Hoppa yfir valmynd
26. apríl 2000 Forsætisráðuneytið

A-094/2000 Úrskurður frá 26. apríl 2000

ÚRSKURÐUR



Hinn 26. apríl 2000 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. 94/2000:

Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 4. apríl sl., kærði […], f.h. [A], synjun Veiðimálastofnunar, dagsetta 16. mars sl., um að veita stjórninni aðgang að upplýsingum um hvernig árleg laxveiði í net í Ölfusá/Hvítá hafi skipst á milli þeirra, er hana stunda, á tímabilinu 1990-1999.

Með bréfi, dagsettu 6. apríl sl. var kæran kynnt Veiðimálastofnun og stofnuninni gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun til kl. 16.00 hinn 17. apríl sl. Jafnframt var þess óskað að nefndinni yrðu látin í té sem trúnaðarmál gögn þau, er kæran laut að, innan sama frests. Umsögn Veiðimálastofnunar, dagsett 13. apríl sl., barst innan tilskilins frests ásamt yfirliti um skiptingu veiðinnar eftir einstökum veiðijörðum á árinu 1998.

Í fjarveru þeirra Elínar Hirst og Valtýs Sigurðssonar tóku þau Ólafur E. Friðriksson og Sif Konráðsdóttir varamenn sæti þeirra við meðferð og úrskurð í kærumáli þessu.

Málsatvik

Atvik máls þessa eru í stuttu máli þau að með bréfi til Veiðimálastofnunar, dagsettu 9. mars sl., fór kærandi fram á að fá aðgang að gögnum í vörslu stofnunarinnar sem sýni með nákvæmri sundurliðun hvernig netaveiði í Ölfusá/Hvítá hafi skipst á milli þeirra, sem stunda laxveiðar í net, á hverju ári aftur til ársins 1990.

Með bréfi, dagsettu 16. mars sl., synjaði Veiðimálastofnun um að veita kæranda upplýsingar um sundurliðaðan afla einstakra veiðiréttarhafa með vísun til 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Í bréfinu kemur fram að stofnunin telur þessar upplýsingar geta verið viðkvæmar og að þær hafi ekki verið veittar aðilum, sem ekki tengist þeim með beinum hætti, án samþykkis viðkomandi veiðiréttarhafa. Hins vegar er bent á að heildarupplýsingar um veiði í ám og vötnum hafi verið teknar saman og birtar á heimasíðu stofnunarinnar. Jafnframt sé hægt að láta í té upplýsingar um heildarstangveiði og -netaveiði á umræddu svæði, ef eftir því verði leitað.

Í kæru til nefndarinnar leggur kærandi áherslu á að fyrirspurn hans varði aðeins fjölda veiddra laxa, en ekki tekjur af sölu þeirra. Af þeim sökum dregur hann í efa að heimilt sé að takmarka aðgang að þessum upplýsingum vegna fjárhagslegra hagsmuna veiðiréttarhafa.

Í umsögn Veiðimálastofnunar til úrskurðarnefndar er áréttað að stofnunin líti svo á að umbeðnar upplýsingar snerti fjárhag einstaklinga. Á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga telji stofnunin því óheimilt að veita aðgang að þeim. Umsögninni fylgir yfirlit um veiði á svæðinu á árinu 1998 samkvæmt veiðiskýrslum, skipt eftir einstökum veiðijörðum. Í umsögninni er tekið fram að ekki hafi borist skýrslur frá öllum sem eigi kost á að veiða í net á umræddu svæði. Líklegast sé að flestir þeirra hafi ekki reynt að veiða eða enginn afli orðið. Skýrslunar séu því nokkuð tæmandi um laxveiði í net á svæðinu. Að lokum er tekið fram að ekki hafi verið unnt að vinna sams konar yfirlit allt aftur til ársins 1990 á þeim skamma tíma sem veittur hafi verið til umsagnar um kæruna.

Aðilar máls þessa hafa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða

Í 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga er tekið fram að lögin gildi ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt lögum nr. 121/1989 um skráningu og meðferð persónuupplýsinga. Úrskurðarnefnd hefur skýrt umrætt ákvæði svo að hafi upplýsingar verið felldar í afmörkuð skjöl, eitt eða fleiri, falli aðgangur að þeim undir upplýsingalög. Samkvæmt því fellur aðgangur að einstökum veiðiskýrslum og sérstökum yfirlitum, sem unnin hafa verið upp úr skýrslunum undir þau lög, sbr. 1. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 10. gr. þeirra.

Í 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: "Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.–6. gr." Í 5. gr. laganna segir síðan: "Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila." Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi til upplýsingalaga, er m.a. tekið fram, til skýringar á því hvaða fjárhagsmálefni einstaklinga séu þess eðlis að sanngjarnt sé og eðlilegt að þau fari leynt, að óheimilt sé að veita upplýsingar um tekjur og fjárhagsstöðu einstaklinga nema það byggist á sérstakri lagaheimild.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 76/1970 er landeiganda einum heimil veiði í vatni á landi sínu, enda sé ekki öðru vísi mælt í lögunum. Í rétti til lax- og silungsveiði eru þannig fólgin hlunnindi sem njóta verndar eins og hver önnur eignarréttindi. Vegna þess að lax er eftirsóttur fiskur til neyslu er hann verðmætur og því hefur nýting laxveiðiréttar fjárhagslega þýðingu fyrir landeiganda. Að auki er hægur vandi að afla upplýsinga um verð lax á markaði og þar af leiðandi tiltölulega auðvelt að áætla tekjur hvers landeiganda af veiðinni ef fyrir liggur hve mikil hún hefur verið.

Í 1. mgr. 12. gr. laga nr. 76/1970 er mælt fyrir um að hver sá, sem veiði stundar, skuli gefa skýrslu um veiði sína til veiðimálastjóra, sem fer með stjórn veiðimála samkvæmt lögunum, sbr. 1. mgr. 86. gr. þeirra. Þessi skýrslugjöf leiðir ekki sjálfkrafa til þess að öllum sé heimill aðgangur að skýrslunum til að kynna sér efni þeirra, heldur ræðst það af lögum og eðli máls, þ. á m. af ákvæðum upplýsingalaga.

Í því máli, sem hér er til úrlausnar, fer kærandi fram á að fá aðgang að upplýsingum um hvernig netaveiði í Ölfusá/Hvítá hafi skipst á milli þeirra, sem stunda laxveiðar í net, á ári hverju á tilteknu árabili. Samkvæmt framansögðu er það álit úrskurðarnefndar að upplýsingar þessar varði fjárhagsmálefni einstakra landeigenda, sem hlut eiga að máli, og séu jafnframt þess eðlis að sanngjarnt sé og eðlilegt að þær fari leynt skv. 5. gr. upplýsingalaga. Með vísun til þess ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

Úrskurðarorð:

Staðfest er sú ákvörðun Veiðimálastofnunar að synja kæranda, stjórn Landssambands stangarveiðifélaga, um aðgang að upplýsingum um hvernig árleg laxveiði í net í Ölfusá/ Hvítá hafi skipst á milli þeirra, er hana stunda, á tímabilinu 1990-1999.


Eiríkur Tómasson, formaður
Ólafur E. Friðriksson
Sif Konráðsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum