Hoppa yfir valmynd
1. júlí 2002 Forsætisráðuneytið

A-149/2002 Úrskurður frá 1. júlí 2002

ÚRSKURÐUR



Hinn 1. júlí 2002 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-149/2002:

Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 21. maí sl., kærði [A], f.h. [B], til heimilis að [...] í [...], [...], synjun landbúnaðarráðuneytisins, dagsetta 22. apríl sl., um að veita honum aðgang að gögnum um ríkisjörðina [C] í [...].

Með bréfi, dagsettu 23. maí sl., var kæran kynnt landbúnaðarráðuneytinu og því veittur frestur til að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni til kl. 16.00 hinn 3. júní sl. Að beiðni ráðuneytisins var frestur þessi framlengdur til 14. júní sl. Þann dag barst umsögn ráðuneytisins og er hún dagsett sama dag.

Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að kærandi og [D], sem búa á jörðinni [...] í [...], [...], hafa um nokkurt skeið leitað eftir því við landbúnaðar-ráðuneytið að fá ríkisjörðina [C] í sömu sveit til ábúðar eða leigu. Ráðuneytið hefur hafnað þeirri beiðni þegar af þeirri ástæðu að jörðin sé ekki laus til ráðstöfunar. Með bréfi til ráðuneytisins, dagsettu 26. mars sl., óskuðu kærandi og [D] eftir "öllum gögnum varðandi umrædda jörð, frá árinu 1968, og fram til dagsins í dag." Í bréfinu eru gögn þau, sem óskað er eftir aðgangi að, skýrð með eftir-greindum hætti: "Allar skriflegar heimildir til og frá ráðu-neyti varðandi umrædda jörð. Minnispunktar og fundargerðir þar sem fjallað er um umrædda jörð. Leigusamningar og upplýsingar um afdrif kvóta, sem hér var. Óskum eftir, að með þessum gögnum fylgi listi yfir þessi gögn, þar sem þeirra gagna er líka getið sem við getum ekki fengið aðgang að, ef nokkur eru."

Landbúnaðarráðuneytið synjaði beiðni kæranda með bréfi, dagsettu 22. apríl sl., á þeim grundvelli að beiðni hans sé ekki þannig úr garði gerð sem áskilið er í 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.

Í kæru til úrskurðarnefndar er málsástæðum landbúnaðarráðuneytisins hafnað og áréttað að beiðni kæranda sé einskorðuð við tiltekin gögn málsins á þann hátt sem að framan greinir.

Í umsögn landbúnaðarráðuneytisins til nefndarinnar er áréttað að beiðni kæranda upp-fylli ekki þau skilyrði sem 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga geri til beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt lögunum, enda feli hún í raun í sér að ráðuneytið láti í té öll gögn sem til eru í ráðuneytinu um jörðina [C] frá 34 ára tímabili. Beiðni hans taki því til ótilgreinds fjölda gagna úr mörgum stjórn-sýslumálum sem verið hafi til meðferðar í ráðuneytinu á þessu tímabili.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða

Sá sem fer fram á aðgang að gögnum, verður að miða beiðni sína við tiltekin gögn með því að tilgreina þau gögn eða það mál, sem hann óskar að kynna sér, sbr. 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga. Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi til laganna, er þetta ákvæði m.a. skýrt svo: "Í beiðni verður að tilgreina gögnin eða málið með það glöggum hætti að stjórnvöldum sé fært að hafa uppi á gögnunum eða málinu. - Það leiðir af 1. mgr. að ekki er hægt að biðja um gögn í öllum málum af ákveðinni tegund eða frá tilteknu tímabili." Í samræmi við þetta hefur úrskurðarnefnd skýrt ákvæðið svo að ekki sé unnt í sömu beiðni að fara fram á aðgang að miklum fjölda skjala úr fleiri en einu stjórnsýslumáli, jafnvel þótt skjölin séu nægilega tilgreind.

Eins og fram kemur í lýsingu málsatvika hér að framan, óskar kærandi eftir að fá aðgang að ótilteknum fjölda gagna í vörslum landbúnaðarráðuneytisins varðandi tilgreinda ríkisjörð frá 34 ára tímabili. Þótt beiðnin sé afmörkuð á þann veg að taldar séu upp þær tegundir skjala, sem farið er fram á aðgang að, er engu að síður verið að óska eftir aðgangi að fjölda skjala úr fleiri en einu stjórnsýslumáli frá tímabili sem spannar nokkra áratugi. Samkvæmt framansögðu verður synjun ráðu-neytisins þar af leiðandi staðfest.


Úrskurðarorð:

Staðfest er sú ákvörðun landbúnaðarráðuneytisins að synja kæranda, [B], um aðgang að gögnum um jörðina [C] í Skaftárhreppi, eins og beiðni hans er úr garði gerð.




Eiríkur Tómasson, formaður
Elín Hirst
Valtýr Sigurðsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum