Hoppa yfir valmynd
18. febrúar 2010 Forsætisráðuneytið

A 329/2010. Úrskurður frá 18. febrúar 2010

ÚRSKURÐUR

Hinn 18. febrúar 2010 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu A-329/2010.

 

Kæruefni

Með tölvubréfi, dags. 22. október 2009, kærði [...] drátt sem orðið hefði á svari við beiðni sinni um aðgang að gögnum frá Háskóla Íslands. Fram kom í kærunni að 18. september 2009 hefði hann með tölvubréfi farið fram á það við [A] að fá aðgang að gögnum sem sýndu að gögn sem hann hefði lagt inn hjá háskólaráði 17. september 2009 væru ekki ný „(gögn frá 21. mars 2002)“. Þrátt fyrir ítrekaðar óskir þar um, síðast 30. september, hefði enn ekki borist svar.

Með tölvubréfi, dags. 6. desember 2009, kærði [...] að deildarforseti hjúkrunarfræðideildar Háskóla Íslands hefði ekki svarað bréfi sínu frá 12. nóvember 2009 en í því bréfi hefði hann farið fram á að deildarforsetinn staðfesti með gögnum þær fullyrðingar sem fram hefðu komið í bréfi hans til sín, dags. 10. s.m., að hann væri að óska eftir undanþágum og er þá átt við undanþágur vegna náms kæranda við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. Einnig hafi deildarforsetinn fullyrt að bréf kæranda frá 21. mars 2002 væri ekki nýtt þegar hún segði í bréfinu: „Engin frekari gögn hafa verið lögð fram í málinu.“ Fer kærandi fram á það við úrskurðarnefnd upplýsingamála að nefndin komi því til leiðar „að Guðrún sinni sínum lögbundnu skyldum að svara mér og afhenda gögn máli sínu til sönnunar“.

Úrskurðarnefndin hefur ákveðið að afgreiða framangreindar kærur í einum úrskurði.

 

Málsatvik

Upphaf þeirra samskipta kæranda og hjúkrunarfræðideildar Háskóla Íslands, sem gögn málsins er úrskurðarnefndin hefur undir höndum ná til, má rekja til bréfs kæranda til hjúkrunarfræðideildarinnar, sem dagsett er og móttekið 6. febrúar 2002. Í bréfinu óskar kærandi eftir því „að fá að sitja vorönn 2002 á fyrsta ári“, sem honum er heimilað með bréfi deildarinnar, dags. 8. febrúar s.á. Hinn 21. mars 2002 ritar kærandi aftur bréf til hjúkrunarfræðideildarinnar og kveðst hafa gert sér grein fyrir því að hann hafi misst af of miklu af námsefni vorannar til þess að geta haldið náminu áfram. Þá kemur fram að kærandi stefni að því að hefja aftur nám við hjúkrunarfræðideildina um haustið og óskar hann eftir því að athugað verði hvort hann geti fengið að þreyta í ágúst á ný þau próf sem hann hafi ekki staðist um jólin. Hugmynd hans sé sú, standist hann prófin, að mögulegt sé að hann sleppi við að sitja aftur haustönn 2002. Í gögnum málsins kemur fram að 3. apríl 2002 hafi kæranda verið tjáð munnlega að þessi námsframvinda væri honum heimil.

Þá kemur fram í gögnum málsins að haustið 2007 hafi kæranda verið synjað um undanþágu frá reglum Háskóla Íslands og skráningu á 4. námsár í hjúkrunarfræðideild. Sú ákvörðun hafi verið staðfest í háskólaráði 19. júní 2008 og af áfrýjunarnefnd í málefnum háskólanema 19. apríl 2009. Hinn 9. október 2009 ritar kærandi deildarforseta hjúkrunarfræðideildar bréf þar sem segir m.a. eftirfarandi: „Í kjölfar þess að ný gögn (sjá viðhengi) hafa komið fram í máli mínu fer ég fram á að hjúkrunarfræðideildin endurskoði fyrri ákvörðun sína, þar sem mér var neitað um að ljúka fjórða og síðasta námsári mínu við HÍ.“ Í bréfi hjúkrunarfræðideildarinnar til kæranda, dags. 16. október 2009, er því hafnað að þau gögn sem kærandi hafi lagt fram kalli á þá endurskoðun sem hann fer fram á og er erindi hans hafnað. Kærandi ítrekar kröfu sína um endurskoðun á ákvörðun hjúkrunarfræðideildarinnar í bréfi, dags. 2. nóvember 2009, og er synjað um þá endurskoðun í bréfi deildarinnar, dags. 10. nóvember s.á.

Kærandi ritar hjúkrunarfræðideildinni bréf, dags. 12. nóvember, og vísar til bréfs deildarinnar, dags. 10. nóvember, þar sem segi að „engin frekari gögn hafa verið lögð fram í máli þínu nú.“ Þá segir í bréfi kæranda eftirfarandi: „Ef ég skil þetta rétt ert þú að segja að bréfið frá 21. mars 2002 sem ég sendi þér 9. október 2009 hafi áður komið fram og sé því ekki nýtt. Í ljósi þessarar fullyrðingar fer ég fram á að þú segir mér hvenær þetta bréf hafi komið fram eftir að það var sent ykkur 21. mars 2002? Vil ég gögn um það. Ef þú telur um misskilning að ræða hjá mér viltu þá segja mér hvað þú átt við með setningunni?“

Eins og fyrr er greint frá lýtur síðari kæra kæranda að því að bréfi hans frá 12. nóvember 2009 hafi ekki verið svarað. Kærandi ritar háskólaráði bréf, dags. 17. nóvember 2009, þar sem segir  að ný gögn hafi komið fram og óskar hann eftir því að háskólaráð snúi við ákvörðun hjúkrunarfræðideildarinnar og að samþykki deildarinnar frá 3. apríl 2002 gildi. Þessu erindi kæranda er vísað til heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands sem hafnar því í bréfi, dags. 16. desember 2009.

Í öðrum gögnum málsins kemur fram að ágreiningur er á milli kæranda og háskólayfirvalda sem varðar það hvort bréf kæranda frá 21. mars 2002 sé nýtt gagn eða ekki. Verður helst að skilja þann ágreining svo að kærandi telji að bréfið hafi ekki legið fyrir þegar ákvarðanir voru teknar um að synja honum um undanþágu frá reglum Háskóla Íslands og skráningu á 4. námsár í hjúkrunarfræðideild þótt ekki sé það fyllilega ljóst. Úrskurðarnefndin telur ekki ástæðu til að lýsa þessum ágreiningi frekar en gert hefur verið hér að framan, sbr. það sem síðar segir um valdsvið hennar.


 
Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 26. október 2009, kynnti úrskurðarnefnd um upplýsingamál Háskóla Íslands kæruna og vakti athygli á því að skv. 11. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 beri stjórnvaldi að taka, svo fljótt sem verða megi, ákvörðun um það hvort það verði við beiðni um aðgang að gögnum. Var Háskóla Íslands gefinn frestur til miðvikudagsins 4. nóvember til að taka ákvörðun um afgreiðslu umræddrar beiðni.

Í svarbréfi Háskóla Íslands sem [B], lögfræðingur Háskóla Íslands, ritaði 4. nóvember 2009 segir m.a.:

„Kærandi óskaði sl. sumar eftir aðgangi að tilteknum gögnum er vörðuðu nám hans við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. Var sá aðgangur veittur. Áður hafði kærandi fengið send gögn í tengslum við kæru hans til háskólaráðs og áfrýjunarnefndar í málefnum háskólanema. Að mati háskólans hefur hann nú fengið afhent öll gögn sem óskað hefur verið eftir og kunnugt er að til séu innan skólans varðandi mál hans. Orðalag tölvupósts kæranda til [A] dags. 18. september 2009 er óljóst varðandi það hvaða gögn kærandi óskar eftir að fá afhent. Má allt eins skilja beiðni kæranda sem beiðni um rökstuðning fremur en beiðni um gögn ...“.

Úrskurðarnefndin kynnti kæranda framangreint bréf lögfræðings Háskóla Íslands með bréfi, dags. 10. nóvember 2009. Því bréfi úrskurðarnefndarinnar svaraði kærandi ekki sérstaklega.
 
Með bréfi, dags. 28. desember 2009, kynnti úrskurðarnefndin hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands kæru kæranda frá 12. nóvember. Svarbréf deildarinnar er dags. 7. janúar 2010. Í því bréfi kemur eftirfarandi fram: „Öll gögn málsins hafa verið send kæranda og ekki er vitað til að þau gögn sem hann vísar til í tölvupósti sínum dags. 12. nóvember sl. séu til innan háskólans önnur en þau sem þegar hafa verið afhent eins og hann hefur ítrekað verið upplýstur um.“

Með bréfi, dags. 28. desember 2009, var kæranda kynnt bréf lögfræðings Háskóla Íslands til úrskurðarnefndarinnar frá 3. s.m. Bréf lögfræðingsins var svar við bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 25. nóvember, þar sem óskað var eftir skýringum á því hvort bréf háskólans til kæranda, dags. 13. nóvember, fæli í sér synjun um afhendingu gagna eða beiðni til hans um frekari skýringar á þeim gögnum sem hann óskaði eftir að fá aðgang að. Í svari kæranda sem barst í tölvupósti 10. janúar sl. segir m.a. eftirfarandi:

„Upphaflega óskaði ég eftir því að [A] framvísaði gögnum fullyrðingu sinni til staðfestingar, þegar hann sagði: „Gögn þau er þú nú leggur fram eru ekki ný ...“ Ekki get ég séð með nokkru móti, að svör skólans að mér hafi verið send öll gögn sem ég hef beðið um komi þessu máli nokkuð við. Sú fullyrðing sem hefur einnig komið fram að í bréfi frá 16. október 2009 sé ekki vefengt af hálfu hjúkrunarfræðideildarinnar að um ný gögn væri að ræða. Þessi fullyrðing stenst ekki því í bréfi deildarforseta hjúkrunarfræðideildar frá 10. nóvember 2009 er bent á að ekki sé um ný gögn að ræða og þess vegna hafi ég fengið neitun í bréfi dagsettu 16. október 2009! Því er ljóst að hjúkrunarfræðideildin vefengir að bréfið sé nýtt. Síðan má benda á það að í afgreiðslu stjórnar heilbrigðisvísindasviðs var ekki tekið efnislega á því hvort um ný gögn sé að ræða eða ekki. Í ljósi þessa tel ég að mér hafi ekki borist fullnægjandi svar við kæru minni frá 22. október 2009. Tel ég að það ætti að vera auðvelt að verða við upphaflegu beiðni minni að senda mér þau gögn sem staðfesta ofangreinda fullyrðingu [A]. Ef engin gögn eru til sem staðfesta þessa fullyrðingu hans er leikur einn fyrir skólann að tilkynna það. Málið er ekki flóknara en það.“

Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til þess að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila, en úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af þeim við úrlausn málsins.

Trausti Fannar Valsson lektor er vanhæfur við afgreiðslu málsins og tók Þorgeir Ingi Njálsson, varamaður í úrskurðarnefnd um upplýsingamál, sæti hans í nefndinni við meðferð og afgreiðslu þess.

 


Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 taka lögin til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Háskóli Íslands er sjálfstæð ríkisstofnun sem heyrir undir menntamálaráðherra, sbr. 2. málslið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 63/2006 um háskóla, og því fellur stjórnsýsla á hans vegum undir það að vera stjórnsýsla ríkisins í skilningi lagaákvæðisins.

Í 2. gr. upplýsingalaga er kveðið á um gildissvið þeirra gagnvart öðrum lögum og þjóðréttarsamningum. Í 1. málslið 2. mgr. 2. gr. laganna segir að þau gildi ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, en þau taka til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna. Í 1. málslið 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga segir að lögin gildi þegar stjórnvöld, þar á meðal stjórnsýslunefndir, taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Þegar um er að ræða gögn sem varða ákvarðanir stjórnvalds um rétt eða skyldu manna fer um aðgang að þeim samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaganna, en þar segir í upphafi 1. mgr. að aðili máls eigi rétt á því að kynna sér skjöl og önnur gögn er málið varði.

Af gögnum þessa máls sést að beiðni kæranda um aðgang að gögnum varðar tvær ákvarðanir hjúkrunarfræðideildar Háskóla Íslands um námsframvindu kæranda og einnig ákvarðarnir háskólaráðs og áfrýjunarnefndar í málefnum háskólanema um sama efni. Ekki verður séð að beiðni kæranda nái til annarra gagna en þeirra sem að framan er lýst eða þau gögn sem fyrir hendi eru varði önnur mál. Kærandi er tvímælalaust aðili að þessum ákvörðunum öllum í skilningi stjórnsýslulaga þar sem þær varða réttindi og skyldur hans.

Af framansögðu leiðir að um upplýsingarétt kæranda fer eftir stjórnsýslulögum nr. 37/1993, en ekki upplýsingalögum, nr. 50/1996. Er það því ekki á valdi úrskurðarnefndar um upplýsingamál að leysa úr þeirri synjun um aðgang að gögnum sem kærandi staðhæfir að fyrir liggi og hann hefur borið undir nefndina, sbr. 2. mgr. 2. gr. og 14. gr. upplýsingalaga. Samkvæmt þessu er kærum [...] vísað frá úrskurðarnefndinni.

 


Úrskurðarorð

Kærum [...] vegna afhendingar gagna frá Háskóla Íslands er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

 


Friðgeir Björnsson
formaður

 

                            Sigurveig Jónsdóttir                                   Þorgeir Ingi Njálsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum