Hoppa yfir valmynd
21. desember 2011 Forsætisráðuneytið

A-395/2011. Úrskurður frá 14. desember 2011

ÚRSKURÐUR

Hinn 14. desember 2011 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. A-395/2011.

Kæruefni

Með erindi, dags. 13. október 2011, kærði [A] þá ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, dags. 29. september 2011, að synja honum um afhendingu ráðningarsamnings Gunnars Þ. Andersen, forstjóra Fjármálaeftirlitsins, ásamt þeim viðaukum sem við hann hafi verið gerðir.

Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi til Fjármálaeftirlitsins, dags. 29. ágúst, fór kærandi fram á afhendingu ráðningarsamnings Gunnars Þ. Andersen, forstjóra Fjármálaeftirlitsins, ásamt þeim viðaukum sem við hann hafi verið gerðir. Af gögnum málsins er ljóst að kærandi fer fram á afhendingu ráðningasamnings sem gerður var við forstjóra Fjármálaeftirlitsins fyrir gildistöku laga nr. 87/2009, um breytingu á lögum um kjararáð og fleiri lögum, sem tóku gildi 18. ágúst 2009. Með VI. kafla þeirra laga var gerð sú breyting á 3. máls. 1. mgr. 5. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, að kjararáði var falið að ákveða starfskjör forstjóra Fjármálaeftirlitsins.  

Með bréfi úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 31. október, var Fjármálaeftirlitinu kynnt framkomin kæra. Eftirlitinu var jafnframt veittur frestur til 8. næsta mánaðar til að gera athugasemdir við kæruna og koma að frekari rökstuðningi væri þess óskað. Ennfremur var þess óskað að nefndinni yrðu látin í té afrit þeirra gagna sem kæran lyti að. Svar barst frá Fjármáleftirlitinu 9. nóvember og var hjálagt því svari bréf Fjármálaeftirlitsins til kæranda, dags. sama dag. Í bréfi Fjármálaeftirlitsins til kæranda kemur eftirfarandi m.a. fram:

„...gerði Fjármálaeftirlitið ráð fyrir að leitast væri eftir upplýsingum um núverandi laun og starfskjör forstjórans. Þar sem laun og starfskjör forstjóra Fjármálaeftirlitsins eru nú ákveðin af kjararáði, sbr. lög nr. 47/2006 um kjararáð, vísaði eftirlitið til upplýsinga á vefsíðu kjararáðs. Í úrskurði kjararáðs nr. 2010.4.003 eru núverandi laun og starfskjör forstjóra Fjármálaeftirlitsins ákveðin. Í úrskurði kjararáðs voru ekki upplýsingar um greiðslur í lífeyrissjóð og upplýsingar um áður umsamin laun forstjóra. Fjármáleftirlitið veitti því aðgang að þeim hluta ráðningasamningsins við Gunnar þar sem fjallað er um framangreind atriði.

Af kæru þinni til úrskurðarnefndar er ljóst að þér óskið ekki eftir upplýsingum um núverandi laun og starfskjör Gunnar heldur þeim ráðningasamningi sem gerður var á sínum tíma við hann af hálfu Fjármálaeftirlitsins. Meðfylgjandi bréfi þessu er ráðningasamningur Gunnars Þ. Andersen. Ákveðið var að veita aðgang að samningnum í heild sinni, sbr. 3. mgr. 3. gr. upplýsingalaga. Fjármálaeftirlitið vill taka fram að um er að ræða eina ráðningasamninginn sem gerður var við Gunnar og engir viðaukar voru gerðir við samninginn.“

Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til þess að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila en úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af þeim við úrlausn málsins.

 Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er heimilt að bera synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Kæruheimildin er bundin því skilyrði að ágreiningur sé uppi um annað tveggja: skyldu stjórnvalds til að veita aðgang að gögnum eða skyldu þess til að veita aðgang í formi ljósrits af skjölum eða afrits af öðrum gögnum.

Fjármálaeftirlitið hefur nú með bréfi, dags. 9. nóvember, afhent kæranda umræddan samning og áréttað að um sé að ræða einn ráðningarsamning sem gerður hefur verið við forstjóra Fjármálaeftirlitsins og engir viðaukar hafi verið gerðir við hann. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki forsendur til að draga þessa fullyrðingu í efa. Samkvæmt því hefur Fjármálaeftirlitið þegar orðið við beiðni kæranda um aðgang að gögnum. Af þeim sökum ber að vísa kæru málsins frá úrskurðarnefndinni.


Úrskurðarorð

Vísað er frá kæru [A] á hendur Fjármálaeftirlitinu.

 

Trausti Fannar Valsson
formaður

 

Friðgeir Björnsson                                                                                        Sigurveig Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum