur frestur til að gera athugasemdir við kæruna og til þess að koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni til 23. febrúar 2011. Var þess jafnframt óskað að úrskurðarnefndinni yrði innan sama frests látið í té í trúnaði afrit af þeim gögnum, sem kæran lyti að.

 

Kærði svaraði kæru [...] með bréfi, dags. 24. febrúar 2011. Þar er í upphafi lýst aðdraganda málsins, en síðan kemur þar fram orðrétt:

 

„Beiðni kæranda lýtur að því að fá afhent hnit eignanna til viðbótar við kaupskrárupplýsingar. Til þess þarf að auðkenna eignirnar. Fastanúmer er einkvæmt auðkenni fasteignar. Eigendaupplýsingar eru m.a. tengdar við fastanúmer og því má rekja kaupverðsupplýsingarnar til persónu sem gerir það að verkum að skoða þarf ákvæði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000. [...]

 

Þjóðskrá Íslands getur ekki veitt aðgang að þessum upplýsingum nema tilgangur með vinnslu sé innan þess ramma sem lög 77/2000 marka. Ein af meginreglum laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga er sú að ekki séu veittar meiri upplýsingar en þörf er á, sbr. 3. tl. 1. mgr. 7. gr. l. nr. 77/2000. Kærandi hefur ekki svarað því hvers vegna þörf er á svo nákvæmri auðkenningu fasteigna við gerð þess líkans sem hann hyggst smíða. [...]

 

Upplýsingar þær sem kærandi óskaði síðar eftir – þ.e. eldri gögn en frá 2004 – eru ekki tiltækar með sama hætti og yngri gögn og kallar það á mikla vinnu að framreiða þau. Sama gildir um rauntímagögn sem ekki eru aðgengileg.

 

Vakin er athygli á því að upplýsingar þær sem beðið er um varða ekki tiltekið mál hjá Þjóðskrá Íslands.“

 

Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 2. mars 2011, var kæranda kynnt umsögn Þjóðskrár Íslands vegna kærunnar. Var kæranda gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum vegna kærunnar í ljósi umsagnarinnar og frestur til þess til 11. mars 2011.

 

Með bréfi þann 11. mars 2011 bárust athugasemdir kæranda vegna umsagnar Þjóðskrár Íslands. Í athugasemdum kæranda eru málavextir raktir, m.a. að kærandi hafi verið í samskiptum við Fasteignaskrá Íslands, nú Þjóðskrá Íslands, frá því í september 2009. Á fundi með forstöðumanni gæða- og rekstrardeildar kærða þann 21. desember 2009, hafi tilgangur beiðni kæranda og þörf fyrir GPS hnit verið rædd ítarlega. Afhending hnitanna hafi einnig verið rædd á fundi með fulltrúum Þjóðskrár Íslands í júlímánuði 2010 og kærandi óskað formlega eftir nákvæmari upplýsingum með tölvupósti 7. desember 2010. Í bréfinu er síðan nánar rakið hver sé tilgangur og þörf kæranda á aðgangi að umbeðnum upplýsingum.

 

Í bréfi kæranda er jafnframt rakinn réttur til aðgangs að gögnum skv. upplýsingalögum og til endurnota opinberra upplýsinga skv. sömu lögum. Þar kemur m.a. fram sú afstaða kæranda að „ákvæði 26. gr. upplýsingalaganna um heimild til endurnota á opinberum upplýsingum sem eru almenningi aðgengilegar hefði litla þýðingu ef réttur almennings til aðgangs að upplýsingum skv. 3. gr. s.l. næði ekki til þeirra upplýsinga sem kæra þessi varðar.“

 

Niðurstaða

1.

Mál þetta lýtur að synjun Þjóðskrár Íslands á beiðni [...] um aðgang að gögnum úr kaupskrá Fasteignaskrár Íslands, til endurnýtingar. Synjunin byggist á því í fyrsta lagi að ekki hafi verið færð rök fyrir þörf á upplýsingum um fastanúmer, í öðru lagi að eldri gögn og rauntímagögn séu ekki fyrirliggjandi og í þriðja lagi, varðandi auðkenningu fyrri sölu á sömu eign, að þær upplýsingar séu nú þegar í þeim gögnum sem kærandi hafi aðgang að.

 

Með 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga er almenningi tryggður aðgangur að gögnum sem varða tiltekið mál sem er eða hefur verið til meðferðar hjá stjórnvöldum, sbr. og 1. mgr. 10. gr. laganna. Af áskilnaði um að beiðni um aðgang varði tiltekið mál verður meðal annars dregin sú ályktun að lögin feli ekki í sér rétt til að óska eftir aðgangi að gögnum í öllum málum af ákveðinni tegund eða frá tilteknu tímabili. Af sama áskilnaði leiðir að lögin veita heldur ekki rétt til að krefjast aðgangs að upplýsingum sem einvörðungu er að finna í skrám eða gagnagrunnum stjórnvalda, en ekki í fyrirliggjandi gögnum í tilgreindum málum.

 

Ósk kæranda lýtur að því að fá aðgang að upplýsingum sem safnað hefur verið af hálfu kærða með kerfisbundnum hætti. Ekki verður séð að beiðni kæranda lúti að fyrirliggjandi gögnum sem unnin hafa verið upp úr þeirri skrá sem um ræðir og orðið hafa hluti sérstaks, tilgreinds máls. Þrátt fyrir að beiðni kæranda varði aðgang að tilteknum kaupskrárupplýsingum telur úrskurðarnefndin engu að síður að beiðni kæranda feli í sér beiðni um aðgang að skrá en ekki að gögnum tilgreinds máls sem er eða hefur verið til vinnslu hjá kærða.

 

Beiðni kæranda um aðgang að gögnum byggist á ákvæðum upplýsingalaga nr. 50/1996. Í ákvæði 14. gr. þeirra laga segir að heimilt sé að bera undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum samkvæmt lögunum, þ.e. gögnum tiltekins máls, eða synjun stjórnvalds um að veita ljósrit af skjölum eða afrit af öðrum gögnum. Þar sem beiðni kæranda um aðgang að upplýsingum lýtur að upplýsingum úr skrá fullnægir hún ekki þessu skilyrði. Synjun um aðgang að skrá verður ekki kærð til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt ákvæðum upplýsingalaga. Sérstök kæruheimild til nefndarinnar samkvæmt ákvæðum annarra laga er heldur ekki fyrir hendi í máli þessu. Kæru máls þessa um synjun Þjóðskrár Íslands á að afhenda kæranda afrit tiltekinna upplýsinga ber því að vísa frá kærunefndinni.

 

2.

Kærandi hefur í máli þessu vísað til 26. gr. upplýsingalaga, með síðari breytingum, en þar er fjallað um rétt til endurnota á opinberum upplýsingum.

 

Með lögum nr. 161/2006, sem tóku gildi 1. janúar 2007, var upplýsingalögum breytt í nokkrum atriðum. Meðal annars var bætt við lögin nýjum kafla, nr. VIII, um endurnot opinberra  upplýsinga. Í 1. mgr. 24. gr. laganna segir að markmið kaflans sé að auka endurnot opinberra upplýsinga til hagsbóta fyrir samfélagið í heild. Samkvæmt 3. mgr. 24. gr. hefur umræddur kafli þó ekki bein áhrif á rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt upplýsingalögum. Þar kemur fram að ákvæði kaflans gildi einvörðungu um endurnot fyrirliggjandi upplýsinga sem séu í vörslum stjórnvalda og almenningur eigi rétt til aðgangs að á grundvelli 3. gr. laganna eða annarra ákvæða sem veita almenningi slíkan rétt. Í skýringum við þessa málsgrein í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 161/2006 er áréttað að ákvæði kaflans gildi „einungis um endurnot upplýsinganna en mæli ekki á neinn hátt fyrir um rétt til aðgangs að opinberum upplýsingum.“

 

Af framangreindu leiðir að ákvæði VIII. kafla upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. 5. gr. laga nr. 161/2006, fjalla aðeins um heimildir einkaaðila til að nýta opinberar upplýsingar eftir að þær hafa verið gerðar aðgengilegar. Ákvæði kaflans mæla ekki fyrir um það hverjar þær upplýsingar eru sem einkaaðilar eigi rétt til aðgangs að í þessu skyni. Það ræðst af upplýsingarétti almennings skv. 3. gr. upplýsingalaga eða eftir atvikum skv. öðrum lagaákvæðum sem tryggja almenningi rétt til upplýsinga. Með öðrum orðum: Ef upplýsingar falla undir aðgangsrétt almennings samkvæmt framangreindu mælir VIII. kafli upplýsingalaga fyrir um heimildir einkaaðila til að endurnota upplýsingarnar. Í ákvæðum kaflans felst hins vegar ekki sjálfstæður réttur til aðgangs að upplýsingum.

 

Eins og lýst hefur verið hér að framan fellur það ekki undir valdsvið úrskurðarnefndar um upplýsingamál sbr. 14. gr. upplýsingalaga að taka afstöðu til þess hvort kærða beri að afhenda kæranda upplýsingar úr skrá sem stofnunin heldur. Kæru máls þessa ber því að vísa frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál í heild sinni.

 

 

Úrskurðarorð

Kæru [...] á hendur Þjóðskrá Íslands er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

 

Trausti Fannar Valsson

formaður

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum