Hoppa yfir valmynd
23. febrúar 2001 Forsætisráðuneytið

A-114/2001 Úrskurður frá 23. febrúar 2001

ÚRSKURÐUR



Hinn 23. febrúar 2001 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-114/2001:

Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 2. janúar sl., kærði […], til heimilis að […], meðferð tollstjórans í Reykjavík á beiðni hans um aðgang að upplýsingum um hversu mörgum gjaldendum hefðu verið greiddir inneignarvextir vegna endurákvörðunar skatta og gjalda á tímabilinu frá 1. janúar 1995 til júlí 1999, í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis frá 12. júlí 1999 í tilefni af kvörtun kæranda til hans. Ennfremur hvaða fjárhæðum þær greiðslur næmu sem farið hefðu eða myndu fara fram á grundvelli þessa álits.

Með bréfi, dagsettu 26. janúar sl., var kæran kynnt tollstjóranum í Reykjavík og honum veittur frestur til að gera athugasemdir við hana og koma að skýringum á meðferð sinni á beiðni kæranda til kl. 16.00 hinn 8. febrúar sl. Var þess sérstaklega óskað að í umsögn hans kæmi fram á hvaða formi umbeðnar upplýsingar væru varðveittar og hvort þeim hefði verið safnað eða þær teknar saman í eitt skjal eða annars konar gögn. Ef svo væri, var þess jafnframt óskað að úrskurðarnefnd yrðu látin í té sem trúnaðarmál afrit þeirra skjala eða gagna innan sama frests. Umsögn tollstjórans, dagsett 31. janúar sl., barst innan tilskilins frests. Úrskurðarnefnd kynnti kæranda umsögn tollstjórans með bréfi, dagsettu 7. febrúar sl., og fór fram á að kærandi staðfesti við nefndina hvort hann óskaði eftir að meðferð máls hans yrði fram haldið fyrir henni eigi síðar en 15. febrúar sl. Kærandi staðfesti að svo væri með bréfi sem barst úrskurðarnefnd hinn 9. febrúar sl.

Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að kærandi leitaði á árinu 1998 til umboðsmanns Alþingis og kvartaði m.a. yfir því að innheimtumaður ríkissjóðs greiddi ekki vexti og verðbætur á inneignir gjaldenda að eigin frumkvæði. Í áliti, sem umboðsmaður Alþingis lét í té af þessu tilefni, komst hann að þeirri niðurstöðu að misbrestur hefði orðið á því að innheimtumenn ríkissjóðs hefðu frumkvæði að því að greiða vexti þegar ofteknir skattar væru endurgreiddir. Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til fjármálaráðherra að hann hefði forgöngu um að framkvæmd á þessu sviði yrði komið í lögmælt horf. Þá væri brýnt að ráðherra tæki almenna ákvörðun um framkvæmd innheimtumanna ríkissjóðs á leiðréttingu aftur í tímann og beindi þeim fyrirmælum til innheimtumanna að haga framkvæmdinni í samræmi við þá ákvörðun.

Með bréfum kæranda til tollstjórans í Reykjavík, dagsettum 23. apríl 1999, 10. september 1999 og 18. nóvember 2000, fór kærandi m.a. fram á að fá upplýsingar um hversu mörgum gjaldendum hefðu verið greiddir inneignarvextir vegna oftekinna skatta og gjalda á grundvelli framangreinds álits umboðsmanns og um hvaða fjárhæðir væri þar að ræða. Með bréfum tollstjórans í Reykjavík, dagsettum 28. maí 1999, 7. desember 1999 og 23. október 2000, var beiðnum kæranda svarað efnislega á þann veg að umbeðnar upplýsingar lægju ekki fyrir hjá embætti tollstjóra.

Í umsögn tollstjórans í Reykjavík til úrskurðarnefndar, dagsettri 31. janúar sl., kemur fram að hjá embætti hans liggi ekki fyrir neinar upplýsingar um það, hve mörgum aðilum hafi verið greiddir inneignarvextir vegna endurákvörðunar skatta á tímabilinu frá 1. janúar 1995 til júlí 1999 né um hvaða fjárhæðir sé þar að ræða. Með vísun til þess hafi embættið ekki getað veitt kæranda þær upplýsingar sem hann hafi óskað eftir. Þar eð embættið telji sér heldur ekki skylt að taka umbeðnar upplýsingar saman eða afla þeirra, á grundvelli upplýsingalaga nr. 50/1996, hafi beiðnum hans verið hafnað.

Niðurstaða

Samkvæmt 3. gr. upplýsingalaga er stjórnvöldum skylt, með þeim undantekningum sem fram koma í 4.–6. gr. laganna, að veita almenningi aðgang að skjölum og öðrum gögnum í vörslum sínum. Stjórnvöldum ber hins vegar ekki skylda til þess samkvæmt lögunum að láta í té upplýsingar með öðrum hætti, t.d. með því að útbúa ný gögn, sem ekki eru fyrirliggjandi, þegar óskað er eftir aðgangi að upplýsingum. Þetta kemur m.a. fram í 2. málsl. 2. mgr. 2. gr. laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 83/2000, þar sem segir að lögin gildi ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. lög nr. 77/2000, nema óskað sé eftir skjölum eða öðrum gögnum sem 2. mgr. 3. gr. upplýsingalaga tekur til.

Í máli því, sem til úrlausnar er, hefur kærandi óskað eftir upplýsingum sem varða mikinn fjölda stjórnsýslumála sem til meðferðar hafa verið hjá embætti tollstjórans í Reykjavík. Eins og fram kemur í umsögn tollstjórans til úrskurðarnefndar, hefur þeim upplýsingum ekki verið safnað saman í eitt skjal eða sambærilegt gagn, sbr. 2. mgr. 3. gr. upplýsingalaga. Í 1. mgr. 10. gr. laganna er áskilið að sá, sem fer fram á aðgang að gögnum, verði að miða beiðni sína við tiltekin gögn, með því annaðhvort að tilgreina gögnin eða það stjórnsýslumál sem hann óskar að kynna sér. Úrskurðarnefnd hefur skýrt þetta ákvæði laganna svo að ekki sé unnt í sömu beiðni að fara fram á aðgang að miklum fjölda skjala eða gagna úr fleiri en einu stjórnsýslumáli.

Með skírskotun til þess, sem að framan greinir, er tollstjóranum í Reykjavík ekki skylt að verða við beiðni kæranda á grundvelli upplýsingalaga, eins og hún er úr garði gerð.

Úrskurðarorð:

Staðfest er sú ákvörðun tollstjórans í Reykjavík að synja kæranda, […], um upplýsingar um það, hversu mörgum gjaldendum hafi verið greiddir inneignarvextir vegna endurákvörðunar skatta og gjalda á tímabilinu frá 1. janúar 1995 til júlí 1999, svo og hvaða fjárhæðum þær greiðslur hafi numið eða muni nema.


Eiríkur Tómasson, formaður
Elín Hirst
Valtýr Sigurðsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum