Hoppa yfir valmynd
19. mars 2008 Forsætisráðuneytið

A-277/2008B. Úrskurður frá 18. mars 2008.

ÚRSKURÐUR

Hinn 18. mars 2008 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-277/2008B.

Málsatvik

Með bréfi, dags. 13. mars 2008, krafðist [...] þess, fyrir hönd Ríkisútvarpsins ohf., með vísan til 18. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, að réttaráhrifum úrskurðar nr. A-277/2008, sem kveðinn var upp 11. sama mánaðar, yrði frestað.
Í úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að Ríkisútvarpið ohf. skyldi veita aðgang að ráðningarsamningi við [X], dags. 26. mars 2007, annars vegar og ráðningarsamningi við [Y], dags. 2. apríl 2007, hins vegar, þó að undanskildum þeim upplýsingum sem fram koma í 4. gr. samninganna. Tilefni úrskurðarins var kæra [A], fyrir hönd [B], vegna synjunar Ríkisútvarpsins ohf. á beiðni um aðgang að upplýsingum um laun nefndra starfsmanna í septembermánuði 2007.
Í bréfi lögmanns Ríkisútvarpsins ohf. kemur fram að fyrirtækið telji að hér séu afar mikilvægir hagsmunir í húfi og verði úrskurði nefndarinnar framfylgt geti það skaðað verulega samkeppnis- og rekstrarstöðu þess gagnvart samkeppnisaðilum sínum. Segir m.a. svo í bréfi lögmannsins: „Verði þær upplýsingar, sem ofangreindur úrskurður kveður á um, gerðar opinberar, fá samkeppnisaðilar umbj. míns upplýsingar um þau kjör sem umbj. minn veitir lykilstarfsmönnum sínum og setur umbj. minn í nánast ómögulega aðstöðu gagnvart samkeppnisaðilum hvað varðar samkeppni um hæfa starfsmenn.“ Að öðru leyti vísar Ríkisútvarpið ohf. til fyrri greinargerða og gagna sem lögð hafi verið fram.
Með bréfi, dags. 14. mars 2008, óskaði úrskurðarnefndin eftir því að [A] sendi nefndinni þær athugasemdir sem hann teldi ástæðu til að gera við fram komna kröfu um frestun réttaráhrifa. Svarbréf hans barst nefndinni 17. mars. Kemur þar fram að þess sé krafist, fyrir hönd [B], að beiðni Ríkisútvarpsins ohf. verði synjað
Í fjarveru Friðgeirs Björnssonar tók Þorgeir Ingi Njálsson varamaður hans sæti í úrskurðarnefndinni við meðferð og afgreiðslu kröfu þessarar.

 

Niðurstaða

Í 1. mgr. 18. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 segir að úrskurðarnefnd um upplýsingamál geti, að kröfu stjórnvalds, ákveðið að fresta réttaráhrifum úrskurðar telji hún sérstaka ástæðu ástæðu til þess. Krafa þess efnis skal gerð eigi síðar en þremur dögum frá birtingu úrskurðar. Krafa sú sem hér er til úrskurðar barst innan þessa frests. Í athugasemdum við umrædda grein í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum nr. 50/1996 segir m.a. svo: „Líta ber á þetta heimildarákvæði sem undantekningu sem aðeins verði beitt þegar sérstaklega stendur á.“
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur í úrskurðum A-78/1999C, A-117/2001B og A-233/2006B lagt til grundvallar að með 18. gr. upplýsinglaga hafi fyrst og fremst verið höfð í huga tilvik þar sem í húfi eru tiltölulega mikilvægir hagsmunir, ekki síst hagsmunir einkaaðila, sem gætu verið skertir með óbætanlegum hætti, ef veittur yrði aðgangur að gögnum með upplýsingum um þá, í andstöðu við ákvæði upplýsingalaga eins og þau kynnu síðar að verða skýrð af dómstólum.
Í úrskurði nefndarinnar í máli A-277/2008 var komist að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir að upplýsingar um þau launakjör sem krafist var aðgangs að í málinu tengdust þeirri starfsemi fyrirtækisins sem væri í samkeppni við aðra aðila, sbr. 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, yrði ekki talið að rekstrar- eða samkeppnislegir hagsmunir Ríkisútvarpsins ohf. af því að halda umræddum upplýsingum leyndum væru svo ríkir að þeir réttlættu undanþágu frá meginreglu 3. gr. laganna um rétt almennings til aðgangs að gögnum í fórum stjórnvalda og annarra aðila sem bundnir væru af ákvæðum upplýsingalaga.
Að framangreindu virtu telur úrskurðarnefndin ekki vera fyrir hendi lagaskilyrði til þess að fresta réttaráhrifum úrskurðar síns frá 11. mars sl. Ber því að hafna kröfu [...], fyrir hönd Ríkisútvarpsins ohf., þar að lútandi.


Úrskurðarorð

Kröfu [...], fyrir hönd Ríkisútvarpsins ohf., um að frestað verði réttaráhrifum úrskurðar frá 11. mars 2008 nr. A-277/2008 er hafnað.

 

 


Trausti Fannar Valsson
varaformaður

 

 

 

                                             Sigurveig Jónsdóttir                                     Þorgeir Ingi Njálsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum