Hoppa yfir valmynd
21. desember 2011 Forsætisráðuneytið

A-394/2011. Úrskurður frá 14. desember 2011

ÚRSKURÐUR

Hinn 14. desember 2011 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. A-394/2011.

Kæruefni

Með bréfi, dags. 3. júní 2011, kærði [A] til úrskurðarnefndar um upplýsingamál að dráttur hefði orðið á því að Þjóðmálastofnun Háskóla Íslands og öndvegissetrið Edda svöruðu beiðnum hans um aðgang að upplýsingum. Í kærunni segir svo um kæruefnið.

„Undirritaður kærir til yðar þann óhæfilega drátt sem orðið hefur á svari Þjóðmálastofnunar Háskóla Íslands við beiðni undirritaðs um aðgang að upplýsingum er tengjast fyrirlestrarröðinni Eilífðarvélinni og samnefndri bók. Fyrirspurn undirritaðs til Þjóðmálastofnunar var dagsett 29. mars sl., en erindið var ítrekað með bréfi dags. 20. apríl.

Þá legg ég einnig fram kæru vegna dráttar á svari frá Öndvegissetrinu Eddu, sem einnig er stofnun við Háskóla Íslands. Fyrirspurn undirritaðs til þeirrar stofnunar var dagsett 29. mars, en ég ítrekaði erindið með bréfi dagsettu 20. apríl. Meðfylgjandi er bréf sem undirrituðum barst frá þeirri stofnun, dagsett 29. apríl 2011, en í því getur ekki falist formlegt svar.“

Málsatvik

Bréf kæranda, dags. 29. mars 2011, til Þjóðmálastofnunar Háskóla Íslands og Eddu- öndvegisseturs er samhljóða og segir í bréfinu til þjóðmálastofnunarinnar eftirfarandi:

„Á haustdögum stóðu Þjóðmálastofnun og Öndvegissetrið Edda fyrir fyrirlestraröð innan veggja Háskóla Íslands sem bar heitið „Eilífðarvélin. Uppgjör við nýfrjálshyggjuna“. Fyrirlestraröðin er byggð á samnefndri bók sem kom út fyrr á þessu ári.

Í ljósi þess að efni þessara fyrirlestra beinist gegn einni af viðurkenndum, lýðræðislegum stjórnmálastefnum í landinu óska ég hér með eftir nákvæmum og sundurliðuðum upplýsingum um stuðning (beinan fjárhagsstuðning eða á öðru formi) sem runnið hefur til Þjóðmálastofnunar, hvenær og með hvaða hætti. Hverjir hafa stutt stofnunina með fjárframlögum? Einnig óska ég eftir því að sjá, hvaða fastar reglur gilda um ráðstöfun þess fjár, sem runnið hefur til Þjóðmálastofnunar, m.a. hvort því sé úthlutað í akademískri samkeppni.

Þá spyr ég yður hvers vegna var ekki auglýst eftir fyrirlesurum í fyrirlestraröðina? Hvers vegna var þeim eingöngu leyft að flytja erindi sem höfðu ritað greinar í bókina Eilífðarvélina? Hvað fékk ritstjórinn greitt fyrir verkið? Hver greiddi honum þau laun? Hvar er færður kostnaður Háskólans vegna aðstöðu hans í Háskólanum, svo sem síma, tölvu, pappírs og fleira er lýtur að rekstri?

Fékk Þjóðmálastofnun styrk til að reka áróður gegn frjálshyggju? Hafi svo ekki verið, teljið þér þá ekki að henni sé skylt að veita fé til andsvara?

Hvað upplýsingaskyldu varðar vísa ég til 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.

Þá vil ég beina þeirri fyrirspurn til yðar, forstöðumanns stofnunarinnar, hvort þér teljið það vera í samræmi við eðli og markmið Háskóla Íslands að slík framsetning efnis, líkt og vísað er til hér að ofan, eigi sér stað innan veggja skólans. Ef þér teljið að slík framsetning eigi rétt á sér á sér, teljið þér þá ekki með sama hætti eðlilegt að stofnunin styðji líka við starf þeirra sem andmæla þeim viðhorfum sem þarna komu fram?“

Í niðurlagi bréfsins vísar kærandi til 11. gr. upplýsingalaga um málshraða.

Kærandi ritaði stofnunum tveim bréf, dags. 20. apríl, og ítrekaði þar „fyrirspurn sem ég bar upp við yður í bréfi dagsettu 29. mars 2011.“

Af hálfu Eddu-öndvegisseturs var kæranda ritað svohljóðandi bréf sem er dags. 29. apríl 2011:

„EDDA-öndvegissetur er sjálfstæð stofnun innan Háskóla Íslands og er fjármögnuð með styrkjum úr samkeppnissjóði Rannís. Setrið starfar samkvæmt starfsreglum sem stjórn Hugvísindastofnunar hefur sett. Valnefnd sendir umsóknir í jafningjamat og gerir tillögu að styrkveitingum í samræmi við markmið setursins, rannsóknastefnu þess og uppbyggingu rannsóknaklasa. Upplýsingar um fyrirkomulag styrkveitinga á vegum setursins, viðmið vegna úthlutana og um styrkþega er að finna á heimasíðu stofnunarinnar: www.edda.hi.is.

EDDA-öndvegissetur kom ekki að útgáfu bókarinnar Eilífðarvélarinnar og tók því ekki þátt í vinnslu hennar eða fjármögnun. EDDA lagði hins vegar nafn sitt við fyrirlestraröðina vegna þess að setrið er vettvangur fyrir fræðilegar umræður og samtímarannsóknir á sviði samfélags-, stjórnmála- og menningarrýni með áherslu á jafnrétti og margbreytileika. Fjárhagsleg aðkoma stofnunarinnar fólst í því að taka þátt í kostnaði við leigu á sal fyrir einn fyrirlestur (heildarkostnaður um 20 þúsund kr.) Menn geta haft mismunandi skoðanir á efni fyrirlestranna, en það voru fræðimenn sem fluttu erindi í fyrirlestraröðinni. Val á fyrirlesurum var í höndum ritstjóra bókarinnar, [B], og við það verklag er ekkert að athuga.“

Önnur svör fékk kærandi ekki við beiðni sinni.

Rétt þykir að taka hér fram að kærandi sendi rektor Háskóla Íslands efnislega hliðstæða beiðni um aðgang í bréfi, dags. 16. nóvember 2010, sem svarað var með bréfi aðstoðarrektors, dags. 16. desember. Í bréfi, dags. 13. janúar 2011, beindi kærandi 6 spurningum til háskólarektors sem að hluta til má skilja sem beiðni um gögn en að hluta er spurningar um skoðanir móttakanda bréfsins um efni sem tengjast útkomu bókarinnar Eilífðarvélin og umræddri fyrirlestraröð. Síðara bréfi kæranda var svarað með bréfi aðstoðarrektors, dags. 23. febrúar. Eins og fram kemur hér að framan nær kæra kæranda ekki til þessara svarbréfa háskólans heldur til þess að hann hafi ekki fengið svör frá Þjóðmálastofnun Háskóla Íslands og Eddu-öndvegissetri við bréfum sínum, dags. 29. mars og 20. apríl 2011.


Málsmeðferð

Kæra máls þessa barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál með bréfi, dags. 3. júní 2011. Kæran var send Háskóla Íslands með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. júní, og skólanum veittur frestur til 16. júní til að gera athugasemdir við hana og koma að rökstuðningi. Óskaði úrskurðarnefndin jafnframt eftir því að henni yrði látin í té í trúnaði afrit af umbeðnum gögnum innan sama frests. Svar skólans barst ekki innan frestsins. Í tölvupósti deildarstjóra kennslusviðs skólans til úrskurðarnefndarinnar 27. júní var óskað eftir fresti til 29. júní og var fallist á það. Í framangreindum tölvupósti segir að kæra kæranda hafi verið send til umsagnar Þjóðmála-stofnunar og Eddu-öndvegisseturs og verið sé að taka saman gögn sem óskað hafi verið eftir í bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. júní. Enn bárust hvorki svar skólans né umbeðin gögn og í tölvupósti frá úrskurðarnefndinni 2. ágúst var óskað eftir því að bréfi nefndarinnar yrði svarað hið fyrsta. Deildarstjóri kennslusviðs Háskóla Íslands sendi úrskurðarnefndinni bréf, dags. 15. ágúst, þar sem segir að bréfinu fylgi umbeðin gögn sem lúti að kæru [A]. Ennfremur segir í bréfinu að bréfum [A] um stuðning við Þjóðmálastofnun og öndvegissetrið Eddu, dags. 16. nóvember 2010 og 13. janúar 2011, hafi verið svarað með bréfum [D], aðstoðarrektors, dags. 16. desember 2010 og 23. febrúar 2011. Verður að líta þannig á að framangreint bréf deildarstjórans sé svar þess stjórnvalds sem hér á hlut að máli, þ.e. Háskóla Íslands vegna tveggja stofnana skólans, til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, sbr. 2. mgr. 16. gr. upplýsingalaga. Þau gögn sem úrskurðarnefndin hefur fengið frá Háskóla Íslands eru eftirtalin:

1. Ljósrit af 27. gr. reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands en í greininni er fjallað um stofnanir sem heyra undir fræðasvið eða deildir skólans
2. Skipurit Félagsvísindasviðs
3. Reglur um Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, nr. 370/2009
4. Uppgjör útlagðs ferðakostnaðar vegna flugmiða fyrir [B] og [C] frá Akureyri til Reykjavíkur, dags. 23.3.2010
5. Tvö skjöl um kostnað við bókina Eilífðarvélina en um er að ræða hreyfingalista úr reikningi Háskólaútgáfunnar. Annað skjalið er merkt „‘0221 Hreyfingalisti-Hreyfingar Skipulagseining: '022013400‘, Ár: ‘2010', Verkefni frá: 'U201010'.“.Hitt skjalið er merkt „‘0221 Hreyfingalisti-Hreyfingar Skipulagseining: '022013400‘, Ár: ‘2011', Verkefni frá: ‘U201010‘“
6. Millifærsla vegna húsaleigu í byggingum HÍ. Skjalið er merkt „'0221 Hreyfingalisti-Hreyfingar Skipulagseining: '022013400‘, Ár: '2011‘, Verkefni frá: 'U201010‘“
7. Starfsreglur fyrir Eddu-öndvegissetur

Niðurstaða

1.
Þjóðmálastofnun Háskóla Íslands og Edda-öndvegissetur eru hvortveggja stofnanir Háskóla Íslands og hluti hans. Háskóli Íslands er  stjórnvald sem fer með stjórnsýslu í skilningi upplýsingalaga nr. 50/1996.

Kærandi byggir beiðni sína um aðgang að gögnum á 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga, sem hljóðar svo: „Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr. Stjórnvöldum er þó ekki skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkari mæli en leiðir af 7. gr.“  Þessi lagagrein hefur verið skýrð svo að með fyrirliggjandi gögnum sé átt við þau gögn sem fyrir hendi eru hjá stjórnvaldi þegar beiðni um aðgang berst. Réttur manna til upplýsinga samkvæmt upplýsingalögum er þannig bundinn við gögn sem til eru þegar beiðni um aðgang berst en nær ekki til þess að fá svör við spurningum sem kærandi kann að vilja fá svarað sé engum gögnum til að dreifa er þær varða. Samkvæmt síðari málslið 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga getur sá sem fer fram á aðgang að gögnum hjá stjórnvaldi óskað eftir því að fá að kynna sér öll gögn um tiltekið mál án þess að tilgreina einstök gögn er málið varða.

Beiðnir kæranda frá 29. mars eru því marki brenndar að hlutar þeirra eru spurningar um skoðun forstöðumanna Þjóðmálastofnunar Háskóla Íslands og Eddu-öndvegisseturs á ákveðnum málum en svara við spurningum af þessu tagi verður að leita eftir öðrum leiðum en þeim sem upplýsingalögin hafa að geyma.  Á aðra hluta beiðninnar verður á líta á sem beiðni um aðgang að gögnum er varða útgáfu bókarinnar „Eilífðarvélin“ og fyrirlestraröðina „Eilífðarvélin. Uppgjör við nýfrjálshyggjuna.“ Að því leyti samræmist beiðnin þeim ákvæðum upplýsingalaga sem að framan eru rakin.  

2.
Bréf sviðstjóra kennslusviðs Háskóla Íslands, dags. 15. ágúst 2011, verður ekki skilið svo að af hálfu Háskóla Íslands sé kæranda synjað um aðgang að gögnum. 

Skjöl sem merkt eru með tölunum 4, 5 og 6 hér að framan hafa að geyma upplýsingar um kostnað við útgáfu bókarinnar „Eilífðarvélin“ og kostnað við fyrirlestraröðina „Eilífðarvélin. Uppgjör við nýfrjálshyggjuna.“ Hér er um að ræða skjöl sem sýna ráðstöfun opinbers fjár á vegum Háskóla Íslands og á kærandi rétt til þess að fá aðgang að þeim, en ekki verður séð að neinar undantekningar á rétti aðgangs skv. 4-6. gr. upplýsingalaga eigi hér við.

Að því er varðar skjöl sem merkt eru með tölunum 1, 2, 3 og 7 hér að framan varða þau ekki beinlínis útgáfukostnað við bókina „Eilífðarvélina“ eða kostnað við fyrirlestraröðina „Eilífðarvélin. Uppgjör við nýfrjálshyggjuna“ en mega vera til skýringar á því hver er staða þeirra stofnana sem hér koma við sögu, þ.e. Þjóðmálastofnunar Háskóla Íslands og Eddu-öndvegisseturs, innan Háskóla Íslands. Ber kærða því að afhenda kæranda þessi gögn og skiptir ekki máli þótt hann kunni að geta nálgast þau með öðrum hætti. Samkvæmt öllu framansögðu ber Háskóla Íslands að veita kæranda, [A], aðgang að þeim gögnum sem tiltekin eru í úrskurðarorði.  

 

 

Úrskurðarorð

Háskóla Íslands  ber að veita  [A] aðgang að eftirtöldum gögnum:

1. Ljósrit af 27. gr. reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands
2. Skipurit Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands
3. Reglur um Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, nr. 370/2009
4. Uppgjör útlagðs ferðakostnaðar vegna flugmiða fyrir [B] og [C] frá Akureyri til Reykjavíkur, dags. 23.3.2010
5. Tvö skjöl um kostnað við bókina Eilífðarvélina, þ.e. hreyfingalista úr reikningi Háskólaútgáfunnar. Annað skjalið er merkt „‘0221 Hreyfingalisti-Hreyfingar Skipulagseining: '022013400‘, Ár: ‘2010', Verkefni frá: 'U201010'“. Hitt skjalið er merkt „‘0221 Hreyfingalisti-Hreyfingar Skipulagseining: '022013400‘, Ár: ‘2011', Verkefni frá: ‘U201010‘“
6. Skjal um millifærslu vegna húsaleigu í byggingum Háskóla Íslands. Skjalið er merkt „'0221 Hreyfingalisti-Hreyfingar Skipulagseining: '022013400‘, Ár: '2011‘, Verkefni frá: 'U201010‘“
7. Starfsreglur fyrir Eddu-öndvegissetur

 

 

Trausti Fannar Valsson
formaður

 

 Friðgeir Björnsson                                                                                            Sigurveig Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum