Hoppa yfir valmynd
3. október 2007 Forsætisráðuneytið

A 265/2007 Úrskurður frá 20. september 2007

ÚRSKURÐUR

Hinn 20. september 2007 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-265/2007.

 

Kæruefni

Með bréfi, dags. 25. júní sl., kærðu [...] synjun Mosfellsbæjar, dags. 9. júní sl., um aðgang að gögnum vegna rannsókna á tímabilinu 1994-2005, sem Mosfellsbær hafi byggt á ákvörðun sína um lagningu tengibrautar frá Helgafellslandi, um Álafosskvos að Vesturlandsvegi.
Með bréfi, dags. 26. júní sl., var kæran kynnt Mosfellsbæ og honum veittur frestur til föstudagsins 6. júlí sl. til að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Jafnframt var þess óskað að Mosfellsbær léti nefndinni í té afrit þeirra gagna sem kæran laut að innan sama frests. Veittur var viðbótarfrestur til 17. júlí sl.
Umsögn lögmanns Mosfellsbæjar barst nefndinni með bréfi, dags. 16. júlí sl. Kærendum var gefinn kostur á að tjá sig um umsögnina með bréfi, dags. 19. júlí sl., og veittur frestur til miðvikudagsins 1. ágúst sl. til að koma á framfæri frekari athugasemdum við hana.
Athugasemdir kærenda bárust með tölvubréfi hans, dags. 19. júlí sl., og með bréfum, dags. 23. og 25. sama mánaðar.

 

Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að með bréfi, dags. 22. febrúar sl., fór annar kærenda þess á leit að Mosfellsbær léti honum í té „... afrit af þeim gögnum sem styðja ákvörðun bæjaryfirvalda í Mosfellsbæ um staðsetningu tengibrautar“ úr Helgafellslandi um Álafossveg að Vesturlandsvegi. Til stuðnings beiðninni er rakið að samkvæmt yfirlýsingum bæjarfulltrúa og embættismanna bæjarins hefðu áralangar rannsóknir sérfræðinga og fagaðila stutt staðarval tengibrautarinnar. Jafnframt var þess óskað að látin yrðu í té afrit af útreikningum á kostnaði vegna annarra leiða, sem til ættu að vera. Í svarbréfi bæjarritara Mosfellsbæjar, dags. 9. júní sl., er rakið að honum sé ekki kunnugt um að „sérstaklega séu til samantekin þau gögn“ sem óskað hafi verið eftir eða að sérstakt erindi hafi verið til meðferðar í stjórnsýslunni þar sem umbeðin gögn hafi verið lögð fram. Þar sem ekki væri að finna skýra tilvitnun í afgreiðslunúmer eða heiti þess erindis sem umbeðin gögn kynnu að hafa verið hluti af væri ekki unnt að verða við beiðninni. Í bréfi bæjarritarans er ennfremur að finna upplýsingar um gögn, sem að mati hans geti varðað beiðnina.
Í umsögn lögmanns Mosfellsbæjar er fullyrt að kærendum hafi aldrei verið neitað um aðgang að gögnunum. Er tekið fram að af hálfu Mosfellsbæjar hafi aldrei verið ljóst hvaða gögn kærendur væru nákvæmlega að biðja um. Umrædd tengibraut hafi verið sýnd í aðalskipulagi Mosfellsbæjar allt frá árinu 1983. Gríðarlegt magn gagna væri til um málið, „verkfræðigögn ýmis konar, rannsóknir, mælingar o.s.frv.“ Eins og kæran sé orðuð séu kærendur að biðja um óheyrilegt magn af gögnum. Í því felist mikil fyrirhöfn fyrir fámennt starfslið Mosfellsbæjar að fara í gegnum allt gagnasafn bæjarins og taka afrit af þeim gögnum sem kærendur myndu hugsanlega vilja fá og yrði bærinn að fá utanaðkomandi aðstoð við verkið, sbr. 5. gr. gjaldskrár nr. 838/2004. Eðlilegast sé að kærendur upplýstu með nákvæmari hætti hvaða gögn það séu sem þeir óski eftir afriti af. Jafnframt er tekið fram að kærendum hafi ávallt staðið til boða að koma á bæjarskrifstofuna og fara í gegnum gögn og fá síðan ljósriti af þeim gögnum sem þeir óskuðu. Með því verklagi væri unnt að takmarka kostnað kærenda af beiðninni. Þá er bent á að æskilegt sé að kærendur hafi samband við tilgreindan starfsmann bæjarins til þess að fara í gegnum þau gögn sem til séu og eftir atvikum fá ljósrit af þeim gögnum sem þeir óski eftir að fá afrit af. Loks segir í niðurlagi umsagnarinnar að þar sem kærendum hafi aldrei verið neitað um aðgang að umræddum gögnum og óljóst sé hvaða gögn það séu nákvæmlega sem þeir vilji fá aðgang að telji Mosfellsbær ekki tilefni til þess, a.m.k. að svo stöddu, að afhenda úrskurðarnefndinni í trúnaði afrit af þeim gögnum sem kærendur væru að biðja um.
Í athugasemdum kærenda í tölvubréfi, dags. 19. júlí sl., er vísað til þess að umbeðin gögn séu nefnd í gögnum til Skipulagsstofnunar, í fjölmiðlum og á opnum fundum í bæjarfélaginu. Í athugasemdum kærenda, dags. 23. júlí sl., sé einnig bent á að samkvæmt yfirlýsingum bæjarverkfræðings Mosfellsbæjar í fjölmiðlum, í netpóstsamskiptum og á opnum íbúafundi í febrúar 2007 hafi verið vísað til kostnaðaráætlunar við gerð stokks undir Ásland í Mosfellsbæ. Í viðbótarathugsemdum kærenda 25. júlí 2007 eru samskipti kærenda við stjórnendur í Mosfellsbæ rakin. Í niðurlagi bréfsins er sérstaklega vísað til þess að í þeim tilgangi að auðvelda Mosfellsbæ að verða við beiðni þeirra óski þau eftir aðgangi að dagbókarfærslum sem lúta að gögnum málsins og lista yfir málsgögn, sbr. 3. tölul. 3. gr. upplýsingalaga.
Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður í úrskurði þessum ekki gerð frekari grein fyrir þeim röksemdum og sjónarmiðum aðila sem fram hafa komið, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

 

Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga, sbr. 1. gr. laga nr. 161/2006, tekur upplýsingaréttur almennings til þess að fá aðgang að fyrirliggjandi gögnum hjá stjórnvöldum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr. Í 2. mgr. 3. gr. eru tilgreind þau gögn sem þessi réttur nær til. Þá kemur fram í 1. mgr. 10. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 161/2006, að sá sem fer fram á aðgang að gögnum skuli annaðhvort afmarka beiðni sína við tiltekin gögn máls eða við öll gögn tiltekins máls án þess að tilgreina einstök gögn þess. Í skýringum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum, og ennfremur í lögum nr. 161/2006, kemur fram að í beiðni verði „... að tilgreina gögnin eða málið með það glöggum hætti að stjórnvöldum sé fært að hafa uppi á gögnunum eða málinu.“
Í beiðni kærenda, dags. 22. febrúar sl., eins og hún er afmörkuð, er vísað til ótilgreindra gagna sem ákvörðun Mosfellsbæjar um staðsetningu tengibrautar hafi byggst á og útreikninga á kostnaði vegna annarra leiða. Samkvæmt þessu verður við það að miða að kærendur óski eftir því að fá að kynna sér tiltekin gögn máls vegna undirbúnings umræddrar ákvörðunar Mosfellsbæjar. Reynir því á hvort kærendur hafi í beiðni sinni tilgreint með nægilega glöggum hætti þau gögn sem þau hafi óskað eftir að kynna sér. Af hálfu bæjarins er á því byggt að ekki liggi fyrir synjun hans um aðgang að umbeðnum gögnum, heldur hafi ekki verið unnt að verða við beiðni kærenda, eins og hún var úr garði gerð, vegna umfangs hennar og að ekki hafi verið tilgreind nákvæmlega þau gögn sem óskað hafi verið eftir aðgangi að.
Samkvæmt fyrri málslið 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga er „heimilt ... að bera synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem úrskurðar um ágreininginn.“ Þegar virtir eru málavextir í máli þessu, hvernig beiðni kærenda er úr garði gerð og viðbrögð Mosfellsbæjar við henni verður ekki annað ráðið en að ekki sé fullreynt, hvort kærendum hafi verið synjað um aðgang að gögnum. Á þetta einnig við þau gögn sem kærendur tilgreindu sérstaklega í þeim athugasemdum sem þeir gerðu í bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 25. júlí, sl., þ.e. dagbókarfærslur sem lúta að gögnum málsins og lista yfir málsgögn. Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ekki liggi fyrir synjun um afhendingu gagna samkvæmt upplýsingalögum. Ber því að vísa kærunni frá.
Samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ber stjórnvöldum að veita aðila nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar, eftir því sem við verður komið, reynist beiðni ónákvæm. Kærandi getur því snúið sér á ný til Mosfellsbæjar eins og rakið er í umsögn lögmanns bæjarins og leitað eftir leiðbeiningum og aðstoð við að afmarka erindi sitt nánar þannig að Mosfellsbær geti tekið efnislega afstöðu til þess.

 

Úrskurðarorð:

Kæru [...] er vísað frá.


Friðgeir Björnsson
varaformaður


                               Sigurveig Jónsdóttir                                                                   Þorgeir Ingi Njálsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum