Hoppa yfir valmynd
26. febrúar 2008 Forsætisráðuneytið

A 275/2008 Úrskurður frá 26. febrúar 2008

ÚRSKURÐUR


Hinn 26. febrúar 2008 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-275/2008.


Kæruefni og málsmeðferð

Með bréfi, dags. 20. desember 2007, kærði [...] ákvörðun stjórnar Persónuverndar frá 10. s.m. að hafna beiðni kæranda um að látið verði hjá líða að birta á heimasíðu Persónuverndar ákvörðun stjórnar stofnunarinnar nr. [X] um að [...]. Í kæru gerir kærandi jafnframt þá kröfu að úrskurðarnefndin beini þeim fyrirmælum til Persónuverndar að ákvörðunin verði fjarlægð af heimasíðu Persónuverndar nú þegar, a.m.k. þar til endanleg niðurstaða hafi fengist í málinu fyrir úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Til vara er þess krafist að nánar tiltekin gögn og upplýsingar verði felld út úr umræddri ákvörðun stjórnar Persónuverndar. Þá er gerð krafa um það, falli úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingamál kæranda í óhag, að réttaráhrifum úrskurðarins verði frestað með vísan til 2. mgr. 17. gr., sbr. 18. gr. laga nr. 50/1996, þar sem kærandi muni bera úrskurðinn undir dómstóla.

Með bréfi, dags. 21. desember 2007, var kæran var kynnt Persónuvernd og henni veittur frestur til 4. janúar 2008 til að koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Með tölvubréfi dags. þann dag óskaði Persónuvernd eftir frekari fresti til þess að verða við erindi nefndarinnar og var veittur frestur til 9. sama mánaðar. Umsögn Persónuverndar barst nefndinni með bréfi, dags. 7. janúar sl.. Lögmanni kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um umsögn Persónuverndar með bréfi, dags. 11. janúar sl., og honum veittur frestur til 18. janúar sl. Með bréfi, dags. 21. janúar, var veittur frekari frestur til 28. sama mánaðar. Athugasemdir bárust nefndinni þann 28. janúar sl. Með bréfi, dags. 29. janúar fékk Persónuvernd frest til 5. febrúar sl. til þess að gera athugasemdir við umsögn kæranda. Umsögn Persónuverndar barst þann 6. febrúar sl. og var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir til 14. febrúar sl. Athugasemdir hans bárust með bréfi, dags. 12. þess mánaðar.

Nefndarmaðurinn, Trausti Fannar Valsson, er vanhæfur til meðferðar þessa máls, sbr. 6. tölul. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og tók varamaður hans, Símon Sigvaldason, því sæti í nefndinni.

 

Málsatvik

1.
Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að með tölvubréfum frá 28. og 29. nóvember sl. óskaði kærandi eftir því við Persónuvernd að látið yrði hjá líða að birta ákvörðun stjórnar Persónuverndar nr. [X] á heimasíðu stofnunarinnar, en sú ákvörðun fól í sér [...]. Í bréfi Persónuverndar til kæranda, dags. 30. nóvember 2007, segir að með vísan til 7. tölul. 3. mgr. 37. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, telji stofnunin að almennt beri að birta þær ákvarðanir sem teknar séu á hennar vegum. Þá beri til þess að líta að samkvæmt  upplýsingalögum nr. 50/1996 sé almenningi heimill aðgangur að gögnum í stjórnsýslumálum. Í bréfinu segir enn fremur svo: „Í samræmi við nútímavenjur í stjórnsýslu hefur Persónuvernd, líkt og aðrar opinberar stofnanir, tíðkað að nota heimasíðu sína til þess að birta ákvarðanir sínar og telur stofnunin að mjög sérstakar ástæður verði að koma til þess að grundvallarákvörðunum hennar sé haldið leyndum fyrir almenningi.“ Í niðurlagi bréfs Persónuverndar kemur síðan fram að umrædd ákvörðun verði birt nema ljóst sé að einhver efnisatriði í henni falli undir eitthvert af undanþáguákvæðum 4., 5. og 6. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.

Í bréfi til Persónuverndar, dags. 10. desember sl., rökstuddi kærandi kröfu sína frekar m.a. með vísan til 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, en þar er m.a. mælt fyrir um að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.

Á fundi 10. desember 2007 hafnaði stjórn Persónuverndar  umræddri kröfu kæranda. Í samræmi við það var ákvörðun stjórnar Persónuverndar nr. [X] birt á heimasíðu stofnunarinnar 12. sama mánaðar.

 

2.

Í kæru til úrskurðarnefndarinnar bendir kærandi sérstaklega á að í 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 segi það eitt að heimilt sé að bera synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem úrskurði um ágreininginn. Hið sama gildi um synjun stjórnvalds um að veita ljósrit af skjölum eða afrit af öðrum gögnum. Segir í kærunni að það sé afstaða kæranda að af þessu orðalagi verði „ekki gagnályktað á þann veg að ekki sé hægt að kæra aðrar ákvarðanir sem stjórnvald byggir á grundvelli ákvæða upplýsingalaga nr. 50/1996 eins og í þessu máli, þar sem umbj. okkar hefur af því mikla hagsmuni að geta borið undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál þá ákvörðun stjórnvalds að synja beiðni um að hjá verði látið líða að birta gögn sem falla undir ákvæði 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.“  Kærandi telur að orðalag lagagreinarinnar gangi þar með lengra en umsögn í greinargerð með lögunum.

Í umsögn Persónuverndar til úrskurðarnefndarinnar, dags. 7. janúar sl., kemur fram sú afstaða að ákvörðun stjórnar Persónuverndar verði ekki kærð til úrskurðarnefndarinnar þar sem valdsvið hennar afmarkist við að taka til meðferðar synjun stjórnvalds um aðgang að tilteknum gögnum með vísan til 14. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996

Kærandi tekur fram í bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 28. janúar 2008, að hann telji sig hafa sýnt fram á að þeir hagsmunir hans að trúnaðarupplýsingar verði ekki birtar á heimasíðu Persónuverndar vegi mun þyngra en hagsmunir Persónuverndar að birta ákvörðunina í heild sinni, m.a. vegna þess að í ákvörðuninni séu birtar upplýsingar sem ekki virðist liggja til grundvallar hinni efnislegu ákvörðun Persónuverndar á grundvelli laga nr. 77/2000.

Í umsögn Persónuverndar frá 4. febrúar sl. er ítrekað það sjónarmið stofnunarinnar er fram kom í umsögn, dags. 7. janúar sl., og jafnframt vísað til úrskurða úrskurðarnefndar upplýsingamála um valdmörk hennar, m.a. úrskurð, dags. 10. júní 2005, í máli nr. A-208/2005. Einnig er vísað til úrskurðar nefndarinnar í málum nr. A-210/2005, nr. A-239/2007, nr. A-250/2007 og nr. A-251/2007.  

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þeim röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

 


Niðurstaða

Samkvæmt framangreindu lýtur kæra máls þessa að þeirri ákvörðun stjórnar Persónuverndar  frá 10. desember að hafna beiðni kæranda um að látið verði hjá líða að birta á heimasíðu Persónuverndar ákvörðun stjórnar stofnunarinnar nr. [X]. Til vara að tiltekin gögn og upplýsingar, sem lýst er nánar í kæru, verði fjarlægðar og felldar út úr ákvörðun nr. [X] á heimasíðu Persónuverndar. Falli úrskurður úrskurðarnefndar upplýsingamála kæranda í óhag er þess krafist að réttaráhrifum ákvörðunar verði frestað með vísan til 2. mgr. 17. gr., sbr. 18. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Þá er og þess krafist í kæru að úrskurðarnefndin beini þeim fyrirmælum til Persónuverndar að ákvörðun nr. [X] verði fjarlægð nú þegar af heimasíðu stofnunarinnar, a.m.k. þar til endanleg niðurstaða nefndarinnar liggi fyrir.

Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er heimilt að bera synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Kæruheimildin er bundin því skilyrði að ágreiningur sé uppi um annað tveggja: skyldu stjórnvalds til að veita aðgang að gögnum eða skyldu þess til að veita aðgang í formi ljósrits af skjölum eða afrits af öðrum gögnum. Þá leiðir það ennfremur af 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga, eins og þeim var breytt með 2. gr. laga nr. 161/2006, að sá sem fer fram á aðgang að gögnum getur annað hvort afmarkað beiðni sína við tiltekin gögn máls eða gögn um tiltekið mál án þess að tilgreina einstök gögn sem málið varða.

Eins og lýst er í málavöxtum var kæranda ekki synjað um aðgang að tilteknum gögnum, heldur var synjað þeirri kröfu hans að ákvörðun stjórnvalds í máli hans yrði ekki birt á heimasíðu þess. Heimild í 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga til að kæra ákvörðun stjórnvalds til úrskurðarnefndar um upplýsingamál er skýrt afmörkuð við synjun stjórnvalds um aðgang gögnum. Synjun stjórnvalds á kröfu um að tilteknar upplýsingar eða gögn verði ekki birt eða að slík birting verði takmörkuð að einhverju leyti fellur augljóslega utan þeirrar afmörkunar. Af því leiðir að slík ákvörðun verður ekki borin undir úrskurðarnefndina. Með vísan til þessa ber að vísa frá úrskurðarnefndinni kæru á ákvörðun stjórnar Persónuverndar frá 10. desember 2007 í máli kæranda þar sem hafnað var kröfu um að látið yrði hjá líða að birta ákvörðun stjórnarinnar nr. [X] á heimasíðu stofnunarinnar. Af framangreindri skýringu á kæruheimild í 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga leiðir að það er ekki á valdsviði úrskurðarnefndarinnar að taka efnislega afstöðu til annarra krafna sem kærandi hefur haft uppi og ber því einnig að vísa þeim frá kærunefndinni.

 


Úrskurðarorð

Kæru [...] frá 20. desember 2007 er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

 


Friðgeir Björnsson
formaður

 

 


                                           Símon Sigvaldason                                         Sigurveig Jónsdóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum