Hoppa yfir valmynd
30. desember 2002 Forsætisráðuneytið

A-157/2002 Úrskurður frá 30. desember 2002

ÚRSKURÐUR



Hinn 30. desember 2002 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-157/2002:

Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 29. október sl., kærði [A] hrl. synjun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dagsetta 30. september sl., um að veita honum aðgang að úrlausnum úr heimaverkefnum, sem fengu jákvæða umsögn dómnefndar í prófum í þýðingum úr og á ensku er haldin voru í febrúar sl. samkvæmt lögum nr. 148/2000 um dómtúlka og skjalaþýðendur, svo og að mati prófnefndar á þeim úrlausnum. Kærunni var jafnframt fylgt eftir með greinargerð frá kæranda, dagsettri 8. nóvember sl.

Með bréfi, dagsettu 20. nóvember sl., var kæran kynnt dóms- og kirkju-mála-ráðu-neytinu og því veittur frestur til að gera við hana athugasemdir og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni til kl. 16.00 hinn 4. desember sl. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd yrðu látin í té í trúnaði afrit þeirra gagna, sem kæran lýtur að, innan sömu tímamarka. Umsögn dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dagsett 21. nóv-ember sl., barst innan tilskilsins frests ásamt umbeðnum gögnum. Að ósk kæranda var honum gefinn kostur á að tjá sig um umsögn ráðuneytisins. Umsögn hans þar að lútandi, dagsett 16. desember sl., barst 17. desember sl.

Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess þau að kærandi stóðst ekki próf sem haldið var í febrúarmánuði síðastliðnum fyrir þá er öðlast vilja löggildingu sem skjalaþýð-endur samkvæmt lögum nr. 148/2000. Í bréfi, sem hann ritaði dóms- og kirkju-málaráðuneytinu af því tilefni, dagsettu 14. ágúst sl., fór hann fram á að fá aðgang að úrlausnum úr svonefndum heimaverkefnum þeirra próftaka, sem próf-nefnd hafði mælt með að veitt yrði löggilding eftir töku sama prófs og kærandi hafði þreytt, þ.e. að sex úrlausnum fjögurra próftaka, tveggja á ensku úr íslensku og fjögurra á íslensku úr ensku. Jafnframt fór hann fram á aðgang að umsögnum prófnefndar um þessar úrlausnir. Kærandi tók fram að hann gerði ekki athugasemdir við það þótt gætt yrði fullrar nafnleyndar við afhendingu gagnanna. Í bréfi sínu færði hann m.a. þau rök fyrir beiðni sinni að hann ætti rétt á að fá að vita hvaða þýðingar prófnefndin viðurkenndi.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið svaraði kæranda með bréfi, dagsettu 30. september sl. Þar segir m.a.: "Að því er snertir beiðni yðar um að fá afhentar prófúrlausnir annarra próftaka, ónafngreindar, tekur ráðuneytið fram að ekki verður séð að þær úrlausnir geti skipt máli eða haft einhver áhrif á mat á úrlausn yðar . . . Ráðuneytið telur tilgangslaust að úrlausnir yðar verði bornar saman við úrlausnir annarra, þar sem unnt er við þýðingu á texta að orða efni hans á mjög misjafnan hátt á öðru tungumáli, og þýðingarnar kunna samt sem áður að geta talist réttar og fullgildar. Hér gildir ekki það sama og í raunvísindum að aðeins ein lausn sé tæk eða rétt. Ráðuneytið telur sig ekki þurfa að rökstyðja ákvörðun sína um synjun um aðgang að úrlausnum annarra próftaka hvað þetta snertir, þar sem eigi verður séð að þér hafið neina hagsmuni af því að skoða úrlausnir annarra próftaka."

Í greinargerð með kæru til nefndarinnar, dagsettri 8. nóvember sl., áréttar kærandi hagsmuni sína sem próftaka af því að fá að kynna sér vinnubrögð prófnefndar og bera í því skyni saman eigin úrlausn við þær sem fengið hafa jákvæða umsögn nefndar-innar. Kröfu sína byggir hann á 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 og tiltekur sér-staklega að hann telji 5. gr. sömu laga ekki eiga við um hagsmuni annarra próftaka.

Í umsögn dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til úrskurðarnefndar, dagsettri 21. nóvember sl., er fyrri rökstuðningur fyrir að synja beiðni kæranda áréttaður. Jafnframt bendir ráðuneytið á að nöfn þeirra, sem veitt er löggilding sem skjalaþýðendum á grundvelli jákvæðrar umsagnar prófnefndar, séu auglýst í Lögbirtingablaðinu. Þar sem einungis tveir úr hópi umsækjenda, sem þreyttu löggildingarpróf úr og á ensku, hafi fengið jákvæða umsögn, sem veiti rétt til löggildingar, sé auðvelt að rekja hvaða tveir einstaklingar eigi í hlut, jafnvel þótt auðkenni þeirra yrðu máð úr þeim gögnum sem aðgangur yrði veittur að. Af þeim sökum beri einnig að hafna beiðni kæranda á grund-velli 5. gr. upplýsingalaga.

Í umsögn kæranda, dagsettri 16. desember sl., bendir hann m.a. á að umbeðin gögn geymi eingöngu vitnisburð um frammistöðu próftaka og mat prófnefndar á málfari og þýð-ingum. Þau geti því ekki varðað upplýsingar um einkamálefni sem eðlilegt sé að leynt fari á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða
1.

Samkvæmt 1. gr. reglugerðar nr. 893/2001 um próf og löggildingu fyrir dómtúlka og skjalaþýðendur skal sá, sem öðlast vill réttindi til að vera skjalaþýðandi samkvæmt lögum nr. 148/2000, sanna kunnáttu sína í tungu þeirri sem hann vill öðlast rétt til að þýða skjöl úr og á með því að standast prófraun sem dómsmálaráðuneytið efnir til. Samkvæmt 2. gr. reglugerðarinnar er prófraun til skjalaþýðingarréttinda skrifleg og skiptist í tvo hluta, þ.e. sameiginlegt próf í prófstofu og heimaverkefni.

Mat á úrlausnum er í höndum sérstakrar prófnefndar, sem dómsmálaráðherra skipar fyrir hvert próftímabil, sbr. 5. gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt 6. gr. hennar metur próf-nefnd úrlausnir í sameiningu og sendir prófstjórn greinargerð um þær þar sem fram kemur mat á því hvort nefndin telji próftaka hafa kunnáttu og leikni til að öðlast löggildingu sem skjalaþýðandi, bæði úr íslensku á hið erlenda mál og úr hinu erlenda máli á íslensku eða aðeins af hinu erlenda máli á íslensku eða öfugt. Mat prófnefndar er endanlegt. Prófstjórn gefur síðan út prófskírteini til þeirra sem staðist hafa próf þar sem fram kemur í hvaða máli og í hvaða þáttum prófs próftaki hefur staðist próf. Slíkt skírteini veitir rétt til löggildingar skv. 2. gr. laga nr. 148/2000 að uppfylltum öðrum skilyrðum.

Samkvæmt framansögðu lítur úrskurðarnefnd svo á að úrlausnir hvers próftaka um sig teljist til gagna í sérstöku stjórnsýslumáli, enda er mat prófnefndar á þeim bundið við frammistöðu hvers próftaka, óháð frammistöðu annarra þeirra sem próf þreyta. Þar sem kærandi hefur farið fram á að fá aðgang að öðrum prófúrlausnum en sínum eigin og mati á þeim telst hann ekki aðili máls, hvorki í skilningi stjórnsýslulaga né upp-lýsinga-laga. Þar af leiðandi ber að fjalla um rétt hans til aðgangs að hinum umbeðnum gögnum á grundvelli II. kafla upplýsingalaga.

2.

Samkvæmt meginreglu 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga er stjórnvöldum skylt, sé þess óskað, að veita aðgang að gögnum, sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum, sem greinir í 4.–6. gr. laganna. Markmið þessarar reglu er m.a. að auka á aðhald með starfsemi stjórnsýslunnar. Í framsöguræðu með frumvarpi því, er varð að upp-lýsingalögum, vék forsætisráðherra að því markmiði með þessum orðum: "Með lögunum opnast sú leið að fá upplýsingar um áður afgreidd mál hjá stjórnvöldum, svo hægt sé að meta hvort stjórnvöld hafi gætt samræmis og jafnræðis við úrlausn mála."

Samkvæmt 5. gr. upplýsingalaga er stjórnvöldum skylt að takmarka aðgang að gögnum um einkamálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari. Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi til laganna, segir m.a. að við mat á því hvort undanþiggja skuli upplýsingar um einkamálefni aðgangi almennings verði "að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu, samkvæmt almennum sjónarmiðum, svo við-kvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna."

Kærandi hefur farið fram á að fá aðgang að sex úrlausnum fjögurra próftaka í prófi sem fram fór í febrúarmánuði síðastliðnum. Af þessum fjórum hafa a.m.k. tveir fengið löggildingu sem skjalaþýðendur og hafa nöfn þeirra verið birt opinberlega. Af þeim sökum er auðvelt að komast að því hverjir umræddir próftakar eru, jafnvel þótt nafnleyndar verði gætt gagnvart kæranda.

Ennfremur hefur kærandi óskað eftir aðgangi að mati prófnefndar á umræddum próf-úrlausnum. Meðal þeirra gagna, sem dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefur látið úr-skurðar-nefnd í té, eru sjálfstæðar athugasemdir prófnefndar um úrlausnir próftaka, þ. á m. þær úrlausnir sem beiðni kæranda tekur til.

Í lögum er ekki að finna almenn ákvæði sem tryggja eða takmarka aðgang að próf-úr-lausnum. Í 3. mgr. 45. gr. laga um grunnskóla nr. 66/1995 segir hins vegar að nemandi og forráðamaður hans hafi rétt til að skoða metnar prófúrlausnir nemanda. Með hlið-sjón af 2. mgr. þeirrar greinar, þar sem mælt er fyrir um þagnarskyldu, er eðlilegt að gagnálykta frá ákvæðinu á þann veg að aðrir en nemandi sjálfur eða forráðamaður hans eigi ekki aðgang að prófúrlausnum hans.

Við mat á því, hvort 5. gr. upplýsingalaga takmarki aðgang kæranda að hinum um-beðnu prófúrlausnum, telur úrskurðarnefnd rétt að líta til þeirrar megin-reglu sem mörkuð hefur verið í lögum um grunnskóla og gerð er grein fyrir hér að framan. Þótt úrlausnirnar hafi ekki að geyma upplýsingar um persónuleg málefni próftaka verður ekki framhjá þeirri staðreynd litið að um er að ræða persónulegt framlag af hans hálfu. Með vísun til þess, sem að framan segir, er það álit úrskurðarnefndar að próftakarnir hafi mátt ganga út frá því sem meginreglu að prófúrlausnir þeirra komi ekki fyrir al-mennings sjónir. Öðru máli gegnir um sjálfstætt mat prófnefndar á úrlausnunum.

Samkvæmt þessu ber, með skírskotun til 5. gr. upplýsingalaga, að staðfesta þá ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að synja kæranda um aðgang að hinum umbeðnu prófúrlausnum. Með vísun til meginreglu 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga á hann hins vegar rétt á því að fá aðgang að fyrrgreindum athugasemdum prófnefndar við úrslausnirnar.

Úrskurðarorð:

Staðfest er sú ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að synja kæranda, [A] hrl., um aðgang að úrlausnum úr heimaverkefnum í prófi í skjalaþýðingum úr og á ensku sem haldið var í febrúarmánuði síðastliðnum. Hins vegar ber að veita honum aðgang að sjálfstæðum athugasemdum prófnefndar við úrlausnirnar.


Eiríkur Tómasson, formaður
Elín Hirst
Valtýr Sigurðsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum