Hoppa yfir valmynd
21. desember 2007 Forsætisráðuneytið

A 272/2007 Úrskurður frá 21. desember 2007

ÚRSKURÐUR

Hinn 21. desember 2007 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-272/2007.


Kæruefni

Með kæru, dags. 5. nóvember 2007, kærði [...] synjun Hafnarfjarðarbæjar á beiðni hans um aðgang að tilteknu skjali með upplýsingum um álögð gjöld vegna framkvæmda á lóðinni [X] í sveitarfélaginu.

Með bréfi, dags. 7. nóvember 2007, var kæran kynnt Hafnarfjarðarbæ. Umsögn sveitarfélagsins barst nefndinni með bréfi, dags. 15. nóvember sama ár. Fylgdi henni, auk annarra gagna, afrit af því skjali sem beiðni kæranda beinist að. Kæranda var með bréfi, dags. 19. nóvember 2007, veittur frestur til 29. sama mánaðar til að tjá sig um umsögn Hafnarfjarðarbæjar. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 28. nóvember 2007.

 


Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þau að með beiðni, dags. 22. október 2007, óskaði kærandi eftir aðgangi að tilteknu skjali með upplýsingum um álögð gjöld Hafnarfjarðarbæjar vegna framkvæmda á lóðinni [X] í Hafnarfirði. Í beiðninni kom nánar tiltekið fram að farið væri fram á afrit af skjali vegna framkvæmda á framangreindri lóð, sem væri sambærilegt við ljósrit af skjali sem fylgdi kærunni en laut að álagningu gjalda vegna framkvæmda á annarri lóð í sveitarfélaginu.

Af gögnum málsins sést að beiðni kæranda lýtur að skjali sem Hafnarfjarðarbær gaf út 25. september 2007 vegna umsóknar um leyfi til að stækka hús á lóðinni og byggja þar nýja bílageymslu. Kemur fram í skjalinu að skipulags- og byggingarfulltrúi bæjarins samþykki umsóknina auk þess sem þar eru tilgreind tiltekin gjöld er gera þarf skil á til sveitarfélagsins áður en heimilt er að hefja framkvæmdir.

Hafnarfjarðarbær synjaði beiðni kæranda með bréfi, dags. 24. október 2007, með vísan til 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.

Í umsögn Hafnarfjarðarbæjar til úrskurðarnefndarinnar kemur fram að beiðnin hafi verið metin svo að hún tæki til gagns er varðaði fjárútlát einstaklings til sveitarfélagsins vegna framkvæmda og teldist því til fjárhagsmálefna einstaklings sem sanngjarnt væri að færu leynt. Segir jafnframt í umsögninni að kærandi geti kynnt sér gjaldskrár sem gjaldtakan byggist á, en þær séu aðgengilegar á heimasíðu Hafnarfjarðarbæjar.

 


Niðurstaða

Með umsögn Hafnarfjarðarbæjar, dags. 15. nóvember 2007, barst nefndinni m.a. afrit af því skjali sem beiðni kæranda lýtur að. Er þar getið um fjárhæðir tiltekinna gjalda sem greiða þurfi sveitarfélaginu áður en heimilt er að hefja þær framkvæmdir á lóðinni sem sótt hafði verið um.
Meginregla upplýsingalaga um aðgang almennings að gögnum hjá stjórnvöldum kemur fram í 3. gr. laganna. Sá upplýsingaréttur sem þar er kveðið á um sætir takmörkunum samkvæmt nánari fyrirmælum 4.-6. gr. upplýsingalaga. Í máli þessu reynir á hvort þær upplýsingar sem fram koma á umræddu skjali teljist upplýsingar um einkamálefni sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, sbr. 5. gr. laganna.
Eins og fram kemur í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál í máli A-236/2006 verður ekki talið að upplýsingar um það hvort einstaklingur, lögaðili eða opinber aðili hafi fengið útgefið leyfi til byggingar íbúðarhúsnæðis eða húsnæðis fyrir starfsemi sína samkvæmt framlögðum teikningum séu þess eðlis að þær skuli fara leynt skv. 5. eða 6. gr. upplýsingalaga. Öryggishagsmunir opinberra aðila, sbr. 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga geta leitt til þess að takmarka beri aðgang almennings að upplýsingum um opinberar byggingar vegna þeirrar starfsemi sem þar á sér stað. Ljóst er að það sama getur átt við um fyrirtæki og lögaðila sem reka þannig starfsemi að eðlilegt og sanngjarnt sé að aðgangur almennings að upplýsingum um innra skipulag bygginga þeirra sé takmarkaður. Sömu sjónarmið geta einnig átt við um íbúðarhúsnæði einstaklinga, enda hafi einstaklingur tilefni til þess ætla að öryggi hans sé betur tryggt með því að takmarkaður sé aðgangur almennings að upplýsingum um innra skipulag heimilis hans. Þá er ekki útilokað að einstakar upplýsingar um persónu manns eða fjölskylduhagi, sem fram koma í slíkum gögnum, geti verið með þeim hætti að sanngjarnt sé og eðlilegt að þær fari leynt.
Samkvæmt fyrri málslið 5. gr. upplýsingalaga er óheimilt að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari nema sá samþykki sem í hlut á. Í skýringum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum kemur fram að það myndi takmarka mjög upplýsingaréttinn ef allar upplýsingar, sem snerta einkahagsmuni einstaklinga væru undanþegnar. Er þeirri stefnu fylgt að láta meginregluna um upplýsingarétt taka til slíkra upplýsinga en með þeim takmörkunum sem gera verður m.a. til að tryggja friðhelgi einkalífs, sbr. 5. gr. Upplýsingarétturinn verður almennt ekki takmarkaður samkvæmt ákvæðinu nema að undangengnu mati stjórnvalds á því hvort hætta sé á að þeir hagsmunir, sem þar eru tilgreindir, skaðist ef upplýsingarnar eru veittar.
Það skjal sem hér um ræðir inniheldur aðeins upplýsingar um álögð gjöld vegna umsóknar um tilteknar framkvæmdir á lóðinni [X] í Hafnarfirði. Eins og rakið var hér að framan hefur ekki verið talið að upplýsingar um það hvort einstaklingur, lögaðili eða opinber aðili hafi fengið útgefið leyfi til byggingar íbúðarhúsnæðis eða húsnæðis fyrir starfsemi sína samkvæmt framlögðum teikningum séu þess eðlis að þær skuli fara leynt skv. 5. eða 6. gr. upplýsingalaga. Almennt verður heldur ekki séð að upplýsingar um fermetrafjölda, eða rúmmál bygginga séu þess eðlis að þær skuli leynt fara á grundvelli þeirra ákvæða, nema sérstök sjónarmið komi til, sbr. framangreint. Þau gjöld sem tilgreind eru á því skjali sem beiðni kæranda lýtur að byggjast á gjaldskrám Hafnarfjarðarbæjar vegna yfirferða á uppdráttum og úttektum vegna byggingarframkvæmda og byggingarleyfisgjöldum. Síðastgreinda gjaldtakan tekur samkvæmt gjaldskrá bæjarins mið af rúmmáli þeirra bygginga sem um ræðir. 
Með vísan til atvika máls þessa og framlagðra gagna verður ekki talið að upplýsingar þær sem fram koma á umbeðnu skjali séu þess eðlis að rétt sé að takmarka aðgang að þeim á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga. Hafnarfjarðarbæ ber því að veita kæranda afrit af umbeðnu skjali.


Úrskurðarorð:

Hafnarfjarðarbær skal veita kæranda, [...], aðgang að skjali, útgefnu 25. september 2007, sem inniheldur upplýsingar um álögð gjöld vegna leyfis fyrir stækkun á húsi og byggingu nýrrar bílageymslu á lóðinni [X] í Hafnarfirði.

 

 


Friðgeir Björnsson,
formaður

 

 

 

                                              Sigurveig Jónsdóttir                                     Trausti Fannar Valsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum