Hoppa yfir valmynd
2. júlí 2001 Forsætisráðuneytið

A-120/2001 Úrskurður frá 2. júlí 2001

ÚRSKURÐUR



Hinn 2. júlí 2001 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-120/2001:

Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 9. maí sl., kærði […], til heimilis að […], meðferð Launasjóðs fræðirithöfunda á beiðni hans, dagsettri 30. mars sl., um aðgang að nánar tilgreindum upplýsingum um úthlutun starfslauna á árinu 2001.

Með bréfi, dagsettu 12. júní sl., var kæran kynnt Launasjóði fræðirithöfunda og sjóðnum veittur frestur til að lýsa viðhorfi sínu til hennar til kl. 16.00 hinn 26. júní sl. Var þess sérstaklega óskað að í umsögn sjóðsins yrði upplýst, hvort þær umbeðnu upplýsingar, sem kærandi hefur talið að á skorti í svörum sjóðsins, hefðu verið teknar saman eða lægju fyrir í gögnum sjóðsins. Umsögn formanns sjóðsstjórnar, dagsett 25. júní sl., barst innan tilskilins frests.

Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að með bréfi, dagsettu 30. mars sl., beindi kærandi eftirtöldum spurningum til formanns stjórnar Launasjóðs fræðirithöfunda um úthlutun úr sjóðnum fyrir árið 2001:
" 1. Hverjir fengu starfslaun, hver er námsgráða þeirra og hvað hafa þeir áður látið frá sér fara?
2. Til hve langs tíma fékk hver styrkþegi starfslaun?
3. Fyrir hvaða verkefni voru starfslaunin veitt?
4. Hverjar eru þær forsendur sem liggja að baki þeirri ákvörðun að einn fær en annar ekki?"

Rannsóknarráð Íslands svaraði fyrirspurn kæranda fyrir hönd stjórnar Launasjóðs fræðirithöfunda með bréfi, dagsettu 10. apríl sl., þar sem segir að sjóðsstjórn muni fjalla um og svara erindi hans fyrir lok aprílmánaðar. Jafnframt var kæranda bent á að á "heimasíðu Rannís" mætti finna lista yfir þá er hlutu starfslaun úr sjóðnum á árinu 2001.

Formaður stjórnar Launasjóðs fræðirithöfunda svaraði fyrirspurnum kæranda með öðru bréfi, dagsettu 30. apríl sl. Því bréfi fylgdi skrá um nöfn þeirra einstaklinga, sem hlutu starfslaun úr sjóðnum á yfirstandandi ári, og verkefni þeirra. Í bréfinu segir orðrétt: "Umsókn þín lenti ekki í hópi þeirra átta verkefna sem styrkt voru að þessu sinni og byggir sú niðurstaða á fjölþættu mati og mikilli samkeppni um starfslaunin. Það er ábyrgð stjórnar Launasjóðs fræðirithöfunda að meta það hverju sinni hvaða umsóknir verða styrktar. Til grundvallar því mati leggur stjórnin markmið sjóðsins eins og þau eru sett fram í reglugerð sjóðsins, en þar segir að Launasjóði fræðirithöfunda sé ætlað að auðvelda samningu alþýðlegra fræðirita til eflingar íslenskri menningu. Við úthlutun vegur stjórnin marga þætti s.s. hvort verkefni falli að ramma Launasjóðs fræðirithöfunda, hversu raunhæf verkefnaáætlunin er, hversu líklegt sé að verkinu verði lokið og gefið út í nánustu framtíð, og feril og reynslu umsækjenda."

Í kæru til úrskurðarnefndar tekur kærandi fram að spurningu, auðkenndri númer tvö hér að framan, sé fullsvarað, spurningum númer eitt og fjögur að nokkru leyti, en spurningu númer þrjú alls ekki. Að því er varðar spurningu númer eitt gerir hann athugasemd við það að ekki hafi verið veittar upplýsingar um fyrri verk styrkþega né heldur um námsgráðu þeirra allra. Að því er varðar spurningu númer þrjú telur hann lýsingu á verkefnum, sem styrkt eru, ekki vera fullnægjandi í öllum tilvikum, en ekki kemur fram að hvaða leyti hann telur svör við spurningu númer fjögur vera áfátt.

Í umsögn formanns stjórnar Launasjóðs fræðirithöfunda til úrskurðarnefndar eru fyrri svör áréttuð og nánar lýst markmiðum og verklagi sjóðsstjórnar. Kemur þar m.a. fram að stjórnin gæti þess í störfum sínum að fara með allar umsóknir sem trúnaðarmál og fari gætilega með allar upplýsingar sem henni berast, oft til að vernda hugmyndir sem þar koma fram. Þá er tekið fram að ekki liggi fyrir sérstök samantekt á störfum, menntun, verkum eða verkefnislýsingum umsækjenda.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða


Kærandi lætur þess ekki getið í kæru sinni til úrskurðarnefndar um upplýsingamál að hann hafi verið meðal umsækjenda um styrki úr Launasjóði fræðirithöfunda á yfirstandandi ári. Hins vegar kemur fram í svarbréfi formanns sjóðsstjórnar til hans, dagsettu 30. apríl sl., að svo hafi verið. Þar með telst kærandi vera aðili máls í skilningi stjórnsýslulaga, sbr. til hliðsjónar 3. tölul. 2. mgr., sbr. 1. mgr. 21. gr. þeirra laga.

Með vísun til þess eiga 15.–17. gr. stjórnsýslulaga við um aðgang kæranda að gögnum sem varða úthlutun styrkja úr Launasjóði fræðirithöfunda á árinu 2001. Í 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 segir að lögin gildi ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum. Þar af leiðandi verður sú ákvörðun að synja kæranda um frekari upplýsingar um úthlutun styrkja úr sjóðnum ekki kærð til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, sbr. 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Ber því að vísa kærunni frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kæru Jóhanns M. Haukssonar á hendur Launasjóði fræðirithöfunda er vísað frá úrskurðarnefnd.



Eiríkur Tómasson, formaður
Elín Hirst
Valtýr Sigurðsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum