Hoppa yfir valmynd
21. desember 2007 Forsætisráðuneytið

A 271/2007 Úrskurður frá 18. desember 2007

ÚRSKURÐUR

Hinn 18. desember 2007 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu A-271/2007.

 

Kæruefni

Með kæru, dags. 31. október 2007, kærði [...], synjun Reykjavíkurborgar á beiðni hans um aðgang að staðfestri launaáætlun og/eða afriti af launaáætlun, sem nefnd hefði verið við kæranda og honum sýnd í atvinnuviðtali [...] vegna starfs [...] hjá [X-sviði] Reykjavíkur.

Með bréfi, dags. 5. nóvember 2007, var kæran kynnt Reykjavíkurborg. Umsögn [X-sviðs] Reykjavíkur barst nefndinni með bréfi, dags. 17. nóvember sama ár. Kæranda var með bréfi, dags. 29. nóvember 2007, veittur frestur til 12. desember 2007 til að tjá sig um umsögn borgarinnar. Athugasemdir kæranda bárust nefndinni með bréfi, dags. 11. desember sama ár.

 


Málsatvik

Samkvæmt framlögðum gögnum eru málsatvik í stuttu máli þau að 13. ágúst 2007 lagði kærandi fram umsókn um starf [...] hjá [X-sviði] Reykjavíkur. Atvinnuviðtal við kæranda vegna umsóknarinnar fór fram [...]. Kærandi fékk ekki starfið.

Með tölvupósti 12. október 2007 fór kærandi þess á leit við [X-svið] Reykjavíkur að fá launaáætlun, sem nefnd hefði verið við hann í starfsviðtali [...], staðfesta. Var sú beiðni ítrekuð af hans hálfu með tölvupósti til yfirlögfræðings sviðsins 16. október 2007, og þar vísað til stuðnings beiðninni til ákvæða 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 9. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.

Svar yfirlögfræðingsins barst kæranda með tölvupósti 29. október 2007. Kemur þar fram að ekki sé unnt að verða við beiðni um staðfestingu á launaáætlun sem nefnd hefði verið í tilvísuðu atvinnuviðtali. Ekki séu útbúnar launaáætlanir fyrir þá aðila sem ekki séu ráðnir í starf. Þá er tekið fram í svarinu að vandséð sé hvernig 15. gr. stjórnsýslulaga, um upplýsingarétt, geti átt við um umrætt tilvik þar sem ekki sé um það að ræða að nein slík gögn hafi verið lögð fram í starfsviðtalinu. Hið sama gildi jafnvel enn frekar um tilvísun til ákvæða upplýsingalaga nr. 50/1996.

Ekki virðist um það deilt að í atvinnuviðtali við kæranda hafi legið frammi umsóknargögn þau sem kærandi lagði fram með umsókn sinni. Auk þess kemur fram í kæru að honum hafi í viðtalinu verið sýnd launaáætlun vegna starfs [...] þar sem fram hafi  komið að fyrir 100% starf [...] hjá [X-sviði] Reykjavíkur væru áætluð mánaðarlaun [...] u.þ.b. 180.000 kr., í ljósi menntunar kæranda sem guðfræðings frá guðfræðideild Háskóla Íslands, sem og lögbundinnar kandidatsþjálfunar hans. Í minnispunktum sem fylgdu umsögn [X-sviðs] Reykjavíkur kemur á hinn bóginn fram að blað með launatöflu kjarasamnings Starfsmannafélags Reykjavíkur hafi verið í gögnum þeirra sem tóku viðtalið og að það hafi verið tekið fram þegar rætt var um launamál starfs [...]. Í umræddum minnispunktum kemur enn fremur fram að kæranda hafi verið sýnd launatafla Starfsmannafélags Reykjavíkur og Reykjavíkurborgar en ekki launaáætlun.

Í athugasemdum kæranda vegna umsagnar [X-sviðs] kemur fram að beiðni hans lúti ekki að sérútbúinni launaáætlun fyrir hann. Þvert á móti sé það tilgangur beiðninnar að fá „fyrirhuguð nefnd laun, sem koma fram á [...] launatöflu/lista, staðfest skriflega og/eða afrit af viðkomandi launatöflu/lista, sem felur í sér staðfest afrit, með stimpli stofnunarinnar og dagsetningu, og merkt með áherslupenna við hin fyrirhuguðu laun, sem nefnd voru við kæranda og voru að finna á fyrrnefndri launatöflu/lista, sem kæranda var sýnd í atvinnuviðtalinu þann [...]...“. Segir síðar í athugasemdum kæranda að beiðni hans lúti að því að fá annað tveggja: „Skriflega staðfestingu á hinum fyrirhuguðu launum, sem finna má á launatöflunni. Eða, að fá afrit af fyrrnefndri launatöflu (og myndi kærandi ekki telja þann kost síðri), og þá staðfest afrit af launatöflunni, merkt stimpli stofnunarinnar ásamt dagsetningu, og merkt með áherslupenna við þau laun, sem nefnd voru við kæranda u.þ.b. kr. 180.000, og honum sýnd á launatöflunni, í fyrrnefndu atvinnuviðtali...“.

 

 

Niðurstaða

1.
Samkvæmt framangreindu lýtur beiðni kæranda um upplýsingar að því að fá skriflega staðfestingu [X-sviðs] Reykjavíkur á þeim launum sem honum hefðu boðist hjá embættinu hefði hann fengið það starf [...] sem hann sótti um 13. ágúst 2007 og nefnd voru við hann í starfsviðtali [...]. Í athugasemdum sem kærandi lét úrskurðarnefndinni í té með bréfi, dags. 11. desember sl., hefur hann skýrt ósk sína um aðgang að gögnum svo að hún lúti að því að fá annað tveggja, skriflega staðfestingu á fyrirhuguðum launum hans vegna umrædds starfs, eða staðfest afrit af launatöflu sem honum var sýnd í atvinnuviðtali [...], þar sem sérstaklega sé merkt við þá launatölu sem nefnd hafi verið við hann í viðtalinu.

 

2.
Samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er stjórnvöldum skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að skjölum og öðrum gögnum sem varða tiltekið mál ef þau hafa að geyma upplýsinga um hann sjálfan, með þeim takmörkunum sem leiða af 2. og 3.  mgr. sömu greinar.  Í 1. mgr. 10. gr. sömu laga, eins og henni var breytt með 2. gr. laga nr. 161/2001, segir enn fremur að sá sem fer fram á aðgang að gögnum skuli tilgreina þau gögn máls sem hann óski að kynna sér. Þá geti hann óskað eftir að fá að kynna sér öll gögn um tiltekið mál án þess að tilgreina einstök  gögn sem  málið varða. Samkvæmt þessu nær réttur samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga til aðgangs að gögnum sem eru fyrirliggjandi í tilteknu máli ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan. Upplýsingalög veita einstaklingi á hinn bóginn ekki rétt til að krefjast þess af stjórnvöldum að þau útbúi fyrir hann sérstök gögn með upplýsingum sem hann hefur áhuga á að fá hjá viðkomandi stjórnvaldi.
Í 1. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1996 er kveðið á um það að heimilt sé að bera synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem úrskurði um ágreininginn. Hið sama gildir um synjun stjórnvalds um að afhenda ljósrit af skjölum eða afrit af öðrum gögnum. Í skýringum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum er tekið fram að kæruheimildin sé bundin því skilyrði að ágreiningur sé uppi um annað tveggja, skyldu stjórnvalds til þess að veita aðgang að gögnum eða skyldu þess til að veita aðgang í formi ljósrits af skjölum eða afrits af öðrum gögnum. Af fyrirliggjandi gögnum verður ekki séð að Reykjavíkurborg hafi synjað kæranda um aðgang að gögnum í skilningi upplýsingalaga heldur hafi borgin ekki staðfest skriflega þær upplýsingar sem beðið var um, sem er synjun annars eðlis og á ekki undir lög nr. 50/1996.

 

3.
Með vísan til þess sem að framan segir um 1. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1996 og skýringar við ákvæðið ber að vísa kæru þeirri sem hér er til umfjöllunar frá nefndinni.
Það er utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1996, að taka afstöðu til þess hvort Reykjavíkurborg beri að verða við beiðni kæranda um skriflega staðfestingu á launakjörum sem hann kynni að hafa notið hefði hann fengið umsótt starf [...] hjá [X-sviði] Reykjavíkur og hann telur að hafi komið fram í atvinnuviðtali vegna starfsins [...].


Úrskurðarorð:


Kæru [...], frá 31. október sl., er vísað frá.

 

 

 

 

Friðgeir Björnsson
formaður

 

 

 


                                                      Sigurveig Jónsdóttir                              Trausti Fannar Valsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum