Hoppa yfir valmynd
16. ágúst 1999 Forsætisráðuneytið

78b/1999 Úrskurður frá 16. ágúst 1999 í málinu nr. A-78/1999b

Hinn 16. ágúst 1999 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-78/1999:

Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 25. júní sl., kærði [A], blaðamaður [...], synjun Fjármálaeftirlitsins, dagsetta 22. júní sl., um að veita honum aðgang að bréfaskiptum stofnunarinnar og Lífeyrissjóðs [B] annars vegar og Lífeyrissjóðs [C] hins vegar vegna fjárfestinga þeirra í hlutabréfum fyrirtækja í heimabyggð sjóðanna.

Með bréfi, dagsettu 28. júní sl., var kæran kynnt Fjármálaeftirlitinu og því veittur frestur til að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni til kl. 12.00 á hádegi hinn 5. júlí sl. Jafnframt var þess óskað að stofnunin léti úrskurðarnefnd í té sem trúnaðarmál afrit af þeim gögnum sem kæran laut að. Umsögn Fjármálaeftirlitsins barst innan tilskilsins frests ásamt ljósritum af bréfum stofnunarinnar til ofangreindra lífeyrissjóða, dagsettum 8. júní sl., og svarbréfi annars þeirra, dagsettu 10. júní sl.

Með bréfi, dagsettu 8. júlí sl., var þess farið á leit að Fjármálaeftirlitið léti úrskurðarnefnd jafnframt í té sem trúnaðarmál afrit af bréfum , sem kynnu að hafa farið á milli stofnunarinnar og lífeyrissjóðanna vegna umræddra mála á tímabilinu 15. til 22. júní sl. Ennfremur var stofnuninni gefinn kostur á að lýsa viðhorfi sínu til aðgangs að þessum skjölum til kl. 16.00 hinn 12. júlí sl. Fresturinn var framlengdur til næsta dags og barst greinargerð frá stofnuninni innan þess frests. Í greinargerðinni var því hafnað að afhenda nefndinni þau afrit sem óskað var eftir í bréfi hennar frá 8. júlí sl.

Hinn 20. júlí sl. kvað nefndin upp úrskurð þess efnis að Fjármálaeftirlitinu væri skylt að afhenda henni afrit af svörum Lífeyrissjóðs [B] og Lífeyrissjóðs [C] við bréfum stofnunarinnar, dagsettum 8. júní sl., sem henni höfðu borist hinn 22. júní sl.

Með bréfi Fjármálaeftirlitsins, dagsettu 12. ágúst sl., bárust nefndinni síðan ljósrit af bréfum Lífeyrissjóðs [B] og Lífeyrissjóðs [C] til stofnunarinnar, dagsettum 16. og 18. júní sl., ásamt fylgiskjölum.
Í fjarveru Elínar Hirst tók Sif Konráðsdóttir varamaður sæti hennar við meðferð málsins og uppkvaðningu þessa úrskurðar.

Málsatvik

Atvikum máls þessa og röksemdum málsaðila er lýst í fyrri úrskurði nefndarinnar í máli þessu, uppkveðnum 20. júlí sl.

Í bréfi fjármálaeftirlitsins, dagsettu 12. ágúst sl., er áréttuð sú afstaða stofnunarinnar að þær upplýsingar, sem nefndin hafi til umfjöllunar, séu þess eðlis að þær falli undir þagnarskylduákvæði laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Verði ekki á það fallist er því haldið fram að gögnin í heild varði mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni umræddra lífeyrissjóða og fyrirtækja og falli því undir takmarkanir 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.


Niðurstaða

1.

Með vísun til fyrri úrskurðar í máli þessu, uppkveðnum 20. júlí sl., er það álit úrskurðarnefndar að beiðni kæranda taki til þeirra bréfa, sem Fjármálaeftirlitið sendi Lífeyrissjóði [B] og Lífeyrissjóði [C] 8. júní sl. Ennfremur til svarbréfa Lífeyrissjóðs [B], dagsettra 10. og 16. júní sl., og svarbréfs Lífeyrissjóðs [C], dagsetts 18. júní sl.

Í ljósi þeirra röksemda, sem færðar voru fyrir niðurstöðu í fyrri úrskurði nefndarinnar, er í þessum úrskurði leyst úr því hvort efni umræddra bréfa sé þess eðlis að veita beri kæranda aðgang að þeim á grundvelli upplýsingalaga og annarra viðeigandi laga.

2.

Í 3. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: "Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr." Í 5. gr. laganna segir síðan: "Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmál efni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila." Í athugasemdum, er fylgdu frumvarpi til upplýsingalaga, er m.a. tekið fram, til skýringar á niðurlagsákvæði greinarinnar, að óheimilt sé að veita almenningi "viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu" fyrirtækja. Þá segir þar ennfremur að oft komi sérstakar reglur um þagnarskyldu í veg fyrir að aðgang megi veita að upplýsingum.
Í 3. mgr. 2. gr. upplýsingalaga er tekið fram að almenn ákvæði laga um þagnarskyldu takmarki ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt lögunum. Með gagnályktun frá þessu ákvæði verður hins vegar að telja að sérstök þagnarskylduákvæði geti, ein og sér, komið í veg fyrir að aðgangur verði veittur að gögnum í vörslum stjórnvalda.

Í 12. gr. laga nr. 87/1998 er að finna svohljóðandi ákvæði um þagnarskyldu: "Stjórn, forstjóri og starfsmenn Fjármálaeftirlitsins eru bundnir þagnarskyldu. Þeir mega ekki að viðlagðri ábyrgð samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga um opinbera starfsmenn skýra óviðkomandi aðilum frá því er þeir komast að í starfi sínu og leynt á að fara um viðskipti og rekstur eftirlitsskyldra aðila, nema dómari úrskurði að upplýsingar sé skylt að veita fyrir dómi eða lögreglu eða skylda sé að veita upplýsingar lögum samkvæmt. Sama gildir um lögmenn, endurskoðendur, tryggingastærðfræðinga og sérfræðinga sem starfa fyrir eða á vegum Fjármálaeftirlitsins. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi og er óheimilt að nýta í atvinnuskyni upplýsingar sem bundnar eru þagnarskyldu. - Upplýsingar skv. 1. mgr. má þó veita í samandregnu formi þannig að einstakir eftirlitsskyldir aðilar séu ekki auðkenndir." Í þessu ákvæði er mælt fyrir um ríka þagnarskyldu stjórnar, forstjóra og annarra starfsmanna Fjármálaeftirlitsins að því er lýtur að viðskiptum og rekstri þeirra aðila sem stofnunin hefur eftirlit með.
Úrskurðarnefnd hefur kynnt sér efni þeirra skjala sem að framan eru greind. Fellst nefndin á það sjónarmið Fjármálaeftirlitsins að í svarbréfum Lífeyrissjóðs [B] og Lífeyrissjóðs [C], dagsettum 16. og 18. júní sl., svo og í fylgiskjölum með þeim, sé að finna upplýsingar um svo mikilvæga fjárhagshagsmuni lífeyrissjóðanna og hlutafélaganna, [D] hf. og [E] hf., að sanngjarnt sé og eðlilegt að þær fari leynt, sbr. 5. gr. upplýsingalaga og 12. gr. laga nr. 87/1998. Umræddar upplýsingar er að finna svo víða í umræddum skjölum að ekki er fært að veita aðgang að hluta þeirra skv. 7. gr. upplýsingalaga.

Í bréfum Fjármálaeftirlitsins til lífeyrissjóðanna, dagsettum 8. júní sl., og í svarbréfi Lífeyrissjóðs [B], dagsettu 10. júní sl., er á hinn bóginn ekki að finna neinar upplýsingar um fjárhagshagsmuni eða annars konar viðskiptahagsmuni fyrirtækja eða annarra einkaaðila. Í 4.-6. gr. upplýsingalaga er ekki að finna ákvæði sem vísar sérstaklega til eftirlits hins opinbera með einkaaðilum. Þótt almennur aðgangur að bréfum stofnunarinnar til lífeyrissjóðanna geti veitt upplýsingar um efnistök stofnunarinnar við athugun á starfsemi sjóðanna eru ekki efni til þess að synja kæranda um aðgang að þeim á þeirri forsendu enda hefur stofnunin ekki borið fyrir sig 4. tölul. 6. gr. upplýsingalaga í þessu sambandi. Ber því, með vísun til 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga, að veita kæranda aðgang að þremur síðastgreindum bréfum.

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun Fjármálaeftirlitsins er staðfest, að öðru leyti en því að stofnuninni ber að veita kæranda, [A], aðgang að bréfum stofnunarinnar til Lífeyrissjóðs [B]og Lífeyrissjóðs [C], dagsettum 8. júní sl., og svarbréfi Lífeyrissjóðs [B] til stofnunarinnar, dagsettu 10. júní sl.

Eiríkur Tómasson, formaður
Sif Konráðsdóttir
Valtýr Sigurðsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum