Hoppa yfir valmynd
8. nóvember 2002 Forsætisráðuneytið

A-1552002 Úrskurður frá 8. nóvember 2002

ÚRSKURÐUR



Hinn 8. nóvember 2002 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-155/2002:

Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 30. ágúst sl., kærði [A], til heimilis að [...] í [...], meðferð landlæknis á beiðni hans um aðgang að nánar til-greindum gögnum varðandi veikindi móður hans sem lést á Borgar-spítalanum [dags.], nú Landspítalanum- háskólasjúkrahúsi, Fossvogi.

Með bréfi, dagsettu 27. september sl., var kæran kynnt landlækni og honum veittur frestur til 8. október sl. til þess að gera nefndinni grein fyrir meðferð beiðninnar hjá embætti hans. Jafnframt var þess sérstaklega óskað að gerð yrði grein fyrir á hvaða laga-grundvelli beiðnin hefði verið afgreidd. Svar landlæknis, dagsett 1. október sl., barst úrskurðarnefnd 4. október sl.

Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess þau að með bréfi til landlæknis, dagsettu 21. mars sl., óskaði kærandi "eftir að fá aðgang að sjúkraskýrslum, hjúkrunarskýrslum og öllum öðrum gögnum er varða" móður hans sem lést á Borgarspítalanum [dags.]. Erindi þetta ítrekaði hann með tölvubréfi til landlæknis, dagsettu 5. apríl sl. Í erindum kæranda kom m.a. fram að hann hefði fengið litlar upplýsingar um aðdragandann að andláti móður sinnar.

Með bréfi til lækningaforstjóra Landspítala-háskólasjúkrahúss, dagsettu 19. apríl sl., óskaði aðstoðarlandlæknir eftir að fá afrit af sjúkraskrá móður kæranda með vísun til 12. gr. laga nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga. Tilkynnti aðstoðarlandlæknir kæranda þetta með bréfi, dagsettu 22. apríl sl. Hinn 7. maí sl. bárust landlækni ljósrit af nótum lækna í sjúkraskrá móðurinnar frá Landspítala-háskólasjúkrahúsi. Í framhaldi af því bauð aðstoðarlandlæknir kæranda að koma til viðtals við sig með bréfi, dagsettu 20. júní sl., og fór það viðtal fram á skrifstofu hans 26. júní sl.

Í umsögn landlæknis til úrskurðarnefndar, dagsettri 1. október sl., kemur fram að kærandi hafi í nefndu viðtali verið upplýstur um að ekkert kæmi fram í þessum gögnum sem benti til að eitthvað athugavert væri við málið. Að öðru leyti hefði landlæknir ekki talið ástæðu til að víkja frá meginreglu 12. gr. laga nr. 74/1997 um þagnarskyldu, enda hefði ekkert komið fram í sjúkraskýrslunni sem varðaði hagsmuni kæranda sjálfs.

Í kæru sinni til úrskurðarnefndar hefur kærandi einskorðað beiðni sína um aðgang að fyrrgreindum gögnum við upplýsingar frá 1995 og 1996. Hann hefur ennfremur gert athugasemdir við að hafa ekki fengið sjálfur að lesa þau gögn, sem starfslið heilbrigðiskerfisins hafi haft undir höndum, heldur hafi einungis verið lesnir fyrir hann valdir kaflar eða í þá vitnað í almennu spjalli. Þá hafi landlæknir einungis fjallað um beiðni hans um aðgang að sjúkraskýrslum móður hans, en ekki að öðrum gögnum, svo sem hjúkrunarskýrslum, dagálum og ef til vill fleiri gögnum sem hana varðar.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða

1.

Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. upplýsingalaga, sbr. og 2. mgr. 2. gr. laganna eins og henni hefur verið breytt með lögum nr. 83/2000, taka lögin til þess þegar óskað er eftir aðangi að skjölum og öðrum gögnum í vörslum hins opinbera sem þar eru nánar greind. Frá þessari meginreglu er gerð undantekning í 4. mgr. 9. gr. upplýsingalaga sem er svohljóðandi eftir að henni hefur verið breytt með 5. gr. laga nr. 76/1997: "Um aðgang sjúklings að upplýsingum úr sjúkraskrá fer eftir ákvæðum laga um réttindi sjúklinga."

Í 14. gr. laga nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga er kveðið á um aðgang að sjúkraskrá. Í 2. mgr. þeirrar greinar segir að skylt sé "að sýna hana sjúklingi eða umboðsmanni hans". Þar er með öðrum orðum gert ráð fyrir aðgangi annars en sjúklings sjálfs að sjúkraskrá hans. Ákvæðið tekur sem fyrr segir til umboðsmanns sjúklings, en ekki er þar tekið fram, berum orðum, að nánustu aðstandendur látins manns, t.d. lögerfingjar hans, njóti sama réttar og umboðsmaður, en margt mælir með því að þeir séu lagðir að jöfnu við hann, sbr. 12. gr. laganna.

Úrskurðarnefnd hefur skýrt 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga svo að undir greinina falli ekki einvörðungu þau tilvik, þegar maður óskar eftir aðgangi að gögnum með upp-lýsingum um sig sjálfan, heldur taki hún einnig til þess þegar upplýsingarnar varða hann sjálfan, þannig að hann hafi einstaklega hagmuni af því, umfram aðra, að fá aðgang að gögnunum. Í máli því, sem til úrlausnar er, óskar kærandi eftir aðgangi að gögnum um heilsufar og meðferð móður sinnar skömmu áður en hún lést. Sem sonur hennar og jafnframt lögerfingi, sbr. 1. mgr. 1. gr. erfðalaga nr. 8/1962, hefur hann ótvírætt lögvarða hagsmuni af því, umfram aðra, að fá aðgang að gögnunum.

Með vísun til þess, sem að framan segir, lítur úrskurðarnefnd svo á að um aðgang kæranda að sjúkraskrá látinnar móður sinnar skuli leyst á grundvelli laga um réttindi sjúklinga, sbr. 4. mgr. 9. gr. upplýsingalaga.

2.

Hvorki í lögum nr. 74/1997 né í öðrum lögum er að finna skilgreiningu á hugtakinu "sjúkraskrá". Í 1. gr. reglugerðar nr. 227/1991 um sjúkraskrár og skýrslugerð varðandi heilbrigðismál segir hins vegar orðrétt: "Sjúkraskrá . . . er safn sjúkragagna sem unnin eru eða fengin annars staðar frá vegna meðferðar einstaklinga hjá lækni eða í heil-brigðis-stofnun. - Sjúkragögn í sjúkraskrá geta verið lýsing eða túlkun í rituðu máli, myndir, þ.m.t. röntgenmyndir, línurit eða upptaka sem numin hefur verið með hjálp tæknibúnaðar. Gögnin innihalda upplýsingar um heilsufar og aðra einkahagi við-komandi einstaklinga og tímasettar upplýsingar um það sem gerist eða gert er meðan einstaklingurinn er í meðferð hjá lækni eða í heilbrigðisstofnun."

Þótt þetta reglu-gerðar-ákvæði hafi verið sett með stoð í 16. gr. læknalaga nr. 53/1988, þar sem á þeim tíma var kveðið á um aðgang að sjúkraskrá, er ljóst að löggjafinn hefur stuðst við þessa skýringu á hugtakinu þegar lög nr. 74/1997 voru sett. Í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 76/1997 um breytingu á ýmsum laga-ákvæðum um aðgang að sjúkraskrám o.fl., sem samþykkt var samhliða lögum nr. 74/1997, er þannig beinlínis vísað til fyrrgreindrar skilgreiningar hugtaksins í 1. gr. reglu-gerðar nr. 227/1991.

Með skírskotun til hinnar rúmu skilgreiningar, sem liggur til grundvallar ákvæðum laga um sjúkraskrá og aðgang að henni, er það niðurstaða úrskurðarnefndar að þau gögn, sem kærandi óskar eftir aðgangi að, teljist öll til sjúkraskrár móður hans. Samkvæmt því ber að leysa úr beiðni hans í heild á grundvelli laga um réttindi sjúklinga. Þar með er ekki fyrir hendi heimild til þess að kæra synjun eða meðferð landlæknis á beiðninni til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, sbr. 1. mgr. 14. gr. upp-lýsingalaga. Ber því að vísa kærunni frá nefndinni.
Úrskurðarorð:

Kæru [A] á hendur landlækni er vísað frá úrskurðarnefnd.




Eiríkur Tómasson, formaður
Elín Hirst
Valtýr Sigurðsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum