Hoppa yfir valmynd
22. janúar 1997 Forsætisráðuneytið

01/1997 - Úrskurður frá 22. janúar 1997 í málinu nr. A-1/1997

Hinn 22. janúar 1997 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-1/1997:


Kæruefni

Með bréfi, dags. 14. janúar sl., kærði [A], "synjun sýslumannsins í Hafnarfirði og lögreglustjórans í Reykjavík, dags. 13. janúar 1997 um aðgang að gögnum og skjölum sem varða umsókn [A] um leyfi til að eiga og nota skotvopn." Ennfremur var kærð "synjun dómsmálaráðuneytisins dags. 13. janúar 1997 um aðgang að hluta bréfs frá téðum [A] til ráðuneytisins varðandi sama mál og synjun um aðgang að öðrum umbeðnum gögnum."
Kæruna verður að skilja svo að kærandi krefjist þess að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. Gerir hann aðallega þá kröfu að honum verði veittur aðgangur að hinum umbeðnu gögnum í heild sinni, en til vara að ofangreindum stjórnvöldum verði gert skylt að afhenda honum hluta af gögnunum. Þá fer kærandi fram á að metið verði hvort rökstuðningur fyrir hinum kærðu ákvörðunum sé fullnægjandi.

Með bréfum, dags. 15. janúar sl., var kæran send til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, lögreglustjórans í Reykjavík og sýslumannsins í Hafnarfirði og þessum stjórnvöldum gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir hinum kærðu ákvörðunum fyrir kl. 12 á hádegi hinn 20. janúar sl. Jafnframt var þess óskað að stjórnvöldin létu úrskurðarnefndinni í té sem trúnaðarmál þau gögn, sem kæran lýtur að, innan þessa frests.

Umsögn dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 16. janúar sl., barst nefndinni 17. janúar sl., ásamt umræddum gögnum. Umsagnir lögreglustjórans í Reykjavík og sýslumannsins í Hafnarfirði, dags. 17. janúar sl., bárust nefndinni 20. janúar sl., ásamt gögnum sem öll, utan eitt, höfðu fylgt umsögn ráðuneytisins.


Málsatvik

Atvik þessa máls eru í stuttu máli þau að með bréfi, dags. 10. janúar sl., fór kærandi fram á aðgang "að skjölum og gögnum í vörslu" ofangreindra stjórnvalda "um afgreiðslu á umsókn [A] um byssuleyfi, sem lögð var fram í Hafnarfirði í september árið 1994." Óskaði kærandi "eftir afriti af öllum gögnum sem mál þetta varða, þar með talið umsókninni sjálfri." Jafnframt óskaði hann "eftir tafarlausri afgreiðslu" á beiðninni og krafðist "skriflegs rökstuðnings" ef henni yrði synjað. Í bréfi kæranda til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins kom fram að ráðuneytisstjóri hefði áður synjað beiðninni munnlega.

Ráðuneytið svaraði beiðni kæranda með bréfi, dags. 13. janúar sl., þar sem orðrétt segir: "Meðfylgjandi eru afrit af þeim gögnum í máli þessu sem heimilt er að veita yður aðgang að, sbr. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. og 7. gr. sömu laga. Um er að ræða hluta af bréfi framangreinds [A] til dómsmálaráðuneytisins, sbr. 7. gr. upplýsingalaga, dags. 14. október 1994 og umsókn hans um skotvopnaleyfi, dags. 30. september s.á. Aðgangi að öðrum gögnum í máli þessu er synjað, en þar er að mati ráðuneytisins að finna upplýsingar um einkamálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, sbr. 5. gr. upplýsingalaga."

Lögreglustjórinn í Reykjavík svaraði beiðni kæranda með bréfi, dags. 13. janúar sl., þar sem orðrétt segir: "... skal tekið fram að skv. upplýsingum [S] lögfræðings hjá dómsmálaráðuneytinu ... hefur ráðuneytið þegar afhent þau gögn sem talið er fært að afhenda og varða umsókn [A] um leyfi til þess að eiga skotvopn."

Sýslumaðurinn í Hafnarfirði svaraði beiðni kæranda með bréfi, dags. 13. janúar sl., þar sem orðrétt segir: "Sýslumannsembættið í Hafnarfirði telur sig ekki geta orðið við ósk yðar. Í umræddum gögnum eru persónuupplýsingar sem eðlilegt er að leynt fari. Verður að telja að þær takmarkanir á upplýsingarétti sem 5. gr. l. nr. 50/1996 setur aðgangi almennings að upplýsingum vegna einkahagsmuna eigi hér við. Beiðni yðar er því hafnað."

Fyrrgreindri umsögn dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til úrskurðarnefndar fylgdu ljósrit af 17 skjölum og gögnum varðandi meðferð á fyrrgreindri umsókn [A] um skotvopnaleyfi, sem beiðni kæranda lýtur að, að meðtöldum þeim tveimur skjölum sem honum hafa verið afhent, sbr. fyrrgreint bréf ráðuneytisins, dags. 13. janúar sl. Þá fylgdi, eins og áður er komið fram, ljósrit af einu skjali til viðbótar svörum lögreglustjórans í Reykjavík og sýslumannsins í Hafnarfirði.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinum kærðu ákvörðunum hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða

1.

Umsókn [A] um skotvopnaleyfi, sem dags. er 30. september 1994 og um ræðir í máli þessu, var send sýslumanninum í Hafnarfirði skv. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 46/1977, um skotvopn, sprengiefni og skotelda. Með vísun til 4. mgr. 15. gr. laganna fór hann síðan fram á það með bréfi til dóms- og kirkjumálaráðherra, dags. 14. október 1994, að sér yrði veitt undanþága frá ákvæði 2. mgr. sömu greinar.

Í 3. mgr. 10. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: "Þegar farið er fram á aðgang að gögnum um mál þar sem taka á eða tekin hefur verið ákvörðun um rétt eða skyldu manna skal beiðni beint til þess stjórnvalds sem tekið hefur eða taka mun ákvörðun í málinu." Þar eð líta verður svo á að beiðni kæranda um aðgang að gögnum hafi lotið að umsókn [A] um skotvopnaleyfi og beiðni hans um undanþágu bar kæranda að snúa sér til sýslumannsins í Hafnarfirði og dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, en ekki til lögreglustjórans í Reykjavík sem aðeins lét í té umsögn um undanþágubeiðnina. Með vísun til þess er kæru á hendur lögreglustjóranum í Reykjavík vísað frá úrskurðarnefnd.

2.

Í 3. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: "Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr." Í 5. gr. laganna segir síðan: "Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á." Í athugasemdum, er fylgdu frumvarpi til upplýsingalaga, er m.a. tekið fram, til skýringar á þessu ákvæði, að þær persónuupplýsingar, sem taldar eru upp í 4. gr. laga nr. 121/1989 um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, séu allar undanþegnar aðgangi almennings. Í b-lið þeirrar greinar eru tilgreindar "upplýsingar um það hvort maður hafi verið grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað".

Með vísun til þessa er það álit úrskurðarnefndar að upplýsingar um sakaferil einstaklings eins og [A] séu upplýsingar um einkamálefni sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari, sbr. 5. gr. upplýsingalaga. Þar eð samþykki [A] liggur ekki fyrir var dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og sýslumanninum í Hafnarfirði því rétt að neita kæranda um aðgang að upplýsingum um sakaferil [A], að svo miklu leyti sem þær er að finna í þeim gögnum sem beiðni hans tók til.

Samkvæmt þessu og með vísun til 7. gr. upplýsingalaga, þar sem segir að eigi ákvæði 4.-6. gr. laganna aðeins við um hluta skjals, skuli veita almenningi aðgang að öðru efni skjalsins, telur nefndin að sú ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að láta kæranda einungis í té hluta af bréfi [A] til ráðuneytisins, dags. 14. október 1994, sé byggð á lögmætum sjónarmiðum. Aðferð sú, sem viðhöfð var, þ.e. að útmá þann texta sem fellur undir 5. gr. upplýsingalaga, er ásættanleg eins og á stóð. Að áliti nefndarinnar er ráðuneytinu á sama hátt skylt að veita kæranda aðgang að hluta af eftirgreindum skjölum:

1. Bréfi [B], aðstoðaryfirlögregluþjóns í Reykjavík, til ráðuneytisins, dags. 14. október 1994.
2. Bréfi ráðuneytisins til [A], dags. 14. október 1994.
3. Bréfi ráðuneytisins til lögreglustjórans í Reykjavík, dags. 17. október 1994.
4. Bréfi ráðuneytisins til sýslumannsins í Hafnarfirði, dags. 17. október 1994.
5. Umsögn sýslumannsins í Hafnarfirði, dags. 20. október 1994.
6. Bréfi ráðuneytisins til lögreglustjórans í Reykjavík, dags. 10. nóvember 1994.
7. Bréfi ráðuneytisins til [A], dags. 21. nóvember 1994.

Ljósrit af umræddum skjölum fylgja því eintaki af úrskurði þessum sem sent verður ráðuneytinu þar sem nefndin hefur merkt við þá hluta sem hún telur rétt að undanþiggja aðgangi almennings skv. 5. gr. upplýsingalaga.
Önnur gögn í máli þessu, sem eru í vörslu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, eru þess eðlis, að dómi nefndarinnar, að þau ber samkvæmt framansögðu að undanþiggja aðgangi almennings.

Með vísun til þess, sem nú hefur verið rakið, er það álit úrskurðarnefndar að sýslumanninum í Hafnarfirði hafi borið að veita kæranda aðgang að umsókn [A] um skotvopnaleyfi með vísun til 3. gr., sbr. 5. gr. upplýsingalaga. Sama á við um lista yfir þátttakendur á skotvopnanámskeiði hinn 13. október 1994, sbr. bréf lögreglunnar í Hafnarfirði, dags. 11. október 1994, enda eru slíkar upplýsingar ekki undanþegnar aðgangi almennings að mati nefndarinnar. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefur þegar afhent kæranda ljósrit af umsókninni og ber því sýslumanni að veita honum aðgang að fyrrgreindum þátttakendalista. Önnur gögn í máli þessu, sem eru í vörslu sýslumanns, eru þau sömu og ráðuneytið hefur í vörslu sinni. Hefur nefndin hér að framan tekið afstöðu til þess að hvaða marki skuli veita almenningi aðgang að þeim.

3.

Úrskurðarnefnd sér ekki ástæðu til að gera frekari athugasemdir við rökstuðning, sem færður var fyrir hinum kærðu ákvörðunum, heldur en gert er hér að framan.

Úrskurðarorð:

Hinni kærðu ákvörðun Lögreglustjórans í Reykjavík er vísað frá.
Hin kærða ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins er staðfest, að öðru leyti en því að ráðuneytinu ber að veita kæranda aðgang að hluta af eftirgreindum skjölum:

1. Bréfi [B], aðstoðaryfirlögregluþjóns í Reykjavík, til ráðuneytisins, dags. 14. október 1994.
2. Bréfi ráðuneytisins til [A], dags. 14. október 1994.
3. Bréfi ráðuneytisins til lögreglustjórans í Reykjavík, dags. 17. október 1994.
4. Bréfi ráðuneytisins til sýslumannsins í Hafnarfirði, dags. 17. október 1994.
5. Umsögn sýslumannsins í Hafnarfirði, dags. 20. október 1994.
6. Bréfi ráðuneytisins til lögreglustjórans í Reykjavík, dags. 10. nóvember 1994.
7. Bréfi ráðuneytisins til [A], dags. 21. nóvember 1994.

Sýslumanninum í Hafnarfirði ber að veita kæranda aðgang að lista yfir þátttakendur á skotvopnanámskeiði hinn 13. október 1994, sbr. bréf lögreglunnar í Hafnarfirði, dags. 11. október 1994.

Eiríkur Tómasson, formaður
Elín Hirst
Valtýr Sigurðsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum