Hoppa yfir valmynd
9. mars 2001 Forsætisráðuneytið

A-115/2001 Úrskurður frá 9. mars 2001

ÚRSKURÐUR


Hinn 9. mars 2001 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-115/2001:

Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 16. febrúar sl., kærði […], fréttamaður, synjun landbúnaðar-ráðuneytisins á beiðni hans um aðgang að myndbandi með upptöku er sýnir, að hans sögn, afleiðingar óhapps í laxeldi á Suðurnesjum. Af erindi ráðuneytisins til kæranda, dagsettu 14. febrúar sl., varð ráðið að myndbandið hefði verið í vörslum ráðuneytisins, þegar beiðni hans barst, en fjarlægð þaðan áður en hún var afgreidd.

Með bréfi, dagsettu 21. febrúar sl., var kæran kynnt landbúnaðarráðuneytinu og því veittur frestur til að gera athugasemdir við hana og koma að skýringum á afgreiðslu sinni á beiðni kæranda til kl. 16:00 hinn 28. febrúar sl. Var þess sérstaklega óskað að í umsögn ráðuneytisins kæmi fram á hvaða lagagrundvelli sú ákvörðun hefði verið tekin að fjarlægja myndbandið úr vörslum ráðuneytisins og hvenær það hefði verið gert. Umsögn ráðuneytisins, dagsett 28. febrúar sl., barst innan tilskilins frests.

Í fjarveru Elínar Hirst tók Ólafur E. Friðriksson, varamaður, sæti hennar við meðferð og úrlausn kærumáls þessa.

Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess þau að með bréfi, dagsettu 6. febrúar sl., fór kærandi fram á að fá aðgang að upptöku á myndbandi sem hann taldi vera í vörslum land-búnaðar-ráðuneytisins og sýna afleiðingar óhapps í laxeldi á Suður-nesjum. Með bréfi landbúnaðarráðuneytisins til kæranda, dagsettu 14. febrúar sl., var upplýst að upptaka á slíku óhappi hefði nýlega borist ráðuneytinu á myndbandi. Það hefði haft hana til skoðunar, en síðan skilað myndbandinu.

Í kæru til nefndarinnar er því haldið fram að myndbandið hafi verið afhent landbúnaðar-ráðuneytinu í þeim tvíþætta tilgangi að vekja athygli á sóðaskap við fiskeldið og hafa áhrif á ákvarðanir ráðuneytisins um starfsemi viðkomandi fyrirtækis. Telur kærandi að ráðuneytið hafi gripið til aðgerða gagnvart fyrirtækinu, m.a. á grundvelli upplýsinga er fram komu á myndbandinu. Af þeim sökum lítur kærandi svo á að myndbandið hafi talist til gagna máls sem ráðuneytið hafi haft til meðferðar. Ráðuneytinu hafi því borið að varðveita myndbandið á aðgengilegan hátt, á grundvelli 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, og fjalla efnislega um aðgang hans að því, á grundvelli 1. og 2. mgr. 3. gr. sömu laga. Þess í stað hafi ráðuneytið fjarlægt myndbandið úr vörslum sínum áður en beiðni hans var afgreidd og þannig gengið á svig við efnis-ákvæði upplýsingalaga. Krefst kærandi þess aðallega að ráðuneytinu verði gert að afhenda honum umrætt myndband, en til vara að viðurkennt verði að honum hafi borið aðgangur að myndbandinu og að málsmeðferð ráðuneytisins hafi verið andstæð lögum og reglum.

Í umsögn landbúnaðarráðuneytisins til úrskurðarnefndar, dagsettri 28. febrúar sl., er skýrt frá því að nafngreindur einstaklingur hafi afhent ráðuneytinu myndbandið til skoðunar með þeim áskilnaði að það yrði ekki afhent öðrum. Ráðuneytinu hafi borist beiðni kæranda 6. febrúar sl. og í kjölfar þess hafi starfsmaður ráðuneytisins árangurslaust reynt að ná tali af þeim sem afhent hafði myndbandið. Einnig hafi hann reynt að ná tali af kæranda, sömuleiðis án árangurs. Í umsögninni er tekið fram að ráðuneytið hafi ekki talið sér skylt að varðveita eða afhenda öðrum myndbandið, sbr. 3. gr. upplýsingalaga, m.a. vegna þess að málefni fiskeldis-fyrirtækisins, sem myndbandið tengist, séu þar ekki til umfjöllunar. Myndbandinu hafi því verið skilað til þess, er afhenti það, hinn 14. febrúar sl.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.



Niðurstaða

Í 1. mgr. 85. gr. laga nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði segir að landbúnaðarráðherra hafi yfirstjórn allra veiðimála. Í samræmi við það hefur sá ráðherra, eðli máls samkvæmt, almennt eftirlit með framkvæmd þeirra laga, þ. á m. með fiskeldi og hafbeit, enda þótt veiði-málastjóri veiti leyfi til slíkrar starfsemi skv. 62. gr. laganna.

Fyrir liggur að landbúnaðarráðuneytið fékk afhent til skoðunar myndband með upptöku sem tengdist starfsemi ákveðins fiskeldisfyrirtækis. Ekki verður annað ráðið af umsögn ráðuneytisins en að það hafi skoðað upptökuna, áður en það endursendi myndbandið. Vegna fyrrgreinds eftirlitshlutverks ráðuneytisins varð myndbandið þar með að gagni í stjórnsýslu-máli og varðaði þannig tiltekið mál í skilningi 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga. Því var ráðuneytinu skylt að veita kæranda aðgang að myndbandinu, sbr. og 2. tölul. 2. mgr. þeirrar greinar, nema eitthvert af undantekningarákvæðum 4. - 6. gr. laganna ætti við. Við úrlausn þess skiptir ekki máli þótt myndbandið hafi verið afhent ráðuneytinu með þeim áskilnaði að það yrði ekki afhent öðrum, eins og skýrt er tekið fram í athuga-semdum sem fylgdu frumvarpi til upplýsingalaga.

Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. upplýsingalaga bar landbúnaðarráðuneytinu að leysa úr beiðni kæranda svo fljótt sem verða mátti meðan myndbandið var enn í vörslum þess. Í stað þess endursendi ráðu-neytið myndbandið, án þess að séð verði að nokkra nauðsyn hafi borið til þess, eins og á stóð. Með þessu móti hefur verið komið í veg fyrir að unnt sé að afgreiða beiðni kæranda á grundvelli upplýsinga--laga þar sem myndbandið er ekki lengur í vörslum stjórnvalda. Verður að átelja þessi vinnubrögð ráðuneytisins harðlega vegna þess að með þeim er ekki einasta brotið gegn rétti kæranda til þess að fá leyst úr beiðni sinni lögum samkvæmt, heldur ganga þau jafnframt gegn því meginmarkmiði upplýsingalaga að málsgögn skuli varðveitt þannig að þau séu aðgengi-leg svo að almenningur geti átt aðgang að þeim, nema sérstakar ástæður mæli því í mót, sbr. 1. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 22. gr. laganna.

Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga er heimilt að bera synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Nefndin getur því aðeins lagt úrskurð á mál að þau gögn eða í það minnsta þær upp-lýsingar, sem óskað er eftir aðgangi að, séu í vörslum stjórnvalda, eins og það hugtak er skilgreint í 1. gr. upplýsingalaga, sbr. 1. mgr. 3. gr. og 3. mgr. 10. gr. laganna. Vegna þess að hið umbeðna myndband er ekki lengur í vörslum land-búnaðarráðuneytisins eða annarra stjórnvalda, svo sem gerð er grein fyrir hér að framan, verður ekki hjá því komist að vísa máli þessu frá úrskurðarnefnd.

Tekið skal fram að með úrskurði þessum er ekki leyst úr því hvort landbúnaðarráðu-neytinu hafi verið skylt, á grundvelli 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga, að varðveita til langframa myndband það, sem mál þetta snýst um, t.d. með því að taka af því afrit, enda fellur það álitaefni ekki undir úrskurðarvald nefndarinnar samkvæmt gagnályktun frá 1. mgr. 14. gr. laganna.

Úrskurðarorð:

Kæru […] á hendur landbúnaðarráðuneytinu er vísað frá úrskurðarnefnd.

Eiríkur Tómasson, formaður
Ólafur e: Friðriksson
Valtýr Sigurðsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum