Hoppa yfir valmynd
26. júní 1998 Forsætisráðuneytið

49/1998 Úrskurður frá 26. júní 1998 í málinu nr. A-49/1998

Hinn 26. júní 1998 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-49/1998:

Kæruefni
Með bréfi, dagsettu 21. maí sl., kærði [...] hdl., f.h. [A], til heimilis að [L]götu [...] á [...], synjun sýslumannsins á Siglufirði, dagsetta 30. apríl sl., um að veita honum aðgang að lögregluskýrslu sem tekin var af [B] 9. janúar sl. vegna ætlaðs húsbrots og eignaspjalla af hennar hálfu.

Með bréfi, dagsettu 11. júní sl., var kæran kynnt sýslumanni og honum gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun til kl. 12.00 hinn 16. júní sl. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd yrði látið í té afrit umbeðinnar skýrslu sem trúnaðarmál innan sama frests.

Svar sýslumanns, dagsett 12. júní sl., barst ásamt umræddri skýrslu innan tilskilins frests.

Málsatvik
Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess þau að kærandi lagði 7. janúar sl. fram kæru hjá sýslumanninum á Siglufirði á hendur [B] fyrir húsbrot og eignaspjöll á lögheimili þeirra að [L]götu [...] á [...]. Með bréfi, dagsettu 22. janúar sl., tilkynnti sýslumaður kæranda að hann hefði fallið frá saksókn gegn [B] með vísun til a- og f-liðar 2. mgr. 113. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála. Með bréfi til sýslumanns, dagsettu 30. janúar sl., fór umboðsmaður kæranda fram á að fá aðgang að öllum gögnum málsins til að unnt væri að taka afstöðu til þess hvort ákvörðun hans um niðurfellingu saksóknar yrði kærð til ríkissaksóknara. Beiðni þessari var hafnað með bréfi sýslumanns til umboðsmanns kæranda, dagsettu 2. febrúar sl., með vísun til þess að lög nr. 19/1991 hefðu ekki að geyma heimildir til að veita aðgang að gögnunum.

Með bréfi, dagsettu 5. febrúar sl., kærði umboðsmaður kæranda ákvörðun sýslumanns um niðurfellingu saksóknar til ríkissaksóknara. Í því bréfi er jafnframt fundið að því að sýslumaður hafi hafnað beiðni um aðgang að gögnum málsins og þess óskað að ríkissaksóknari hlutist til um að útvega þau. Ríkissaksóknari staðfesti ákvörðun sýslumanns um niðurfellingu saksóknar og tilkynnti umboðsmanni kæranda þá ákvörðun með bréfi, dagsettu 9. mars sl. Í niðurlagi bréfsins segir: "Mál þetta sætir ekki frekari meðferð samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála. Um aðgang að gögnum málsins fer þá eftir ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og upplýsingalaga nr. 50/1996."

Í framhaldi af því endurnýjaði umboðsmaður kæranda beiðni um aðgang að umræddum gögnum með bréfi til sýslumanns, dagsettu 23. mars sl. Sýslumaður framsendi beiðnina til ríkissaksóknara með vísun til 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga og 3. mgr. 10. gr. upplýsingalaga. Með bréfi ríkissaksóknara til sýslumanns, dagsettu 17. apríl sl., er áréttað að sýslumaður fari með ákæruvald í málinu og um aðgang að gögnum þess fari eftir stjórnsýslulögum og upplýsingalögum. Það sé því á valdi sýslumanns að fjalla um aðgang að gögnunum.

Í bréfi sýslumanns til umboðsmanns kæranda, dagsettu 30. apríl sl., kemur fram að hann telji kæranda ekki eiga rétt til aðgangs að gögnum málsins á grundvelli stjórnsýslulaga eða upplýsingalaga. Þrátt fyrir það þyki eðlilegt að veita kæranda aðgang að öðrum málsgögnum en skýrslu kærðu, [B].

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar, þ. á m. færir umboðsmaður kæranda rök fyrir því að hann hafi ríka hagsmuni af því að fá aðgang að hinni umbeðnu skýrslu í kæru til úrskurðarnefndar, dagsettri 21. maí sl. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en nefndin hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða
Eins og lýst er hér að framan bar kærandi fram kæru á hendur [B] fyrir ætlað húsbrot og eignaspjöll, sbr. 231. og 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Snýst kærumál þetta um það hvort kærandi eigi rétt á að fá aðgang að skýrslu sem kærða [B] gaf hjá lögreglu um þær sakargiftir.

Í niðurlagi 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga segir að lögin gildi ekki "um rannsókn eða saksókn í opinberu máli". Þegar af þeirri ástæðu verður synjun um aðgang að hinni umbeðnu skýrslu ekki kærð til úrskurðarnefndar, sbr. 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Ber því að vísa máli þessu frá nefndinni.

Úrskurðarorð:
Kæru [A] á hendur sýslumanninum á Siglufirði er vísað frá úrskurðarnefnd.

Eiríkur Tómasson, formaður
Elín Hirst
Valtýr Sigurðsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum