Hoppa yfir valmynd
14. mars 2008 Forsætisráðuneytið

A 276/2008 Úrskurður frá 26. febrúar 2008

ÚRSKURÐUR


Hinn 26. febrúar 2008 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-276/2008.


Kæruefni og málsmeðferð

Með kæru, dags. 5. nóvember 2007, kærði [...], synjun menntamálaráðuneytisins á beiðni hennar frá 18. október s.á. um aðgang að og afrit af öllum skjölum og gögnum sem væru í vörslu ráðuneytisins vegna óskar og ákvörðunar um að Menntaskólinn við Hamrahlíð gæti farið fram á að nemandi næði að lágmarki 10 einingum á önn til að færast yfir á næstu önn.

Í kærunni kom fram að menntamálaráðuneytið hefði ekki svarað ofangreindri beiðni um gögn. Þar sem beiðnin hefði ekki verið afgreidd innan lögbundins frests, sbr. 11. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, liti kærandi svo á að tómlæti ráðuneytisins um afgreiðslu beiðninnar jafngilti synjun hennar.

Með bréfi, dags. 6. nóvember 2007, var kæran kynnt menntamálaráðuneytinu. Umsögn þess barst nefndinni með bréfi, dags. 15. nóvember sama ár. Kæranda var með bréfi, dags. 19. nóvember, veittur frestur til 29. sama mánaðar til að tjá sig um umsögn ráðuneytisins. Erindið var ítrekað með bréfi til kæranda, dags. 6. desember 2007, og honum veittur frestur til að koma sjónarmiðum sínum að til 13. sama mánaðar. Athugasemdir bárust ekki.

Með bréfi úrskurðarnefndarinnar til menntamálráðuneytisins, dags. 18. desember, var óskað afrita af gögnum í tilteknu máli sem verið hafði til úrlausnar hjá ráðuneytinu og vísað hafði verið til í fyrri umsögn ráðuneytisins. Umbeðin gögn bárust nefndinni með bréfi, dags. 16. janúar 2008. Þá afhenti menntamálaráðuneytið úrskurðarnefndinni þann 19. desember 2007 afrit af bréfi ráðuneytisins til kæranda, dags. 5. desember 2007.

 


Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að með beiðni, dags. 18. október 2007, óskaði kærandi eftir aðgangi að og afriti af öllum gögnum sem væru í vörslu menntamálaráðuneytisins vegna óskar og ákvörðunar um að Menntaskólinn við Hamrahlíð gæti farið fram á að nemandi næði að lágmarki 10 einingum á önn til að færast yfir á næstu önn. Með vísan til þess að það hefði dregist að svör bærust frá menntamálaráðuneytinu lagði kærandi málið fyrir úrskurðarnefndina.

Með bréfi, dags. 6. nóvember 2007, var kæran kynnt menntamálaráðuneytinu. Var athygli ráðuneytisins vakin á því að skv. 11. gr. upplýsingalaga bæri stjórnvaldi að taka ákvörðun svo fljótt sem verða mætti um það hvort verða ætti við beiðni um aðgang að gögnum. Enn fremur að skýra skyldi þeim, sem færi fram á aðgang að gögnum, frá ástæðum tafa og hvenær ákvörðunar væri að vænta, hefði beiðni ekki verið afgreidd innan sjö daga frá móttöku hennar. Þá bæri að tilkynna skriflega synjun á beiðni, sbr. 13. gr. laganna.

Með vísan til þessa beindi úrskurðarnefndin því til menntamálaráðuneytisins, hefði beiðni kæranda ekki þegar verið afgreidd, að taka ákvörðun um afgreiðslu hennar svo fljótt sem verða mætti og eigi síðar en föstudaginn 16. nóvember 2007. Kysi ráðuneytið að synja kæranda um aðgang að gögnum þeim sem beiðnin lyti að óskaði nefndin jafnframt eftir því að henni yrðu látin í té afrit þeirra innan sama frests. Í því tilviki væri ráðuneytinu einnig veittur kostur á að koma að athugasemdum sínum við kæruna og frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni innan sömu tímamarka.

Umsögn menntamálaráðuneytisins barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál með bréfi, dags. 15. nóvember 2007. Kemur þar fram að ráðuneytið hefði ekki afgreitt beiðni kæranda þegar bréf úrskurðarnefndar barst ráðuneytinu 8. nóvember 2007, þrátt fyrir ákvæði 11. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Í umsögninni segir síðan m.a. svo: „Ráðuneytið lítur svo á að beiðni kæranda sé tilkomin vegna bréfs ráðuneytisins til Menntaskólans við Hamrahlíð, dags. 30. mars 2007, sem hér fylgir með í ljósriti. Til svars kærunni skal upplýst að könnun á skjalasafni ráðuneytisins hefur ekki leitt í ljós skjöl eða gögn, „?sem varða ósk og ákvörðun um að Menntaskólinn við Hamrahlíð geti farið fram á að nemandi nái að lágmarki 10 einingum á önn til að færast yfir á næstu önn.“

Sem fyrr segir barst úrskurðarnefndinni síðan þann 19. desember 2007 afrit af bréfi menntamálaráðuneytisins til kæranda, dags. 5. sama mánaðar. Með því bréfi hafði kæranda jafnframt verið afhent afrit af bréfi menntamálaráðuneytisins til Menntaskólans í Hamrahlíð, dags. 30. mars 2007.

 


Niðurstaða

1.
Eins og fram er komið hafði menntamálaráðuneytið ekki afgreitt beiðni kæranda um aðgang að gögnum þegar kæra máls þessa barst úrskurðarnefndinni. Ráðuneytið hafði enn ekki afgreitt beiðnina þegar bréf nefndarinnar, dags. 6. nóvember 2007, barst því. Í umsögn ráðuneytisins til úrskurðarnefndarinnar, dags. 15. nóvember 2007, kemur fram að könnun á skjalasafni ráðuneytisins hafi ekki leitt í ljós að til væru skjöl eða gögn sem féllu undir þá beiðni um upplýsingar sem kærandi beindi til ráðuneytisins.

Jafnframt liggur fyrir að með bréfi, dags. 5. desember 2007, var kæranda afhent afrit af bréfi menntamálaráðuneytisins til skólameistara Menntaskólans í Hamrahlíð, dags. 30. mars sama ár. Kom sérstaklega fram í bréfi ráðuneytisins til kæranda að athugun á framkvæmd framhaldsskóla á ákvæðum 7. kafla aðalnámskrár, sem lýst væri í umræddu bréfi til skólameistara Menntaskólans við Hamrahlíð hefði ekki verið hrint í framkvæmd. Kæmi það meðal annars til af því að menntamálaráðherra hefði lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um framhaldsskóla og væri fyrirsjáanlegt að við framkvæmd þeirra myndu námskrár fyrir framhaldsskóla verða endurskoðaðar.

 

2.
Samkvæmt framangreindu verður að ganga út frá því að nú liggi fyrir ákvörðun mennta¬málaráðu¬neytisins varðandi upplýsingabeiðni kæranda frá 18. október 2007 og að sú ákvörðun hafi verið birt honum. Ákvörðun ráðuneytisins lá ekki fyrir innan þess frests sem tilgreindur er í 11. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, og þá bera gögn málsins ekki með sér að ráðuneytið hafi sent kæranda sérstakar tilkynningar þar sem greint var frá ástæðum fyrir töfum við meðferð málsins. Þessi framkvæmd ráðuneytisins er ekki í samræmi við ákvæði upplýsingalaga nr. 50/1996. Hér skal þess einnig getið að samkvæmt gögnum málsins virðist ráðuneytið ekki hafa gætt að því við afgreiðslu á beiðni kæranda að taka sérstaka og skýra ákvörðun í máli hans og birta honum hana síðan með skriflegum hætti, sbr. 13. gr. upplýsingalaga. Með því hins vegar að kæranda hefur borist afrit af umsögn ráðuneytisins, dags. 15. nóvember 2007, til úrskurðarnefndarinnar og í ljósi bréfs, dags. 5. desember, sem ráðuneytið ritaði kæranda verður að telja, eins og atvikum þessa sérstaka máls er háttað, að ráðuneytið hafi orðið við ósk kæranda um upplýsingar.

 

3.
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur yfirfarið gögn málsins. Meðal annars kallaði hún eftir og yfirfór afrit gagna í tilteknu stjórnsýslumáli sem verið hafði til meðferðar í ráðuneytinu. Kannað var hvort í þeim gögnum væru upplýsingar um ósk eða ákvörðun varðandi það hvort Menntaskólinn við Hamrahlíð gæti farið fram á að nemandi næði að lágmarki 10 einingum á önn til að færast yfir á næstu önn.

Kæranda hefur verið afhent afrit af bréfi ráðuneytisins til skólameistara Menntaskólans við Hamrahlíð, dags. 30. mars 2007. Ekkert í máli þessu bendir til þess að ástæða sé til að efast um þá fullyrðingu menntamálaráðuneytisins að í skjalasafni þess sé ekki að finna önnur skjöl eða gögn sem fallið geti undir beiðni kæranda.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er stjórnvöldum skylt að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr. laganna. Þá segir í 7. gr. laganna að eigi ákvæði 4.-6. gr. aðeins við um hluta skjals skuli veita almenningi aðgang að öðru efni skjalsins.

Þau gögn sem fyrir liggja og falla undir beiðni kæranda hefur menntamalaráðuneytið nú afhent honum. Af skýringum ráðuneytisins í máli þessu leiðir að önnur gögn sem fallið geta undir beiðni kæranda liggja ekki fyrir í skjalasafni þess.

Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er heimilt að bera synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Kæruheimildin er bundin því skilyrði að ágreiningur sé uppi um annað tveggja: skyldu stjórnvalds til að veita aðgang að gögnum eða skyldu þess til að veita aðgang í formi ljósrits af skjölum eða afrits af öðrum gögnum. Samkvæmt framangreindu hefur menntamálaráðuneytið fallist á beiðni kæranda að fullu. Frekari gögn en þau sem aðgangur hefur þegar verið veittur að og fallið geta undir upplýsingabeiðni kæranda, eru ekki fyrirliggjandi hjá menntamálaráðuneytinu. Ber því að vísa kærunni frá.


Úrskurðarorð:

Kæru [...] á hendur menntamálaráðuneytinu, dags. 5. nóvember 2007,  er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

Friðgeir Björnsson
formaður

 

 

 

                                                Sigurveig Jónsdóttir                              Trausti Fannar Valsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum