Hoppa yfir valmynd
16. ágúst 2007 Forsætisráðuneytið

A 264/2007 Úrskurður frá 27. júní 2007

A-264/2007 Úrskurður frá 27. júní 2007


ÚRSKURÐUR

Hinn 27. júní 2007 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-264/2007.

 

Kæruefni

Hinn 31. maí 2007 kærði [...], synjun Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf. 3. maí sl. um afrit allra gagna um aðdraganda samningsgerðar fyrirtækisins við [A] ehf. um verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf., þ.m.t. afrit af samningi milli fyrirtækjanna um reksturinn.

 

Málsatvik

Samkvæmt framlögðum gögnum kæranda eru atvik málsins í stuttu máli þau að í tilefni af samningi Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf. við fyrirtækið [A] ehf. um verslunarrekstur í flugstöðinni átti lögmaður kæranda í bréfaskiptum við fyrirsvarsmenn Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf. um samningsgerðina og aðdraganda hennar. Með bréfi, dags. 13. apríl sl., óskaði lögmaður kæranda eftir upplýsingum og gögnum um aðdraganda samningsgerðarinnar og afriti af samningi fyrirtækjanna. Forstjóri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf. hafnaði beiðninni með bréfi, dags. 3. maí sl., þar sem um trúnaðarmál sé að ræða milli samningsaðila.

 

Niðurstaða

Kæra þessi er tekin til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna, sbr. 18. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. upplýsingalaga taka ákvæði þeirra til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins taka lögin ennfremur til starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur verið falið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Í skýringum við 1. gr. frumvarps þess er varð að upplýsingalögum er rakið að lögin taki til þeirrar starfsemi sem heyri undir framkvæmdarvaldið samkvæmt þrískiptingu ríkisvaldsins. Þá er tekið fram að lögin taki einnig til þeirrar starfsemi einkaaðila sem lýtur að því að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Síðan segir í skýringunum: „Að öðru leyti gilda lögin ekki um einkaaðila, en undir hugtakið „einkaaðilar“ falla m.a. félög einkaréttarlegs eðlis, eins og hlutafélög og sameignarfélög, þótt þau séu í opinberri eigu. Ef rekstrarformi opinberrar stofnunar hefur t.d. verið breytt í hlutafélagsform fellur hlutafélagið sem slíkt utan gildissviðs laganna, jafnvel þótt það sé að öllu leyti í eigu ríkis eða sveitarfélags, nema því hafi verið falið sérstakt stjórnsýsluhlutverk, þ.e. að taka ákvarðanir, í skjóli stjórnsýsluvalds, um rétt eða skyldu manna.“
Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. fer með starfsemi Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli á grundvelli laga nr. 76/2000 um stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar, reglugerðar nr. 766/2000, um starfsemi, skyldur og eftirlit með Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli, og rekstrarleyfis sem utanríkisráðherra veitir, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 766/2000. Samkvæmt lögum nr. 76/2000 hefur Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. ekki verið fengið stjórnsýsluhlutverk í framangreindri merkinu. Þá er ekki heldur að finna í þeim lögum sérstök fyrirmæli um að ákvæði upplýsingalaga eigi við um hlutafélagið, líkt og ákveðið er í 2. mgr. 12. gr. laga nr. 6/2007 um Ríkisútvarpið ohf.
Samkvæmt framansögðu fellur úrlausn kæruefnisins utan gildissviðs upplýsingalaga og ber því að vísa kæru þessari frá nefndinni.


Úrskurðarorð:

Kæru [...] á hendur Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. er vísað frá.

 


Páll Hreinsson
formaður

 

                                             Friðgeir Björnsson                                         Sigurveig Jónsdóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum