Hoppa yfir valmynd
18. janúar 2002 Forsætisráðuneytið

A-141/2002 Úrskurður frá 18. janúar 2002

ÚRSKURÐUR



Hinn 18. janúar 2002 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-141/2002:

Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 19. nóvember sl., kærði [A], til heimilis að […] í […], meðferð úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta á beiðnum hennar um aðgang að umfjöllun nefndarinnar um mál hennar í fundargerðum nefndarinnar, að þeim gögnum, sem þá lágu fyrir nefndinni, og að frumriti úrskurðar nefndarinnar í málinu nr. […].

Með bréfi, dagsettu 26. nóvember sl., var kæran kynnt úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta og henni veittur frestur til að gera athugasemdir við kæruna og koma að frekari skýringum á afgreiðslu beiðna hennar til kl. 16.00 hinn 10. desember sl. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd yrðu látin í té sem trúnaðarmál afrit af þeim gögnum, sem kæranda kynni að hafa verið synjað um aðgang að, innan sama frests. Umsögn úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta, dagsett 18. desember sl., barst hinn 19. s.m. ásamt eftirtöldum gögnum:
1. Úrskurði úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta frá 30. júlí 2001 í málinu nr. [B], um endurupptöku úrskurðar sömu nefndar frá 31. maí 1999 í málinu nr. [C], um ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta fyrir Norðurland vestra um að fella niður bótarétt kæranda.
2. Úrskurði úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta frá 31. maí 1999 í málinu nr. [C].
3. Bréfi skattstjórans í Norðurlandsumdæmi vestra, dagsett 25. júní 2001, til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta.
4. Bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta, dagsettu 22. maí 2001, til kæranda.
5. Bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta, dagsettu 12. júní 2001, til kæranda.
6. Bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta, dagsettu 12. júní 2001, til skattstjórans í Norðurlandsumdæmi vestra.
7. Bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta, dagsettu 25. júní 2001, til kæranda.
8. Bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta, dagsettu 1. ágúst 2001, til kæranda.
9. Yfirliti, dagsettu 22. maí 2001, um greiðslusögu kæranda.

Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta kvað hinn [dags.] upp úrskurð í málinu nr. [C] um kæru [A] á þeirri ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta fyrir Norðurland vestra, að fella niður rétt hennar til atvinnuleysisbóta. Kærandi kvartaði yfir þessum úrskurði til umboðsmanns Alþingis og lét hann í té álit af því tilefni hinn [dags.] í málinu nr. [D]. Í samræmi við niðurstöðu álitsins var mál kæranda endurupptekið fyrir úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta, sem mál nr. [B], og kveðinn upp annar úrskurður í því hinn [dags.].

Með bréfi til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta, dagsettu [dags.], fór kærandi fram á að fá aðgang að öllum fundargerðum nefndarinnar, þar sem fjallað hefði verið um mál nr. [C], auk þeirra gagna málsins, er lágu fyrir þessum fundum. Af þessu tilefni sendi úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta kæranda tvær fundargerðir, dagsettar [dags.] og 31. maí s.á., með bréfi, dagsettu [dags.]. Þar kom jafnframt fram, að kæranda hefðu þegar verið send önnur gögn málsins.

Með öðru bréfi til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta, dagsettu [dags.], fór kærandi fram að fá aðgang að öllum fundargerðum nefndarinnar, þar sem fjallað hefði verið um mál nr. [B], auk þeirra gagna málsins, er lágu fyrir þessum fundum. Þetta erindi ítrekaði hún með símbréfi, dagsettu 8. október s.á.

Í kæru til úrskurðarnefndar um upplýsingamál kemur fram að síðarnefndu bréfi kæranda til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta hafi ekki verið svarað. Þá bendir hún á að umboðsmaður Alþingis hafi leitað álits nefndarinnar á kvörtun hennar til hans með bréfi, dagsettu [dags.], og að honum hafi ekki borist svar nefndarinnar við þeirri álitsumleitan fyrr en 7. apríl s.á. Í ljósi þess að nefndin hafi ekki látið sér í té nein gögn um umfjöllun nefndarinnar um mál nr. [C] á þessu tímabili, dregur kærandi í efa að sér hafi verið send öll gögn málsins. Loks gerir kærandi athugasemd við að sér hafi eingöngu verið birtur úrskurður úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta í málinu nr. [B] með símbréfi, en ekki verið sendur hann í frumriti.

Fer kærandi fram á að úrskurðarnefnd um upplýsingamál fjalli um framangreind atriði á grundvelli 14. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.

Niðurstaða

Samkvæmt 14. gr. upplýsingalaga er heimilt að bera synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum samkvæmt þeim lögum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem úrskurðar um ágreininginn. Hið sama gildir um synjun stjórnvalds um að veita ljósrit af skjölum eða afrit af öðrum gögnum. Þá hefur óhæfilegur dráttur á meðferð beiðni um aðgang að gögnum, sem afgreiða ber á grundvelli upplýsingalaga, jafnframt verið talinn kæranlegur til úrskurðarnefndar um upplýsingamál á grundvelli 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt þessu er kæruheimild til úrskurðarnefndar um upplýsingamál í öllum tilvikum bundin því skilyrði að leysa beri úr beiðni um aðgang að upplýsingum á grundvelli upplýsingalaga.

Af úrskurðum úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta í málunum nr. [C] og nr. [B], sem nefndin hefur látið úrskurðarnefnd um upplýsingamál í té, verður ráðið, að kærandi átti sjálf aðild að þeim málum, sem þar var ráðið til lykta. Í báðum þessum málum var fjallað um rétt hennar til bóta samkvæmt lögum nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar, og í þeim tekin ákvörðun af því tagi, sem fyrri málsliður 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 tekur til. Með skírskotun til aðildar kæranda að þessum málum ber því að fjalla um rétt hennar til aðgangs að gögnum þeirra á grundvelli 15. gr. stjórnsýslulaga með þeim takmörkunum, sem leiða kunna af 16. og 17. gr. sömu laga.

Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga, sbr. 1. gr. laga nr. 83/2000, gilda þau lög ekki um upplýsingar, sem fjalla ber um aðgang að á grundvelli stjórnsýslulaga. Af því leiðir að úrskurðarnefnd um upplýsingamál er ekki bær til að fjalla um meðferð úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta á beiðnum kæranda um aðgang að gögnum þeirra mála, sem hún hefur sjálf átt aðild að fyrir þeirri nefnd, og ber því að vísa kæru hennar frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál, sbr. 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga.

Úrskurðarorð:

Kæru [A] á meðferð úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta á beiðnum hennar um aðgang að gögnum málanna nr. [C] og [B] er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.


Valtýr Sigurðsson, formaður
Ólafur E. Friðriksson
Steinunn Guðbjartsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum