Hoppa yfir valmynd
22. desember 2009 Forsætisráðuneytið

A 319/2009. Úrskurður frá 22. desember 2009

ÚRSKURÐUR

 

Hinn 22. desember 2009 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-319/2009.

Kæruefni og málsatvik

Með tölvubréfi, dags. 6. ágúst 2009, kærði [...] til úrskurðarnefndar um upplýsingamál að óhæfilegur dráttur hefði orðið á afgreiðslu Seðlabanka Íslands á beiðni hans um gögn.

Kærandi kveðst hafa sent Seðlabankanum svohljóðandi fyrirspurn 6. júlí 2009: „Ég óska eftir því að fá aðgang að öllum samskiptum (bréfaskriftum, e-mail samskiptum og öllu sem upplýsingalög ná yfir) tryggingasjóðs innstæðna og Seðlabankans á tímabilinu janúar 2008 – júní 2009 varðandi erlendar innstæður.“ Með tölvupósti til Seðlabankans, dags. 8. júlí, bætti kærandi við beiðni sína því að hann myndi „vilja fá aðgang að, eða fá að vita um, fyrirspurnir erlendis frá um hvaða innstæður séu tryggðar af íslenskum stjórnvöldum.“

Kærandi ítrekaði beiðni sína í tölvupósti til Seðlabankans 24. júlí og fékk þau svör að tafist hefði að afgreiða beiðnina vegna mikils annríkis í bankanum og eins vegna sumarleyfa. Stefnt væri að því að afgreiða beiðnina eftir verslunarmannahelgina.

 

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 7. ágúst 2009, tilkynnti úrskurðarnefndin Seðlabanka Íslands að framangreind kæra hefði borist. Var þeim tilmælum beint til bankans að ósk kæranda yrði afgreidd svo fljótt sem auðið væri, hefði það ekki þegar verið gert. Ef Seðlabankinn hygðist synja beiðninni var óskað eftir því að úrskurðarnefndinni yrðu látin í té afrit af umbeðnum gögnum og í því tilviki væri bankanum gefinn kostur á því að koma að athugsemdum við kæruna. Frestur til þessa var gefinn til 18. ágúst.

Í bréfi Seðlabanka Íslands til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 17. ágúst, kemur m.a. eftirfarandi fram:

„Réttur almennings til upplýsinga samkvæmt 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er bundinn við fyrirliggjandi gögn sem varða tiltekið mál, þó með þeim fyrirvörum sem greinir í 4.-6. gr. laganna. Í beiðni kæranda er ekki vísað til neins tiltekins máls hvorki að því er varðar bréfaskriftir milli Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og Seðlabanka Íslands né fyrirspurnir erlendis frá til Seðlabanka Íslands um hvaða innstæður séu tryggðar af íslenskum stjórnvöldum, og er henni þegar af þeirri ástæðu hafnað. Í því sambandi er því hafnað að samskipti Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og Seðlabankans á afmörkuðu tímabili, sé sérstakt mál í þessu sambandi.

Seðlabanki Íslands hefur margvísleg samskipti við innlenda og erlenda aðila. Á grundvelli 1. mgr. 35. gr. laga nr. 36/2001 er hins vegar ekki mögulegt að láta kæranda í té afrit af bréfum sem fara á milli Seðlabanka Íslands og Tryggingarsjóðs innstæðueigenda, eða þeirra erlendu aðila sem gera fyrirspurnir til bankans. [...]

Þar sem á þessu stigi liggur ekki fyrir hvort fyrir hendi séu í Seðlabankanum gögn sem snerta umrædda beiðni, er því miður eigi unnt að verða við beiðni úrskurðarnefndar um að fá afrit af umbeðnum gögnum.“

Kæranda var kynnt framangreint svar Seðlabanka Íslands í bréfi, dags. 18. ágúst, og í bréfinu tekið fram að vildi hann koma á framfæri frekari athugasemdum vegna kærunnar í ljósi bréfs Seðlabankans væri frestur gefinn til þess til 1. september.

Svohljóðandi svar barst úrskurðarnefndinni fá kæranda í tölvupósti, dags. 21. ágúst.

„Ég hef engar athugasemdir svo sem við póst lögfræðings Seðlabankans, sem ég átti að svara fyrir 1. september, að öðru leyti en því að ég fordæmi það stórkostlega hirðuleysi sem átti sér stað innan Seðlabankans. Fyrirspurn mín kom 6. júlí og ég fékk ekki upplýsingar um að engin gögn væru fyrir hendi fyrr en rúmlega 40 dögum seinna! Tími blaðamanns, eins og annarra starfsstétta, er verðmætur og hefur honum verið sóað til einskis af Seðlabankanum. Ég vona að þetta bréf sé nóg til þess að fullnægja skilyrðinu um athugasemd.“

Úrskurðarnefndin ritaði kæranda bréf, dags. 27. ágúst, og segir þar m.a.:

„Í tölvubréfi yðar kemur fram að þér hafið „engar athugasemdir svo sem við póst lögfræðings Seðlabankans“. Með vísan til þess fer nefndin þess á leit við yður að þér látið henni í té upplýsingar um hvort þér óskið þess að nefndin haldi áfram meðferð málsins og felli úrskurð í tilefni af kæru yðar, eða hvort þér hafið í hyggju að falla frá kæru yðar í ljósi svara Seðlabankans.

Úrskurðarnefndin tekur fram að tilgangur þessa bréfs er ekki sá að krefja yður um frekari rökstuðning kæru yðar, þó yður sé að sjálfsögðu frjálst að setja hann fram. Tilgangur bréfsins er einvörðungu sá að taka af vafa um rétta meðferð á kærumáli yðar. Mælst er til þess að svör yðar berist nefndinni ekki síðar en miðvikudaginn 9. september nk.“

Framangreint bréf kærunefndarinnar var ítrekað með bréfi, dags. 23. október, og frestur gefinn til svara til 2. nóvember. Þar sem engin svör bárust hafði ritari úrskurðarnefndarinnar samband símleiðis við kæranda 25. nóvember. Í því samtali kom fram að kærandi hygðist ekki falla frá kæru sinni og óskaði þess að úrskurður gengi í málinu.

 

Niðurstaða

Bréf kæranda til úrskurðarnefndarinnar, dags. 21. ágúst 2009, sbr. bréf úrskurðarnefndarinnar til kæranda, dags. 27. sama mánaðar, verður ekki skilið öðru vísi en svo að hann geri ekki athugasemdir við þær röksemdir sem Seðlabankinn færir fram fyrir þeirri afstöðu sinni að synja kæranda um umbeðin gögn og hafi sjálfur ekki í hyggju að færa fram frekari röksemdir fyrir beiðni sinni.

Samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er stjórnvöldum skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr. laganna. Í 1. mgr. 10. gr. sömu laga, sbr. 2. gr. laga nr. 161/2006, segir: „Sá sem fer fram á aðgang að gögnum skal tilgreina þau gögn máls sem hann óskar að kynna sér. Þá getur hann óskað eftir að fá að kynna sér öll gögn um tiltekið mál án þess að tilgreina einstök gögn sem málið varða.“

Í skýringum við 2. gr. frumvarps þess sem síðan varð að lögum nr. 161/2006 kemur fram að upplýsingaréttur samkvæmt upplýsingalögum er afmarkaður við skjöl og önnur gögn sem varða tiltekin mál. Af ákvæðum upplýsingalaga leiðir því að þegar beiðni um aðgang varðar gögn í tilteknu máli, en gögnin ekki tilgreind sérstaklega að öðru leyti, verður að miða við að þau hafi verið útbúin, lögð fram eða þeirra aflað vegna máls sem er eða hefur verið til meðferðar í stjórnsýslunni. Verða gögnin því að tilheyra ákveðnu, tilgreinanlegu máli, þ.e. ákveðnu máli sem er eða hefur verið til meðferðar hjá stjórnsýslunni hvort sem það hefur verið afgreitt eða ekki. Beiðni sína afmarkaði kærandi með þeim hætti að hann óskaði eftir að fá aðgang að „öllum samskiptum (bréfaskriftum, e-mail samskiptum og öllu sem upplýsingalög ná yfir) tryggingasjóðs innstæðna og Seðlabankans á tímabilinu janúar 2008 – júní 2009 varðandi erlendar innstæður“ og um að „fá aðgang að, eða fá að vita um, fyrirspurnir erlendis frá um hvaða innstæður séu tryggðar af íslenskum stjórnvöldum.“

Af framangreindri beiðni kæranda sést að hún beinist ekki að ákveðnum, tilgreindum gögnum máls, og fullnægir að því leyti ekki ákvæði fyrri málsliðar 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga sem rakin er hér að framan. Það er heldur ekki hægt að líta svo á að beiðnin lúti að aðgangi að öllum gögnum í tilteknu máli, eins og kveðið er á um í 10. gr. upplýsingalaganna heldur nær hún til allra samskipta tveggja stjórnvalda á ákveðnu tímabili annars vegar og fyrirspurnir erlendis frá hins vegar. Beiðnin fullnægir þannig ekki þeim kröfum sem gerðar eru í síðari málslið 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga.

Af þessum ástæðum ber að staðfesta synjun Seðlabanka Íslands á því að verða við beiðni kæranda.


Úrskurðarorð:

Synjun Seðlabanka Íslands á beiðni kæranda um afhendingu gagna er staðfest.

 

Friðgeir Björnsson
formaður

 

                               Sigurveig Jónsdóttir                              Trausti Fannar Valsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum