Hoppa yfir valmynd
16. ágúst 2007 Forsætisráðuneytið

A 262/2007 Úrskurður frá 27. júní 2007

A-262/2007 Úrskurður frá 27. júní 2007


ÚRSKURÐUR

Hinn 27. júní 2007 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-262/2007.

 

Kæruefni

Með tölvubréfi, dags. 13. apríl sl., kærði [...] synjun Ríkisútvarpsins ohf. frá sama degi um aðgang að upplýsingum um heildarkostnað félagsins vegna kaupa á sýningarrétti EM í knattspyrnu og heildarkostnað vegna kaupa á sjónvarpsþáttunum Lost, Desperate Housewives og The Sopranos.
Með bréfi, dags. 16. apríl sl., var kæran kynnt Ríkisútvarpinu ohf. og því veittur frestur til 26. apríl sl. til að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. apríl sl. Jafnframt var þess óskað að ráðuneytið léti nefndinni í té afrit þeirra gagna sem kæran laut að innan sama frests. Með bréfi, dags. 24. apríl sl., var fresturinn framlengdur til 3. maí sl. og með bréfi, dags. 2. maí sl., var viðbótarfrestur veittur til 7. maí sl. Umsögn Ríkisútvarpsins ohf. barst úrskurðarnefnd með bréfi dagsettu sama dag.
Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um umsögn Ríkisútvarpsins ohf. með bréfi, dags. 9. maí sl. Athugasemdir kæranda bárust nefndinni með bréfi lögmanns hans, dags. 22. maí sl. Bréf kæranda var kynnt Ríkisútvarpinu ohf. 19. júní sl. og eru athugasemdir félagsins af því tilefni, dags. 21. júní sl. Athugasemdir félagsins voru kynntar kæranda með tölvubréfi, dags. 23. júní.

 

Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að með tölvubréfi, dags. 3. apríl sl., óskaði kærandi „ ... eftir upplýsingum um heildarkostnað RÚV vegna kaupa á sýningarrétti á EM í knattspyrnu, heildarkostnað RÚV vegna kaupa á, í fyrsta lagi sjónvarpsþáttunum Lost, í öðru lagi, Desparate Housewives, og í þriðja lagi, The Sopranos.“ Með tölvubréfi, dags. 13. apríl sl., hafnaði útvarpsstjóri beiðni kæranda „ ... um aðgang að upplýsingum varðandi kostnað RÚV vegna kaupa á sýningarrétti á EM í knattspyrnu, Lost, Desperate Housewives og The Sopranos ...“ með vísan til 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga og að félagið hefði undirgengist að virða trúnað um fjárhags- og viðskiptahagsmuni viðsemjenda sinna, sbr. 5. gr. upplýsingalaga.
Í umsögn Ríkisútvarpsins ohf. kemur fram að félagið skilji beiðni kæranda þannig að óskað sé upplýsinga um innkaupsverð tiltekins sýningarefnis. Ekki liggi fyrir í afmörkuðu skjali upplýsingar um rekstrarkostnað tengdum sýningu efnisins. Byggt sé á því að félaginu hafi verið óheimilt að veita aðgang að umbeðnum upplýsingum, sbr. 2. málsl. 5. gr. upplýsingalaga, auk þess sem synjunin eigi sér stoð í 3. tölul. 6. gr. laganna. Óumdeilt sé að félagið annist útvarpsþjónustu í samkeppni við aðrar útvarpsstöðvar í eigu einkaaðila, þ.m.t. 365 hf. Í umsögn félagsins er rakinn 2. málsl. 5. gr. upplýsingalaga, ásamt lögskýringargögnum, og vísað til úrskurða úrskurðarnefndar um skýringu ákvæðisins. Að mati félagsins sé ljóst að umbeðnar upplýsingar teljist til viðkvæmra upplýsinga um rekstrar- og samkeppnisstöðu þeirra aðila sem í hlut eiga, þ.e. viðsemjenda þess, og verði aðgangur veittur að þeim sé slíkt auðveldlega til þess fallið að valda þeim tjóni. Seljendur sjónvarpsefnis leggi verulega áherslu á að kaupverð, og aðrar viðlíka upplýsingar, séu trúnaðarmál. Til skýringar er í umsögn félagsins vísað til samningsskilmála í samningum vegna kaupa á sýningarrétti EM í knattspyrnu og samninga vegna sýninga á sjónvarpsþáttunum Desperate Housewives og The Sopranos. Við kaup á umræddu efni verði starfsemi félagsins gagnvart viðsemjendum þess jafnað til starfsemi einkaaðila á samkeppnismarkaði. Til stuðnings kröfu sinni um að synjun þess verði staðfest er ennfremur vísað til úrskurða úrskurðarnefndar í málum A-238/2007 og A-220/2005. Að því er varði tilvísun Ríkisútvarpsins ohf. til 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga sé ljóst að aðgangur að umbeðnum upplýsingum sé ótvírætt til þess fallinn að skaða samkeppnis- og rekstrarstöðu þess gagnvart samkeppnisaðilum, þ.m.t. 365 hf. Verði félaginu gert skylt að veita aðgang að umræddum upplýsingum standi félagið ekki jafnfætis öðrum samkeppnisaðilum um kaup á sjónvarpsefni og samkeppnisaðilar fái þar með nákvæmar upplýsingar um öll verð og kjör Ríkisútvarpsins ohf. Bendir félagið á að í samkeppnisrétti sé lögð mikil áhersla á að keppinautar séu í öllum markaðsaðgerðum sínum sjálfstæðir. Eigi það ekki síst við vegna þess að ákveðin óvissa um aðgerðir og getu keppenda á markaði sé drifkraftur samkeppni. Sé það mat Ríkisútvarpsins ohf. að þau sjónarmið sem fram komi í umsögn þess, eigi sér skýra stoð í úrskurði nefndarinnar í máli A-184/2004.
Í umsögn lögmanns kæranda er lýst hlutverki Ríkisútvarpsins ohf. samkvæmt lögum nr. 6/2007 og tekið fram að þær upplýsingar sem óskað sé eftir falli augljóslega innan þess hlutverks félagsins að veita útvarpsþjónustu í almannaþágu. Því sé mótmælt að ekki sé unnt að taka til greina kröfu um upplýsingar liggi þær ekki fyrir samanteknar. Beiðni kæranda falli undir ákvæði 2. mgr. 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga, þar sem fram komi að sá sem fari fram á aðgang að gögnum geti óskað eftir að fá að kynna sér upplýsingar um tiltekið mál án þess að tilgreina einstök gögn sem málið varði. Þá er vísað til þess að af ummælum í lögskýringargögnum leiði að skýra beri undantekningar frá lögunum þröngt. Til að mynda komi það fram í athugasemdum við 3. tölul. 6. gr. að markmið frumvarpsins sé m.a. að gefa almenningi og fjölmiðlum tækifæri á að fá vitneskju um það hvernig opinberum fjármunum sé varið. Óheftur réttur til upplýsinga geti hins vegar skaðað samkeppnis- og rekstrarstöðu opinberra stofnana og fyrirtækja þegar svo hátti til að hið opinbera keppi á markaði við einkaaðila, sem ekki séu skyldugir til að gefa upplýsingar um stöðu sína. Tekið er fram að síðastgreindar upplýsingar geti með engu móti átt við um þær upplýsingar sem óskað hafi verið eftir. Eingöngu hafi verið farið fram á upplýsingar um heildarkostnað Ríkisútvarpsins ohf. af tilteknum sjónvarpsþáttum en ekki sundurgreindar upplýsingar t.d. um einstaka þætti eða samninga um sýningarrétt. Samkvæmt þessu gildi því meginregla upplýsingalaga um heimild almennings og fjölmiðla til að fá upplýsingar um ráðstöfun opinberra fjármuna í þessu tilviki. Af hálfu lögmanns kæranda er áréttað að engu máli skipti hver það sé sem óski upplýsinga á grundvelli upplýsingalaga. Þá er því ennfremur mótmælt að umbeðnar upplýsingar geti skaðað rekstrar- eða samkeppnisstöðu félagsins, sbr. 5. gr. upplýsingalaga, þar sem ekki sé óskað upplýsinga um einstaka þætti samninga eða aðrar sundurgreindar upplýsingar. Verði krafa félagsins tekin til greina á þessum grundvelli sé erfitt að sjá í hvaða tilvikum upplýsingar í tengslum við ráðstöfun opinberra fjármuna verði veittar. Að því er varði tilvísun Ríkisútvarpsins ohf. til trúnaðarákvæða í samningum þá geti þær ekki hindrað aðgang að upplýsingum á grundvelli upplýsingalaga, sbr. úrskurði úrskurðarnefndar í málum A-133/2001 og A-232/2006. Í niðurlagi umsagnar lögmanns kæranda er áréttað að ekki hafi verið beðið um sundurgreindar upplýsingar um kostnað heldur eingöngu hve miklu Ríkisútvarpið ohf. hefði kostað til á ári vegna áðurnefndra dagskrárliða.
Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þeim röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

 

Niðurstaða

Ákvæði upplýsingalaga gilda um starfsemi Ríkisútvarpsins ohf., sbr. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 6/2007, um Ríkisútvarpið ohf.
Af ákvæðum 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga, sbr. 2. gr. laga nr. 161/2006, og 1. og 2. tölul. 2. mgr. 3. gr. leiðir að sá sem óskar eftir upplýsingum hjá stjórnvöldum getur afmarkað beiðni sína við tiltekin gögn er mál varða eða öll gögn um tiltekið mál án þess að tilgreina einstök gögn málsins. Synji stjórnvald um aðgang að gögnum samkvæmt framansögðu er heimilt að bera hana undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál, sbr. 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Kæruheimildin er bundin því skilyrði að ágreiningur sé uppi um annað tveggja: skyldu stjórnvalds til að veita aðgang að gögnum eða skyldu þess til að veita aðgang í formi ljósrits af skjölum eða afrits af öðrum gögnum. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga, sbr. 1. gr. laga nr. 161/2006, er stjórnvöldum ekki skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkari mæli en leiðir af 7. gr. laganna. Er þetta í samræmi við þá skýringu nefndarinnar á ákvæðinu, sbr. t.d. úrskurði nefndarinnar í málum nr. A-181/2004, A-239/2007 og A-243/2007, að réttur til upplýsinga taki einvörðungu til gagna sem fyrir liggi, þegar um þau sé beðið, en leggi ekki á stjórnvöld skyldu til að útbúa ný gögn sem ekki séu fyrirliggjandi þegar eftir þeim sé leitað.
Af hálfu Ríkisútvarpsins ohf. er á því byggt að kærandi hafi fyrst og fremst óskað upplýsinga um innkaupsverð umræddra sjónvarpsþátta, en að því leyti sem beiðni hans kunni að varða upplýsingar um rekstarkostnað tengdan sýningu efnisins feli slíkt í sér kröfu um að félagið taki saman upplýsingar úr ýmsum rekstrarkerfum og vinni þær. Er af hálfu félagins fullyrt að slíkar upplýsingar séu ekki fyrir hendi og að þær hafi ekki verið teknar saman í einu afmörkuðu skjali. Kærandi hefur í umsögn sinni áréttað að með beiðni sinni hafi eingöngu verið óskað upplýsinga um heildarkostnað Ríkisútvarpsins ohf. af tilteknum sjónvarpsþáttum, en ekki sundurgreindra upplýsinga um kostnað, t.d. um einstaka þætti eða um sýningarrétt. Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður við það að miða við afgreiðslu málsins að niðurstaðan ráðist af því hvort upplýsingar um framangreindan heildarkostnað sé að finna í tilteknu skjali eða skjölum tiltekins máls. Þegar það er virt hvernig kærandi hefur afmarkað beiðni sína og að ekkert er komið fram, sem leiðir líkur að því að draga megi í efa framangreindar fullyrðingar Ríkisútvarpsins ohf. um að þessar upplýsingar séu ekki fyrir hendi hjá félaginu í einstökum skjölum er óhjákvæmilegt annað en að staðfesta synjun félagsins. Af þessari niðurstöðu leiðir ennfremur að ekki kemur til athugunar úrskurðarnefndar hvort upplýsingaréttur kæranda sæti takmörkunum samkvæmt seinni málsl. 5. gr. og 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga.
Úrskurður þessi er því ekki til fyrirstöðu að kærandi afmarki erindi sitt með öðrum hætti en gert var og láti með því reyna á upplýsingarétt sinn.

 

Úrskurðarorð:

Staðfest er ákvörðun Ríkisútvarpsins ohf., frá 3. apríl 2007, um að synja kæranda, [...], um aðgang að gögnum, sem ekki er að finna í vörslu þess.


Páll Hreinsson
formaður

 

                                              Friðgeir Björnsson                                    Sigurveig Jónsdóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum